Þriðjudagur 05.01.2016 - 17:23 - Rita ummæli

Dæmigert áramótaheit – nema þetta er ókeypis.

Nú er sá tími ársins runninn upp þegar ég íhuga iðulega hvort ég eigi að gerast styrktaraðili einhverra góðra líkamsræktarstöðva. Nýtt ár, nýtt líf, og ný ég með hjálp spinning, tabata og yoga. Þar sé ég mig fyrir mér í nýjum flottum íþróttaskóm og -galla að takast á við enn eitt áramótaheitið. Oft nær það ekki lengra en svo að ég mæti í 4-5 skipti og svo eru það aðeins regluleg styrktarframlög til stöðvarinnar næstu mánuðina með sjálfvirkum færslum á kreditkortið.

Ég rek þessa andúð mína á líkamsrækt og hollri hreyfingu aftur í grunnskóla.  Leikfimi var sá hluti skólans sem ég þoldi ekki.  Þrisvar í viku átti ég skyndilega að geta hlaupið, hoppað yfir tréhesta og klifrað upp reipi, – allt eitthvað sem ég forðaðist eins og pestina í mínu daglega lífi sem hinn fullkomni bókaormur. Einkunnaspjaldið bar áhugaleysi mínu skýrt merki og oft bölvaði ég djöfullegu samsæri menntayfirvalda um að draga niður meðaleinkunn mína…

Þegar ég fór sjálf að ráða meira yfir mínum tíma gerði ég þó nokkrar tilraunir til að byrja að hreyfa mig af einhverju viti.  Mestur árangur minn á því sviði var að klára hálft maraþon, – rétt áður en tímatöku lauk, á þrjóskunni einni saman enda búin að tilkynna þátttöku mína opinberlega og komin með fullt af áheitum fyrir gott málefni.  Ég lagðist svo í rúmið í viku með þær verstu harðsperrur sem ég hef nokkurn timann upplifað og hef ekki hlaupið síðan.

Þessi hegðun er víst nokkuð algeng, þ.e.a.s. að gerast árlegur styrktaraðili líkamsræktarstöðva á grundvelli þeirrar tálsýnar að innra með okkur búið lítið bælt líkamsræktartröll. Svo algeng er hún að atferlisfræðingar hafa lagst í rannsóknir og skilgreiningar á henni.

Ekki nóg með það heldur er viðskiptalíkan margra stöðva skipulagt í kringum nákvæmlega þessa hegðun, ekki hvað síst hjá þeim sem rukka lægstu ársgjöldin.  Í grein á NPR er fjallað um bandaríska líkamsræktarkeðju sem heitir Planet Fitness.  Mánaðarlegt gjald hennar er um $10 til $20 og eru að jafnaði um 6.500 meðlimir á hverri stöð.  Hins vegar getur hver stöð aðeins tekið á móti um 300 manns hverju sinni, sem veldur engum vandræðum þar sem langflestir láta aðeins örsjaldan sjá sig.

Áramótaheitið í ár er því að spara peninginn og taka mínimalistann á þettaMarkmiðið er 18 mínútur af hreyfingu á dag og hún á ekki að kosta neinar krónur, einkunnir eða nýja íþróttaskó.

Aðalvopnið verður YouTube þar sem má finna snilldarsíður um líkamsrækt, sem kosta ekkert umfram nettenginguna.    Má þar nefna BeFIT með fjöldann allan af myndböndum meðal annars með Jillian Michaels, Denise Austin, Jane Fonda, Scott Herman, Kym Johnson og fleiri.

Einnig Blogilates með Cassy Ho.  Æfingarnar hennar er mjög fínar, sem og ráðleggingar um matarræði.  Best er þó myndbandið hennar um The „perfect“ body.

Og að lokum Yoga with Adriene sem er í sérstöku uppáhaldi hjá mér en hún er að byrja nýtt ár með Yoga Camp.

Hér má finna fleiri fína tengla.

Ég vonast til að þetta geti verið raunhæf leið til að ná árangri fyrir engan pening í stað þess að ná engum árangri fyrir fúlgur fjár 🙂

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og tveimur? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur