Þriðjudagur 21.02.2017 - 12:12 - Rita ummæli

Er staða ungs fólks verri nú en 1990?

Í Silfri Egils um síðustu helgi var staða ungs fólks rædd og skapaðist nokkur umræða eftir þáttinn. Eitt af mörgu áhugaverðu í þættinum var ábending Teits Björns Einarssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins um skýrslu fjármálaráðherra um svokallaða kynslóðareikninga, nánar tiltekið um þróun efnahagslegrar stöðu þess þjóðfélagshóps sem á hverjum tíma er á aldrinum 20-35 ára miðað við eldri kynslóðir undanfarna tvo til þrjá áratugi að beiðni þingmanna Samfylkingarinnar á síðasta þingi.

Skýrslan var unnin af Friðriki Má Baldurssyni og Axel Hall og er sannarlega allra athygli verð.

Helstu niðurstöður skýrslunnar voru:

  1. „Þegar litið er til annarra landa hefur ungt fólk almennt dregist aftur úr í tekjum síðustu áratugi, en eftirlaunaþegar hafa framur bætt stöðu sína.  Þróunin hér er svipuð.  Það ber að undirstrika að í þessum samanburði er ekki tekið tillit til breytinga á atvinnuþátttöku.  Það hefur töluverðar afleiðingar í sumum tilvikum, t.d. varðandi samanburð á tekjum kvenna yfir langt tímabil. Svipað gildir um yngri hópa þar sem mun fleiri stunda nám en áður.
  2. Þegar þróun aldurshópa undanfarna áratugi er skoðuð sést að framvindan er lík á Íslandi og Bretlandi að því leyti að yngsti hópurinn lækkar mest, um 24% á Íslandi og 33% á Bretlandi. En síða verður þróunin frekar ólík. Á Íslandi minnkar munurinn jafnt og þétt þar til hann snýst við þegar komið er að hópnum 35-39 ára.  Tekjur eldri hópa hækkuðu svo umfram meðaltalið í nokkrum stíganda sem náði hámarki fyrir 60-64 ára.  Á Bretlandi er þetta mynstur mun óreglulegra, en lífeyrisþegar hafa stórbætt stöðu sína.  Þessi ólíka þróun kann að stafa af því að lífeyriskerfin hafa þróast með ólíkum hætti í löndunum.
  3. Þegar íslensk gögn frá árunum 1990 og 2014 eru borin saman sést einnig að yngri hóparnir hafa lækkað hlutfallslega miðað við meðaltalið á undanförnum aldarfjórðungi, en þeir eldri hafa hækkað. Gögnin gefa til kynna lækkun aldurshópa milli 1990 og 2014 fram að 35 – 39 ára aldri, en hækkun eftir það. Hæstu tekjum nær fólk nú á aldrinum 45-49 ára, en ekki við 40-44 ára aldur eins og var árið 1990.
  4. Þegar þróun kaupmáttar ráðstöfunartekna einstakra aldurshópa er skoðuð yfir tímabilið 1990-2014 kemur í ljós að til ársins 1997 hreyfast ferlarnir nánast alveg í sama takti. Eftir það verður framvindubrot þar sem eldri hóparnir taka verulega fram úr þeim yngri og verður bilið sífellt meira fram að fjármálakreppunni. Það dregur verulega úr bili milli hópa eftir það, en þó með þeim hætti að elstu hóparnir halda sínu forskoti.
  5. Þróun tekna eftir kynjum er ólík. Árið 1990 fóru tekjur karla nálægt því að tvöfaldast frá 20-24 ára og 40-44 ára aldri; fóru úr um 90% af meðaltekjum í 170%. Tekjur kvenna hækkuðu mun minna með aldri, fóru úr 60% við 20-24 ára aldur í 85% þegar 40-44 ára aldri var náð.  Tekjur eftir aldri eru mun líkari hjá kynjunum nú.  Engu að síður eiga konur enn nokkuð í land með að ná körlum í ráðstöfunartekjum í nánast öllum aldurshópum.
  6. Vísbendingar eru um að ferill ævitekna einstaklinga sé að breytast í þá átt að fólk byrji almennt með lægri tekjur (hlutfallslega) en áður, en tekjurnar aukist síðan hraðar með aldri og hækkunin vari lengur. Fólk nær því hámarkstekjum við hærri aldur en áður var.
  7. Nánari greining þar sem bætt er við sambúðarformi og fjölskyldugerð staðfestir fyrri niðurstöður um áhrif aldurs og kyns, en sýnir einnig að barnlausir standa verr í samanburði við barnafólk. Ekki er mikill munur á þróun einhleypra og samskattaðra.
  8. Þegar litið er á upphaf og lok tímabilsins 1990-2014 þá bendir allt til þess að áhrif skatta- og bótakerfa hafi verið lítil og fremur í þá átt að bæta stöðu yngstu hópanna. Skýringa á lakari stöðu þeirra er því að öllum líkindum ekki að leita í þeim kerfum.
  9. Mikil fjölgun hefir orðið á þeim sem stunda háskólanám. Sú fjölgun tekur til allra yngstu aldurshópanna og aukningin er mun meiri meðal kvenna en karla. Samsvarandi breytingar hafa orðið á hlutfalli þeirra sem hafa lokið háskólanámi.
  10. Tekjur eru hærri hjá þeim sem eru með háskólamenntun en þeim sem hafa lokið skemmra námi. Hins vegar hefur þessi ávinningur minnkað verulega á þessum áratug sem gögn liggja fyrir um. Svo virðist sem sköpun nýrra starfa við hæfi háskólamenntaðra hafi ekki haldið í við fjölgun þeirra og tekjuávinningur menntunar því minnkað.  Í þessu felst áskorun fyrir íslenskt samfélag.  Þessi vandi er ekki einskorðaður við Ísland.
  11. Vísbendingar eru um eftirfarandi samspil háskólamenntunar og ráðstöfunartekna fólks á aldrinum 20-34 ára:

Yngsti hópurinn, 20-24 ára, er nú í mun meira mæli í háskólanámi en áður.  Það má skýra (hlutfallslega) lægri tekjur þessa hóps að töluverðu leyti út frá þessari þróun.

Þegar komið er í eldri hópana, 25-29 ára og 30-34 ára, þá dragast tekjurnar enn niður, miðað við það sem áður var, af hærra hlutfalli þeirra sem stunda nám, þótt í minna mæli sé en í yngsta hópnum.

Þetta skilar sér i verulegri (hlutfallslegri) lækkun ráðstöfunartekna 20-24 ára.  Hóparnir 25-29 ára og 30-34 ára lækka einnig, en lækkunin er stigminnkandi.

Ekki er hægt að fullyrða að þessi áhrif séu ráðandi í framvindu tekna, þótt þau séu til staðar.

  1. Það hvenær fólk ákveður að hefja sambúð ræðst að einhverju leyti af efnahagslegum og félagslegum þáttum – tekjum, aðgangi að húsnæði o.fl. – en líklegt er að ákvörðunin sem slík hafi einnig áhrif á tekjur. Meðal barnlausra einstaklinga, hafa þeir sem eru í sambúð hærri tekjur en þeir sem eru einhleypir, hvort sem það stafar af því að fólk hefur sambúð þegar það hefur efnahagslega stöðu til þess, eða það hefur sambúð og aflar síðan tekna sem til þarf til að reka heimili; það má geta sér þess til að hvort tveggja komi til.  Gögn gefa til kynna að meðalaldur fólks við stofnun sambúðar hafi hækkað um fimm ár frá 1990.
  2. Reynslan sýnir að sterk tengsl eru milli kaupmáttar ráðstöfunartekna og húsnæðisverðs. Ef einstakir hópar dragast aftur úr í kaupmætti getur það því leitt til þess að húsnæðiskaup verða þeim erfið. Gögn frá 2004 sýna að þung undiralda er í þá átt að hlutdeild eigin húsnæðis minnki hjá yngstu aldurshópum.  Hröðust var þróunin meðan fjármálakreppan reið yfir.  Lækkunin virðist stöðvast árið 2011 og einhver viðsnúningur hafa orðið síðustu ár.
  3. Fasteignaverð hefur tvöfaldast að raunvirði frá 1990, en raunvextir hafa lækkað um helming á saman tímabili. Þegar litið er til greiðslubyrði nýrra lána togast því á hækkun fasteignaverðs og lækkun raunvaxta. Þegar þessi þróun er sett í samhengi við kaupmátt yngstu hópa kemur í ljós að greiðslubyrði af dæmigerðu láni hefur ekki breyst mikið milli 1990 og 2014.  Sú staðreynd að fasteignaverð hefur hækkað verulega umfram ráðstöfunartekjur þessara aldurshópa bendir til að um þessar munir sé greiðslubyrði lána ekki aðalvandamálið fyrir ungt fólk heldur öllu fremur getan til að safna fyrir útborgun, sem reynist erfiðari hjalli að yfirstíga.
  4. Viðhorf og gildismat hefur á hverjum tíma áhrif á ákvarðanir fólks og ef slíkir undirliggjandi þættir breytast þá hefur það víðtækar afleiðingar. Efnahagsráð forseta Bandaríkjanna birti í árslok 2014 umfangsmikla skýrslu um aldamótakynslóðina þar sem teknir voru saman helstu þættir og sérkenni hennar (Council of Economic Advisers, 2014). Margt í þeirri skýrslu kemur heim og saman við það sem þessi skýrsla leiðir í ljós varðandi Ísland: Bandaríska aldamótakynslóðin hefur fjárfest meira í mannauði en fyrri kynslóðir; sú fjárfesting skilar tekjuávinningi, en hann hefur minnkað verulega og meira en hér á landi. Aldamótakynslóðin er ólíklegri til að búa í eigin húsnæði en fyrri kynslóðir á sama aldri, en líklegri til að búa í foreldrahúsum.  Þar hafa efnahagsaðstæður áhrif, en einnig nánari tengsl barna og foreldra en áður var.
  5. Í bandarísku skýrslunni kemur fram að aldamótaskynslóðin standi frammi fyrir margs konar áskorunum. Fyrir það fyrsta gefa rannsóknir til kynna að efnahagslegar aðstæður í æsku og á fyrstu fullorðinsárum marki feril einstaklinga til langs tíma og geti haft varanleg áhrif á laun, tekjur, sparnað, fjárfestingar og traust til stofnana samfélagsins. Þetta bendir til þess að efnahagskreppan mikla í Bandaríkjunum hafi haft neikvæð áhrif á þessa þætti þótt of snemmt sé að segja hversu mikil og varanleg áhrifin verði. Svipað kann að eiga við hér.“

Yngri fólk er lengur í foreldrahúsum, er lengur í námi, fer seinna á vinnumarkaðinn og eignast börn seinna.

Er þetta neikvætt?  Er þetta jákvætt? Hvað finnst ykkur?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og fjórum? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur