Þriðjudagur 18.04.2017 - 09:00 - 2 ummæli

Stafrænar myndir og sýslumaðurinn

Fyrir ekki löngu síðan átti ég tvö erindi til sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu.  Annars vegar að endurnýja vegabréf okkar hjónanna og hins vegar að sækja um ökuskírteini fyrir eldri dótturina.  Vakti það athygli mína hversu mikill munur var á umsóknarferlinu á þessum tveimur tegundum af skilríkjum.  Við móttöku umsókna okkar hjónanna um vegabréf var allt ferlið meira og minna rafrænt og var m.a. boðið upp á að tekin væri stafræn mynd af okkur á staðnum. Þegar ég kom stuttu seinna ásamt eldri dótturinni að sækja um ökuskírteini var hins vegar töluverður munur á, ekki hvað síst þar sem við þurftum að rjúka aftur út til að leita að ljósmyndasjálfsala þar sem krafa var gerð um að ljósmynd fylgdi umsækjanda á ljósmyndapappír.

Það var því ánægjulegt að fá skýrt svar frá Sigríði Á. Andersen, dómsmálaráðherra, þegar ég spurði hana af hverju þessi munur væri á útgáfu þessara tveggja skírteina og hvað hún ætlaði að gera til að einfalda og tæknivæða umsóknarferlið hjá sýslumönnum.

Helsta ástæðan var samkvæmt svari ráðherrans að reglugerð um útgáfu ökuskírteina hefði ekki fylgt tækniþróun undanfarinna ára líkt og ákvæði laga og reglugerða um vegabréf.  Fullt tilefni væri því til að endurskoða þetta verklag og heimila töku stafrænna mynda af umsækjendum um ökuskírteini á starfsstöðvum sýslumanna í góðu samráði við samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra en reglugerðin um ökuskírteini heyrir undir hann eftir að ráðuneytinu var skipt upp.

Kannski ekki stórmál, en breytingin myndi sannarlega spara ungmennum og öðrum þeim sem þurfa að sækja um ökuskírteini sporin og gera allt umsóknarferlið um þennan mikilvæga áfanga einfaldara og skilvirkara.

Svona meira í anda 2000 kynslóðarinnar 🙂

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

  • Þorsteinn Úlfar Björnsson

    Lenti í því sama hjá Arion banka. Senda eða koma með á USB lykli mynd í réttri stærð og upplausn? The computer says no, I’m afraid.

  • Það væri óskandi að fleira yrði gert nútímalegra hjá sýslumanni. Sonur minn beið í 9 mánuði eftir sáttarvottorði frá sýslumannsembættinu á Vestfjörðum því ekki mátti nota tæknina. Barnsmóðir hans býr á afskekktum stað og embættið heimsækir staðinn annan hvorn mánuð, ef veðrið býður upp á það. Held að lagasetning þar sem myndsamtöl, rafrænir pappírar og annað sem viðkemur embættunum verði leyfð sé löngu tímabær. Sé það mögulegt samkvæmt lögum í dag þá þurfa embættin að tileinka sér tæknina.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og sex? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur