Föstudagur 01.12.2017 - 11:38 - Rita ummæli

Hugum að fátækum börnum

Það styttist til jóla. Ný ríkisstjórn hefur tekið við og eftir nokkra daga mun Alþingi hefja vinnu við fjárlög ársins 2018.  Fjölmargir munu stíga fram og setja fram kröfur sem misjafnlega erfitt verður að mæta.

Stjórnmálamenn bregðast við áreiti. En því miður eru það ekki alltaf þeir sem hæst hafa sem standa mest höllum fæti í samfélaginu.  Það á sannarlega við um fátæk börn.

Það er því jákvætt að í nýjum stjórnarsáttmálanum segir skýrt að Ísland á að vera land tækifæranna fyrir alla. Í þeim tilgangi á að styrkja stöðu þeirra sem búa við fátækt og félagslega einangrun.  Gera á úttekt á kjörum tekjulægstu hópanna í íslensku samfélagi, tillögur til úrbóta settar fram og þeim fylgt eftir.  Sérstaklega þarf að huga að stöðu barna sem búa við fátækt en þau eru einn af viðkvæmustu hópum samfélagsins.

Þessi vinna ætti ekki að taka langan tíma þar sem hún er þegar hafin.  Velferðarvaktin hefur látið vinna úttekt á stöðu þeirra sem búa við sárafátækt í samstarfi við Hagstofuna og samdi nýlega við Eddu öndvegissetur um rannsókn á lífskjörum og fátækt barna í á Íslandi.  Áætlað er að niðurstöðurnar muni liggja fyrir í ágúst 2018.

Á meðan beðið er eftir niðurstöðum úttektarinnar er hægt að fylgja áfram eftir þeim tillögum sem þegar liggja fyrir frá Velferðarvaktinni m.a. um að í öllum grunnskólum landsins verði námsgögn gjaldfrjáls, fjárveitingar til byggingu Leiguheimila í nýja félagslega leiguíbúðakerfinu verði auknar, stuðningur við tekjulága foreldra verði jafnaður og aukinn með samræmingu barnabóta og barnalífeyris og að samræmdar reglur verði settar um lágmarksframfærslu sem er fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna strax í fjárlögum ársins 2018.

Látum árið 2018 verða árið þar sem við segjum að við ætlum ekki að sætta okkur við að á Íslandi, eitt Norðurlandanna, búa fleiri börn við fátækt en fullorðnir.

 

.   

Flokkar: Menntun

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og einum? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur