Sunnudagur 04.03.2018 - 13:52 - Rita ummæli

Hvað á námið að kosta?

Um helgina var Háskóladagurinn haldinn hátíðlega.  Þar kynntu innlendir háskólar framboð sitt fyrir áhugasömum framtíðarnemendum.  Stórar ákvarðanir bíða þeirra, ekki aðeins hvað eigi að læra og hvar, heldur einnig hvað námið á að kosta.

Í ársskýrslu Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) fyrir árin 2015-2016 kom fram að meðalupphæð námslána þeirra sem hefðu hafið greiðslur af lánum væri á bilinu 4-4,5 milljónir kr.  Meðallán námsmanna sem voru enn í námi voru 3,3 m.kr. á Íslandi en erlendis rúmlega 6,3 milljónir kr.

Kostnaður við nám getur þannig ekki bara falist í framfærslu heldur einnig skólagjöldum.  Mikill munur getur verið á milli landa og einstakra skóla í kostnaði vegna skólagjalda.

Hæstu skólagjaldalánin eru tekin vegna náms við skóla í Bandaríkjunum og Bretlandi.  Víða í heiminum er hægt að stunda nám af miklum gæðum og greiða lág eða engin skólagjöld.  Má þar nefna Norðurlöndin,  Þýskaland, Frakkland, Austurríki, Belgíu, Holland, Tékkland, Grikkland, Ítalíu og Spán.  Þá má einnig finna hagkvæmt nám víðar um heim í löndum á borð við Argentínu, Indland eða Taiwan.

Hér má sjá yfirlit yfir bestu háskólana í Evrópu skv. mælingu THE World University Ranking.

Árið 2011 birti Ríkisendurskoðun skýrsluna Lánasjóður íslenskra námsmanna: Lánshæfi náms og þróun útlána.  Ein af tillögum Ríkisendurskoðunar í skýrslunni  var að lánþegar myndu gera áætlun um fyrirhugaða lántöku námslána fyrir nám sitt og á þeim grundvelli gæti LÍN reiknað út fyrir umsækjendur líklegan heildarkostnað lánsins, endurgreiðslutíma m.v. tiltekin laun og verðbólgu og mánaðargreiðslur eftir að námi lýkur og sent námsmönnum til staðfestingar og upplýsingar.  Þessar upplýsingar gætu komið fram samhliða umsókn um námslán á vefsvæði lántaka hjá LÍN.  Þar mætti líka kom fram hvar mætti fá nánari upplýsingar um námslán og ráðgjöf um fjármál.

Einnig væri spennandi ef hægt væri að reikna út skulda- og tekjuhlutfall einstakra námsgreina, sbr. útreikninga SoFi um MBA nám í Bandaríkjunum til að upplýsa námsmenn betur um val sitt til framtíðar.  Þannig eru nemendur með MBA gráðu frá Columbia háskóla í NY  með hæstu launin eftir útskrift en nemendur frá Brigham Young háskólanum í Utah með besta hlutfallið á milli launa og námsskulda.

Hér má sjá núverandi reiknivél á vef LÍN um væntar afborganir af námslánum.

 

Flokkar: Menntun

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og sjö? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur