Sunnudagur 9.2.2014 - 20:03 - 8 ummæli

Óvönduð vinna RÚV

RÚV fjallaði um breytingar á lögum um almannatryggingar í kvöldfréttum.  Þar var birt sérstaklega mynd af einni grein laganna er varðar sjúkraskrár sem dæmi um hertar eftirlitsheimildir.

Þetta er eilítið vandræðalegt fyrir fréttastofuna.

Ef fréttamaður RÚV hefði unnið heimavinnuna sína, leitað frumheimilda en ekki treyst á einstaka bloggara úti í bæ hefði hún tekið eftir að þessi grein er nánast samhljóða grein nr. 52 í eldri lögum. Þessi grein er því ekki ný, heldur hefur verið í gildi nær óbreytt frá árinu 2001 .

52. gr. í eldri lögum er svohljóðandi:

„Þeim heilbrigðisstarfsmönnum sem ábyrgð bera á vörslu sjúkraskráa er skylt að veita læknum, eða eftir atvikum [hlutaðeigandi heilbrigðisstarfsmönnum],1) Tryggingastofnunar ríkisins [eða eftir atvikum sjúkratryggingastofnunarinnar]1) þær upplýsingar sem stofnuninni eru nauðsynlegar vegna ákvörðunar um greiðslu bóta eða endurgreiðslu reikninga og vegna eftirlitshlutverks stofnunarinnar. Þá er læknum Tryggingastofnunar [eða eftir atvikum sjúkratryggingastofnunarinnar],1) eða [hlutaðeigandi heilbrigðisstarfsmönnum]1) þegar það á við, heimilt að skoða þann hluta sjúkraskrár sem reikningsgerð á hendur stofnuninni er byggð á. Skoðun skal fara fram á þeim stað þar sem sjúkraskrá er varðveitt. Við meðferð persónuupplýsinga sem aflað er með þessum hætti skal þess gætt að uppfyllt séu skilyrði laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og jafnframt gætt ákvæða laga um [sjúkraskrár]2) eftir því sem við á.“

2. gr. j í nýju lögunum (sem varð gr. 42) er svohljóðandi:

„Upplýsingaskylda heilbrigðisstarfsmanna.

Þeim heilbrigðisstarfsmönnum sem bera ábyrgð á vörslu sjúkraskráa, sbr. lög um sjúkraskrár, er skylt að veita læknum og heilbrigðisstarfsmönnum Tryggingastofnunar þær upplýsingar og gögn sem stofnuninni eru nauðsynleg vegna ákvörðunar um greiðslu bóta og vegna eftirlitshlutverks hennar. Þá er læknum og heilbrigðisstarfsmönnum Tryggingastofnunar heimilt að skoða þann hluta sjúkraskrár sem nauðsynlegt er vegna eftirlits og reikningsgerð á hendur stofnuninni er byggð á. Skoðun skal fara fram á þeim stað þar sem sjúkraskrá er varðveitt.“

Ástæða þess að hún var í frumvarpinu var fyrst og fremst lagatiltekt og til að tryggja betra samræmi í lögunum varðandi þá þætti sem snúa að eftirlitsheimildum stofnunarinnar.

Ákvæði í gömlu greininni um persónuvernd er fært inn í nýja grein um vernd persónuupplýsinga, þagnarskyldu og meðferð persónuupplýsinga til að tryggja betri meðferð viðkvæmra persónuupplýsinga hjá TR, sem ég tel til bóta frá eldri lögum sbr.:

„Vernd persónuupplýsinga.

Þagnarskylda og meðferð persónuupplýsinga.

Starfsfólki Tryggingastofnunar og umboðsskrifstofa hennar er óheimilt að viðlagðri ábyrgð eftir ákvæðum almennra hegningarlaga um brot í opinberu starfi að skýra frá upplýsingum sem það fær vitneskju um í starfi sínu og leynt eiga að fara. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi.
Þagnarskyldan gildir einnig um stjórn Tryggingastofnunar og þá sem sinna verkefnum fyrir stofnunina en eru ekki starfsmenn hennar.
Við meðferð persónuupplýsinga sem aflað er skal Tryggingastofnun gæta þess að uppfyllt séu skilyrði laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Stofnunin skal tryggja að fyllsta öryggis sé gætt við sendingu og meðferð upplýsinga og setja skal öryggisstefnu, framkvæma áhættumat og gera aðrar öryggisráðstafanir til samræmis við lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og reglur sem settar hafa verið á grundvelli þeirra. Þá skal stofnunin jafnframt gæta ákvæða laga um sjúkraskrár eftir því sem við á.
Upplýsingar sem aflað er vegna eftirlits á grundvelli ákvæða þessa kafla skal ekki varðveita lengur en nauðsynlegt er og skal þeim eytt að lokinni tímabundinni vinnslu í þágu eftirlits.“

Það er sérkennilegt að þessi umræða komi upp fyrst núna þegar þetta ákvæði hefur verið í gildi í 13 ár.

En kannski las bara enginn gömlu lögin?

(Athuga: RÚV birti aðra frétt um breytingarnar á lögunum til skýringar kvöldið eftir.  Ég fjallaði jafnframt um lögin og fleira í Kastljósviðtali sama kvöld.  )

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 7.2.2014 - 10:58 - 4 ummæli

Auknar eftirlitsheimildir TR

Í frétt hjá RÚV er fjallað um að þingmenn kvarti undan að fá ekki nægan tíma til að vinna þingmál.  Þar er nefnt sérstaklega lög um auknar eftirlitsheimildir til handa Tryggingastofnunar til að tryggja réttar greiðslur og koma í veg fyrir bótasvik.

Oft má gagnrýna hraða málsmeðferð í þinginu, ekki hvað síst rétt fyrir jóla- og sumarfrí. Ég tel þó að þetta eigi ekki við um lögin um auknar eftirlitsheimildir.

Frumvarp um auknar eftirlitsheimildir kom fyrst fram á sumarþingi 2013 í framhaldi af skýrslu Ríkisendurskoðunar um eftirlit Tryggingastofnunar með greiðslum úr almannatryggingakerfinu.  Velferðarnefnd fjallaði um frumvarpið á fimm fundum nefndarinnar og lagði til að þetta ákvæði yrði ekki afgreitt á sumarþingi. Það var aftur lagt fram á haustþingi 1. nóvember 2013 þar sem tekið hafði verið tillit til athugasemda umsagnaraðila og nefndarálits velferðarnefndar.   Fjallað var um málið á átta fundum velferðarnefndar fyrir 2. umræðu.  Frumvarpið fór svo í 2. umræðu 15. janúar 2014 og var afgreitt sem lög frá Alþingi 21. janúar sl.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kom fram að ætla mætti að bótasvik í almannatryggingakerfinu hafi numið 3,4 milljörðum kr. árið 2011.  Til að setja þessa upphæði í samhengi þá hefðu 3,4 ma.kr. dugað til að fjármagna rekstur Menntaskólans í Reykjavík (574 m.kr.), Menntaskólans á Akureyri (563 m.kr.), Menntaskólans á Laugarvatni (183 m.kr.), Menntaskólans í Hamrahlíð (854 m.kr.), Menntaskólans við Sund (510 m.kr.), Menntaskólans á Ísafirði (287 m.kr.) og Menntaskólans á Egilsstöðum (321 m.kr.) í heilt ár og vel það.

Eða staðið undir öllum útgjöldum ríkissjóðs vegna sérstakrar uppbótar lífeyrisþega (2.7 ma.kr.) plús mæðra- og feðralauna (349 m.kr.), makabóta og umönnunarbóta (130 m.kr.), dánarbóta  (68,4 m.kr.) og barnalífeyris vegna menntunar (166 m.kr.) samkvæmt lögum um félagslega aðstoð á þessu ári.

Þeir fjármunir sem greiddir eru úr sameiginlegum sjóðum okkar eiga að fara til þeirra sem eiga rétt á þeim.  Bótasvik eru einfaldlega þjófnaður og skaðar okkur öll.

Því tel ég að þingmenn sem studdu lagabreytinguna geti verið bæði stoltir af sinni vönduðu vinnu og stuðningi sínum við málið.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 22.1.2014 - 12:06 - 2 ummæli

Haraldur og fullt jafnrétti

Það er ekki oft sem maður heyrir ungan karlmann tala um að jafnréttismál séu honum hugleikin en það gerði Haraldur Einarsson, félagi minn, svo eftir var tekið í störfum þingsins í gær.

Í ræðu sinni fjallaði hann sérstaklega um rétt til forræðis barna.  Í barnalögum hafa stór skref verið tekin í að gera sameiginlega forsjá að almennri reglu þegar fólk slítur samvistum eða hjúskap.  Nýjasta breytingin var að gefa dómara heimild til að dæma sameiginlega forsjá.  Samhliða var skerpt á hugtakinu lögheimilisforsjá.

Hins vegar gildir þetta ekki fyrir börn sem fæðast utan hjúskapar eða skráðrar sambúðar. Þar fær móðirin sjálfkrafa fullt forræði.  Foreldrum er hins vegar heimilt að semja um sameiginlega forsjá.

Í ræðu sinni sagði Haraldur: „Eðlilegra og réttara væri að snúa þessu við og reglan væri að forsjá barns væri sameiginleg óháð hjúskaparstöðu en svo væri hægt að semja um annað.  Slíkt væri í anda þeirra lagabreytinga sem átt hafa sér stað á undanförnum missirum í tengslum við þá meginreglu að við skilnað eða sambúðarslit foreldra sé forræðið sameiginlegt… Ég tel að þetta sé hrópandi tímaskekkja sem við siðmenntuð þjóð og fulltrúar þjóðarinnar þurfum að betrumbæta með hagsmuni barna að leiðarljósi.  Þegar barn kemur í heiminn ættu að sjálfsögðu báðir foreldrar að hafa jafnan rétt og jafnt forræði yfir barninu.  Það hlýtur að vera markmiðið að barnið hafi jafnan rétt að báðum foreldrum sínum, jafnan rétt til að fá uppeldi frá mömmu og pabba.  Í mínum huga á forgangurinn að vera réttur barnsins.“

Undir þetta get ég tekið og vonast til að enn fleiri  karlar fari að beita sér fyrir jafnrétti á öllum sviðum samfélagsins.

Aðeins þannig náum við markmiði  um fullt jafnrétti.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 2.12.2013 - 11:55 - 7 ummæli

Skuldaleiðrétting

Tillögur til leiðréttingar á skuldum heimilanna hafa verið kynntar. Mikill fjöldi fólks hefur haft samband og óskað eftir nánari upplýsingum um útfærslu og aðferðafræði tillagnanna.  Ég vil því benda á vef forsætisráðuneytisins en þar má finna mikið magn upplýsinga um skuldaleiðréttinguna.

Þar má fyrst nefna skýrslu sérfræðingahópsins en hún er einkar greinargott plagg.

Þar má líka finna kynninguna frá því á fréttamannafundinum í Hörpu og síðast en ekki síst svör við ýmsum spurningum.

Plús skýrslu um mat á þjóðhagslegum áhrifum.

Flest svör við spurningum sem lesendur kunna að hafa má finna í þessum skjölum, þannig endilega lesa.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 18.11.2013 - 16:44 - 9 ummæli

Tekið á skuldavandanum

Heimilin eru undirstaðan og þau eru drifkraftur samfélagsins.  Á þeim byggist allt annað, án þeirra verður enginn vöxtur og engin velferð.

Það er ástæða þess að svo skýrt er tilgreint í stjórnarsáttmálanum hvernig stjórnarflokkarnir hyggjast taka markvisst á skuldavanda íslenskra heimila.  Þar er grunnviðmiðið að ná fram leiðréttingu vegna verðbólguskots áranna 2007 til 2010.  Þar talar ríkisstjórnin um að beita megi bæði skattalegum aðgerðum og beinni niðurfærslu höfuðstóls, í samræmi við áherslur beggja stjórnarflokka.

Við erum líka sammála um að þetta eigi að vera almenn aðgerð óháð því hvenær fólk tók lán til að kaupa heimili sín, að lykilatriðið sé jafnræði.  En það verður að vera hægt að beita fjárhæðartakmörkunum vegna hæstu lána sem og setja önnur skilyrði til að tryggja jafnræði í framkvæmd og skilvirkni úrræða.  Og að halda þeim möguleika opnum að stofna sérstakan leiðréttingarsjóð til að ná þeim markmiðum að taka á skuldvanda íslenskra heimila.

Þetta er ramminn sem verið er að vinna innan og sér brátt fyrir endann á.

Við erum líka sammála um að þeir sem ollu hruninu, ollu forsendubrestinum, hinir föllnu bankar, eigi að greiða fyrir leiðréttinguna.  Það er sanngjarnt og það er réttlátt.

Þessar áherslur er fyllilega í samræmi við áherslur beggja stjórnarflokka frá landsfundum og flokksþingi og í kosningabaráttunni.

Sjálfstæðismenn töluðu um að taka á skuldvanda heimilanna þannig að ná mætti 20% lægri höfuðstól meðalíbúðaláns á næstu árum með skattaafslætti og skattfrjálsum séreignarsparnaði.  Framsóknarmenn töluðu um leiðréttingu á forsendubrestinum og á almenna höfuðstólslækkun til að leiðrétta verðtryggð húsnæðislán.  Við nefndum líka skattalegar aðgerðir til að lækka höfuðstól lána.  Því til viðbótar vildu Sjálfstæðismenn hvetja til húsnæðissparnaðar og breyta lögum um stimpilgjald en frumvarp þess efnis er þegar komið fram.

Því til viðbótar lögðu báðir flokkar áherslu á að taka húsnæðiskerfið til gagngerrar endurskoðunar, meðal annars að lögum yrði breytt þannig að lántaki gæti afsalað sér heimili sínu til lánveitanda án þess að það leiddi til gjaldþrots.  Sú vinna er þegar hafin með skipan verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála og samvinnuhóp um mótun húsnæðisstefnu til framtíðar.

Þannig stendur þessi ríkisstjórn með heimilunum.  Þannig ver þessi ríkisstjórn íslensk heimili.

Á grunni ályktana landsfunda og flokksþinga, á grunni stjórnarsáttmálans og á grunni ákvarðana Alþingis.

Því heimilin eru undirstaðan.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 14.11.2013 - 06:49 - 6 ummæli

Tillögur hagræðingarhópsins

Tillögur hagræðingarhópsins voru kynntar nú í vikunni.  Þær tillögur sem snúa að mínum málaflokkum eru eftirfarandi:

————

  • Fæðingarorlofssjóður hjá Vinnumálastofnun, Innheimtustofnun sveitarfélaga og meginhluti starfsemi Tryggingastofnunar ríkisins sameinist í eina greiðslustofu.*
  • Skoðaðir verði möguleikar á breyttri fjármögnun ríkisins þannig að sveitarfélögum sem leggja áherslu á að veita góða heimaþjónustu verði umbunað, t.d. með því að gera heildstæða samninga um greiðslur á grunni fjölda og aldursdreifingar aldraðra.
  • Greiðsluþátttaka íbúa hjúkrunarheimila verði endurskoðuð þannig að íbúar fái greiddan lífeyri eftir almennum reglum en greiði þess í stað kostnað við húsnæði, fæði og almennt heimilishald. Jafnframt verði tekinn upp sérstakur húsnæðisstuðningur fyrir íbúa með takmarkaða greiðslugetu.*
  • Aðstoð við þá sem eru óvirkir á vinnumarkaði vegna atvinnuleysis og örorku verði endurskoðuð til þess að gera hana skilvirkari:

a. Fyrirkomulag starfsendurhæfingar verði endurmetið með það að markmiði að sama þjónusta standi öllum til boða, óháð því hvort þeir eru á vinnumarkaði eða ekki. Samhæft verði verklag aðila sem tekur á langvarandi fjarvistum fólks úr vinnu. Atvinnurekendur auki sveigjanleika og ábyrgð gagnvart starfsfólki sem hætt er við að hverfi af vinnumarkaði.

b. Bóta- og skattkerfi verði byggð upp með þeim hætti að það borgi sig að vera á vinnumarkaði. Möguleikar á endurkomu í bótakerfi verði tryggðir, reyni einstaklingur fyrir sér á vinnumarkaði. Stuðningur við börn öryrkja innan örorkukerfisins verði hluti almenns stuðnings við börn alls lágtekjufólks þannig að til verði almennt fjölskyldutryggingakerfi.

c. Tekið verði upp starfshæfnimat í stað örorkumats og fyrirkomulag bótagreiðslna endurmetið.*

d. Reglur fjárhagsaðstoðar sveitarfélaga verði gerðar skýrari m.t.t. lágmarksgreiðslna, makatenginga og skilyrði um virkni þeirra sem þiggja fjárhagsaðstoð.*

e. Lengd greiðslutímabils atvinnuleysisbóta verði stytt með hliðsjón af reynslu nágrannalanda, einkum Svíþjóðar.

  • Hætt verði við fyrirætlanir um lengingu fæðingarorlofs.*
  • Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, Heyrnar- og talmeinastöð, Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskertra og daufblinda einstaklinga verði sameinaðar.*
  • Sameinuð verði verkefni á sviði tæknilegs eftirlits, þ.e. verkefni sem nú er sinnt af Vinnueftirliti ríkisins, Mannvirkjastofnun og hugsanlega einnig Geislavörnum ríkisins (umrædd verkefni heyra einnig undir heilbrigðisráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra).
  • Sá hluti starfsemi Tryggingastofnunar sem lýtur að endurhæfingu og örorkumati, önnur starfsemi Vinnumálastofnunar en Fæðingarorlofssjóður og hluti af starfsemi Vinnueftirlits ríkisins verði sameinuð í eina vinnumálastofnun.*
  • Tekið verði upp húsnæðislánakerfi án ríkisábyrgðar og fjárhagslegur stuðningur ríkisins byggi einkum á félags- og byggðalegum sjónarmiðum. Settur verði skýr lagarammi um húsnæðislán sem stuðli að virkri samkeppni, aðgengi að lánum og fjármálastöðugleika.

————-

Tillögur sem snerta fleiri ráðherra:

  • Komið verði á fót stofnun borgaralegra réttinda með sameiningu Fjölmenningarseturs, Jafnréttisstofu, réttindagæslu fatlaðs fólks, Persónuverndarog umboðsmanns barna. Jafnframt verði skoðað hvort úrskurðanefnd um upplýsingamál ætti að vera hluti þessarar stofnunar (umrædd verkefni heyra einnig undir félags- og húsnæðismálaráðherra og forsætisráðherra).
  • Komið verði á fót stofnun neytendaverndar með sameiningu talsmanns neytenda, Neytendastofu, neytendaverndar FME og verkefnum frá umboðsmanni skuldara (umrædd verkefni heyra einnig undir fjármála- og efnahagsráðherra og félags- og húsnæðismálaráðherra).

Mér finnst þessar tillögur athyglisverðar og veit að mikil vinna liggur þar á baki, hjá hagræðingarhópnum og í ráðuneytunum á undanförnum árum.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 13.11.2013 - 16:34 - 2 ummæli

Norræn forysta

Í síðustu viku fór fram umræða á Alþingi um formennskuáætlun Íslendinga í Norrænu ráðherranefndinni 2014. Norðurlöndin skipta með sér formennskunni árlega og á næsta ári er það komið í hlut Íslendinga  að veita samstarfinu forystu.

Ísland mun leggja sérstaka áherslu á þrjú verkefni. Í fyrsta lagi að náttúruauðlindir í norðri þurfi að nýta á sjálfbæran hátt án sóunar og að grunnur að grænum hagvexti til framtíðar er að börn og ungmenni alist upp í þeim anda. Lögð verður áhersla á að vinna verkefni á sviði orku-, umhverfis- og lofslagsmála í þessu sambandi. Í öðru lagi að vinna að norrænni velferðarvakt í anda Íslensku velferðarvaktarinnar, sem komið var á í kjölfar efnahagshrunsins á Íslandi. Rannsakaðar verði afleiðingar kreppa í norrænum ríkjum og viðbrögð við þeim. Á grunni niðurstaðna verði  þróaðir s.k. velferðarvísar, sem munu nýtast við að verja og viðhalda velferðarþjónustu norrænu ríkjanna. Í þriðja lagi verður lögð áhersla á að þróa sérstakan norrænan spilunarlista í þeim tilgangi að koma norrænni tónlist á framfæri á alþjóðavettvangi.

Auk ofangreindra verkefna mun Ísland halda utan um allt annað hefðbundið norrænt samstarf á vettvangi ráðherraráðsins á næsta ári. Norrænt samstarf er gamalt og gott, um það þarf ekki að deila. Fyrir fámenna þjóð, eins og okkar, er ómetanlegt að hafa aðgang að samstarfi fjölmennari þjóða á jafnræðisgrundvelli.

Íslendingar eru um 1% Norðurlandabúa og greiða tæpt 1% af fjárlögum norræna samstarfsins. Þær krónur fáum við margfalt til baka. Þær nýtast við að efla innviði okkar, í aðgangi að fagþekkingu, eflingu menntunar- og menningar, útdeilingu margskonar styrkja, og í að verja hagsmuni okkar í víðtæku samhengi svo eitthvað sé nefnt.

Varast ber að taka norrænu samstarfi sem gefnum hlut. Að því þarf að hlúa.

Okkur er því hollt að velta fyrir okkur svarinu við spurningunni; Hvernig væri íslenskt samfélag ef við hefðum aldrei notið norræns samstarfs, betra eða verra? Svarið er augljóst. Umræðurnar á Alþingi um norrænt samstarf komandi árs einkenndust af samstöðu.

Slík samstaða er þakkarverð og hvatning til öflugrar forystu.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 25.10.2013 - 10:00 - 10 ummæli

Helgi og kröfuhafar

Í nýlegri fyrirspurn til fjármálaráðherra spurði Helgi Hjörvar hvort skuldaleiðrétting verðtryggðra húsnæðislána ætti að vera hluti af samningum við erlenda kröfuhafa um afnám gjaldeyrishaftanna.

Þessi fyrirspurn hefur angrað mig nokkuð síðustu daga.

Ekki þó vegna áhuga Helga á skuldaleiðréttingunni.  Ég er sannfærð um að hann hefur raunverulegan áhuga á skuldamálum heimilanna, ólíkt ýmsum öðrum í hópi fyrrverandi stjórnarliða. Nei, heldur því að hann skuli gefa sér að erlendir fjármagnseigendur hafi eitthvað með ákvarðanir íslenskra stjórnvalda að gera.

Við erum ekki í neinum samningum við þá um uppgjör þrotabúanna.  Líkt og Seðlabankinn, fjármálaráðherra og forsætisráðherra hafa sagt er hlutverk slitastjórna hinna föllnu banka að koma með tillögur að nauðasamningum sem ógna ekki fjármálalegum stöðugleika landsins.

Sem ógna ekki fjárhagslegu sjálfstæði Íslands.

Slitastjórnirnar eiga að vinna sitt starf, að ljúka uppgjöri gömlu bankanna með einum eða öðrum hætti.

Ríkisstjórn Íslands mun vinna sitt starf, – að stjórna landinu.
Kannski er þetta ný hugsun fyrir suma, en hún fellur mér mun betur en að sitja og standa eins og kröfuhafar vilja.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 24.10.2013 - 12:26 - 4 ummæli

Fæðingarorlof og feður

Þegar lögin um fæðingarorlof voru sett árið 2000 voru þau byltingarkennd. Þau eru það enn í dag á heimsvísu.

Markmið þeirra er að börnin okkar njóti samvistar við við báða foreldra og stuðli þannig að jafnrétti á vinnumarkaði.  Við 1. umræðu um lögin á Alþingi sagði þv. félagsmálaráðherra Páll Pétursson: „Forsenda þess að karlar og konur geti tekið jafnan þátt í launavinnu sem og öðrum störfum utan heimilis er að þau skipti með sér umönnun barna sinna. Reynslan hefur enn fremur verið sú að margir feður hafa farið á mis við samvistir við börn sín. Í könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands frá árinu 1995 kom fram að velflestir karlkyns þátttakenda töldu að almennur áhugi ríkti meðal karla á að samræma atvinnuþátttöku og uppeldi barna. Af þessum ástæðum hafa komið fram auknar kröfur um að móður og föður verði sköpuð sömu tækifæri til að sinna bæði fjölskyldu og starfi utan heimilis. Einn af þeim þáttum sem stuðla að samspili fjölskyldu- og atvinnulífs er sá að konur og karlar eigi jafnan rétt til fæðingarorlofs og auk þess að eiga kost á sérstöku foreldraorlofi frá vinnu til að vera með börnum sínum. Það var stefnt að því markmiði við gerð þessa frv. og jafnframt verið að tryggja börnum samvistir við báða foreldra.“

Í niðurstöðum rannsókna sem kynnt voru á fundi Jafnréttissjóðs í dag kom í ljós að lögin um fæðingarorlof hafa einmitt gert þetta.  Þau hafa stuðlað að því að foreldrar skipta í meira mæli með sér umönnun barna sinna. Þau hafa raunverulega breytt viðhorfum og hegðun foreldra og þar með samfélaginu.

En blikur eru á lofti.  Með þeim skerðingum sem farið var í á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði vegna erfiðrar stöðu ríkissjóðs hafa feður tekið fæðingarorlof í minna mæli og þegar þeir taka fæðingarorlof nýta þeir fyrst og fremst sinn eigin rétt en lítið sameiginlegan rétt foreldra.

Ég vil sjá áfram þá þróun hér á landi að þegar barn veikist á leikskóla eða í skóla er það jafn líklegt til að biðja um að hringt sé í pabba og mömmu.  Það grundvallast á þeim nánu tengslum sem myndast á þeim tíma sem foreldrar eru í fæðingarorlofi.  Ég vil að stjórnendur fyrirtækja á Íslandi taka fæðingarorlof alveg eins og þeir sem eru með lægstu tekjurnar og starfa í sama fyrirtæki.  Ég vil sjá samfélag þar sem það þykir jafn eðlilegt að ráðherra sé heima með veikt barn og makinn og þar sem ungir karlar telja eitt af gildum karlmennskunnar er að vera umhyggjusamur faðir.

Að þessu hafa fæðingarorlofslögin okkar stuðlað.  Við þurfum því að endurreisa kerfið, taka til baka skerðingarnar og tryggja áfram markmið laganna.

Um að börn njóti samvistar við báða foreldra og geri konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 23.10.2013 - 09:42 - 13 ummæli

Bingó hvað?

Nokkur umfjöllun hefur verið um svokallaða Bingó áætlun um uppgjör þrotabúanna.  Reynt hefur verið að heimfæra áætlunina upp á Seðlabanka Íslands.

Þar kemur enn á ný fram talan 75% afsláttur af krónueignum.  Hver skyldi hafa svona mikinn áhuga á að koma þessari tölu ítrekað að í gegnum fjölmiðla?

Það skyldu ekki vera þeir sömu og  sögðu ekkert mál að borga Icesave, ekkert mál að borga skuldabréfið hjá Landsbankanum og ekkert mál að greiða út úr þrotabúunum?

Svo ég vitni í Hörð Ægisson hjá MBL aftur: „ Íslensk stjórnvöld fá aðeins eitt tækifæri til að sjá til þess að uppgjör föllnu bankanna fari fram á þann hátt að tryggt sé að fjármálastöðugleika verði ekki ógnað – og um leið að ekki verði grafið smám saman undan lífskjörum þjóðarinnar til langframa.“

Undir er fjárhagslegt sjálfstæði íslensku þjóðarinnar til framtíðar og þar verður heildarhagsmunum ekki fórnað.

Punktur.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur