RÚV fjallaði um breytingar á lögum um almannatryggingar í kvöldfréttum. Þar var birt sérstaklega mynd af einni grein laganna er varðar sjúkraskrár sem dæmi um hertar eftirlitsheimildir.
Þetta er eilítið vandræðalegt fyrir fréttastofuna.
Ef fréttamaður RÚV hefði unnið heimavinnuna sína, leitað frumheimilda en ekki treyst á einstaka bloggara úti í bæ hefði hún tekið eftir að þessi grein er nánast samhljóða grein nr. 52 í eldri lögum. Þessi grein er því ekki ný, heldur hefur verið í gildi nær óbreytt frá árinu 2001 .
52. gr. í eldri lögum er svohljóðandi:
„Þeim heilbrigðisstarfsmönnum sem ábyrgð bera á vörslu sjúkraskráa er skylt að veita læknum, eða eftir atvikum [hlutaðeigandi heilbrigðisstarfsmönnum],1) Tryggingastofnunar ríkisins [eða eftir atvikum sjúkratryggingastofnunarinnar]1) þær upplýsingar sem stofnuninni eru nauðsynlegar vegna ákvörðunar um greiðslu bóta eða endurgreiðslu reikninga og vegna eftirlitshlutverks stofnunarinnar. Þá er læknum Tryggingastofnunar [eða eftir atvikum sjúkratryggingastofnunarinnar],1) eða [hlutaðeigandi heilbrigðisstarfsmönnum]1) þegar það á við, heimilt að skoða þann hluta sjúkraskrár sem reikningsgerð á hendur stofnuninni er byggð á. Skoðun skal fara fram á þeim stað þar sem sjúkraskrá er varðveitt. Við meðferð persónuupplýsinga sem aflað er með þessum hætti skal þess gætt að uppfyllt séu skilyrði laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og jafnframt gætt ákvæða laga um [sjúkraskrár]2) eftir því sem við á.“
2. gr. j í nýju lögunum (sem varð gr. 42) er svohljóðandi:
„Upplýsingaskylda heilbrigðisstarfsmanna.
Þeim heilbrigðisstarfsmönnum sem bera ábyrgð á vörslu sjúkraskráa, sbr. lög um sjúkraskrár, er skylt að veita læknum og heilbrigðisstarfsmönnum Tryggingastofnunar þær upplýsingar og gögn sem stofnuninni eru nauðsynleg vegna ákvörðunar um greiðslu bóta og vegna eftirlitshlutverks hennar. Þá er læknum og heilbrigðisstarfsmönnum Tryggingastofnunar heimilt að skoða þann hluta sjúkraskrár sem nauðsynlegt er vegna eftirlits og reikningsgerð á hendur stofnuninni er byggð á. Skoðun skal fara fram á þeim stað þar sem sjúkraskrá er varðveitt.“
Ástæða þess að hún var í frumvarpinu var fyrst og fremst lagatiltekt og til að tryggja betra samræmi í lögunum varðandi þá þætti sem snúa að eftirlitsheimildum stofnunarinnar.
Ákvæði í gömlu greininni um persónuvernd er fært inn í nýja grein um vernd persónuupplýsinga, þagnarskyldu og meðferð persónuupplýsinga til að tryggja betri meðferð viðkvæmra persónuupplýsinga hjá TR, sem ég tel til bóta frá eldri lögum sbr.:
„Vernd persónuupplýsinga.
Þagnarskylda og meðferð persónuupplýsinga.
Starfsfólki Tryggingastofnunar og umboðsskrifstofa hennar er óheimilt að viðlagðri ábyrgð eftir ákvæðum almennra hegningarlaga um brot í opinberu starfi að skýra frá upplýsingum sem það fær vitneskju um í starfi sínu og leynt eiga að fara. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi.
Þagnarskyldan gildir einnig um stjórn Tryggingastofnunar og þá sem sinna verkefnum fyrir stofnunina en eru ekki starfsmenn hennar.
Við meðferð persónuupplýsinga sem aflað er skal Tryggingastofnun gæta þess að uppfyllt séu skilyrði laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Stofnunin skal tryggja að fyllsta öryggis sé gætt við sendingu og meðferð upplýsinga og setja skal öryggisstefnu, framkvæma áhættumat og gera aðrar öryggisráðstafanir til samræmis við lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og reglur sem settar hafa verið á grundvelli þeirra. Þá skal stofnunin jafnframt gæta ákvæða laga um sjúkraskrár eftir því sem við á.
Upplýsingar sem aflað er vegna eftirlits á grundvelli ákvæða þessa kafla skal ekki varðveita lengur en nauðsynlegt er og skal þeim eytt að lokinni tímabundinni vinnslu í þágu eftirlits.“
Það er sérkennilegt að þessi umræða komi upp fyrst núna þegar þetta ákvæði hefur verið í gildi í 13 ár.
En kannski las bara enginn gömlu lögin?
(Athuga: RÚV birti aðra frétt um breytingarnar á lögunum til skýringar kvöldið eftir. Ég fjallaði jafnframt um lögin og fleira í Kastljósviðtali sama kvöld. )