Leigumarkaðurinn á höfuðborgarsvæðinu er erfiður. Eftirspurnin er margföld á við framboðið, og íbúðir stoppa stutt við eftir að þær hafa verið auglýstar til leigu.
Ég fór að velta fyrir mér hvernig þetta væri eiginlega hjá þeim sem ætla að hefja nám næsta haust á höfuðborgarsvæðinu? Sem er ætlað að lifa af námslánum og sumarhýrunni næsta vetur? Varla getur staðan verið góð þar ef hún er svona á almenna leigumarkaðnum.
Ég lærði í Svíþjóð og bjó þar á stúdentagörðum. Íburðurinn þar var nokkuð minni en maður átti að venjast hér. Allar lagnir voru utan á veggjum, og sturtuhausinn tengdur við vaskinn og enginn sturtubotn. Leyfilegt hefur verið að byggja ívið minni námsmannaíbúðir en almennt íbúðarhúsnæði,- líkt og hér.
Má bjóða þér eigið hús?
Nú vilja Svíar ganga enn þá lengra.
Eldhús- og skrifborð, ásamt svefnrými
Um 80 þúsund námsmannaíbúðir eru í Svíþjóð, en þrátt fyrir það vantar um 20 þúsund íbúðir í viðbót. Við því vilja byggingarfélög námsmanna bregðast. Byggingarfélagið AF Bostäder sótti um undanþágu frá byggingareglugerðum og hefur nú fengið samþykkt að byggja 22 íbúðir sem eru undir 10 m2, sk „pyttehus“. Rökstuðningurinn er að námsmenn búa tímabundið í námsmannahúsnæði og hluti þeirra myndi vilja búa sem ódýrast á meðan námi stendur. Húsaleigan á að vera um 30.000 SEK á ári.
Teikning af "pyttehus"
Reglugerðin segir til um að námsmannaíbúðir verði að vera ca. 25 m2 sem myndi þýða um 50.000 SEK í húsaleigu á ári.
Reglugerðir hér á landi segja að einstaklingsíbúð fyrir námsmann sem er eitt rými má að lágmarki vera 28 m2, þar af baðherbergi a.m.k. 4,4 m2 . Einstaklingsherbergi skal að lágmarki vera 18,0 m2 að meðtöldu baðherbergi. Einstaklingsíbúð á Ásgarði sem er 36 m2 kostar 856.560 kr. á ári.
Teikning af einstaklingsíbúð í Ásgarði
Væri þetta eitthvað sem okkur Íslendingum myndi hugnast? Að byggja minna og ódýrara en að hafa þá hugsanlega val um að leigja eða viljum við frekar stærra og dýrara?
Ég hef ákveðið að bera þessar spurningar upp við umhverfisráðherra og velferðarráðherra sem fara með húsnæðismál.
Það verður áhugavert að heyra hvað þau hafa að segja.
En hvað finnst ykkur?
PS. Hér má sjá myndband af ‘pyttehuset’.