Fimmtudagur 21.6.2012 - 19:42 - Rita ummæli

Klippt á borða

Loksins, loksins var Suðurstrandarvegurinn formlega opnaður.  Ég og yngri dóttirin rukum af stað í hádeginu til að vera við þegar klippt væri á borðann, rétt náðum og í sárabót fékk dóttirin smábút af borðanum 🙂

Ekki kom annað til greina en að stoppa við Strandakirkju og taka mynd af snótinni með borðann.

Útsýnið til sjávar var ægifagurt.

Óska ég íbúum Suðurkjördæmis til hamingju með vegtenginguna sem og öllum landsmönnum.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 10.6.2012 - 12:12 - 14 ummæli

Synjað af umboðsmanni skuldara

Umboðsmaður skuldara upplýsti nýlega velferðarnefnd um helstu ástæður þess að skuldarar fá synjun um greiðsluaðlögun hjá þeim.  Stofnunin synjar um greiðsluaðlögun á grundvelli 6. gr. laga um greiðsluaðlögun og þann 29. maí höfðu 372* mál fengið synjun um greiðsluðlögun.

1. mgr. segir að umboðsmaður skuldara verður að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef:
a. fyrirliggjandi gögn sýna ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laga þessara til að leita greiðsluaðlögunar, = 38
b. fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar, = 132
c. aðstæður við stofnun skulda eða síðari ráðstafanir skuldara benda ótvírætt til þess að hann hafi hegðað sér á óheiðarlegan hátt til þess að geta leitað greiðsluaðlögunar, = 2
d. skuldari hefur af ráðnum hug eða með grófri vanrækslu veitt rangar eða villandi upplýsingar um aðstæður sem eru mikilsverðar í málinu, = 0
e. skuldari hefur áður fengið samþykkta greiðsluaðlögun eða nauðasamning til greiðsluaðlögunar. Þó er umboðsmanni skuldara heimilt að samþykkja umsókn í slíkum tilvikum ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. = 2

Samtals = 174

Síðan er umboðsmaður skuldara með heimildarákvæði til synjunar skv. 2. mgr. ef „…óhæfilegt þykir að veita hana.“

Til grundvallar synjun skal meta eftirfarandi:
a. stofnað hafi verið til meginhluta skuldanna nýlega og ekki sé um að ræða eðlilega lántöku til endurfjármögnunar eða öflunar nauðsynlegs íbúðarhúsnæðis, = 3
b. stofnað hafi verið til skulda á þeim tíma er skuldari var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar, = 54
c. skuldari hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað, = 83
d. skuldari hafi bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu, = 104
e. skuldari hafi efnt til fjárfestinga sem hefðu verið riftanlegar við gjaldþrotaskipti eða gert ráðstafanir sem hefðu verið riftanlegar, = 11
f. skuldari hafi á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt, = 17
g. skuldari hafi á ámælisverðan hátt stofnað til óhóflegra skuldbindinga eða skuldir hans eru þess eðlis að bersýnilega sé ósanngjarnt að heimild til greiðsluaðlögunar nái til þeirra. = 15

Samtals = 287

Við setningu laganna voru nokkrar áhyggjur af misnotkun á greiðsluaðlöguninni og því þótti rétt að setja inn matskennd ákvæði til að heimila synjun.  Umboðsmaður skuldara virðist svo nýta heimildarákvæðin meira en hin ákvæðin.

Væntanlega er því eina úrræði þess fólks sem fær synjun hjá umboðsmanni skuldara að fara í gjaldþrot.

*Stundum byggist synjun á fleiri en einum staflið laganna og því er heildarsamtalan hærri en fjöldi mála.

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 5.6.2012 - 00:02 - 22 ummæli

Steingrímur og veiðigjaldið

Steingrímur J. Sigfússon, alþingismaður og formaður sjávarútvegsnefndar Alþingis, sagði þetta  um veiðigjaldið árið 1997:  

„Hugmyndir um að taka marga milljarða eða milljarðatugi út úr sjávarútveginum í formi veiðigjalds eru í besta falli mjög varhugaverðar og í versta falli stórhættulegar. 

Velferð þjóðarinnar á fyrstu árum og áratugum næstu aldar kemur til með að ráðast mikið af því hversu vel sjávarútveginum gengur að byggja sig upp og þróast inn í framtíðina sem matvælastóriðja, sem hátæknivædd og þróuð grein þar sem allt er til staðar: vöruþróun, gæðaeftirlit, markaðsþekking, vel þjálfað, vel menntað, vel launað og þá væntanlega ánægt starfsfólk. 

Ekkert eitt mál er afdrifaríkara fyrir framtíð byggðakeðjunnar hringinn í kringum landið.“

Á þetta ekki við árið 2012?

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 29.5.2012 - 14:34 - 8 ummæli

Þingræði og meirihlutaræði

Stundum getur verið áhugavert að lesa eldri pistla, og velta fyrir sér hversu langt við eru raunar komin í umræðunni um þingræði, stöðu forsetans og lýðræði. Þann 23. febrúar 2011 skrifaði ég á moggablogginu:

Á blaðamannafundinum á Bessastöðum fékk forsetinn spurningu um hvort að hann væri ekki að vega að þingræðinu með því að vísa Icesave samningnum í annað sinn til þjóðarinnar.  Undir það tók svo Oddný G. Harðardóttir, formaður fjárlaganefndar, í utandagskrárumræðu um Icesave í gær í þinginu.

Ég get tekið undir það að forsetinn hefur markað ný spor í sögu forsetaembættisins og íslensku þjóðarinnar með því að vera fyrsti forsetinn sem nýtir sér ákvæði 26.gr. stjórnarskrárinnar.

En ég er ekki sammála því að hann sé með því að vega að þingræðinu.

Í máli hans hefur hann ítrekað lagt áherslu á að líf ríkisstjórnarinnar eigi ekki að vera undir í hvert sinn sem hann ákveður að synja lögum staðfestingu og vísa þeim til þjóðarinnar.   Þingræði hefur nefnilega verið þýtt þannig að ríkisstjórn situr með stuðningi meirihluta Alþingis ,og svo lengi sem meirihluti þingmanna styður við ríkisstjórnina situr hún áfram.

Hins vegar getur þessi ákvörðun forsetans breytt því hvernig Alþingi starfar.  Stjórnarliðar verða núna að taka virkari þátt í umræðum, í stað þess að láta stjórnarandstöðuna eina um að ræða flókin og erfið mál.  Stjórnarliðar þurfa að standa fyrir máli sínu og reyna að sannfæra bæði stjórnarandstæðinga og þjóðina um að það sem þau eru að gera sé það rétta.

Þannig gæti beiting forsetans á 26. greininni styrkt umræðuhefðina á Alþingi, og leitt til þess að alþingismenn þurfi að færa fram betri rök fyrir sinni afstöðu, hlusta á gagnrök í stað þess að treysta á meirihlutaræðið.

Niðurstaðan gæti þannig orðið sterkara og betra Alþingi, -raunverulegt þingræði í stað meirihlutaræðis til stuðnings ríkisstjórnar.

———-

Hvað finnst ykkur?  Er einhver möguleiki á að þetta verði reyndin eða munum við þróa stjórnskipun okkar frekar í átt að forsetaræði?

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 24.5.2012 - 08:56 - 15 ummæli

Bréf frá kjósendum…

Tölvupóstur barst í gær frá Ástu Hafberg og Addý Steinars til allra þingmanna með upplýsingum um fyrirhugaða undirskriftarsöfnun vegna kröfu um Alþingiskosningar á grundvelli vantrausts á sitjandi ríkisstjórn.  Ef ríkisstjórnin væri ekki sjálf tilbúin að víkja ætti forsetinn að víkja henni.  Jafnframt voru þingmenn  krafnir svara um hvort þeir myndu styðja vantraust á ríkisstjórnina.

Í nafni þeirra sem boða gagnsæi var lofað að birta svörin frá þingmönnum og hvort einhverjir svöruðu ekki.

Ég hef nú svarað póstinum og tel rétt að birta sjálf svar mitt.

„Sælar Ásta og Addý,

Ég og minn þingflokkur eigum ekki aðild að þessari ríkisstjórn og hún situr ekki í mínu umboði.

Ég hef rætt áður við Ástu og Rakel Sigurgeirsdóttur um að við búum við þingræði en ekki forsetaræði.  Erfiðar aðstæður og óvinsæl ríkisstjórn réttlæta ekki að þingræðinu sé vikið til hliðar, og einum manni í raun falin stjórn landsins.

Það væri fullkomlega andstætt grundvallarstefnuskrá Framsóknarflokksins þar sem segir: „Hann [Framsóknarflokkurinn] stendur vörð um stjórnarfarslegt, efnahagslegt og menningarlegt sjálfstæði Íslendinga, byggt á lýðræði, þingræði og réttaröryggi.“.

Því get ég ekki undirritað þessa yfirlýsingu.

Bkv. Eygló Harðardóttir“

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 18.5.2012 - 10:46 - 13 ummæli

Leiguíbúðir óskast

Mikill skortur er á leiguíbúðum á höfuðborgarsvæðinu og víðar um land. Í athugasemdum við pistli mínum í gær var spurt hvort einhver íslenskur stjórnmálaflokkur væri með trúverðuga stefnu í húsnæðismálum sem gerði ráð fyrir leigjendum?

Í ályktunum Framsóknarflokksins á flokksþingi 2011 kemur skýrt fram að við viljum fjölga búsetukostum.  Vinstri flokkarnir sem fara með völdin í landinu hafa einnig mikið talað fyrir nauðsyn þess að fjölga leiguíbúðum.

Samt virðist lítið gerast.

Á árunum eftir seinni heimsstyrjöld var mikill húsnæðisskortur á Norðurlöndunum, líka hér á landi.  Stjórnvöld í Danmörku, Svíþjóð og Noregi byggðu þúsundir íbúða, og í Svíþjóð var meira að segja talað um milljónaprógrammið.

Hugmyndafræðin var að byggja staðlað og vel skipulagt íbúðarhúsnæði og ná þannig niður kostnaði.  Ekkert segir að staðlað húsnæði þurfi að vera einhverjir steinsteypukumbaldar eða í nýjum úthverfum sbr. það versta í milljónaverkefnunum.

Hús sett saman með skrúfjárni frá MNM|MOD

Lykilatriðið er að staðla, byggja í einingum og jafnvel nýta tækifærið til að þétta byggð. Einingahús eru í stöðugri þróun sbr. verðlaunahönnun Tryggva Þorsteinssonar og Erlu Daggar Ingjaldsdóttur hjá MNM/MOD.   Húsin þeirra koma í flötum, léttum pakkningum og eru sett saman með skrúfjárni a la Ikea.

Heilt hverfi úr einingum frá MNM|Mod

Önnur aðferðafræði Ikea gæti einnig verið gagnleg. Ákveða verðið fyrst miðað við markhópinn og leita svo allra leiða til að ná því.

Lesandi minn skrifaði: „Tæknilega séð er ekkert til fyrirstöðu að byrja á svipuðu prógrammi á Íslandi.  Til að byrja með þarf að spyrja hvernig húsnæði vantar, hvað má það kosta, og hvað er hægt að byggja fyrir þann pening.  Sveitarfélög, lífeyrissjóðir og verkalýðsfélög ættu að koma að málinu.“

Fullkomlega sammála.

Hvað er eiginlega að stoppa okkur?

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 16.5.2012 - 18:29 - 9 ummæli

Ódýrari námsmannaíbúðir?

Leigumarkaðurinn á höfuðborgarsvæðinu er erfiður.  Eftirspurnin er margföld á við framboðið, og íbúðir stoppa stutt við eftir að þær hafa verið auglýstar til leigu.

Ég fór að velta fyrir mér hvernig þetta væri eiginlega hjá þeim sem ætla að hefja nám næsta haust á höfuðborgarsvæðinu? Sem er ætlað að lifa af námslánum og sumarhýrunni næsta vetur? Varla getur staðan verið góð þar ef hún er svona á almenna leigumarkaðnum.

Ég lærði í Svíþjóð og bjó þar á stúdentagörðum. Íburðurinn þar var nokkuð minni en maður átti að venjast hér.  Allar lagnir voru utan á veggjum, og sturtuhausinn tengdur við vaskinn og enginn sturtubotn. Leyfilegt hefur verið að byggja ívið minni námsmannaíbúðir en almennt íbúðarhúsnæði,- líkt og hér.

Má bjóða þér eigið hús?

Nú vilja Svíar ganga enn þá lengra.

Eldhús- og skrifborð, ásamt svefnrými

Um 80 þúsund námsmannaíbúðir eru í Svíþjóð, en þrátt fyrir það vantar um 20 þúsund íbúðir í viðbót.  Við því vilja byggingarfélög námsmanna bregðast.  Byggingarfélagið AF Bostäder sótti um undanþágu frá byggingareglugerðum og hefur nú fengið samþykkt að byggja 22 íbúðir sem eru undir 10 m2, sk „pyttehus“.   Rökstuðningurinn er að námsmenn búa tímabundið í námsmannahúsnæði og hluti þeirra myndi vilja búa sem ódýrast á meðan námi stendur. Húsaleigan á að vera um 30.000 SEK á ári.

Teikning af "pyttehus"

Reglugerðin segir til um að námsmannaíbúðir verði að vera ca. 25 m2 sem myndi þýða um 50.000 SEK í húsaleigu á ári.

Reglugerðir hér á landi segja að einstaklingsíbúð fyrir námsmann sem er eitt rými má að lágmarki vera 28 m2, þar af baðherbergi a.m.k. 4,4 m2 . Einstaklingsherbergi skal að lágmarki vera 18,0 m2 að meðtöldu baðherbergi.  Einstaklingsíbúð á Ásgarði sem er 36 m2 kostar 856.560 kr. á ári.

Teikning af einstaklingsíbúð í Ásgarði

Væri þetta eitthvað sem okkur Íslendingum myndi hugnast? Að byggja minna og ódýrara en að hafa þá hugsanlega val um að leigja eða viljum við frekar stærra og dýrara?

Ég hef ákveðið að bera þessar spurningar upp við umhverfisráðherra og velferðarráðherra sem fara með húsnæðismál.

Það verður áhugavert að heyra hvað þau hafa að segja.

En hvað finnst ykkur?

PS. Hér má sjá myndband af ‘pyttehuset’.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 15.5.2012 - 10:47 - 12 ummæli

Hannes um Framsóknarstefnuna

Árið 1974 skrifaði Hannes Jónsson, félagsfræðingur og formaður skólastjórnar Framsóknarflokksins, að langtímamarkmið Framsóknarstefnunnar væru:

  1. Sjálfstæði, frelsi og fullveldi íslenska ríkisins.
  2. Stjórnskipulag lýðveldis, lýðræði og þingræði.
  3. Frjálslynd umbótastefna.
  4. Dreifing valds og byggðajafnvægi.
  5. Blandað hagkerfi, þar sem samvinnurekstur er áberandi (samvinnuhagskipulag) en einkarekstur jafnframt öflugur á ýmsum sviðum og opinber rekstur í sérstökum tilvikum.
  6. Hagkvæmur og arðbær rekstur framleiðsluatvinnuveganna í höndum landsmanna sjálfra.
  7. Félagslegt öryggi á grundvelli velferðarríkis.
  8. Skipulagshyggja og áætlunarbúskapur án ofstjórnar eða hafta.
  9. Jafnvægi í efnahags- og stjórnmálum.
  10. Öflugt menningarlíf og raunhæft skóla- og vísindastarf í þágu þjóðarinnar og atvinnuveganna.

Mikið ansi hljómar þetta nú vel í eyrum þessa framsóknarmanns 38 árum síðar 🙂

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 10.5.2012 - 09:16 - 14 ummæli

Von fyrir þjóðina?

Fyrir nokkru fengum við þingmenn tölvupóst með fyrirsögninni „Takk fyrir það, þingmenn“.   Þar fór ónefndur kjósandi í gegnum loforð síns flokks (…ekki Framsókn, þótt við fengjum okkar skot í póstinum…) og taldi lítið hafa verið um efndir.

Að hans mati víkja hagsmunir heimilanna og fyrirtækjanna sífellt fyrir ýmsu öðru sem virðist standa þingmönnum nær.

Hann spurði: Fyrir hvaða málum hefur flokkurinn barist á þessu kjörtímabili?  Hver eru þau mál sem flokkurinn hyggst berjast fyrir á næsta kjörtímabili?  Í næstu ríkisstjórn? Þetta væru spurningarnar sem brenna á kjósendum.  Þetta væru spurningarnar sem forysta flokksins og þingflokkur hefðu ekki svarað með viðunandi hætti.

Það vantaði von fyrir þjóðina.

Þótt póstinum hafi ekki verið beint til mín,  var ég hugsi yfir þessum skilaboðum.

Alþingi kemur saman í dag kl. 10.30 eftir nefndadaga.   Útlit er fyrir að við munum halda áfram að ræða skipan mála í stjórnarráðinu skv. dagskrá.

Við munum ekki ræða þak á hækkun verðtryggingar og lækkun vaxta, nauðungarsölu, aðför, meðferð einkamála og fjármálafyrirtæki, skattaafslátt vegna húsnæðissparnaðar, afnám stimpilgjalda vegna kaupa á íbúðarhúsnæði eða skipan starfshóps til að nýta skattkerfið til að koma til móts við heimili við lánsveð og yfirskuldsetningu, – svona til að nefna nokkur mál sem ég hef lagt fram á þessu þingi eða verið meðflutningsmaður að.

Nebb…við munum ræða nöfn á ráðuneytum.

Er skrítið að kjósandi velti fyrir sér forgangsröðuninni?

Spyrji hvar megi finna von fyrir þjóðina?

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 8.5.2012 - 00:15 - 9 ummæli

Hætta að rukka lán!

Varla verður komin niðurstaða varðandi ágreiningsefni um gengistryggð lán fyrr en í fyrsta lagi í haust, jafnvel ekki fyrr en um áramót.

Lítill þrýstingur virðist vera á fjármálafyrirtækin að drífa þessi mál af og koma þeim inn í dómskerfið.  Enginn hefur fengið nýjan útreikning, ekki einu sinni hjónin sem þó unnu málið fyrir Hæstarétti um ólögmæti afturvirkra vaxta.

Sagði ekki einhver að „money talks“? Kannski gerist ekkert fyrr  en þetta fer að koma verulega við buddu bankanna, greiðsluflæðið hjá þeim?

Þarf ekki að tryggja að bankarnir hætti að innheimta gengistryggðu lánin þar til niðurstöður liggja fyrir?

Hætti bara að rukka.

Er ekki mikilvægara að Alþingi einhendi sér í að stöðva innheimtu ólögmætra lána, í stað þess að þrasa út í eitt um nöfn á ráðuneytum?

 

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur