Hér er ræða mín og rökstuðningur fyrir afstöðu til vantrausttillögu á ríkisstjórnina:
Virðulegi forseti, við erum hér komin til að ræða tillögu um vantraust á ríkisstjórnina.
Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur nú setið í ýmsum myndum frá febrúar 2009. Á þeim tíma hafa henni verið mjög mislagðar hendur, burt séð frá því hverjir vermt hafa ráðherrastólana.
Þetta er ríkisstjórn sem hlustar ekki á þjóð sína.
Hún brást seint og illa við skuldavanda heimilanna, hefur dregið lappirnar við endurskipulagningu skulda fyrirtækja og tafið og flækt mikilvæg atvinnuverkefni með lagabrotum og stjórnsýsluklækjum. Þrátt fyrir sögulegt atvinnuleysi.
Byrjendamistök, ráðaleysi, doði gagnvart neyð almennings og skortur á lýðræði og hugsjónum hafa því einkennt þessa stjórn.
Þetta er veik ríkisstjórn.
Það sést ekki hvað síst í því að forsætisráðherra fagnar því að vantrauststillaga komi nú fram, því hún vonast til að þessi tillaga hjálpi til við að koma böndum á þá stjórnarþingmenn sem eru að missa þolinmæðina. Loksins, loksins sagði forsætisráðherra, loksins manar stjórnarandstaðan sig upp í það að leggja fram vantraust á ríkisstjórnina, hversu oft hafi hún ekki boðað vantraust án þess að láta verða af því.
Afgreiða þarf tillöguna sem fyrst því forsætisráðherra veitir ekki af hausatalningu til að kanna hvort hún hafi í raun stuðning í sínum eigin herbúðum!
Þetta er ríkisstjórn sem treystir ekki eigin þjóð.
Það endurspeglast ekki hvað síst í Icesave málinu, þar sem helstu talsmenn aukins beins lýðræðis, hv. forsætisráðherra og hv. fjármálaráðherra mættu ekki í fyrstu almennu þjóðaratkvæðagreiðsluna síðan Íslendingar kusu um stjórnarskrána. Ekki einu sinni til að skila auðu.
Þannig lýstu forystumenn ríkisstjórnarinnar í raun frati á þjóðina og treystu henni ekki til að fylgja sér jafnvel þótt samningurinn væri orðinn umtalsvert betri.
Þjóðin svaraði með því að lýsa því yfir nær einróma að hún treysti heldur ekki ríkisstjórninni og hafnaði Icesave samningnum.
Icesave atkvæðagreiðslan hin síðari er ekki síður mikið áfall fyrir ríkisstjórnina. Enn og aftur sjáum við hvílík gjá er milli stjórnarmeirihlutans og fólksins í landinu.
Að þessu sögðu þá er það mitt mat að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur sé hreinlega léleg ríkisstjórn og að hún eigi vantraust fyllilega skilið.
En Icesave atkvæðagreiðslan síðari var ekki bara áfall fyrir ríkisstjórnina. Hún var einnig mikið áfall fyrir forystu Sjálfstæðisflokksins sem samþykkti Icesave samninginn hér í þinginu.
Því er það að mörgu leyti einkennilegt að standa hér nú og ræða tillögu þingmanna Sjálfstæðisflokksins um vantraust á ríkisstjórnina í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem þjóðin hafnaði máli sem þessir sömu þingmenn, velflestir, samþykktu.
Sú staðreynd gerir þessa tillöguna í hæsta máta ótrúverðuga .
Er ríkisstjórnin ekki traustsins verð að mati flutningsmanna vegna þess að hún sagði já við Icesave eða vegna þess að hún tryggði ekki að þjóðin sagði já við Icesave?
Mætti þá ekki með sömu rökum lýsa vantrausti á forystu Sjálfstæðisflokksins. Hún sagði já við Icesave og hún tryggði ekki að þjóðin sagði já við Icesave.
Tillagan er veikburða.
Aðeins einn stjórnarandstöðuflokkur stendur að því að leggja tillöguna fram. Þegar þingsályktun um vantraust var síðast lögð fram á Alþingi stóð öll stjórnarandstaðan saman að því að leggja hana fram og tala fyrir henni, – þingflokkur Vinstri Grænna, þingflokkur Framsóknarmanna og þingflokkur Frjálslynda flokksins.
Nú var ekki haft samráð við alla stjórnarandstöðuna og ekki var samstaða um að leggja hana fram á þessum tímapunkti. Þessi tillaga var því algert frumhlaup formanns Sjálfstæðisflokksins. Slíkt vekur upp hjá manni grunsemdir um að tilgangur formanns Sjálfstæðisflokksins með tillögu sem þessarar sé ekki endilega að lýsa vantrausti á ríkisstjórnina, heldur að beina athyglinni frá eigin ábyrgð í Icesave málinu og berja í bresti innan eigin flokks.
Og það er kannski einnig ástæðan fyrir því að formanni Sjálfstæðisflokksins liggur svo á að boða til kosninga sem allra fyrst, því hvaða þýðingu hefði það? Lítill tími yrði fyrir ný framboð að koma fram og tæplega hefðu flokkarnir færi á að endurnýja framboðslista sína. Þjóðin hefði því ekkert raunverulegt val, aðeins sama graut í sömu skál. En það hentar kannski einhverjum.
Kosningar strax þýddu einnig að Sjálfstæðisflokkurinn næði því markmiði sínu sem hann náði ekki með hatrammri baráttu hér í þinginu, kærumálum og hæstaréttardómi, þ.e. að koma í veg fyrir endurskoðun stjórnarskrárinnar.
Kosningar á næstu vikum gengju því þvert á vilja þjóðarinnar um nýtt upphaf og nýtt Ísland. Ef fram færi sem horfði samkvæmt skoðanakönnunum yrði svo þjóðin að bíða þess að Sjálfstæðisflokknum þóknaðist að breyta hér einhverju og við þekkjum öll hversu viljugur hann er til þess.
Vantrausttillögur á að leggja fram þegar maður hefur einhverja trú á að hægt sé að fá hana samþykkta. Til þess að svo megi verða þarf að liggja fyrir stuðningur allrar stjórnarandstöðunnar, óháðra þingmanna og helst glitta í eins og 2-3 stjórnarþingmenn.
Allt annað er gamaldags karlapólitík sem mér hugnast ekki. Pólitík sem snýst um að sýna að maður sé ekki hræddur, sýna að maður þori, svo enginn haldi nú að maður sé kjarklaus, kjúklingur.
Þjóðin á einfaldlega betra skilið.
Þetta er ekki leikrit, ekki fótboltaleikur eða samanburður í sturtunni eftir leikfimi.
Við erum ekki hér í einhverjum sandkassaleik og það er orðið slæmt þegar maður er farinn að hafa áhyggjur af orðspori leikskólabarna þegar við erum sífellt borin saman við þau.
Í síðustu kosningum var hverjum og einum þingmanni falið mikið traust og vald frá íslensku þjóðinni. Okkur var falið að huga að hagsmunum hennar, velferð hennar og framtíð. Okkar hlutverk sem stjórnmálamenn er að sýna og sanna að okkur er ekki saman um hag þjóðarinnar.
Enn á ný stendur hver og einn þingmaður þá frammi fyrir vali.
Er rétt að styðja tillögu sem er vanbúin, vanhugsuð og virðist byggja á flestu öðru en trú flutningsmanna á að hún fáist samþykkt, eða er rétt að styðja léleg, óstarfhæfa og óhæfa ríkisstjórn? Mín niðurstaða er sú að af tvennu illu þá treysti ég frekar kjósendum til að taka rétta ákvörðun í kosningum til Alþingis í vor en ríkisstjórninni til að hysja að óbreyttu upp um sig og fara að vinna verk sín af fagmennsku og umhyggju fyrir samfélaginu.
Því mun ég með, miklum semingi, styðja þessa tillögu.
(Flutt á Alþingi 13. apríl 2011)