Sunnudagur 17.4.2011 - 09:04 - 5 ummæli

Leitin að vorinu

Í stað þess að sofa út var ég komin fram um 8 leytið og farin að lesa heimspressuna. Með morgunkaffinu velti ég upphátt fyrir mér efni næsta bloggpistils út frá lesefninu.

Kjarasamningar í háalofti vegna kröfuhörku SA, lánshæfismat Írlands að falla, evran á brauðfótum…

Eiginmaðurinn hætti að lesa pistlana á blogggáttinni, leit upp og horfði á mig:

„Er ekki allt í lagi, Eygló mín?“

Ha, hvað?

Eftir stutta íhugun hef ég því ákveðið að skrifa bara ekki neitt og leita frekar að þessu vori sem var verið að lofa í vikunni  😉

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 16.4.2011 - 11:02 - 12 ummæli

Þrí- eða fjórsaga

Eitt helsta umfjöllunarefni fjölmiðla í gær var menntun Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins.

Því var haldið fram að hann hefði orðið fjórsaga um menntun sína og gert tortryggilegt að hann hefði ekki hlaupið til og gefið Fréttatímanum leyfi til að fá upplýsingar um námsferil hans við Oxford háskóla.

Ég verð að segja að mér fannst þetta allt saman frekar fáránlegt.

Enda er ég ekki hlutlaus.

Ég sjálf hef ýmist kallað mig markaðsfræðing, viðskiptafræðing eða listasögufræðing með starfsmannastjórnun sem sérgrein (sko, allavega þrísaga). Ég er einnig með ólokið framhaldsnám á meistarastigi (helv… ritgerðin…) og hef tekið fjöldann allan af námskeiðum m.a. í verslunarstjórnun, alþjóðafræðum og kerfisfræði.

Hvort öll þessi menntun og skortur á prófgráðum gerir mig (eða Sigmund Davíð) að betri eða verri þingmanni verða svo aðrir að meta.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 15.4.2011 - 14:00 - 18 ummæli

Óheiðarlegir alþingismenn?

Í gær hitti ég unga konu í Reykjanesbæ sem sagðist vera að flytja til Suður Jótlands í von um bjartari framtíð.  Við áttum gott samtal um stöðuna á Íslandi og vonbrigðin leyndu sér ekki í rödd hennar þegar hún spurði mig í lok samtalsins:

  „Af hverju verða allir óheiðarlegir við að fara inn á Alþingi?“

 Ég svaraði til að þingmenn væru ekkert óheiðarlegri en fólk er flest og oft væri auðveldara að lofa en efna, innan Alþingis sem utan.

Á meðan ég ók heim velti ég þessari spurningu fyrir mér.

Var eitthvað í þessu sem hún sagði? Er eitthvað í umhverfinu, í stjórnmálunum, sem gerir það að verkum að gott og heiðarlegt fólk gefst upp, hefur ekki áhuga eða snýr sér að öðru? Eru væntingar okkar til stjórnmálamanna orðnar það litlar að við gerum sjálfkrafa ráð fyrir því að stjórnmálamenn séu í pólitík af einhverjum annarlegum ástæðum? Er það þannig að við sem eru stjórnmálamenn bregðumst við með því að uppfylla þessar væntingar?

Fáum við þannig þá stjórnmálamenn sem við væntum?

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 14.4.2011 - 08:21 - 17 ummæli

Siv, Guðmundur og Agnes

Agnes Bragadóttir ákvað að fjalla um Framsóknarflokkinn í Morgunblaðinu í gær og þá sérstaklega stöðu tveggja þingmanna okkar í framhaldi af flokksþinginu um síðustu helgi.

Ég er mjög ósátt við efni greinarinnar og vangaveltur um að Siv Friðleifsdóttir og Guðmundur Steingrímsson séu á leið út úr Framsóknarflokknum.  Að fólk vilji jafnvel sjá þau fara.

Siv og Guðmundur eru þingmenn Framsóknarmanna, voru valin í prófkjörum innan flokksins og voru kjörin á þing af kjósendum Framsóknarflokksins.  Afstaða þeirra varðandi helstu stefnumál flokksins lá fyrir áður en gengið var til atkvæða og þau hafa verið trú sinni sannfæringu líkt og eiður okkar að stjórnarskránni boðar.

Hver og einn flokksmaður skiptir máli og við getum umborið ólíkar skoðanir.

Bæði innan flokks og utan.

Af þessu tilefni vil ég því birta smá bút úr ræðu minni á flokksþinginu:

Samfélagsskipanin má ekki markast af misrétti þegnanna á grunni efnalegra, menningarlegra og félagslegra þátta, lítt heftu peningavaldi, skorti á raunverulegu virku lýðræði á nær öllum sviðum þjóðlífsins, skoðanamyndun sem fjármálavaldið ræður að miklu leyti, klíku– og smákóngaveldi.

En til að tryggja okkur stöðu til að breyta samfélaginu verðum við að endurheimta traust almennings. Við verðum að sannfæra almenning um að við meinum það sem við segjum. Við getum ekki skreytt okkur með hugtökum á borð við lýðræði, jafnrétti og sanngirni nema við lifum sjálf eftir þeim gildum. Við getum ekki sagt við almenning “gerið það sem við segjum, ekki það sem við gerum”. Samfélagsbreytingar þurfa að byrja hjá okkur sjálfum. Til að geta barist fyrir lýðræði, jafnrétti og sanngirni úti í samfélaginu þurfum við að tryggja að starfið í flokknum okkar byggi á raunverulegu lýðræði, jafnrétti og sanngirni.

Við verðum að virða rétt allra skoðana, líka þeirra sem eru í minnihluta og tryggja að rödd minnihlutans fái að heyrast.

Holdgervingur upplýsingarinnar, franski heimspekingurinn Voltaire, var baráttumaður í nafni skynseminnar. Hann barðist af mikilli hörku gegn ofstæki og hjátrú á öllum sviðum mannlegrar hugsunar og sýndi andstæðingum sínum oft litla miskunn. En einn réttur var honum þó heilagur. Það var réttur manna til að halda fram sínum skoðunum, hversu vitlausar sem honum þótti þær. Hann trúði því að hlutverk yfirvalda mætti aldrei vera að þagga niður skoðanir. Honum hafa jafnvel verið eignuð þau orð að hann myndi berjast fram í rauðan dauðann fyrir rétti fólks til að halda fram skoðunum sínum, jafnvel þótt hann væri því ósammála. Upplýst umræða um ólíkar skoðanir væri eina leiðin til að útkljá deilur og skoðanir yrðu einfaldlega að standa eða falla í upplýstri samræðu.

Á flokksþingi mótum við meginstefnu fyrir flokkinn og samfélagið sem heild, en við verðum að tryggja að einstaklingar haldi rétti sínum til að halda fram sínum skoðunum, þó við séum þeim ósammála.

Á sama hátt og við viljum tryggja að rödd Framsóknarflokksins hljómi úti í samfélaginu, jafnvel þó við kunnum að vera í minnihluta, verðum við að tryggja að ólíkar raddir fái að hljóma innan flokksins, líka þær sem eru í minnihluta.“

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 13.4.2011 - 20:09 - 7 ummæli

Um vantraust

Hér er ræða mín og rökstuðningur fyrir afstöðu til vantrausttillögu á ríkisstjórnina:

Virðulegi forseti, við erum hér komin til að ræða tillögu um vantraust á ríkisstjórnina.

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur nú setið í ýmsum myndum frá febrúar 2009.  Á þeim tíma hafa henni verið mjög mislagðar hendur, burt séð frá því hverjir vermt hafa ráðherrastólana.

Þetta er ríkisstjórn sem hlustar ekki á þjóð sína.

Hún brást seint og illa við skuldavanda heimilanna, hefur dregið lappirnar við endurskipulagningu skulda fyrirtækja og tafið og flækt mikilvæg atvinnuverkefni með lagabrotum og stjórnsýsluklækjum. Þrátt fyrir sögulegt atvinnuleysi.

Byrjendamistök, ráðaleysi, doði gagnvart neyð almennings og skortur á lýðræði og hugsjónum hafa því einkennt þessa stjórn.

Þetta er veik ríkisstjórn.

Það sést ekki hvað síst í því að forsætisráðherra fagnar því að vantrauststillaga komi nú fram, því hún vonast til að þessi tillaga hjálpi til við að koma böndum á þá stjórnarþingmenn sem eru að missa þolinmæðina. Loksins, loksins sagði forsætisráðherra, loksins manar stjórnarandstaðan sig upp í það að leggja fram vantraust á ríkisstjórnina, hversu oft hafi hún ekki boðað vantraust án þess að láta verða af því.

Afgreiða þarf tillöguna sem fyrst því forsætisráðherra veitir ekki af hausatalningu til að kanna hvort hún hafi í raun stuðning í sínum eigin herbúðum!

Þetta er ríkisstjórn sem treystir ekki eigin þjóð.

Það endurspeglast ekki hvað síst í Icesave málinu, þar sem helstu talsmenn aukins beins lýðræðis, hv. forsætisráðherra og hv. fjármálaráðherra mættu ekki í fyrstu almennu þjóðaratkvæðagreiðsluna síðan Íslendingar kusu um stjórnarskrána. Ekki einu sinni til að skila auðu. 

Þannig lýstu forystumenn ríkisstjórnarinnar í raun frati á þjóðina og treystu henni ekki til að fylgja sér jafnvel þótt samningurinn væri orðinn umtalsvert betri.

Þjóðin svaraði með því að lýsa því yfir nær einróma að hún treysti heldur ekki ríkisstjórninni og hafnaði Icesave samningnum.

Icesave atkvæðagreiðslan hin síðari er ekki síður mikið áfall fyrir ríkisstjórnina. Enn og aftur sjáum við hvílík gjá er milli stjórnarmeirihlutans og fólksins í landinu.

Að þessu sögðu þá er það mitt mat að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur sé hreinlega léleg ríkisstjórn og að hún eigi vantraust fyllilega skilið.

En Icesave atkvæðagreiðslan síðari var ekki bara áfall fyrir ríkisstjórnina.  Hún var einnig mikið áfall fyrir forystu Sjálfstæðisflokksins sem samþykkti Icesave samninginn hér í þinginu.

Því er það að mörgu leyti einkennilegt að standa hér nú og ræða tillögu þingmanna Sjálfstæðisflokksins um vantraust á ríkisstjórnina í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem þjóðin hafnaði máli sem þessir sömu þingmenn, velflestir, samþykktu.

Sú staðreynd gerir þessa tillöguna í hæsta máta ótrúverðuga .

Er ríkisstjórnin ekki traustsins verð að mati flutningsmanna vegna þess að hún sagði já við Icesave eða vegna þess að hún tryggði ekki að þjóðin sagði já við Icesave?

Mætti þá ekki með sömu rökum lýsa vantrausti á forystu Sjálfstæðisflokksins. Hún sagði já við Icesave og hún tryggði ekki að þjóðin sagði já við Icesave.

Tillagan er veikburða.

Aðeins einn stjórnarandstöðuflokkur stendur að því að leggja tillöguna fram.  Þegar þingsályktun um vantraust var síðast lögð fram á Alþingi stóð öll stjórnarandstaðan saman að því að leggja hana fram og tala fyrir henni, – þingflokkur Vinstri Grænna, þingflokkur Framsóknarmanna og þingflokkur Frjálslynda flokksins.

Nú var ekki haft samráð við alla stjórnarandstöðuna og ekki var samstaða um að leggja hana fram á þessum tímapunkti. Þessi tillaga var því algert frumhlaup formanns Sjálfstæðisflokksins. Slíkt vekur upp hjá manni grunsemdir um að tilgangur formanns Sjálfstæðisflokksins með tillögu sem þessarar sé ekki endilega að lýsa vantrausti á ríkisstjórnina, heldur að beina athyglinni frá eigin ábyrgð í Icesave málinu og berja í bresti innan eigin flokks.

Og það er kannski einnig ástæðan fyrir því að formanni Sjálfstæðisflokksins liggur svo á að boða til kosninga sem allra fyrst, því hvaða þýðingu hefði það? Lítill tími yrði fyrir ný framboð að koma fram og tæplega hefðu flokkarnir færi á að endurnýja framboðslista sína. Þjóðin hefði því ekkert raunverulegt val, aðeins sama graut í sömu skál. En það hentar kannski einhverjum.

Kosningar strax þýddu einnig að Sjálfstæðisflokkurinn næði því markmiði sínu sem hann náði ekki með hatrammri baráttu hér í þinginu, kærumálum og hæstaréttardómi, þ.e. að koma í veg fyrir endurskoðun stjórnarskrárinnar.

Kosningar á næstu vikum gengju því þvert á vilja þjóðarinnar um nýtt upphaf og nýtt Ísland. Ef fram færi sem horfði samkvæmt skoðanakönnunum yrði svo þjóðin að bíða þess að Sjálfstæðisflokknum þóknaðist að breyta hér einhverju og við þekkjum öll hversu viljugur hann er til þess.

Vantrausttillögur á að leggja fram þegar maður hefur einhverja trú á að hægt sé að fá hana samþykkta. Til þess að svo megi verða þarf að liggja fyrir stuðningur allrar stjórnarandstöðunnar, óháðra þingmanna og helst glitta í eins og 2-3 stjórnarþingmenn.

Allt annað er gamaldags karlapólitík sem mér hugnast ekki.  Pólitík sem snýst um að sýna að maður sé ekki hræddur, sýna að maður þori, svo enginn haldi nú að maður sé kjarklaus, kjúklingur.

Þjóðin á einfaldlega betra skilið.

Þetta er ekki leikrit, ekki fótboltaleikur eða samanburður í sturtunni eftir leikfimi.

Við erum ekki hér í einhverjum sandkassaleik og það er orðið slæmt þegar maður er farinn að hafa áhyggjur af orðspori leikskólabarna þegar við erum sífellt borin saman við þau.

Í síðustu kosningum var hverjum og einum þingmanni falið mikið traust og vald frá íslensku þjóðinni.  Okkur var falið að huga að hagsmunum hennar, velferð hennar og framtíð.  Okkar hlutverk sem stjórnmálamenn er að sýna og sanna að okkur er ekki saman um hag þjóðarinnar.

Enn á ný stendur hver og einn þingmaður þá frammi fyrir vali.

Er rétt að styðja tillögu sem er vanbúin, vanhugsuð og virðist byggja á flestu öðru en trú flutningsmanna á að hún fáist samþykkt, eða er rétt að styðja léleg, óstarfhæfa og óhæfa ríkisstjórn? Mín niðurstaða er sú að af tvennu illu þá treysti ég frekar kjósendum til að taka rétta ákvörðun í kosningum til Alþingis í vor en ríkisstjórninni til að hysja að óbreyttu upp um sig og fara að vinna verk sín af fagmennsku og umhyggju fyrir samfélaginu.

Því mun ég með, miklum semingi, styðja þessa tillögu.

(Flutt á Alþingi 13. apríl 2011)

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 12.4.2011 - 10:52 - 9 ummæli

Ríkisstjórn?

Framsóknarflokkurinn er í stjórnmálum til að koma hugsjónum sínum og málefnum í framkvæmd til hagsbóta fyrir íslenskt samfélag.

Við erum ekki í stjórnmálum til að vera pólitískt uppfyllingarefni fyrir aðra flokka.

Í umræðum um ríkisstjórnarsamstarf höfum við lagt áherslu á að stjórnmálaflokkar landsins taki höndum saman og sameinist um ákveðin brýn viðfangsefni;  sérstaklega að koma atvinnulífinu  í gang, leysa úr skuldavanda heimila og fyrirtækja og koma bankakerfinu  á stað.

En  stjórnarsamstarf yrði alltaf að vera á forsendum málefnanna.

Á forsendum þess sem er til hagsbóta fyrir íslensku þjóðina.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 12.4.2011 - 07:54 - 3 ummæli

Sjávarútvegsstefna Framsóknar

Flokksþing Framsóknarmanna samþykkti nýja sjávarútvegsstefnu.  Hún er svohljóðandi:

Framsóknarflokkurinn leggur mikla áherslu á að ná sem víðtækustu sátt meðal þjóðarinnar um stjórnun fiskveiða. Til að nauðsynleg sátt og stöðugleiki náist þarf að móta skýra stefnu til lengri tíma, segir í ályktun Flokkþings Framsóknarflokksins um sjávarútvegsmál.  Sú stefna byggir m.a á eftirfarandi;

1. Framsóknarflokkurinn hafnar fyrningarleiðinni sem fiskveiðistjórnunartæki.
2. Stjórnun fiskveiðanna verði blönduð leið, annars vegar á grunni aflahlutdeildar á skip og hinsvegar úthlutun veiðileyfa sem taki mið af sértækum byggðaaðgerðum, hvatningar til nýsköpunar og til þess að auðvelda aðgengi nýrra aðila að útgerð.
3. Tryggja verður sameign þjóðarinnar á sjávarauðlindinni m.a. með ákvæði í stjórnarskrá sbr. lög nr. 116 frá 2006. – 1. gr.- Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar.
4. Úthlutun veiðileyfa verði gerð með þeim hætti að skilgreina tvo potta.

Pottur 1 þar sem gerður verði nýtingarsamningar á 20 ára, á grunni aflahlutdeildar á hvern bát. Samningurinn verði á milli ríkisins og íslenskra aðila með búsetu á Íslandi hið minnsta síðustu 5 ár. Samningurinn verði endurskoðanlegur á fimm ára fresti með möguleika á framlengingu til fimm ára í senn. Samningurinn skal taka mið af heildarstefnu framsóknarmanna í fiskveiðistjórnun þar sem móta skal takmarkað svigrúm til breytinga á samningstímanum. Nýtingarsamningurinn innhaldi m.a ákvæði um veiðiskyldu og takmarkað framsal.  Innleiða þarf varanlegt fyrirkomulag sem tryggir hreyfingu á aflaheimildum í framtíðinni. Skoða skal með hvaða hætti best sé að tryggja slíkt.  Settar verði takmarkanir við óbeinni veðsetningu aflaheimilda og leitað leiða til að draga úr veðsetningu greinarinnar. Breytingar verði þó ekki afturkræfar. Greitt verði fyrir nýtingarréttinn þ.e. svokölluð auðlindarenta eða árlegt veiðigjald. Gjaldið verði hóflegt og tengt afkomu greinarinnar.

Pottur 2 þar sem veiðileyfum verði úthlutað til;
a)      Fiskvinnslu. – Um er að ræða byggðaívilnun þar sem að aflaheimildum verði fyrst og fremst úthlutað á fiskvinnslur þar sem það á við. Fiskvinnslurnar semji við einstaka útgerðir um veiðar.
b)      Ferðaþjónustuveiða. – Þar sem þeim aðilum verði tryggð aflahlutdeild með því að landa aflanum sem VS-afla . Setja þarf sérstakar reglur um úthlutunina.
c)       Nýsköpunar. – Stuðningur við nýsköpun m.a. í meðafla leyfum, sérstökum úthlutunum auk beins fjárstuðnings.
d)      Strandveiða Nýliðunarpottur – Megin tilgangur strandveiða er að auðvelda nýjum aðilum að hefja útgerð og má hver aðili einungis halda á einu strandveiðileyfi. Varðandi nánari útfærslu strandveiðanna verði horft til tillagna SUF um strandveiðar.

Stefnt sé að því að Pottur 2 ýti undir nýsköpun og nýliðun, hvetji til frekari nýtingu auðlindarinnar, auk byggðatengdra aðgerða. Núverandi tilfærslur eru 3.5% af heildarþorskígildum og mjög mismunandi eftir tegundum allt frá 0-10%. Samhliða stofnstærðaraukningu einstakra tegunda vaxi Pottur 2 á allra næstu árum þannig að af tegundum sem engin tilfærsla er á í dag verði hann 3-5% og af öðrum stofnum allt að 10%.  Stefnt sé að Pottur 2 vaxi enn frekar, en þó aldrei meira en 15% af einstökum tegundum samhliða stofnstærðaraukningu og jákvæðari reynslu af úthlutunum til Potts 2.

5.  Veiðigjald/auðlindarentan sem greinin greiðir verði nýtt að hluta til nýsköpunar, rannsókna og markaðsstuðnings innan greinarinnar sjálfrar. Hluti renni til þess landsvæðis þar sem auðlindarentan verður til t.d. til atvinnuþróunarfélaga innan viðkomandi svæðis og hluti í ríkissjóð.

6. Sjávarauðlindin er í senn gjöful en takmörkuð. Því er mikilvægt að hlúa að nýsköpun og enn frekari nýtingu hráefnis til að skapa verðmæti og auka arðsemi. Setja þarf fram efnahagslega hvata til að auka nýtingu á hráefni sem í dag er illa eða ekki nýtt.

7. Mikilvægt er að nýta auðlindina sem skynsamlegast og byggja á grunni vísindalegrar þekkingar og sjálfbærni lífríkisins. Stefnt skal að því að setja fram langtíma nýtingarstefnu (aflareglu) um alla stofna sem miðist við að byggja þá upp til að þola hámarksnýtingu til langtíma.

8. Sjávarútvegur er grunn atvinnugrein þjóðarinnar. Mikilvægt er að menn átti sig á að sjávarútvegur er ekki bara veiðar heldur hátæknivæddur matvælaiðnaður sem byggir á öflugri  og þróaðri vinnslu og markaðsetningu. Hluti af því er nauðsynleg gæða- og umhverfisvottun.

9. Til að tryggja áframhaldandi forystu Íslendinga á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda hafsins verði sjónum í vaxandi mæli beint að umhverfislegum þáttum og augljósu samspili nýtingar hinna ýmsu tegunda hafsins.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 11.4.2011 - 15:49 - 22 ummæli

ESB að gefnu tilefni

Ályktun sem Framsóknarmenn samþykktu er svohljóðandi:

„Framsóknarflokkurinn telur hag lands og þjóðar best borgið utan Evrópusambandsins.  Nú sem fyrr standa auðlindir þjóðarinnar undir velferð hennar og fullt og óskorað forræði á þeim er forsenda farsældar til framtíðar.  Framsóknarflokkurinn telur að þjóðin skuli ætíð eiga beina aðkomu með þjóðaratkvæðagreiðslu að ákvörðunum um stórmál eins og aðild að Evrópusambandinu og mun berjast fyrir þeim rétti að hagsmunum þjóðarinnar sé best borgið fyrir utan Evrópusambandið.“

Ályktanir sem var hafnað segja ekkert til um stefnu flokksins, aðeins sú ályktun sem var samþykkt.

Í ESB ályktun okkar er ekkert um að hætta eigi viðræðum við Evrópusambandið.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 11.4.2011 - 11:55 - Rita ummæli

VG og jafnréttið

Vinstri Grænir hafa skilgreint sig sem flokk sem hefur kvenfrelsi og jafnrétti í hávegum

Því hljóta fylgismenn flokksins að vera klóra sér í kollinum yfir fréttum um að þingflokkurinn hafi ákveðið að víkja konu úr sæti þingflokksformanns fyrir karl.

Árni Þór Sigurðsson tók við starfi þingflokksformanns í fæðingarorlofi Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur, og í frétt á Eyjunni kemur fram að rætt hafi verið að víkja henni úr sætinu jafnvel á meðan hún var í fæðingarorlofi.  Rökin fyrir þessari ákvörðun virðast vera að formaðurinn treystir ekki Guðfríði Lilju til að sitja og standa eins og hann vill.

Hvers konar skilaboð eru þetta til samfélagsins?

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 11.4.2011 - 08:52 - 2 ummæli

Eftirköst Icesave…

Það er búið að vera áhugavert að fylgjast með viðbrögðum Breta og Hollendinga frá því að nei-ið lág fyrir. 

Þeir eru frekar varkárir.  Aðstoðarráðherrar og efnahagslegri ráðgjafar eru að tjá sig, ekki ráðherrarnir sjálfir. Þetta er sambærilegt og þegar Hrannar mætir í stað Jóhönnu = kemur ákveðnum skilaboðum á framfæri en skuldbindur ekki ráðherrann.

Vantrú þeirra á eignum þrotabúsins er mikil.  „Það gæti stefnt í það að við fengjum uppundir 100% út úr Landsbankanum og það erum við að vonast til að gerist,“ sagði Jóhanna  Sigurðardóttir í Kastljósviðtali og vísaði þá til þess að eignir bankans gætu staðið undir öllum Icesave-skuldbindingum Íslendinga.  Sylvester Eijffinger, prófessor í hagfræði við Tilburg-háskóla og einn ráðgjafa Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands í Icesave-deilunni hnussar nú yfir svona yfirlýsingum og sagði þeir sem tryðu því lifðu í blekkingum. Hmmm…

Viðbrögðin eru ekki eins.  Hollendingar hóta ESB umsókninni, ekki Bretar.  Það er væntanlega vegna þess að Bretar þekkja betur til hér á landi og vita að hótun gagnvart ESB umsókninni er eins og að skvetta vatni á gæs.  Þeir leggja því áherslu á að nú verði höfðað mál fyrir alþjóðlegum dómstólum.

AGS ítrekar að Icesave sé ekki skilyrði.  Okkar ágæti Franek lagði áherslu á það í viðtali að lausn Icesave deilunnar hefði aldrei verið skilyrði frá hendi Alþjóðagjaldeyrissjóðins.  Lítið heyrist enn sem komið er frá Norðurlöndum og Pólandi.

Fátt eitt hefur því komið á óvart enn sem komið er.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur