Sunnudagur 08.03.2015 - 11:10 - Rita ummæli

„Borðaðu hrökkbrauð og drekktu meira vatn“

Eva_HuldÞessi pistill er eftir Evu Huld Ívarsdóttur og birtist hér með leyfi höfundar:

„Borðaðu hrökkbrauð og drekktu meira vatn“ var setning sem ég fékk að heyra í mæðravernd, komin 5 mánuði á leið. Ég þurfti að vigta mig í hvert sinn sem ég mætti á heilsugæsluna. Ég byrjaði á að hengja upp úlpuna mína, fara úr skónum og stíga á vigt. Fara svo inn og segja ljósmóðurinni töluna og fylgjast með henni reikna út hve mikið ég hafði bætt á mig. Daginn sem hún sagði mér að fara að borða hrökkbrauð (ráð sem ég hef fengið oftar en ég kæri mig um að muna) fór þyngdin upp í nýjan tug. Kílóatölu sem ég hafði komist niður fyrir einhverjum árum áður og óttaðist eins og rauðan dauðan. Enda sá ég rautt þegar ég horfði á vigtina og forðaði mér af henni hið snarasta.

Ég og vigtir eigum nefnilega sögu. Sú var tíðin að ég steig á slíka hátt í 30 sinnum yfir daginn. Megranir eru nefnilega dauðans alvara og ekki dægradvöl eða partur af því sammannlega málefni sem matur er, að njóta þess að borða og skiptast á uppskriftum, þetta höfum við verið minnt rækilega á í fjölmiðlum undanfarna daga. Það var lánið mitt þennan dag að á sama tíma var ég í meðferð við átröskun, lánið mitt því ég veit ekki hvað hefði gerst og hvernig ég hefði unnið úr þessu ef ég hefði ekki átt tíma hjá sálfræðingi daginn eftir, eða ef ég hefði ekki mætt. Ég hafði líka nægan tíma um þessar mundir því yfirmanninum mínum hafði þótt undirförult af mér að verða ólétt og rak mig. Mér tókst að drekka eina Hleðslu það sem eftir lifði dags og náði fljótt góðu róli aftur. Því ég bar jú ábyrgð á einhverju mikilvægara en mér.

Ég fékk mikla hjálp, var hjá sálfræðingi með góða þekkingu á vandamálinu sem styrkti mig og hjálpaði mér að sjá og leiðrétta hugsanaskekkjurnar. Ég talaði líka reglulega við næringarfræðing sem fór með mér yfir það sem ég borðaði og fullvissaði mig hægt og rólega um að það væri ekki á mínu valdi hvað ég þyngdist mikið á meðgöngunni. Ekki frekar en ég réði hvernig veðrið yrði daginn eftir. En þetta var byltingarkennd hugmynd, eiginlega sú klikkaðast sem ég hafði heyrt um dagana. Að þyndin mín og líkamsform var ekki eitthvað sem var á mínu valdi, ekki á meðgöngu og ekki aðra daga ársins. Og ég varð að gera allt sem ég gat fyrir þetta barn sem mér var svo umhugað um, og skyndilega skipti líkami minn máli. Hann var ekki bara gangandi martröð og verkefni sem var á allra vitorði að ég réð ekki við, ekki bara sjáanlegt merki um að ég væri agalaus og mislukkuð. Heldur var hann eiginlega svolítið dýrmætur og ég þurfti að vera með honum í liði.

Þegar ég mætti næst í mæðraverndina og steig á vigtina sá ég þetta skýrar. Ég hafði ekki bætt á mig sex kílóum, þau voru bara tvö. Heilbrigðisstarfsmaðurinn sem tók meðgönguskýrsluna af mér (og hafði verið samferða mér alla meðgönguna, skráð niður að ég væri í meðferð við átröskun og hrósað mér fyrir að takast á við vandann) efaðist ekki einu sinni um að ég hefði lesið vitlaust á vigtina eða velti því fyrir sér hvort væri æskilegt fyrir konu að sjá sjálf um vigtunina, hafandi geðrænan sjúkdóm sem nánast grundvallaðist á hugsannaskekkjum á gildi þess sem vigt segir. Hún sagði mér bara að borða hrökkkex.

Ég útskrifaðist úr átröskunarmeðferðinni ekki löngu eftir að ég átti dóttur mína, því ég var jú ekki svo veik að ég þyrfti hjálp á göngudeild Landspítalans lengur og margar verr staddar en ég þurftu að komast að. Maðurinn minn hvatti mig til að athuga hvort einhver á heilsugæslunni gæti hjálpað mér með alla þessa vanlíðan, kannski væri ég með fæðingarþunglyndi. Blóðprufa var tekin og ég greind með vanvirkan skjaldkirtil. Ég bað um að tala við sálfræðing en það gerðist aldrei. Ég fór að taka hormóna en ekkert breyttist nema blóðprufurnar. Í dag hef ég loks ratað til góðs sálfræðings sem getur hjálpað mér með þetta og hjálpað mér að halda bata. Það er stundum erfitt í fársjúku samfélagi.

Ég er auðvitað efins um að skrifa um þetta. Ég er pínu hrædd um einkalíf mitt og æruna. En ég óska þess bara svo heitt að við bætum samfélagið sem við búum í. Ég læt mig dreyma um að ég verði síðasta stúlkan sem byrjar í megrun 6 ára og mistekst alla ævi. Að ég verði sú síðasta sem hélt og trúði innst inni að hún væri einskis verð ef megrunin tækist ekki. Sú síðasta sem á að baki fjölda ára í baráttu við þessa þráhyggju og hörmungar. Sem lifðir í einskonar helvíti þar sem tala ræður ríkjum og allir virðast með augun á því hversu nálægt henni hún er.

Mig langar svo til þess að við sleppum takinu aðeins af holdarfarinu okkar og útliti og förum að leggja áherslur á hluti sem skipta máli. Ég hef varla hitt þá konu sem óttast ekki að þyngjast á meðgöngunni, eða hefur liðið á einhvern hátt illa eftir hana vegna eðlilegra breytinga á líkama hennar. Ég get e.t.v. talið á fingrum annarar handar hversu margar konur ég þekki sem hafa heilbrigt og afslappað viðhorf til holdarfars. Getum við látið líkama kvenna í friði? Getum við leyft þeim að vera eins og þeir eru? Getum við hætt að tala um megrun? Getum við bætt heiminn? Þetta er samfélagslegur kvilli, ekki bara mitt vandamál eða vandamál kvenna þó þar liggji minn reynsluheimur.

Ég þurfti að skrifa þetta niður eftir umræðuna undanfarið, ég trúi að við getum breytt heiminum og að við skiptum öll máli, sama hvernig og í hvaða stærð. Þetta er það sem liggur mér á hjarta því líf eru allt of verðmæt til að fara svona með þau. Fólk byrjar í megrun daglega í þeirri trú að það sé ekki nógu gott eins og það er og það er ekki eðlilegt. Fólk græðir á að ljúga að okkur og ég er bara þakklát að hafa lifað þetta af. Fyrir að hafa öðlast frelsi til að hætta í megrunn, (lífstílsbreytingu) þráhyggju. Getum við hætt að hugsa og tala svona mikið um útlit og megrun? Mér er dauðanns alvara.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og þremur? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com