Þriðjudagur 03.02.2015 - 19:34 - 4 ummæli

Birtingarmynd fitufordóma hjá börnum vs. fullorðnum

Ég rakst á grein um daginn, aðsendan pistil inn á bleikt.is. Þar talar hún Sædís Inga Ingimarsdóttir um einelti sem hún varð fyrir á grunnskólaárunum sem hún telur sig hafa orðið fyrir vegna holdafars síns. Hún vísar til þess að oft virðist sem holdarfar sé gild ástæða til eineltis og rifjar upp hvernig hún var meðal annars kölluð belja, fituhlussa, offitusjúklingur, hlass og hvalur. Þessi reynsla hefur ennþá áhrif á hana í dag og tekur hún fram að “sumt grói aldrei á sálinni”. Ég hika ekki við að kalla svona hegðun fitufordóma, jafnvel þó að gerendurnir séu ung börn sem skilja jafnvel ekki hugtakið fordómar. Í nýrri handbók fyrir starfsfólk skóla, Ofbeldi gegn börnum – hlutverk skóla, sem gefin er út á vegum Vitundarvakningar Velferðarráðuneytisins um kynferðislegt, andlegt og líkamlegt ofbeldi gegn börnum er sérstaklega tekið fram að fordómar séu meginorsök ofbeldis og að grunnskólar gegni stóru hlutverki við að stuðla að eflingu jafnréttis- og lýðræðisvitundar nemenda sinna, og í leiðinni að draga úr fordómum. Það sem vakti kannski sérstaklega athygli mína var að nokkrar algengustu tegundir fordóma sem valda ofbeldi eru nefndir og þar á meðal eru fordómar gagnvart feitum börnum. Tel ég þetta til marks um að almenningur er að vakna til vitundar um skaðleg áhrif fitufordóma og áherslu á grannan líkamsvöxt.

 

Stríðni og einelti á grundvelli fitufordóma skera sig þó enn frá öðru einelti að vissu leyti því að meira er um að hinir fullorðnu samþykki það. Þeim þykir vissulega leiðinlegt að barnið skuli verða fyrir einelti og telja það að sjálfsögðu ekki eiga slíkt skilið. Hinsvegar verði foreldrar barnsins „að fara að hugsa sinn gang. Offita barna og ungmenna í dag sé jú orðið að brýnu heilsufarsvandamáli og að lífsgæði barnsins hljóti að verða fyrir skerðingu vegna hinna meintu heilsufarsvandamála. Ekki sé nóg með það heldur mun barnið deyja langt fyrir aldur fram ef ekkert verður að gert!“ Þegar fullorðið fólk ber þessar tilvitnanir fyrir sig heyri ég ekkert annað en afsakanir fyrir því að halda áfram nákvæmlega sama ofbeldinu og barnið verður fyrir frá jafnöldrum sínum. Krakkarnir eru einfaldlega heiðarlegri með það, þeim finnst feita barnið bara ljótt og annars flokks. Allavega sé ég seint fyrir mér að sönglað sé á leikvellinum: “nananabúbúúú, þú munt deyja fyrir þrítugt vegna kransæðastíflu, ekki ééééég!!”.

 

Fyrir lesendur sem vilja meina að offita barna sé stöðugt vaxandi heilbrigðisvandi sem beri svo sannarlega að taka alvarlega…ég er ekki hissa! Það eru skilaboðin sem við fáum frá samfélaginu og þá helst fjölmiðlum. Ég bið ykkur hinsvegar að hafa það í huga að þyngd íslenskra barna hefur ekki orðið fyrir marktækum breytingum frá aldamótum. Sama er uppi á teningunum með fullorðna Íslendinga. Íslendingar eru jafnframt með langlífustu þjóðum heims en við erum til dæmis í 5. sæti yfir þau lönd sem hafa hvað hæstu lífslíkurnar innan OECD. Langlífisspár gera ekki ráð fyrir lækkandi lifialdri Íslendinga. Ennfremur erum við í fjórða sæti yfir heilbrigðustu þjóðirnar innan OECD sem hafa sambærileg gögn þess efnis. 77.8% Íslendinga teljast nú við góða heilsu. Á sama tíma erum við þó í tíunda sæti yfir feitustu þjóðirnar. Við vorum ekki einu sinni svona heilbrigð og langlíf. En við höfum tekið miklum framförum og lífstílsbreytingum undanfarna áratugi… og viti menn, á sama tíma og við fitnuðum hvað mest! Eins og sést haldast langlífi og heilsufar ekki endilega í hendur við holdafar. Jafnan milli holdafars og heilsufars er einfaldlega mun flóknari en svo. Svo margir þættir koma við sögu að við erum meira að segja langt frá því að þekkja þá alla. Því tel ég okkur verða að leyfa feitu fólki að njóta þessa vafa, ef ekki hreinlega falla frá öllum ályktunum um áhrif holdafars á heilsu. Þannig tryggjum við mannréttindi allra óháð holdafari.

 

Flokkar: Fitufordómar

«
»

Ummæli (4)

  • Hver fjandinn er ,,holdaRfar“?

    HOLDA-(R)-FAR ??

  • Tara Margrét Vilhjálmsdóttir

    Sæll Páll og þakka þér fyrir þessa vinalegu athugasemd. Ég er búin að laga þetta 🙂

  • Gunnar Valdimarsson

    Hvaða tíu þjóðir í heiminum eru feitari en Íslendingar? Mér þætti gaman að vita það vegna þess að ég get ekki ímyndað mér feitara fólk en okkur Íslendinga.

  • Tara Margrét Vilhjálmsdóttir

    Sæll Gunnar, er ekki er um að ræða allar þjóðir í heiminum heldur þær sem eru innan OECD-svæðisins. Mér finnst mjög merkilegt að þú segist ekki geta ímyndað þér feitari þjóð en Íslendinga. Hvað ætli liggi þar að baki? Ætli það sé samfélagsumræði og áhrif fjölmiðla? Ef þú eltir linkinn í blogginu geturðu séð skýrsluna sem ég vitna í.

    í réttri röð eru feitustu þjóðirnar innan OECD þessar:
    1. US
    2. Mexíkó
    3. Nýja Sjáland
    4. Ástralía
    5. Kanada
    6. Chile
    7. UK
    8. Lúxemborg
    9. Írland.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og einum? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com