Föstudagur 18.12.2009 - 20:15 - 12 ummæli

Beðið í Bellasentri

Stjórnmàlamenn tala, leiðtogar gera – stóð à borðanum sem veisluklæddir Greenpeacemenn breiddu út þegar þeir höfðu komist inn í kvöldmatinn hjà Danadrottningu í gær — og hér í Bella Center, Hopenhagen, er enn beðið eftir öðru frà aðalleikurunum en misfögrum flaumi orða. Ekkert hefur frést af Obama síðan fundur hans og kínverska forsætisràðherrans Jiabao hófst um sjöleytið, og vonleysisblær farinn að færast yfir mannfjöldann hér í sölunum – en ràðstefnuninni àtti samkvæmt dagskrà að ljúka klukkan sex.

Obama var flottur í ræðustól eftir hàdegið og sagðist mundu reyna allt til að nà samkomulagi í dag. Gaf þó ekkert eftir efnislega. Öfugt við Lulu frà Brasilíu sem hélt glæsilega ræðu à undan Obama og sagði meðal annars að Brasilíumenn væntu þess engan veginn að fà fé úr lofstlagssjóðinum sem er eitt helsta deiluefnið – heldur væru reiðubúnir að borga í hann! Það er til tíðinda að í blaðamannasalnum var klappað eftir ræðu Lúlús, en sú stétt er annars ekki afar uppnæm fyrir màlrófi stjórnmàlamanna.

Enginn veit enn hvað verður, en meðan leiðtogarnir eru à staðnum lifir vonin um niðurstöðu – og það eru þeir nokkurnveginn allir nema Medvédév sem er farinn heim en mun hafa falið næstu mönnum umboð til að semja ef færi gæfist à.

Til marks um breytingarnar í heimspólitíkinni er auðvitað að sà öxull sem öllu skiptir núna í Kaupmannahöfn liggur milli Kana og Kínverja – sem hér koma fram sem forystumenn þróunarríkjanna. Hópur þeirra heitir à ràðstefnsku $G-77% sem upphófst sem stuttnefni óhàðra ríkja à kaldastríðstímum og rúmar nú 134 ríki alls. Ríki nuumer 135 er svo Kína, og heiti hópsins hér er $G-77 and China%.

Evrópusambandið kemur fram sem einskonar sàttasemjari milli Peking og Washington, en hlutverk og staða Rússa er à hinn bóginn fekar óljóst.

Það fer svo ekki à milli màla að ríkin Indland, Brasilía og Suður-Afríku eru komin í fremstu röð í alþjóðastjórnmàlum, en Íran aðeins fjær sviðsmiðju.

Athygli hér í dag vöktu annars félagarnir Chávez og Morales, suðuramerísku vinstriforingjarnir sem margir evrópskir róttæklingar hafa fest við vonir sínar. Og vonandi eru þeir að gera merkilega hluti í löndum sínum en sà bernski popúlismi sem þeir stunduðu à leiðtogafundinum bendir ekki til þess að þeir séu í mikilli alvöru. Það var samt ekki annað hægt en að brosa þegar Chávez gerði stólpagrín að Obama — fyrir að sitja ekki í sæti sínu einsog aðrir heldur læðast inn um svolitlar hliðardyr í púltið og skjótast svo þangað aftur eftir ræðuna. — Þetta verða líka lokin à valdastefnu gringóanna, sagði Chávez: Hún hverfur út um litlar hliðardyr í mannkynssögunni.

Ha, ha — gaman, gaman. En hvernig var þetta aftur með loftslagsvàna, àgæti herra Hugo Rafael Chávez?

Og enn er beðið í Bellasentri. Eftir foringjum sem gera annað en að tala.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 18.12.2009 - 10:19 - 1 ummæli

Bjartar vonir vakna og slokkna og vakna …

Í gærkvöldi og í morgun hefur verið bjartara yfir Bellusentri en alla vikuna áður – leiðtogafundurinn hafinn og spár um nýja gerjun virðast hafa ræst. Hillary Clinton var miklu sáttfúsari í hádeginu í gær en bandarískir embættismenn áður mörg dægur, og þegar Hillary var búin að lofa stuðningi við loftslagssjóðinn mikla gáfu Kínverjar líka eftir og sögðust vera til í eftirlit bara ef það væri innan fullveldismarka. Afríkuríkin höfðu þegar teygt sig lengra með frumkvæði Etópíumanna og lunginn af þróunarríkjunum er reiðubúinn til samninga þótt niðurstaða þeirra verði ekki í samræmi við væntingar.

Obama er kominn í hús og nú er beðið eftir að formleg ráðstefna þjóðarleiðtoga hefjist hér í stóra salnum – tónninn þar gæti sýnt hvert stefnir. Rétt áðan heyrðust dauflegir tónar frá dönskum og sænskum samningamönnum, sem eru hér í lykilstöðu, gestgjafar annarsvegar, forsætishafar ESB hinsvegar – en þar gæti verið í gangi sá leikur að draga úr væntingum til að málamiðlun seinna verði betur tekið – vonar maður að minnsta kosti.

Heldur engan en vondan?

Auðvelkt samt  að skilja þá sem ekki vilja málamiðlun og telja engan samning betri en vondan samning, sem þeir hafa til dæmis sagt báðir, Tútú Höfðaborgarbiskup og hinn virti loftslagsfræðingur Jim Hansen frá New York. Leiðtogar Túvalús og Maldíveyja segjast ekki geta skrifað undir sjálfsmorðssamning – eyjar þeirra eru á leiðinni í hafið og líklega glataðar ef hlýnun fer uppundir 2 gráður, en það er hér almenn viðmiðun, og meðal annars stefna ESB, Norðmanna og Íslendinga.

Það fer auðvitað eftir því hvað samningurinn er vondur – en ég held hann þurfi að vera ansi vondur til að vera verri en enginn. Al Gore lagði áherslu á þetta í fyrradag og benti á ósonlagssamninginn sem fyrirmynd (sá er kenndur við Montréal) – þegar hann var gerður töldu margir að samningsákvæðin væru alltof slök og árangur næðist ekki, en reyndin varð sú að samningurinn sjálfur og athyglin sem hann vakti – meðal almennings, stjórnmálamanna, vísindamanna og viðskiptaleiðtoga – leiddi til þess að skrúfurnar voru hertar í áföngum og þjóðir heims eru á góðri leið með að fella þann dreka. En nú er náttúrlega meira undir, og fólkið á Maldíveyjum, á Túvúlú og í Bangla Dess hefur ekki mikinn tíma að bíða eftir endurbótum – og kannski ekki heldur kóralrifin í Íslandshöfum þar sem upp vaxa seiði nytjafiska sem við lifum af. Þá er það líka okkar almennings í heiminum, að þrýsta á um hraðar hendur.

Saman eða sundur

Samningur hér er líka nauðsynlegur vegna þess að það er enginn anar valkostur. Nú er auðvitað ekki allt búið á morgun, Kyotosamningurinn rennur til dæmis ekki út fyrren í árslok 2012, en sérfræðingarnir tala um næstu fimm til tíu ár til að snúa við loftslagsþróuninni, síðar verði það of seint. Það merkir að samkomulag um aðgerðir þarf að nást núna. Helst í gær.

Ef enginn samningur næst hér í Kaupmannahöfn, eða bara kattarþvottarsamningur, er hætt við að ekki verði reynt aftur sömu leiðina í bráð. Þá tækju líklegast við tilraunir einstakra ríkja og ríkjablokka, svipað og Bush reyndi með sérsamningum við Indverja og fleiri, sem í orði kveðnu voru um loftslagsvána en snerust í raun öllu heldur um hefðbundin viðskipti og jafnvel hernaðarsamvinnu. Þá er líka hætt við að byr yxi undir vængjum allskyns efasemdarmanna og afneitara, til dæmis af tagi Lomborgs hins danska, sem að vísu er farinn að viðurkenna loftslagsvána en telur að hún eigi að leysast af sjálfu sér, með einum saman auknum peningum í vísindarannsóknir og tækniþróun.

Endi Kaupmannahafnarráðstefnan í klúðri kynni vera úti um þau samtök gegn vandanum sem felast í forustu Sameinuðu þjóðanna og þeim vinnubrögðum og alþjóðasýn sem undir liggur: Að allir komi að borðinu, að tillit sé tekið til margvíslegra sjónarmiða, að einnig sé virtur réttur hins fáliðaða, tekið mark á samtökum borgaranna og lokamarkmiðið sé sem almennust samstaða um tiltekna lausn. Það er létt verk að skjóta niður þessi fögru orð með dæmum frá undanförnum áratugum um yfirgang stórveldanna og tilgangsleysið hjá kjaftaskjóðum diplómasíunnar – en eigum við aðra aðferð betri? Heldur einhver að stórveldin geti hindrað loftslagsvána uppá sitt eindæmi?

En nú er leiðtogafundurinn að hefjast í Tycho-Brahe-salnum og yðar einlægur hlaupinn að athuga hvort heimurinn bjargast ekki rétt einusinni.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 17.12.2009 - 16:32 - 5 ummæli

Votlendið með – ef þeir semja

Íslenska samninganefndin hefur náð góðum árangri hér í Kaupmannahöfn – ef yfirhöfuð verður af samningum. Merkasta afrekíð er líklega að hafa náð endurheimt votlendis inn í framlengda Kyoto-bókun, sem ekki var í hinni fyrri, þannig að Íslendingar geti talið sér til tekna hvern endurnýjaðan votlendisrúmmetra í kolefnisbókhaldi framtíðarinnar.

Þetta er mikill ávinningur. Annarsvegar vegna þess að  með þessu eigum við kost á því að vinna okkur inn tiltölulega létta kolefnispunkta – bara moka ofan í skurðina! Hinsvegar gefur ákvæði af þessu tagi Íslendingum færi á að slá tvær flugur í einu höggi – ef ég má nota svo léttskapaða myndlíkingu um alvörumál – að berjast gegn loftslagsváanni og greiða svolítið af skuld kynslóðanna vð landið, gródri, fuglum og landslagsfegurð til ágóða. Þetta mundi líka setja kraft í endurheimtarvinnu sem liggur held ég nokkurnveginn niðri í augnablikinu eftir dauflegt starf einhverrar nefndar hjá Guðna frá Brúnastöðum.

Á fundi Svandísar ráðherra og samningamannanna núna áðan með öðrum íslenskum þátttakendum og athugendum hér í Bellusentri var samningafólkið að vonum glatt með þessa niðurstöðu og aðrar í sérstökum hagsmunamálum Íslendinga. Þær eru að sönnu ennþá í hornklofum í samningatextunum og bíða lokastaðfestingar – sem er svo háð því að samningar náist á annað borð, hér í Höfn eða á næstu fundum. En hér hefur verið vel að verki staðið og um þvert á væntingar. Yðar einlægur taldi til dæmis í fyrradag í þessu bloggi að votlendið væri alveg vonlaust – en nú skal ég glaður éta hattinn minn (eða öllu heldur ullarhúfuna sem varð eftir heima á Laugavegi og er sárt saknað í Eyrarsundskuldanum!).

Kynjatillit og græn orka

Þau í samninganefndinni telja upp fleira en votlendið – auðvitað ESB-samninginn sem setur loftslags- og losunarmálin í nýja stöðu, en að auki er inni í tæknikafla annars aðalplaggsins áhersla á endurnýjanlega orkugjafa sem okkur gagnast, og svo hafa íslenskar áherslur á kynjatillit – stöðu kvenna og hlutverk gagnvart loftslagsvánni – ratað á trausta staði í samningsdrögunum.

Hér hafa að sjalfsögðu komið við sögu bandamenn á hverju sviði um sig – Japanar eru til dæmis áhugasamir um votlendisendurheimt, og kvennabandalagið nær víða um heiminn einsog hér var rakið í pistli í gær. Allt um það hafa ráðerra og ríkisstjórn og samningamenn staðið sig prýðilega að halda fram hagsmunum Íslands, öfugt við ýmsar hrakspár, svosem hjá hinum ágætu leiðarahöfundum á Mogga.

Hillary með peninga

Rétt fyrir hádegið kom Hillary Clinton í Bellasentur og tókst að lyfta nokkuð hugum manna úr djúplægðum morgunsins – einkum með yfirlýsingu sinni um stuðning Bandaríkjastjórnar við þróunarsjóðinn mikla sem hefur verið ein af aðalkröfum þróunarríkjanna. Hún nefndi 100 milljarða dollara, sem er sama tala og ESB-leiðtogar hafa talað um, en setti svosem í staðinn fram kröfur um fullt gagnsæi í aþöfnum þróunarríkjanna – Þorunn fylgdist með blaðamannafundinum og giskar á að það orð – transparency – hafi komið út úr Hillary svona fimmtán sinnum.

Þott hér sé heldur bjartara yfir eftir tölu Hillarýar og aðra sáttatilburði í dag er allt enn algerlega óvíst um úrslit og framhald. Okkar menn þorðu engu að spa á fundinum áðan, en í loftinu liggur að ef samkomulag tekst verði það um ,,tvöfalt spor“ — annarsvegar  framhald á Kyoto-bókuninni og hinsvegar samhliða samning þar sem Bandaríkin eru med svipaðar skuldbindingar og önnur iðnríki, og öflugustu þróunarríkin – til dæmis Kína, Indland, Suður-Kórea — taka líka á sig skuldbindingar. Sum þeirra ef til vill ekki um samdrátt heldur hægari aukningu! Við þetta bættust svo örugg fyrirheit um fé frá i- til þ-ríkja í nafni loftslagsréttlætis — ,,climate justice“.

Líbía talar við mannkynið

Á meðan þessu fer fram stígur hver þjóðarleiðtoginn af ödrum í ræðustól og talar af gríðarlegri snilli og krafti og innsæi. Ég hlustaði áðan á Morales frá Bólivíu, hann sagði nokkurnveginn að í heiminum væru bara tveir kúltúrar. Það eru kúltúr dauðans, nefnilega kapítalisminnn, og kúltúr lífsins, nefnilega sósíalisminn. Þetta þótti 17 ára unglingnum inni í mér meiriháttar ræða. Fullorðnari öfl í heilabúinu voru samt eitþvað að nöldra um hvernig þessi kenning leysti loftslagsvandann – þangað til gerð var málamiðlun um að bíða eftir framlagi Ahmadínedjads Íransforseta til fræðanna um gott og illt í henni veslu.

Annars eru þetta forsetar og forsætisráðherrar mestanpart, en líka umhverfisráðherrarnir sem hingað til hafa borið hitann og þungann – Svandís talar einhverntímann um miðnættið fyrir okkar hönd þótt Jóhanna sé mætt í borgina.

Fyrir sum ríkin tala svo aðrir ráðherrar eða ráðamenn eftir atvikum – en ekkert ríki kemst þó með tærnar sem Líbíustjórn hefur hælana við að sýna markmiðum ráðstefnunnar fullkomna fyrirlitningu. Fyrir hönd Gaddafís eyðimerkurljóns talar hvorki forsætisráðherra hans né umhverfisráðherra né nokkur annar ráðherra — heldur forstjóri Olíufélags ríkisins.

Takk fyrir að Gaddafí stjórnar ekki nema í Líbíu. Nóg er nú samt standið á Goddastöðum.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 17.12.2009 - 10:29 - 4 ummæli

Yes We Can – en þorir hann?

Löngu er ljóst að ekki yrði undirritaður bindandi samningur hér í Höfn um næstu skref eftir Kyoto, en menn vonast enn eftir „ákvörðun um ákvörðun“ — að ríki heims sameinist um samningsramma,  helstu útlínur samnings og ekki síst tímafrest til undirritunar. Gore hefur lagt til að það verði í Mexíkó í júlí á næsta ári. Ef þetta tekst í Kaupmannahöfn hefur til nokkurs verið fundað – en ef ráðstefnunni hér í Bellusentri lýkur með allt upp í loft, eða með einhverri skítareddingu til að bjarga andlitinu á helstu leiðtogum veraldar – þá er hætt við að ekki takist að ná samkomulagi næstu misserin – þangað til það verður of seint, eða kostar fórnir sem illmögulegt verður að ná saman um.  

Margt hefur samt gerst hér í viðræðunum síðasta sólarhringinn – Afríkumenn hafa sýnt samningsvilja með því að slá af fjárkröfum, Kínverjar lýst því yfir að þeir þurfi enga peninga frá iðnríkjum, Bretar og Frakkar sýnt frumkvæði – en eitt hreyfist ekki og það er afstaða Bandaríkjamanna sem öllu ræður, þeirrar þjóðar sem mest mengar, bæði alls og á mann, eina iðnríkisins sem ekki var með í Kyoto-skuldbindingunum.

Todd Stern sem stjórnar sendinefnd Kana hefur sagt að engin von sé til þess að þeir breyti afstöðu sinni sem kynnt hefur verið um samdrátt – sem nær alltof skammt, eða verði með í nýrri Kyoto-bókun. Það geti ríkisstjórnin því miður ekki gert af því hún hafi ekki þingið með sér. Þeir tregðast þessvegna við öllum kröfum þróunarríkjanna, óraunhæfum jafnt sem sanngjörnum, og nú er staðan orðin þannig að ef ekkert hreyfist af hálfu Bandaríkjanna er þetta búið spil hér í Kaupmannahöfn, þótt sjálfsagt komi aðrir – ESB-leiðtogarnir einkum – og reyni að plástra yfir svöðusárið.

Yes We Can

Þetta er skrýtin staða fyrir Barack Obama – því hann hefur þegar gengið lengra en nokkur annar Bandaríkjaforseti í loftslagsmálum. En ekki nógu langt. Og eitt af því sem hindrar Obama í að ganga lengra er sú byltingartilraun á ameríska vísu sem nú stendur yfir í þinginu vestra í heilbrigðis- og tryggingamálum. Þar munar mjóu – og Obama-menn óttast að ef lengra verði gengið í loftslagsskuldbindingum falli bæði málin um sjálf sig.

Þetta má skilja, en ekki afsaka: Það er einfaldlega of mikið undir hér í Höfn, og nú er spurt um hugrekki Obama. Yes We Can, sagði hann í kosningabaráttunni, og hann getur vissulega ráðið úrslitum síðustu dægur Kaupmannahafnaráðstefnunnar – en þorir Obama?

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 16.12.2009 - 15:23 - 10 ummæli

Fréttablaðið langflottast

Aðeins einn íslenskur fjölmiðill tímdi að senda mann til Kaupmannahafnar út af loftslagsráðstefnunni miklu. Það er Fréttablaðid sem hefur hér hinn trausta blaðamann Kolbeinn Óttarsson Proppé, og síðustu daga hefur Fréttablaðið verið langflottast – nema eitthvað sé að gerast í miðlunum heima sem ekki sést gegnum netið.

Fréttablaðið í dag segir frá raðstefnunni einsog hvert annað stórblað, með allar helstu fréttir og leiðara þar sem um stöðuna er fjallað af spöku viti – enda full ástæða til, og enginn himinhrópandi kostnaður að senda mann út í viku, og þótt þeir væru fleiri.

Sjálft Ríkisútvarpið – fréttastofa, fréttáukar, dagskrárgerð, morgunútvarp, síðdegisdagskrá, Spegillinn og svo framvegis og svo framvegis – er fjarri viðburðum í Bellusentri. Ekki einn einasti maður að flytja tídindi frá rádstefnunni um framtíd veraldar – og ekki lengra að fara en til Hafnar þar sem RÚV hafði yfirleitt sérstakan fréttaritara hér áður. Við vitum að það eru ekki til miklir peningar, og auðvitað þarf að borga reksturinn á jeppa Páls Magnussonar – en er eíthvað að brenglast fréttamatið og forgangsröðin? Kannski erfitt að útvega kostun?

Annar rótgróinn og voldugur fjölmiðill er líka fjarstaddur, en þar er það einmitt forgangsröð og fréttamat sem ræður. Þad her náttúrlega Morgunblaðið undir stjórn Davíðs Oddssonar og Haralds Johannessens, sem báðir hafa lýst þeim viðorfum að lofstslagsváin sé bara lúalegt uppátæki vinstrimanna. Leiðinlegt fyrir þá sem eftir eru af vönduðum blaðamönnum á Mogga, en svona er lífið: Davíð ræður, og þið bara haldið áfram að skrifa um Icesave og skatta og hvað það er farið ósköp illa með þá í LÍÚ.

Á meðan rúlar Fréttablaðið.

Allt í hassí

Þad er annars að frétta af ráðstefnunni að hún er komin í kluður dauðans – þróunarríkin neita öllum hálfkákstexta og heimta bæði meiri peninga og að iðnríkin standi við fyrri peningaloforð. Bandaríkjamenn segjast ekki mega fara lengra útaf íhaldssömu þingi en þangað sem Obama er þegar kominn, sem er ákaflega skammt. Rádstefnustjórinn, Connie Hedegård umhverfisráðerra Dana, hefur sagt af sér og forsætisráðherrann, Lars Lökke Rasmussen, er tekinn við til að auka þungann í fundarstjórninni – en kann svo ekki einusinni skammstafanaslangrid og er einsog álfur útúr hól.

Enn festa menn vonir sínar við frumkvæði frá leiðtogunum sem eru að safnast saman í Höfn. Framkvæmdastjóri Greenpeace, Kumi Naidoo frá Suður-Afríku, sagði þetta vel á blaðamannafundi alþjóða-umhverfissamtakanna (CAN) í hádeginu: Staðreyndirnar segja okkur að við verðum. Tæknin segir okkur að við getum. Nú þurfa stjórnmálamennirnir að ákveða að við ætlum.

Svandís glæsileg

Umhverfisráðerra Íslendinga var skörugleg á fundi um loftslagsvá og kynjamisrétti sem Norðurlönd og tvö Afríkuríki stóðu fyrir uppúr hádeginu – Svandís var fundarstjóri, og ræðumenn ráðherrar frá Danmörku, Ghana, Gambíu og Finnlandi.

Hinar íslensku áherslur á hlut kvenna í loftslagsmálunum eru hárréttar – en vilja gleymast í karlasamfélaginu meðal samningamanna og diplómata. Margvíslegar afleiðingar koma verr niður á konum en körlum, meðal annars vegna þess að í hefðbundnum samfélögum eru þær staðbundnari og háðari nærumhverfinu en karlarnir. Það er vont fyrir alla vegna þess að konurnar eru víða (víðast!) hryggjarstykkið í fjölskyldunni, bæði kjarnafjölskyldum og stórfjölskyldum. Í þriðja heiminum eru konurnar líka sá sem er ábyrgur fyrir að útvega matinn, sækja vatnið, sjá um dýrin – og allt er þetta í hættu í loftslagstengdum hremmingum.

Konur geta á hinn bóginn verið fúsari og hugkvæmari að finna lausnir, bæði í þróunarríkjum og iðnríkjum. Þær standa fyrir landbúnaði í þriðja heiminum, og eru miklu virkari daglegir neytendur í iðnríkjunum en karlarnir – og á hvorumtveggja vígstöðvum ráða þær miklu um orkumál heimilisins. Ákvarðanir kvenna og val milli ýmissa mis-loftslagsvænna kosta geta þessvegna haft mikil áhrif.

Þetta var afar áhugavert og fylgdu miklar umræður ráðstefnugesta (já, næstum bara kvenna) úr öllum heimshlutum. Svandís stjórnaði heila gillimojinu af festu en miklum sjarma, og í þetta sinn þurfa Íslendingar engan veginn að skammast sín fyrir foringja á erlendri grund.

Rúsína í þessum snotra pulsuenda var svo viðurkenning sem loftslags-kvenna-samtök veittu tveimur ríkjum fyrir góða frammistöðu við að halda fram málstað kvenna (og karla!) á þessum vettvangi – Ghana og Íslandi.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 16.12.2009 - 09:57 - 3 ummæli

Loftslagsaðild að ESB!

Í gær gekk Ísland í Evrópusambandið – hér í Bella Center í Kaupmannahöfn.

Það er að segja í loftslagsmálunum. Við höfum nú tekið undir boð ESB um 30% samdrátt og gefið fyrirheit um að takast á hendur sömu skuldbindingar og „aðrar“ Evrópusambandsþjóðir. Þegar kominn er nýr samningur í Kyoto-stíl verðum við inni í ESB-pakkanum.

Þetta er auðvitað algerlega rökrétt. Sem EES-ríki átti Ísland þegar formlega aðild að losunarheimildakerfi sambandsins, en var í þeirri stöðu að engin starfsemi á landinu féll undir kerfið. Þetta er svo að breytast því næstu ár kemur flugið inn og svo álverin, og þá væri staða Íslendinga orðin undarleg og óþægileg ef stefna okkar í loftslagsmálum færi á svig við stefnu sambandsins.

Þessi nýja loftslagsaðild að ESB úreldir endanlega hið víðfræga „íslenska“ ákvæði. Það passaði aldrei við viðskiptakerfið, og var þessvegna í raun á svig við EES-aðild. Ákvæðið var einusinni-mál, og það vissu allir sem vildu vita – þótt Framsóknar- og Sjálfstæðismenn hafi fyrr og síðar reynt að beita því sem einhverjum sérstökum íslenskum ávinningi í gömlum og góðum þjóðernisstíl.

Loftslagsaðildin er af þessum sökum ekki alveg óvænt – en það er hinsvegar nokkuð sérkennileg staða að þetta gerist undir forustu umhverfisráðherra úr VG. Sýnir líka breytingarnar á þeim flokki – raunveruleikinn er tekinn við og lausnir á vanda dagsins leiða menn (a.m.k. suma!) gegnum skýjaborgaþokuna til skynsamlegrar niðurstöðu. Og ráðherrarnir á undan henni eiga líka sinn þátt í þessum merkilega viðburði, ekki síst Þórunn Sveinbjarnardóttir sem hér flögrar einmitt um salina, glöð og reif að vanda.

Kvennafundur

Íslenski ráðherrann, Svandís Svavarsdóttir, er annars í sviðsljósinu hér á loftslagsráðstefnunni í dag þegar fram fer eini viðburðurinn sem Íslendingar standa fyrir, nefnilega um konur og loftslagsvána – hver staða kvenna er gagnvart ógnum framtíðar og hversu mikilvægt það getur reynst að konur – ekki síst í þriðja heiminum – bregðist við.

Gerið okkur stolt!

Þetta verður fróðlegt, en ekki siður að sjá hverju breytir koma um 130 þjóðarleiðtoga hingað í Bellu. Í gær var settur sá hluti ráðstefnunnar með mikilli viðhöfn – mér fannst skemmtilegastur Karl Bretaprins sem flutti ákaflega áreynslulausa og séntilmannlega ræðu, svona einsog það væri síðdegisteboð í hallargarðinum, en samt launhvassa, og sagðist að lokum vonast eftir árangri hér á ráðstefnunni. Það væri nefnilega þannig að síðari kynslóðir mundu ekki dæma okkur eftir því sem við segðum heldur því sem við gerðum, sagði Karl, veifaði svo blöðunum sínum og brosti næstum feimnislega og bað ráðstefnufulltrúana að gera okkur stolt: Please make us proud.

Svipað og yrði sagt í teboðinu fyrir breska landsliðið í póló.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 15.12.2009 - 17:23 - 1 ummæli

Ráðstefna leitar að trausti

Þetta er spurning um traust, sagði Indverjinn Mehta á blaðamannafundi umhverfissamtaka hér  í einum salnum fyrir hádegið. Al Gore flutti svo magnaða rædu um fimmleytið – og þar lyysti hann raðstefnunni hingað til líka svona: Spurning um traust – A question of confidence.

 

Og þetta virðast orð að sönnu: Ráðstefnan hér í Bella Center á Amákri við Eyrarsund vélar um meiri mál en ég man í svipinn eftir áður í sögunni – en þessi fyrsta tilraun alls mannkyns til að ná sameiginlegri niðurstöðu um að halda áfram að vera til – snyyst fyrst og fremst um traust.

 

Þjóðarleiðtogarnir eru að birtast á svæðinu og byrja að flytja ræðurnar sínar á morgun. Hlutverk þeirra verður þó miklu heldur að ná einhverju því samkomulagi sem almenningur í heiminum púar ekki niður. Við það eru vonir hér í „Hopen“-hagen einmitt bundnar – um 110 leiðtogar, þjóðhöfðingjar og forsætisráðherrar, eru á leiðinni og hafa þar með lagt heiður sinn að veði að ná árangri. Þeir verða ekki ánægðir að fara aftir heim tómhentir til þjóða sinna.

 

Traust

 

Það hreyfist ekkert í samningaviðræðunum. Vantar traust. Iðnríkin hafa ekki skuldbundið sig nándar nærri einsog þarf. Hver horfir á annan og vill ekki lengra en næsti – og iðnríkin eru sammála um það eitt að gera sem minnst nema þróunarríkin komi með í þetta skiptið, öfugt við Kyoto þar sem þau losnuðu við allar skuldbindingar. Þróunarríkin segjast vilja vera með í bindandi samningi um verulegan samdrátt í losun — en þá verði iðnríkin taka meginhluta byrðanna á sínar herðar í nafni sögulegs réttlætis, og ekki síður að taka upp veskið til að jafna aðstöðumuninn og gera þriðja heiminum fært að þróast, hætta yfirstandandi afbrotum gagnvart umhverfi og loftslagi, svo sem skógareyðingunni, og fjárfesta í nyyrri grænni tækni. – Tja, segja iðnríkin, og fallast í orði á einhverja slíka styrki (oft í „staðinn“ fyrir hefðbundna þróunaraðstoð), en þá verður að vera trygging fyrir því að þið séuð að draga úr losun og að eyðið ekki peningunum í annað. Les: spillingu, hergögn, svissneska bankareikninga. Slíkar grunsemdir eru svo auðvitað álitnar gróf móðgun og beint framhald af fyrri heimsvaldastefnu … Alltaf vantar traust.

 

Traust

 

Að skipta heiminum í iðnríki og þróunarlönd er auðvitað hættuleg einföldun, og innan þessara fylkinga hér á ráðstefnunni eru ríki og leidtogar sem eiga ekki margt sameiginlegt. Kína eða Suður-Kórea hafa ekki endilega sömu hagsmuni og Afríkumenn eða hinar smáu eyþjódir í Kyrrahafi, og meðal iðnþjóda er lika msjafn sauður í mörgu fé.

 

Forystumenn iðnríkjanna hafa heitið þjóðum sínum árangri – nokkurnveginn alstaðar annarstaðar en á Islandi er verulegur þryystingur á stjórnvöld að leggja sitt fram til lausnar ádur en það verður of seint eftir örfá ar. Á hinn bóginn vilja menn í okkar heimshluta yfirleitt bæði halda og sleppa: Endilega finna einhver fiff til að redda okkur úr loftslagsklandrinu – en um leið eru fáir reiðubúnir til þeirra breytinga í lífsstíl og lifnaðarháttum sem til þarf. Jafnvel þott nyyja græna iðnbyltingin gangi betur en nokkur þorir ennþá að trúa. Og telja sumir ógnað sérlegum hgsmunum sínum.

 

Traust

 

Líka þetta veldur því að traustið er af skornum skammti hér í Kaupmannahöfn, höfuðborg veraldar í háfan mánuð. Hvorki þridjaheimsmenn né umhverfissinnar treysta mjúkjmálum leiðtogum Vesturlanda til þeirra stórræða sem nú þarf til, og gruna þá um græsku. Sá grunur near meðal annars til nokkurnveginn allara þeirra ráða sem hugsud hafa verið upp gegn gródurhúsalofti annarra en eiginlegs samdráttar, og ekki síst er tortryggð sú leið sem á Íslandi hefur verið hampað, að binda kolefni í skógum eða í bergi. Mér er sagt að þessvegna séu ekki mikjlir möguleikar á að íslenska sendinefndin hér nái fram viðurkenningu á endurheimt votlendis sem leið til að begðast við loftslagsvánni, og er það þo með því allra einfaldasta og gáfulegasta sem við getum lagt fram: Að moka ofan í gömlu skurðina.

 

Spurning um traust. Og samt er of mikið undir til að láta tortryggnina ráða, og maður finnur að fólki er alvara hér á þessari risasamkomu – þar sem þó vantar ekki skemmtun og hlátur hjá umhverfissinnum úr öllum heimshornum. Ráðstefnuvanir embættismenn og blaðamenn segja eitthvert sérstakt rafmagn í loftinu hér í Bella Center, og af næstu þremur dögum er mikils vænst.

 

Gore aftur: Við höfum ekki tímann að munaði. Og lagði til að næstu ráðstefnu yrði flyytt um hálft ár, júli 2010, til að ganga frá endanlegu samkomulagi eftir Kaupmannahöfn. – Allur tíminn sem við höfum í Kaupmannahöfn er þrír dagar …

  

Og efasemdir

 

Hinn danski loftslagsspekingur Björn Lomborg er mjög á ferð í fjölmiðlamiðstöðinni og gefur viðtöl hægri-vinstri – en að öðru leyti verður ekki vart efasemda í Bella Center um tilvist loftslagsbreytinga. Um þær eða ástæður þeirra er ekki lengur deilt annarstaðar en Kastljósi og í Alabama, einsog sagt var um daginn þegar Glúmur Jón var þar fram dreginn rétt einn ganginn. Hér deila menn vissulega um hvernig og hvað mikið, en ekki um hvort eða hversvegna.

 

Fyrir utan málgleði Lomborgs í kaffistofunni hef ég ekki komið auga á neina afneitendur, hvorki á ráðstefnustaðnum né borginni sjálfri – nema þegar við vorum nokkur að ná í úlpurnar okkar í gærkvöldi frammi í fatahenginu og þá stendur þar skilti á borðinu og skrifað á það stórum stöfum á skilti: Climate Change is a Myth. (loftslagsbreytingarnar eru goðsögn). Við störðum öll á þetta eitt augnablik – og lásum svo smáa letrið:

 

Fyrst við höfum náð athygli þinni viljum við benda á að fötin eru afgreidd hinumegin í salnum.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 7.12.2009 - 15:55 - 6 ummæli

Þingeyska leiðin á Reykjanesskaga

Ekkert að frétta af hinu glæsta álveri við Helguvík nema enginn svarar þrálátum spurningum um orkuöflun fyrir fullbúið 360 þúsund tonna ver sem notar 630 MW (Fjarðaál 346 þ.t., 690 MW).

Og þrenn umhverfissamtök, þar á meðal Græna netið, hafa kært úrskurðinn um Suðvesturlínu, þannig að ekki er bitið enn úr þeirri nálinni. Það er þó lítil töf í stóra samhenginu.

Gallinn við þessi áform hefur frá upphafi verið sá að þau veltast áfram á hagsmunum eða vandræðum einstakra aðila í málinu – það eru meintir byggðahagsmunir, sölumennska orkufyrirtækja (OR, HS), pólitísk staða einstaklinga (Árni Sigfússon og áður Mathiesen), stjórnmálaflokkar undir þrýstingi (Samfylkingin, VG). Hver vísar á annan og heimtar af hinum, en enginn gætir yfirsýnar.

Og enn er allt í klandri því ekki fæst féð í verið og óljóst um höfnina og orkufyrirtækin hafa ekki lánstraust.

Þetta skaðar alla – því sannarlega þurfum við erlenda fjárfestingu í skynsemi og yfirvegun, og sannarlega má virkja víða án meinlegra umhverfisspjalla.

Dofri Hermannsson hefur í snjallri grein bent á að þessi sama staða var fyrir skömmu uppi fyrir norðan kringum Bakkaálverið sem nú sýnist dáið drottni sínum. Þar hjó iðnaðarráðherrann á hnútinn og mótaði þá stöðu sem Dofri kallar „þingeysku leiðina“. Í staðinn fyrir að láta eina megaframkvæmd teyma sig áfram einsog dráttarhest með sjónhlífar er staldrað við, skoðaðir orkukostir, umhverfisgæði og byggðaraðstæður – og síðan boðið að borðinu þeim fyrirtækjum sem henta.

Það er enginn að rífast um álver í sjálfu sér. Þau eru til, hér og annarstaðar, og verða áfram. En þurfum við fleiri? Orka verður sífellt verðmætari – og okkar aðstæðum hentar best að selja hana mörgum smáum og  meðalstórum fyrirtækjum.

Gerum það þá! Eftirspurnin er mikil en tækifærin fara hvert af öðru út um þúfur vegna þess að sjónhlífarnar beinast allar í eina átt – út í móa.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 5.12.2009 - 22:40 - 17 ummæli

Af hverju ekki í sumar?

Það er að sjálfsögðu prýðilegt að róa fyrir hverja vík í Icesave-málinu, og þetta nýja samkomulag er örugglega barasta ágætt. Nokkuð seint á ferðinni, og nú þurfa málþófsmennirnir að hvíla sig vel eftir sitt arbeið.

Samt kemur manni á óvart að það skuli eiga að leggjast yfir heilar sextán spurningar í fjárlaganefnd. Langfæstar þeirra koma nokkuð við þeim breytingum sem á málinu urðu frá umræðunum í sumar þegar alþingismenn náðu saman um hina djörfu fyrirvara sællar minningar. Þá samþykktu Sjálfstæðis-og Framsóknarflokksmenn að ljúka málinu með atkvæðagreiðslu (þar sem Sjálfstæðisflokkurinn sat hjá!). Gerðu þeir það án þess að athuga atriðin sextán?

Hvað hefur til að mynda breyst frá því í sumar um muninn á föstum og breytilegum vöxtum? Hafi Sjálfstæðis- og Framsóknarmenn í sumar getað ákveðið að greiða atkvæði án þess að hafa kynnt sér muninn á föstum vöxtum og breytilegum af hverju geta þeir það þá ekki núna?

Vegna þess að atriðin sextán voru aldrei nema leikmunir hjá hrunverjum. Málið hefur allan tímann verið að spilla einsog hægt var fyrir ríkisstjórninni, til að vinna tíma, láta fólk gleyma sögunni og koma sér í bærilega stöðu fyrir uppgjörið í febrúar.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 1.12.2009 - 09:27 - 8 ummæli

57. greinin

Á kjörtímabilinu 2003–2007 beitti stjórnarandstaðan í þremur málum því vopni sem hún taldi sig hafa eitt saman gegn yfirgangi ráðherra og stjórnarmeirihluta, að setja á miklar ræður til að knýja fram samkomulag um málalok eða frestun máls – og til að vekja athygli almennings á því sem um var að vera.

Menn deildu þá um þessa aðferð og kölluðu málþóf, sem það sannarlega stundum var, þegar ræðumenn voru farnir að lesa úr bókum og tala um daginn og veginn. Flest settum við þó metnað okkar í að halda þokkalega röklegar tölur, reyna að finna nýja fleti og gefa yfirsýn um málið sem ræða skyldi. Stundum tókst það, stundum ekki.

Strax á næsta kjörtímabili, þegar fyrri fylkingar á þingi höfðu stokkast upp, urðu allir sammála um að breyta reglunum. Stjórnarandstaðan fengi meiri rétt og betri aðstöðu en í staðinn legðust af málalengingar og málþóf. VG-arar andæfðu nokkuð en það var vegna þess að þeim þótti of langt gengið með breytingunum, voru hinsvegar flest sammála í grundvellinum.

Meginbreytingin var að ræðutími í 2. og 3. umræðu var tiltekinn en hafði áður verið óheftur af öðru en raddböndum og þvagblöðru. Hinsvegar var tekinn upp sá siður að eftir aðra ræðu mætti þingmaður tala eins og oft og honum  sýndist, þó aðeins í fimm mínútur hverju sinni.

Þetta er glufan sem Sjálfstæðisflokks- og Framsóknarmenn hlaupa nú í gegnum þegar þeir eru búnir með fyrstu ræðuna og aðra ræðuna og öll andsvörin hver við annan. Gunnar Bragi Sveinsson úr Framsóknarflokknum í Skagafirði hefur víst talað 79 sinnum við þá umræðu Icesave-málsins sem yfir stendur, og er þó ekki þingmanna málsnjallastur eða áheyrilegastur.

Öll rök máls eru löngu komin fram, ótal sinnum, ekkert nýtt gerist í umræðunni, sem fyrst og fremst samanstendur af upphrópunum, væli og þæfingi um fundarstjórn forseta.

Úr hófi fram

Í þingsköpunum eru fleiri reglur en þessi um endalausu fimm mínúturnar. Þar er líka grein um takmörkun ræðutíma og slit umræðna. Hún er númer 57 og hljóðar svo:

Ef umræður dragast úr hófi fram getur forseti úrskurðað að ræðutími hvers þingmanns skuli ekki fara fram úr ákveðinni tímalengd.

Forseti getur stungið upp á að umræðum sé hætt og einnig getur forseti lagt til, hvort heldur í byrjun umræðu eða síðar, að umræðum um mál skuli lokið að liðnum ákveðnum tíma. Eigi má þó, meðan nokkur þingmaður kveður sér hljóðs, takmarka ræðutíma við nokkra umræðu svo að hún standi skemur en þrjár klukkustundir alls. Tillögur forseta skulu umræðulaust bornar undir atkvæði og ræður afl atkvæða úrslitum.

Sömuleiðis geta níu þingmenn krafist þess að greidd séu atkvæði um það umræðulaust hvort umræðu skuli lokið, umræðutími eða ræðutími hvers þingmanns takmarkaður. …

Þá er að athuga hvort umræðan um Icesave-málið kunni að hafa „dregist úr hófi fram“. Hvað ætli Gunnari Braga Sveinssyni finnist um það í næstu sjötíu og níu ræðum?

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur