Þriðjudagur 19.2.2008 - 12:52 - Rita ummæli

Tvíburapælingar.

Lengi lifir í gömlum glæðum. Marghættir tvíburarnir ætla að slá til enn eitt árið og spila fyrir FH. Get skilið þá að vilja finna sér eitthvern hobbý fótbolta og FH liðið spilar skemmtibolta að jafnaði.

Skil minna hvað Heimir þjálfari ætlar sér með drengina. Hef reyndar tröllatrú á Heimi. Mér heyrist þeir æfa heldur takmarkað ef fyrirkomulagið verður eins og undanfarin ár. Meiðsli eru þeirra millinöfn og fjarvistir vegna vinnu þekktar.

Hæfileikar þeirra eru líka alþekktir. Frábærir á sínum tíma og nú orðið alltaf af og til. Ég efast um að þetta verði nógu gott fyrir móralinn í liðinu. Hlýtur að vera svolítið sérstakt að þurfa að sitja á bekknum fyrir menn sem eru á sérsamningi sem felur í sér afslátt á undirbúningstímabili og fleiru.

Held þetta raski jafnvægi liðsins þegar líður á tímbilið. Þeir eru ýmist inni eða úti og von á þeim eða ekki. Vonandi hef ég ekki rétt fyrir mér því þessir tappar eru á eðlilegum degi hreinir gleðigjafar á velli.

Áfram Valur.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 19.2.2008 - 10:42 - Rita ummæli

Ráðgjöf Jóns Ásgeirs.

Þá er Jón Ásgeir orðinn hagfræðingur og tekur að sér efnahagsráðgjöf handa þjóðinni. Byrjaði kannski ekki nógu vel því hann reyndi af öllum mætti að tala niður virði bankanna, gleymdi líklega að hann á eitt stykki sjálfur. Enda sendi hann fljótlega frá sér leiðréttingu sem mér sýndist hafa verið samin af sama ráðgjafanum og hefur samið skýringar fyrir gamla góða Villa. Misskilningur og rangtúlkanir allt saman.

Menn eins og Jón Ásgeir hugsa sjaldnast um neitt annað en eigin hag. Allt hróa hattar bull um hann og hans fólk er út í hött. Nú virðist honum að það gæti hentað honum að við smelltum okkur bara í evrópusambandið. Bara rétt sísona. Þá myndi allt lagast.

þetta sér hann eftir 6-8 mánaða erfiðleika í sínum rekstri. Nú má vel vera að loka niðurstaða hans sé rétt. En ég hef tilhneigingu til þess að efast samt því hann talar oftast bara fyrir sínum eigin hagsmunum og þeir eru eins og stundum áður skammtíma og breytilegir. Fagfjárfestar eins og hann sem hafa gert það að lífsstarfi að stunda skuldsettar yfirtökur eru ekki endilega bestu rágjafar sem völ er á.

Þessir gaurar eru búnir með fulltingi bankanna að koma sér og hugsanlega okkur öllum í erfiða stöðu. Þar réðu eingöngu gróðasjónarmið þeirra til styttri tíma í bland við sérkennilega spilafíkn held ég bara.

Fylgist spenntur með næstu spá Jóns Ásgeirs. Hlutirnir breytast hratt hjá svona aðilum og kannski verður eitthvað allt annað næst. Allt eftir því hvernig staðan er á eignasafninu skuldsetta.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 19.2.2008 - 09:26 - 2 ummæli

Kjarasamningar og kennarar.

Þeir þykja tímamóta samningar samningarnir sem voru undirritaðir nú um helgina. Þar eru aðilar að reyna að auðsýna vilja til þess að þeir sem minnsta hafa fái mest. Þykir mörgum kominn tími til.

Ekki er blekið þornað þegar forystumenn þeirra sem eiga ósamið fljótlega lýsa því yfir að þetta sé nú aldeilis ekki það sem þeir munu sætta sig við. Og hringavitleysan hefur þá bara sinn gang áfram. Ekkert vinnst.

Kennarar fúlir með sín kjör og heimta hærri laun. Þennan söng höfum við heyrt frá Eiríki Jónssyni mjög reglulega. Lág laun og atgervisflótti. Besta fólkið flýr í betur launuð störf. Varla getur það verið góð einkunn fyrir hans vinnu í kjaramálum stéttarinnar um langt árabil.

Hann er fastur í eldgömlum tíma hann Eiríkur. Og ekki bara hann því vandi þeirra sem vinna hjá hinu opinbera er víða sá sami. Launin ættu vissulega að vera hærri en það er meðalmennskan sem er vandamálið. Allt kapp er lagt á það að allir séu með sömu launi hvort sem þau eru lág eða ekki.

Frumkvæði og metnaður er ekki verðlaunuð nema síður sé. Það er líka af þessum ástæðum sem besta fólkið gefst upp. Gömul og liðónýt hugsun um að allir skulu vera jafnir. Þannig umhverfi hefur aldrei laðað það besta fram í fólki. Launataxtinn er eitt en alveg hlýtur að vera óþolandi að stunda vinnu með fólki sem ekki stundar metnaðafullt starf en fær samt sömu umbun og besti starfsmaðurinn.

Ég sem skattborgari og foreldri legg til að við sem eigum menntakerfið tökum það úr höndunum á þessu fólki og endurskipuleggjum það. Gerum starfið eftirsóknarvert og hvetjandi. Menntakerfið er í svipuðum sporum og heilbrgiðis. Enginn er fullsáttur.

Ég vil betri og sáttari kennara með mikinn metnað á betri launum en í dag. Ég vill að kennarar eigi möguleika á að bæta kjör sín með eigin frammistöðu. Gamla hugsunin um að það skemmi móral og eyðileggi vinnustaðinn ef einhver ber meira úr býtum en aðrir er hlægileg að mínu mati og hentar ekki hagsmunum mínum.

Hættum að mylja undir meðalmennskuna og snúum vörn í sókn. Hættum að líta niður á kennarastarfið eins og margir gera í dag. Stór hluti þjóðarinnar skilur ekki bofs í kjörum kennara. Löng frí á sumrum. páskum og jólum. Tómir skólar uppúr 2 á daginn en samt komast kennarar ekki yfir vinnuna sína. Það getur ekki gengið.

Kennarar verða að komast yfir vinnu sína. Dugi dagvinnan ekki til þess þá borgist meira. Þannig vinna aðrar stéttir. Ég tel að Eiríkur Jónsson og félagar tali kennarastarfið niður í hvert einasta skipti sem þeir tjá sig. Neikvæðni í stað frumkvæðis. Engu má breyta nema launum. Og þau skulu vera þannig að allir séu á jafn lélegum launum.

það hentar ekki mínum hagsmunum. Og ég er einn af eigendum menntakerfisins.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 15.2.2008 - 00:27 - 2 ummæli

Hvað veit ég um hagfræði?

Nú er ég ekki hagfræðimenntaður og ekki er ég heldur seðlabankastjóri. Rek ekki banka né aðrar fjármálastofnanir. Er bara venjulegur Jón sem reiðir sig á að góðir menn og vandaðir taki skynsamlegar ákvarðanir um sameiginlegan rekstur okkar þjóðfélags.

Ég er auðvitað fyrir löngu búinn að átta mig á sérfræðikunnátta er stórlega ofmetin. Lögfræði er ekki endilega lögfræði. Álit lögmannsins fer eftir því hver borgar honum launin. Sami lögmaður fer svo létt með að hafa öndverða skoðun á sama álitamáli fyrir einhvern þann sem borgar honum fyrir það líka.

Við höfum hér seðlabanka. Þar vinna menn og konur sem ég hélt að hefðu engra hagsmuna að gæta nema faglegra. Fólk sem engum er háð og getur því tekið ákvarðanir án þrýstings manna sem hafa ákveðinna hagsmuna að gæta. Hagfræðingar bankans vinna eftir löggjöf sem virðist fremur skýr. En þá kemur að því að hagfræði er ekki endilega hagfræði.

Núna er staðan sú að hagfræðingar bankans virðast algerlega á öndverðum meiði við flesta aðra samskonar fræðinga sem ekki vinna hjá bankanum. Bókstaflega ekki hægt að finna nokkurn mann sem ekki telur að hér þurfi að lækka stýrivexti. Helst í fyrra.

Í hverju liggur munrinn? Eru sérfæðingar seðlabanka svona tregir eða eru þeir kannski landráðamenn sem vilja keyra atvinnulíf og heimili á heljarþröm? Það er helst að skilja.

Getur verið að þeir gætu haft á réttu að standa? Er hugsanlegt að það sé bara öndvegis fyrir okkar þjóðfélag til lengri tíma litið að lækka ekki stýrivexti strax?

Eru bankarnir okkar kannski bara alltof hátt metnir? Annað hvort í hæstu hæðum eða frosnir. Áhættu fíknir með afbrigðum. Er víst að það þjóni langtíma hagsmunum okkar að halda áfram að keyra á þeim hraða sem hér hefur verið?

Við þolum alls ekki að hægja ferðina. Viljum bara halda áfram að taka okkar neyslulán og byggja of dýrt yfir höfuðið á okkur. Og kaupa svo dýrasta flatskjáinn í búðinni fyrir auka yfirdrátt.

Eins og ég sagði þá er ég ekki sérfræðingur. En ég hef tilhneigingu til þess að trúa frekar þeim sem engra hagsmuna hafa að gæta en hinna. Nú kreppir að hjá bönkunum. Heildsölupeningarnir eru orðnir dýrari og það er verra, eðlilega.

En var það ekki tilgangurinn? Hefðu bankarnir hugsanlega átt að bregðast fyrr við stýrivaxtahækkunum seðlabankans? Þeir eru soldið eins og þjóðin sjálf. Vita af því að nú fer skóinn að kreppa að, en þetta fer einhvern veginn.

Tökum bara á vandanum þegar hann er kominn blessaður.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 13.2.2008 - 09:34 - 1 ummæli

Mergurinn málsins .

Nú fer að koma að því að fólk snúist í að finna til með Villa í stað þess að fordæma hann. það er að mörgu leyti skiljanlegt. Maðurinn hefur verið mjög lengi farsæll í sínum störfum og er þess utan viðkunnanlegur. Eins og ég sé málið þá er hann heiðarlegur og góður kall. Heiðarlegur en óhæfur.

Davíð og félagar vissu sem var að hann réði ekki við að leiða starfið í borginni og fóru því í þrigang út fyrir borgarstjórnarflokkinn eftir leiðtogum. Þeir vissu það sem við vitum núna. það vantar eitthvað uppá.

Góður vinur minn benti mér á að ég væri genginn í lið með andstæðingum flokksins og réðist nánast á liggjandi mann í stað þess að standa keikur með honum í gegnum skaflinn. Ég er á því að andstæðingar flokksins ættu alls ekki að leggja til að hann fari en við sem teljum okkur vera sjálfstæðismenn þurfum að bregðast við.

Ekki af skepnuskap. Alls ekki heldur vegna þess að hópurinn sem stjórnar borginni virðist vera að molna innan frá. Á meðan forysta flokksins heykist á því að taka afgerandi á málinu. Sá stuðningur við Villa sem formaður flokksins hefur verið að myndast við að lýsa er verri en enginn.

Mér finnst það lýsandi dæmi um ástandið að einhverjum geti dottið í hug að kjósa um eftirmann ef Villi fer frá. Enginn ætlar að treysta sér til þess að taka af skarið vegna þess að þá þarf að velja milli margra sem vilja heiðurinn. Látum börnin bara bítast um brauðið.

Það gengur ekki. Hægfara forysta flokksins verður nú að spretta úr spori. Engin ástæða er til þess að hengja Villa á torgum úti. Öðru nær enda spái ég því að hann hverfi fljótlega úr borgarstjórn með eins mikilli reisn og unnt er úr þessu. það á hann inni þrátt fyrir klaufaskapinn undanfarið.

Stjórnmál eiga að snúast um traust öðru fremur. Og þegar hópurinn sem þú átt að leiða treystir þér ekki lengur þá er ekkert eftir. Það er mergurinn málsins.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 11.2.2008 - 21:42 - 1 ummæli

Fúll.

Segi ekki margt en segi þó þetta. Stundum er slagurinn tapaður og miklivægt að reyna að lágmarka skaðann. Nú má ekki staldra við aukaatriðin.

Stjórnmálamaður sem þarf að eyða megninu af sinni starfsorku í að verja stöðu sína og heiður á að vikja. Mér er nokk sama hvort formaður flokks getur ekki tæknilega séð vikið manni úr stólum.

Geir á, ef hann ætlar ekki að verða rola ársins, hreinlega að ganga þannig frá máli Villa að hann fari úr borgarstjórn. Sjálfstæðismenn sjálfir af öllum stærðum og gerðum krefjast þess.

Allt þetta bannsetta yfirklór mannsins er móðgun við vitsmuni mína. Ég nenni ekki lengur að hlusta á skýringar og tuð þegar öllum er ljóst að góður maður reynist einn daginn misheppnaður pólitíkus.

Varla er langvarandi pólitísk heilsa sjálfstæðisflokksins minna virði en einn maður. Kýs að líta svo á að nú sé einungis verið að leita að heppilegu augnabliki fyrir Villa til að stíga níður.

Ekki þýðir að bjóða mér neitt minna en það.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 9.2.2008 - 19:31 - Rita ummæli

Hvað kostar eitt stykki forseti?

Ég hef ekki humynd um hvað eitt stykki forseti í bandaríkjunum kostar. Sé það á fréttum að duglega þarf að safnast af peningum daglega til að halda út forkosningaslaginn. Hvaðan koma þeir?

Eru samkskotabaukarnir svona öflugir. Eru einhverjar líkur á því einn daginn að forseti bandaríkjanna verði algerlega frjáls og óháður. Eru þessir aðilar ekki meira og minna í vasanum á einhverjum auðmanninum eða mönnum? Í þessu tilliti sé ég ekki reginmun á flokkunum.

Stefnir ekki í þetta hjá okkur líka?

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 9.2.2008 - 14:55 - Rita ummæli

Að rísa undir kröfum.

Traust og ótvíræður trúnaður. Stjórnmálamenn þurfa að vera mörgum kostum búnir en um þetta tvennt verður ekki samið. Ég geri þá kröfu að minn flokkur fari fyrir því að vera trúverðugur. Veit vel að ekki verður allt eins og ég helst vildi hafa það en um sumt sem ég ekki.

Ekki þarf að koma á óvart að andstæðingar sjálfstæðisflokksins hamist á Villa. Það sem er að gerast núna er að hinn almenni sjálfstæðismaður er búinn að fá nóg. Kjósandinn á götunni. Þá er fokið í flest.

Ástandið minnir um margt á það þegar Árni Johnsen bullaði sig frá einu viðtali til annars. Ég fæ kjánahroll þegar blessaður kallinn reynir að kjafta sig út úr vandræðunum.

Í raun skiptir engu máli úr þessu hve mikil sök Villa er. Hann er gersamlega rúinn trausti innan flokks sem utan. Eftir hverju er þá að bíða?Ég treysti því algerlega að á þessari stundu sé forysta flokksins að leita að útgönguleið fyrir hann þar sem hann getur haldið haus að svo miklu leyti sem það er hægt.

Ég hef aldrei skilið þessu tregðu flokkanna til þess að taka á því þegar menn ekki rísa undir trausti. Nánast sjálfvirkt taka menn þrjóskulega afstöðu og bakka upp hvaða bull sem er og gildir þá einu þó öll þjóðin sjái í gengum það.

Þetta gildir um alla flokka og við sjálfstæðismenn höfum ekki farið varhluta af þessu. Þess vegna eru Íslensk stjórnmál svona aftarlega á merinni þegar kemur að siðferði. Komandi kynslóðir munu leggja miklu meira upp úr siðferði en þær sem gengnar eru.

Þess vegna er ekki eftir neinu að bíða með að sýna nú gott fordæmi. Ábyrgð okkar sjálfstæðismanna er meiri en annarra því við höfum setið lengur en allir aðrir að stjórn landsins og því gerðar til okkar ríkar kröfur, eðlilega.

Undir þeim vill ég að við rísum.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 8.2.2008 - 11:34 - Rita ummæli

Meirihlutar.

Alveg væri það með ólíkindum taktlaust í þeirri stöðu sem nú er uppi ef vinstri grænum gæti dottið í hug að fara í glænýjan meirihluta með sjálfstæðismönnum.

Hlýtur að vera freistandi að láta sjálfstæðismenn engjast í snörunni og fara alvarlega laskaðir í næstu kosningar.

En ekki má vanmeta ylinn sem stólarnir veita. Sérstaklega hjá þeim sem fengu ekki nema rúma 100 daga…

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 8.2.2008 - 09:27 - Rita ummæli

Landkönnuðir kýtast.

Kostuleg deila sem spjátrungarnir og landkönnuðurnir Ármann vinijettu höfundur og Sigurður A Magnússon standa í núna. Fréttablaðið gerir sér mat úr þessu í gær. Deilan snýst um það í grunninn hvor er meira aðal en hinn.

Hver sé meira þekktur á Indlandi og hver hafi fyrstur numið þar land. Verulega fyndið að fylgjast með en þó svo átakanlega sorglegt. Þörfin fyrir athygli og viðurkenningu afgerandi.

Þetta er svona „pabbi minn er miklu sterkari en pabbi þinn“ pælingar.

Hlægilegt.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur