Nú er ég ekki hagfræðimenntaður og ekki er ég heldur seðlabankastjóri. Rek ekki banka né aðrar fjármálastofnanir. Er bara venjulegur Jón sem reiðir sig á að góðir menn og vandaðir taki skynsamlegar ákvarðanir um sameiginlegan rekstur okkar þjóðfélags.
Ég er auðvitað fyrir löngu búinn að átta mig á sérfræðikunnátta er stórlega ofmetin. Lögfræði er ekki endilega lögfræði. Álit lögmannsins fer eftir því hver borgar honum launin. Sami lögmaður fer svo létt með að hafa öndverða skoðun á sama álitamáli fyrir einhvern þann sem borgar honum fyrir það líka.
Við höfum hér seðlabanka. Þar vinna menn og konur sem ég hélt að hefðu engra hagsmuna að gæta nema faglegra. Fólk sem engum er háð og getur því tekið ákvarðanir án þrýstings manna sem hafa ákveðinna hagsmuna að gæta. Hagfræðingar bankans vinna eftir löggjöf sem virðist fremur skýr. En þá kemur að því að hagfræði er ekki endilega hagfræði.
Núna er staðan sú að hagfræðingar bankans virðast algerlega á öndverðum meiði við flesta aðra samskonar fræðinga sem ekki vinna hjá bankanum. Bókstaflega ekki hægt að finna nokkurn mann sem ekki telur að hér þurfi að lækka stýrivexti. Helst í fyrra.
Í hverju liggur munrinn? Eru sérfæðingar seðlabanka svona tregir eða eru þeir kannski landráðamenn sem vilja keyra atvinnulíf og heimili á heljarþröm? Það er helst að skilja.
Getur verið að þeir gætu haft á réttu að standa? Er hugsanlegt að það sé bara öndvegis fyrir okkar þjóðfélag til lengri tíma litið að lækka ekki stýrivexti strax?
Eru bankarnir okkar kannski bara alltof hátt metnir? Annað hvort í hæstu hæðum eða frosnir. Áhættu fíknir með afbrigðum. Er víst að það þjóni langtíma hagsmunum okkar að halda áfram að keyra á þeim hraða sem hér hefur verið?
Við þolum alls ekki að hægja ferðina. Viljum bara halda áfram að taka okkar neyslulán og byggja of dýrt yfir höfuðið á okkur. Og kaupa svo dýrasta flatskjáinn í búðinni fyrir auka yfirdrátt.
Eins og ég sagði þá er ég ekki sérfræðingur. En ég hef tilhneigingu til þess að trúa frekar þeim sem engra hagsmuna hafa að gæta en hinna. Nú kreppir að hjá bönkunum. Heildsölupeningarnir eru orðnir dýrari og það er verra, eðlilega.
En var það ekki tilgangurinn? Hefðu bankarnir hugsanlega átt að bregðast fyrr við stýrivaxtahækkunum seðlabankans? Þeir eru soldið eins og þjóðin sjálf. Vita af því að nú fer skóinn að kreppa að, en þetta fer einhvern veginn.
Tökum bara á vandanum þegar hann er kominn blessaður.
Röggi.