Sunnudagur 27.1.2008 - 00:17 - 2 ummæli

Danir eru mínir menn.

Ég fagna því alveg sérstaklega að danir séu komnir í úrslit EM í handbolta. Held alltaf með dönum hver sem ég kem því við. það er eitthvað í danska eðlinu sem gerir þá að skemmtilegum íþróttamönnum.

Hæfilegt kæruleysið er að gera mikið fyrir þá. Svo hjálpar þetta þeim í baráttunni við dönsku stelpurnar sem spila skemmtilegasta handbolta í heimi og fá alla athyglina.

Þá man ég eftir einu. Viggó lýsti því yfir fjálglega eftir riðlakeppnina minnir mig að danir væru ekki í formi! Ekki að spyrja að Íslensku sérþekkingunni.

Kannski höfum við bara ekkert vit á þjóðaríþróttinni.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 26.1.2008 - 23:10 - Rita ummæli

Meira væl.

Það er naumast að hann er styggur í dag hann Egill silfurkóngur. Væl skal það heita að vera á öndverðum meiði við hann þegar kemur að túlkun á atburðarás síðustu daga í borgarmálum. Spuni verður hér skammaryrði og það frá manni sem hefur atvinnu af því að spinna. Krefur menn um rökstuðning en styðst sjálfur við dylgjur. Var það ekki MaCarty sem þróaði þessa aðferð?

það er hans val að trúa ekki því sem Ólafur segir um ástæður þess að hann skiptir um samstarfsfólk. Miklu skemmtilegra að trúa því að maðurinn sé ekki fullkomlega heill á geði heldur en að hann hafi málefnalegan metnað í póltík.

Egill tekur bara ekkert mark á því sem maðurinn segir og þá hlýtur hann að hafa rétt fyrir sér og aðrir ekki. Þar af leiðir….

Merkilegt óþol sem þarna birtist. Læt ekki eftir mér að túlka það frekar.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 26.1.2008 - 11:33 - Rita ummæli

Styð ég meirihlutann?

Ég hef verið spurður að því undanfarið hvort ég styðji nýja meirihlutann. Þetta er bráðeinföld spurning en svarið eitthvað flóknara.

Ég styð sjálfstæðisflokkinn jafnvel þó mér finnst hann stundum alveg ferlegur. Þeir sem eru hættir að efast um flokkinn sinn eru að mínu viti búnir að tapa hæfileikanum til þess að þroskast pólitískt. Grundvallarskoðanir mínar fara almennt vel saman við flokkinn. Daglegur rekstur hans ekki alltaf.

Sumir fulltrúar hans eru heldur ekki allir að mínu skapi. Ég held að það hljóti að vera eðlilegt. Réttrúnaðarofstækið sem við höfum orðið vitni að undanfarið er skemmandi. Hvernig er hægt að þrífast í pólitík ef enginn er efinn? Fullkomnun náð. Sannleikurinn eini fundinn.

Er ekki bráðhollt að láta eftir sér að hrífast af fólki og jafnvel hugmyndum sem aðrir hafa komið með? það er nefnilega þannig að enginn einn flokkur getur rúmað allt það sem mér finnst skynsamlegt. Og víða geta leynst áhugaverðir aðilar í öðrum flokkum. Ef maður leyfir sér að opna blinda augað.

Ég hrífst meira af hugmyndum en fólki í pólitík. Fólk kemur og fer en hugmyndirnar og stefnan verður eftir. Í sumu er ég bókstafstrúarmaður. Grunnreglur og gagnsætt lýðræði hentar mér betur en skyndileg upphlaup og eftirsókn eftir vindi um stundarsakir. Nauðsyn brýtur lög er frá mínum bæjardyrum mjög hæpið fyrirbrigði. Enda er það svo að túlkunin á því hvað telst nauðsyn verður alltaf umdeild. Lögin aftur á móti svíkja engann og allir eru jafnir fyrir þeim.

Ég er sumsé sjalli þó ég verði iðulega skotinn í hinu og þessu sem kemur frá öðrum. Fanatík þreytir.

Ég er ekki ánægður með flokkinn minn í Reykjavík. Við státum ekki af nógu öflugu fólki. Leiðtoginn er búinn á því og nýtur hvergi trausts. Leitun að öðru eins í sögunni. Ég bý í hafnarfirði og er ekki kjósandi í borginni en myndi án efa kjósa flokkinn. Af því að ég trúi á það sem flokkurinn á að standa fyrir og ég veit að Villi og hinir eru ekki eilífðin.

Ég held að fyrsti meirihluti þessa kjörtímabils hafi verið settur saman til þess að stjórna borginni. Stunda stjórnmál. Hinir tveir voru báðir einungis settir saman utan um völdin. Þörfina til þess að komast að. Þeir sem sjá einhvern mun á Degi og Villa í þessu eru blindir.

Í báðum tilfellum er þessu hespað af á nokkrum tímum. Í tilfelli Dags snérust þeir tímar eingöngu um það hverjir ættu að sitja hvar. Og þar með lauk samningsgerðinni. Í tilfelli Villa var verið að stinga nógu miklu upp í Ólaf til þess að gengi saman. Í hvorugu tilfellinu mjög rismikið.

Lýðræðið er skrýtið atriði. Allt þetta má af því að þetta fólk er réttkjörið. Þess vegna stoðar ekki að kvarta. Þetta völdu borgarbúar. Allt tal um skort á lýðræði í þessum tilellum sýnir fullkominn skort á næmni fyrir því hvað lýðræði stendur fyrir. Lýðskrum er allt annað en lýðræði. Mér finnst garfalvarlegt þegar reynt er að eyðileggja og kenna rangtúlkanir á þessu mikilvæga atriði í okkar stjórnskipan.

Hver var spurningin aftur? Jú ég styð meirihlutann en áskil mér fullan rétt til þess að vera óánægður með margt. Þó ekki hvernig hann varð til því þar voru engar reglur brotnar. Og sennilega forherðist ég í afstöðunni þegar ég upplifi það hvernig málsmetandi menn eru teknir af lífi vegna þess eins að þeir skiptu um samferðafólk í pólitík. Ég spái því eindregið að þeir sem standa fyrir því munu uppskera ævarandi skömm þó síðar verði.

Ég segi já, með fyrirvörum.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 25.1.2008 - 17:37 - 5 ummæli

Skítug pressa.

það er bara þannig að þegar pólitískur rétttrúnaður og skepnuskapur rennur saman í fólki sem hefur svo vinnu af því að búa til blöð þá er auðvitað ekki von á góðu.

Þeir hafa ekki verið sparir á það íslensku vitringarnir sem skrifa blöð að gagnrýna bandarísk stjórnmál. Oft með réttu. Sér í lagi hafa margir þeirra haft ímugust á því þegar kappið ber menn í að blanda saman einkalífi og pólitík. Skítkastið þar vestra nær oft mögnuðum hæðum þegar verst lætur.

Þá er verið að eltast við það hvort menn hafi reykt hass á menntaskólaárum og hvort menn hafi borgað skuldir sínar. Framhjáhald hefur aldrei þótt gott. Allt týnt til og mörkin óljós milli einkalífs og stjórnmála. Fáir hér hafa verið tilbúnir til þess að verja þetta.

Hver man ekki eftir Clinton málinu sem margir íslenskir blaðamenn kölluðu frekleg afskipti af einkalífi og nefndu það sem dæmi um úrkynjun amerískrar blaðamennsku og stjórnmála. Nefndu gjarnan máli sínu til stuðnings að við evrópumenn værum svo fágaðir að menn hefðu ekki kippt sér upp við að forseti Frakklands ætti barn framhjá konu sinni.

DV í dag er búið að gleyma þessum þröskuldum. Prinsippin fokin enda liggur lífið á í baráttunni gegn nýja meirihlutanum. Þar er ekki hikað við að gera persónuleg mál Ólafs borgarstjóra að forsíðufrétt. Mál sem hafa ekkert með stjórnmál að gera.

Þetta voru ekki fréttir í síðustu viku. Er þetta svaðið sem við viljum sökkva í? Er ekki rétt að grafa upp erfið mál sem við öll getum lent í án þess að það sé talið skerða starfsgetu okkar? Ég efast ekki um að með lagni og nægum skepnuskap er hægt að finna ýmislegt um flesta.

Mér finnst þeir DV menn vera að ná þeim ótrúlegu lægðum sem fyrrum ritstjórar þessu snepils náðu áður en þjóðin og eigendur fengu nóg. Fordómar gangvart fólki sem á í geðrænum vanda skín í gegn og er þessum mönnum ekki til sóma.

Einungis þeir sem hafa rétt skírteini frá einum degi til annars og geta sannað að þeir séu ekki eða hafi ekki í neinum vanda helsufarslega geta sinnt stjórnmálum. Þeir sem hafa veikst eru að mati þessara manna ekki þess verðugir að sinna stjórnmálum.

Er ekki mál að linni jafnvel þó menn aðhyllist einn flokk frekar en annan? Viljum við sökkva í þetta fen? Vorum við ekki öll búin að fá nóg af svona blaðamennsku?

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 25.1.2008 - 10:10 - Rita ummæli

Réttlátur minnihlutinn.

Ég hef skrifað þessa grein áður. Það var reyndar að moggablogginu. Nenni ekki að fletta henni upp þannig að ekki er víst að ég muni hana orðrétt. Þið fyrirgefið.

Þá var umfjöllunarefnið mótmæla ofbeldi saving Iceland. Þar sem ruðst er inn á vinnusvæði og vinnustaði og efnt til mótmæla gegn einhverju sem mótmælendur telja ólöglegt þó ekki sé með neinu móti hægt að benda á neitt ólöglegt.

Heilagt stríð kemur upp í hugann. Forheimskur meirihlutinn hefur ákveðið að gera eitthvað sem réttlátur og sanngjarn minnihlutinn getur ekki látið yfir sig ganga. Þá er allt leyfilegt er það ekki? Í nafni lýðræðis og sannleika. Hversu oft hafa þessi orð ekki verið misnotuð?

Rétturinn til þess að hafa uppi mótmæli er að mínu viti heilagt fyrirbrigði. En hann gengur ekki yfir ýmislegt annað sem líka er nauðsyn til þess að halda uppi allsherjarreglu. Þeir sem telja sig þurfa að brjóta lög og reglur til þess að koma sauðheimskum meirihlutanum í skilning um afstöðu sína hafa ekki góðan málstað.

Stjórnskipan okkar er einföld. Við notumst við lýðræði. Kosið er reglulega til þings og sveitarstjórna. Þau yfirvöld sem verða til eftir kosningar eru lögleg. Og hafa því lögvarinn rétt til þess að taka ákvarðanir. Jafnvel ákvarðanir sem meirihluti kjósenda er mótfallinn. Þetta er grundavallaratriði og ekki umsemjanlegt. Löglega kosnir einstaklingar hafa fyrst og fremst skyldur gagnvart sannfæringu sinni. Þeir sækja umboð sitt til kjósenda á fjögurra ára fresti en ekki skoðanakannanna.

Fíflagangur sá sem við sáum í borgsrstjórn í gær á ekkert skylt við réttinn til að andæfa. Tilraun til þess að skemma og lítilsvirða fullkomlega löglegan gjörning er í besta falli dónaskapur og móðgun við lýðræðið.

Heyrði Sigurjón Egilsson fagna þessu í útvarpinu í morgun. Og það var rökstutt með rökum sem eiga akkúrat við um þá sem héldu fundinn. Sumsé rétt þeirra til lýðræðis. Engum hefur dottið í hug að svipta fólk réttinum til mótmæla en skríllinn vildi einmitt reyna að svipta lögleg yfirvöld sínum rétti. Hvernig þetta fólk vill hafa hlutina liggur svo ekki fyrir.

Best reynist að hafa eina skoðun á svona málum óháð því hvort menn halda með einhverjum eða ekki. Kemst ekki hjá því að hugsa um það hvernig Sigurjón og félagar hefðu brugðist við ef ungliðar sjálfstæðismanna hefðu hagað sér svona þegar Björn Ingi nýtti sér stjórnarskrárvarinn rétt sinn til þess að fara eftir sannfæringu sinni þegar hann í reykfylltum bakherbergjum stakk undan síðast.

Hlutlaus pólitískur fréttaflutningur og rannsóknarblaðamennska er undantekning hér en ekki regla. Hér halda flestir með einhverjum og verja sig og sitt seint og snemma.

Alveg óháð kostnaði.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 25.1.2008 - 10:06 - Rita ummæli

Naglinn á höfuðið.

Pétur Gunnarsson skrifar grein um heilsufar Ólafs borgarstjóra og umræðuna. Frábær pistill. Geri hvert orð að mínum.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 24.1.2008 - 09:40 - 1 ummæli

Hugtakanotkun.

Eitt orð er meira notað en önnur þegar vitringarnir tjá sig um atburði daganna í pólitíkinni. það er að nýji meirihlutinn gangi á svig við lýðræðið. Í hverju liggur það? Hvernig er það reiknað?

Getur meirihluti orðið ólýðræðislegt fyrirbrigði. Var meirihlutinn sem Björn Ingi sprengdi lýðræðislegur, eða sá sem hann stofnaði? Hvað ræður í þessu.

Er eitthvað sem bannar mönnum að fylgja sannfæringu sinni og ganga til liðs við aðra samstarfsaðila? Er það ekki einmitt lýðræðislegur réttur Ólafs eins og það var Björns Inga á sínum tíma.

Er pólitísk sannfæring Ólafs minna virði en Margrétar og Guðrúnar? Eða þeirra sem neðar eru á listanum og fylgja Ólafi að málum. Margrét hefur sérhæft sig í því að hætta pólitísku samstarfi á þeim forsendum að sannfæring hennar bjóði ekki upp á annað.

Hver er munurinn á því og að hefja samstarf á sömu forsendum? Af hverju er Margréti hælt fyrir það sem Ólafi er talið til lasts? Er pólitísk sannfæring hans léttvæg en Margrétar lofsverð?

Það fylgir því töluverð ábyrgð að tala um að þessi gjörningur sé ekki lýðræðislegur. Hann kann að vera arfavitlaus en það er annar handleggur. Sé þetta ólýðræðislegt var gjörningur Björns Inga það líka. Enginn vafi leikur á því.

Við búum við prýðilegt lýðræði hér. Og það verður alltaf réttur lýðræðislega kjörinna fulltrúa að taka vitlausar ákvarðanir.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 24.1.2008 - 00:35 - Rita ummæli

Missir framsóknar.

það er nefnilega það. Björn Ingi segist hættur í pólitík. Það þýðir væntanlega að hann sé hættur og ætli ekki annað. Er samt ekki viss um það…

Hitt er ég viss um og það er að framsóknarflokkurinn mun finna fyrir brotthvarfi hans. Sjálfseyðingarhvöt þess flokks er viðbrugðið. Auðvitað er slegist í öllum flokkum og það stundum ótæpilega. Sérstaklega getur verið erfitt þegar ungir og sprækir strákar eins og Bingi ryðjast fram fyrir raðir sem sumir hafa staðið í lengi.

En framsóknarmenn hafa einhvernveginn ekki haft lag á því að lifa svona fæting af. Þorsteinn fór í fýlu út í Davíð, sem reyndar stendur enn, en Guðni opinberar allt í bók nánast í sömu mund og atburðir gerast. Össur og Ingibjörg gengu í gegnum erfiða tíma og það duldist engum. Samt tókst þeim að lenda á löppunum. Eins og gengur.

Fáir hafa verið duglegri, ef undan er skilinn Dagur B fyrir þremur mánuðum, að halda því á lofti að Björn Ingi sé spilltur en framsóknarmenn sjálfir. þarf spillingarsían ekki að fara eitthvað fyrr af stað en þegar menn eru orðnir oddvitar flokksins í borginni? Hef enga trú á þvi að hann sé verr haldinn af spillingu en margir aðrir.

Hitt hefur hann sem fáir í hans flokki hafa aðrir. Hann hefur einhverja manneskjulega taug. Getur náð til fólks. Best kom þetta í ljós þegar hann neyddist til þess að slíta meirihlutanum. Í raun absúrd mál en hann seldi meginþorranum það létt.

Hann er fjandakornið eini kjörni fulltrúi framsóknar í borginni hvort heldur sem við tölum um sveitarstjórn eða ekki. Sé ekki nokkurn annan leika það eftir eins og málum er háttað enda stefnir flokkurinn nú hraðbyri í sveitina.

Ekki vottar fyrir framsóknartaug í mér. En það er samt missir af drengnum og þetta veikir minnihlutann í borginni. Og rústar framsóknarflokknum.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 23.1.2008 - 23:48 - Rita ummæli

Kálið er ekki sopið.

Nú verður spennandi að sjá hvort nýji meirihlutinn kemst úr sporunum og lifir til loka. Eins og vænta mátti er brekkan brött. Aðstæðurnar bjóða ekki upp á annað. Fjölmiðlar kynda undir og trúa öllu sem Dagur segir eins og nýju neti. Segi hann Villa hafa boðið Svandísi eitthvað þá hlýtur Villi að hafa boðið henni eitthvað. Nema hvað.

Ég þekki þá tvo, Vilhjálm og Ólaf ekkert. Augljóst er þó að þeir eru klaufar í fjölmiðlum og báðir gersamlega lausir við sjálfstraust. Ekki er það að hjálpa því svona samstarf eins og þeir hafa komið á er niðursoðið á stuttum tíma í sömu reykfylltu bakherbergjum og Bingi og Dagur notuðust við síðast. það verður alltaf tilefni til gagnrýni og þá reynir á menn. Feluleikur og farið á bak við fólk. þannig var það síðast og þannig er það núna. Og verður næst sama hver á í hlut. Þá er góður eiginleiki að geta talað við fjölmiðla.

Við þessar aðstæður verður ekki séð við öllu. Léttar misfellur í málefnaplaggi verða skyndilega matur fjölmiðla og annarra sem þola þetta ekki. Þetta virðast þessir tveir menn ekki getað talað sig í gegnum. Ótrúlegt hvernig þeir láta hrekja sig í vörn aftur og aftur.

Spái því samt að þetta haldi alla leið. Hér er ekki um að ræða fjóra aðila eins og síðast þegar samið var um að vera við völd og ekkert annað. Það reyndist erfitt og límið hélt ekki. Kannski nennti Dagur ekki að gera samning um málefni til þess að negla þetta niður. Hugsanlega taldi hann það engu skipta. Völdin ein dygðu. Er nánast tilbúinn að trúa því að það hafi skipt sköpum. Ólafur kemur mér fyrir sjónir sem hárnákvæmur og hégómalegur maður. Smámunasamur. Engu máli skiptir hversu litla virðingu þú berð fyrir honum í samstarfi. Þú hlýtur að verða að bera virðingu fyrir möguleikum allra fjögurra til þess að slíta sig lausa. Allt annað er í besta falli kæruleysi. Sér í lagi hjá manni sem rétt nýlega hefur verið á hinum endanum á þannig atburðarás.

Ólafur fer bratt af stað. Talar og túlkar af hjartans list. Hann mun komast upp með það því Villi er of sjóaður til þess að láta svoleiðis smotterí skemma það sem raunverlega skiptir hann máli. Ef okkur sjálfstæðismönnum tekst ekki að skipta um skipstjóra í brúnni fyrir næstu kosningar verður okkur refsað grimmilega. Villi var búinn með sinn tíma og þessi niðurstaða breytir engu þar um. Skítt með það þó hann mælist ekki sterkur þessa dagana á meðan moldviðrið gengur yfir.

Hann er fyrir löngu hættur að mælast hjá sínu eigin fólki. Það sjá allir og það er eitthvað sem hann getur ekki kjaftað sig frá. Alveg er sama hver afrek hans pólitísk verða. Mér finnst þetta blasa við. Borgarstjórnarflokkurinn stendur að baki honum núna af því að ekkert annað er í stöðunni.

Orustan vannst en hef sterkar efasemdir með stríðið.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 23.1.2008 - 13:52 - Rita ummæli

10% borgarstjóri.

Þær eru nú þegar farnar að heyrast raddirnar um að Ólafur eigi ekki skilið að vera borgarstjóri. Á þeim forsendum að hann hafi ekki nema rúm 10% atkvæða á bak við sig. Hver er heimspekin í því?

Framsóknarmenn hafa þurft að búa við þennan söng árum saman. Þeir hefðu svo mikil völd þrátt fyrir lítið fylgi. Þetta finnst mér eins og berjast við vindmyllur.

Eina leiðin til þess að koma í veg fyrir að þetta geti gerst er að breyta kosningakerfinu okkar algerlega. Og kannski að taka upp tveggja flokka kerfi. Það er ekki alvitlaust ef ég er spurður.

Danir hafa lengi notast við minnihlutastjórnir. Hvernig ætli það færi í þennan kór? Mér sjálfum finnst fullkomlega eðlilegt að sá aðili sem minna hefur fylgið í tveggja flokka samstarfi eða jafnvel þriggja fái þessa stöðu.

Eina leiðin til þess að tryggja eðlilegan styrk og jafnvægi milli minni og stærri í svona samstarfi er að skipta jafnt. Hitt endar annars líklega með ofbeldi þess sem meira á undir sér og því sjálfhætt.

Þess vegna hef ég illa getað skilið þetta tal. Virkar kannski eðlilegt á fyrstu en ekki ef dýpra er kafað.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur