Þriðjudagur 13.12.2016 - 11:55 - FB ummæli ()

Samstaða íslensku þjóðarinnar gegnum súrt og sætt

Ung kona með bólusótt með barnið sitt og sem búið er að bólusetja

Um helgina verður haldið upp á 140 ára afmæli íslenska læknaskólans (síðar Læknadeildar Háskóla Íslands), þótt saga læknisfræðinnar og menntun læknisefna eigi sér reyndar tæprar einnar aldar eldri sögu. Í vikunni kom svo út grein um sögu bólusetninga á Íslandi hjá Landlæknisembættinu, Almennar bólusetningar barna á Íslandi – helstu áfangar í sögu bólusetninga. Þar kennir margra grasa og lesningin holl fyrir okkur flest. Um mikilvægi góðra bólusetninga sem gerbreytt hefur heimsmyndinni og áhrifa drepsótta. Af þessu tilefni og um leið og ég óska Læknadeild HÍ og Landlæknisembættinu til hamingju, endurskirfa ég hér grein frá árinu 2010, með tilvísun í fleiri greinar frá því ári og síðar.

Fyrir hrunárið 2008 töldum við okkur fremst meðal þjóða á flestum sviðum. Sagan segir okkur engu að síður, að stundum höfum við þurft á mikilli hjálp að halda. Við höfum jafnvel þurft að gangast sjálfviljug undir vald annarra þjóða meðan birti til. Þótt ákveðnir heimsfaraldrar gátu ekki tekið hér fasta bólfestu vegna fámennis og dreifðar byggðar eins og hjá öðrum þjóðum, skullu þeir á okkur með ofurþunga þegar síst skyldi.

Sagan endurtók sig á mismunandi hátt. Nú eru rétt 300 ár frá mestu hörmungunum Íslandssögunnar. Stórabóla (smallpox) sem oft var kölluð bólusótt, gekk þá yfir íslenska þjóð og felldi þriðjung landsmanna á aðeins tveimur árum. Hrun meðal þjóðar getur vart orðið meira. Flestir á besta aldri. Þá var læknisfræðin ekki komin til landsins í nútímalegum skilningi. Um miðja 18. öld (1760) var landlæknisembættið hins vegar stofnað með fyrsta læknislærða lækninum, Bjarna Pálssyni. Fljótlega fóru undur og stórmerki að gerast og Læknaskólinn í Nesi var stofnaður. Þá gerðu menn mikið gagn úr litlu. Bólusetning sem ónæmisaðgerð var innleidd og sem er enn í dag ein merkilegasta aðgerð læknavísindanna sem slík. Í dag óskum við hins vegar eftir eilífðaræsku og erum meira og meira háð gerviþörfum. Jafnvel tímamótalyf eins og penicillín sem voru talin kraftaverkalyf þegar þau komu fyrst fram á sjónarsviðið og lengdu meðalævi manna um 10 ár að meðaltali í hinum vestræna heimi voru ofnotuð svo þau misstu virkni sína.

Við treystum oft meira á hátæknina og genin á kostnað mannlegra gilda og góðrar heilsugæslu. Erum jafnvel ótrúlega skammsýn á löngu tímabæra uppbyggingu nýs þjóðarspítala á góðum stað en sem reisa á nú með ölmusaðferðinni á Alþingi og með bútasaum á gömlu Hringbrautarlóðinni við afar óhentugan leik. Mál sem bannfært er að ræða á RÚV! Margir telja þjóðina reyndar líka ofvirka og skjótráða og þar sé skýringu m.a. að finna á óláni þjóðarinnar í hruninu 2008. Kynningarmyndband sem gert var fljótlega á eftir til að fá túrista til landsins ber þessu glöggt merki. Þar mætti ætla að flestir sem fram komu væru bullandi ofvirkir, á örvandi efnum eða undir áhrifum íslenskra orkudrykkja. Miklum fjármunum var varið í kynningarverkefnið, Inspired by Iceland, af hálfu ríkisstjórnar, í þeirri von að það bjargaði landinu frá glötun.

Talið er að bólusótt (Smallbox) sem nú er búið að útrýma hafi borist fyrst til Íslands snemma á 13 öld og síðan gengið yfir sem faraldrar tvisvar til þrisvar á öld. Veikin var alvarlegust hjá fullorðna fólkinu. Vegna fámennis þjóðarinnar náði bólusótt ekki að vera landlægur sjúkdómur hér á landi eins og í öðrum löndum. Þá hefði þjóðin sennilega þurft að vera að minnsta kosti helmingi fjölmennari en hún var. Þess í stað gekk hún yfir í faröldrum með löngum millibilum. Ef langt var á milli faraldra veiktust hlutfallslega fleiri og faraldurinn varð skæðari.

1707 – 1709 er talið að allt að þriðjungur þjóðarinnar, 18.000 manns, hafi hafi dáið úr faraldri af bólusótt sem barst með fötum manns sem dó á leið til landsins. Var faraldurinn einn sá versti í heiminum á þeim tíma. „Svo einkennilega sem það hljómar að þá mátti bæta barnamissirinn með að eignast fleiri börn en fullorðna var ekki hægt að bæta og afleiðingarnar urðu skelfilegar fyrir þjóðina. Mannfallið var einna mest hjá ungu og fullfrísku fólki og því varð mikill skortur á vinnuafli, auk þess sem fólki á barneignaraldri fækkaði mikið og fjölgunin varð því hæg næstu áratugina. Hjáleigur og kotbýli lögðust víða í eyði. Á árunum fyrir bólusóttina í upphafi 17 aldar höfðu sprottið upp hjáleigur og þurrabúðir við sjóinn þar sem fólk byggði afkomu sína að miklu leyti á sjósókn, en mikill afturkippur kom í þessa þróun með bólusóttinni. Jafnframt urðu breytingar á landbúnaði, nautgripum fækkaði þar sem kúabúskapur var vinnuaflsfrekari en sauðfjárbúskapur og mikilvægi sauðfjárafurða í útflutningi jókst“

Bólusótt hafði þannig gríðarlega mikil áhrif á þróun íslensku þjóðarinnar og áhrif hennar á 18 öldina sennilega mikið vanmetin í Íslandssögunni. Leitt hefur verið að því líkum að bólusóttin hafi einnig átt ríkan þátt í endalokum þjóðveldisins á þrettándu öld með því að draga svo úr viðnámsþrótti þjóðarinnar að henni var nauðsynlegt að ganga erlendu valdi á hönd. Þannig var hrunið með örðum hætti á Þjóðveldisöld og ekki hægt að jafna við hrunið í dag sem er tilbúið efnahagshrun af okkar eigin völdum. Til viðbótar bættust oft mikil veðurharðindi og eldgos svo sem í móðuharðindunum í lok 18. aldar.

Árið 1802, aðeins 6 árum eftir að bretinn Edward Jenner sýndi fram á að nota mætti kúabólusmitefni til bólusetningar gegn bólusótt 1796, var tekin upp kúabólusetning á Íslandi. Af tilstuðlan danakonungs sem sá aumur með þjóðinni og hve illa hún hafði farið út úr bólusótt í upphafi aldarinnar og miklu verr en aðrar Evrópuþjóðir, var kúabóluefni útvegað til landsins fyrst þjóða. Þá var Landlæknisembættið eins og áður segir nýstofnað hér á landi og eitt af fyrstu verkum læknanna sem útskrifuðust úr Læknaskólanum á Nesi var að sjá um bólusetningar hér á landi. Menn geta rétt ímyndað sér hvað sveitasamfélaginu var mikill akkur í því að fá þessa bólusetningu innleidda og sem á næstu öldum smá dró úr möguleikum á nýjum faröldrum (síðasti 1839).

Á svipuðum tíma og bólusetning gegn stórubólu hófst á Íslandi eða 1803 var farin fyrsta heimsreisa sögunar í þeim tilgangi að bæta heilsu annarra þjáðra þjóða. Það gerðu Spánverjar til að vernda nýlenduherrana og þræla þeirra gegn bólusóttinni í Suður- og Mið-Ameríku (Balmis leiðangurinn). Fyrsta alþjóðahjálp þjóðar þannig í vissum skilningi, en í eigin þágu. Vert er að benda á söguna um litlu stúlkuna frá Haítí í þessu samhengi og áþján innfæddra í nýlendunum síðar.

Um 1970 var bólusetningunum síðan hætt gegn stórubólu á Íslandi  og 1977 var talið að búið væri að útrýma sjúkdómnum í öllum heiminum, eða svo var talið. Eftir hryðjuverkaárásina á tvíburaturnana í Bandaríkjunum 2001 fóru hins vegar af stað sögusagnir um að bólusóttarvírusinn væri enn til á rannsóknastofum stórveldanna og mögulega gætu þessir stofnar komist undir hendur hryðjuverkamanna, sérstaklega í gömlu Sovétríkjunum sem þá voru að liðast í sundur. Aðgerðir ríkisstjórna um heim allan miðuð þá að því fá bóluefni til taks ef á þyrfti að halda m.a. hér á landi þar sem 10.000 skammtar voru fluttir til landsins frá Danmörku.

Eftir efnahagshrunið 2008 fór a.m.k. fjórðungur þjóðarinnar á vergang í fjárhagslegum skilningi og margir flúðu land. Angistin var ekki vegna dauðsfalla vina og ættingja vegna smitsjúkdóma heldur óvissunnar um afkomu sína í framtíðinni og barna. Þjóðin hafði aldrei skuldað annað eins og ekkert alvarlegt mátti koma upp á í þjóðarbúskapnum til að illa færi. Hjákot bankanna tæmdust og aftur þurfum við treysta á alþjóðahjálp, þá ríku, fiskinn, sauðfjárræktina og nágranalöndin, vini okkar. Þjóðin var aftur orðiðn lítil og brothætt og mikill niðurskurður í heilbrigðiskerfinu. Nú aftur fáum árum seinna ein ríkasta þjóð heims miðað við íbúafjölda, túristar frá öllum heimshornum streyma til landsins en heilbrigðiskerfið aldrei veikara.

Flestum alvarlegum farsóttum hefur verið rutt úr veigi með bóluefnum um stundar sakir a.m.k. en lífsstílssjúkdómar og offita nú mesta heilbrigðiógnin ásamt vaxandi sýklalyfjaónæmi. Í vaxandi mæli er jafnvel farið að bólusetja gegn algengum sýkingarvöldum sem í flestum tilfellum veldur ekki lífhættulegum sýkingum. Kraftaverkalyfið penicillín sem kom fram á sjónarsviðið rétt fyrir miðja síðustu öld, gjörbreytti stöðu mannsins gegn alvarlegustu bakteríusýkingunum í þá daga. En Adam var ekki lengi í paradís því að um leið og hægt var að verksmiðjuframleiða penicillínið var farið að ofnota það, jafnvel við kvefsýkingum þar sem það virkar ekkert. Og smá saman urðu bakteríurnar ónæmar fyrir lyfjunum. Ísland var framan af vel statt meðal nágranaþjóðanna í þessu tilliti en um aldarmótin voru allt að 40% algengustu sýkla komnir með ónæmi fyrir penicillíni og helstu varalyfjum. Líklegasta skýringin var ofnotkun lyfjanna.

Sýklalyfjaónæmið er nú talið meðal mestu heilbrigðisógna framtíðarinnar að mati Alþjóðlegu heilbrigðisstofnunarinnar WHO. Árið 2011 var farið að bólusetja gegn bakteríum sem valda flestum alvarlegustu öndunarfærasýkingunum og eyrnabólgum barna, m.a. þeim stofnum sem þá voru sýklalyfjaónæmir og sem hefði þá um leið átt að geta hjálpað okkur mikið að draga úr óhóflegri sýklalyfjanotkun og sem er enn mest meðl Norðurlandanna. Vandamál sem var að stærstum hluta okkur sjálfum um að kenna í upphafi, mest meðal yngstu barnana og þar sem erfitt hefur verið að fylgja klínískum leiðbeiningum um sýklalyfjanotkun og eftirfylgd með veikindum barna í heilsugæslunni í stað bráðalausna úti í bæ. Ný bóluefni eru síðan væntanleg þegar við höfum efni á. T.d. HPV bólusetning drengja (og sem þegar 2012 ungar stúlkur fengu) og þar sem sá kynsjúkdómur (HPV veirusýkingar) veldur flestum krabbameinum í munni og hálsi karla í dag. Eins bólusetning gegn hlaupabólu sem veldur oft miklum óþæginum meðl ungra barna og vinnutapi foreldra og sem getur auk þess verið lífshættuleg, sérstaklega fullorðnu fólki.

Fyrstu læknarnir sem menntuðust fyrir aldarmótin 1800 á Nesi og síðar í Kaupmannahafnarháskóla, einn í hverjum landsfjórðungi, önnuðust starfið sitt vel. Forgangsmál var að ná niður ungbarnadauða og bólusetja gegn bólusóttinni. Lögð var áhersla á hreinlæti og að mennta yfirsetukonur til ljósmæðranáms. Prestarnir lögðu sitt á vogarskálarnar og héldu um bólusetningaskránna í kirkjubókunum. Þannig varð til stærsta og mikilvægasta lýðheilusuátak Íslandssögunnar. Í dag er læknismenntun á Íslandi óvíða betri og heilbrigðiskerfið þúsund sinnum öflugra. Þar sem bólusetningar og smitjúkdómavarnir við allskyns nýjum smitsjúkdómum á afskekktir eyju í miðju Atlantshafi norður við Norðurheimskautsbaug er helsti hornsteinninn. Hvergi skiptir meira máli samstaða almennings og góður skilningur á smitsjúkdómavörnum hverskonar.

En blikur eru á lofti og umræða dagsins um velferðamálin ber glöggt með sér. Unga fólkið skuldugt upp fyrir haus og velmegunar- og lífstílssjúkdómarnir að gera út af við okkur. Lyfjanotkun í flestum lyfjaflokkum hvergi meiri í veröldinni. Kvíða og þunglyndislyf meira notuð hjá þjóð sem annars er talin er ein sú hamingjusamasta í heimi! Allt of margir farnir að kvarta um aðgengi að læknishjálp, sérstaklega gamla fólkið, jafnvel að bráðaþjónustunni og að geta svo ekki einu sinni talað við lækninn sinn, ef hann á annað borð finnst. Eitthvað fyrir þjóðina að hugleiða varðandi æðstu stjórn heilbrigðismála landsins. Raunniðurskurður á heilbrigðiskerfinu í stað uppbyggingar hjá einni ríkustu þjóð heims í dag og sem er meiri sem hluti af þjóðartekjum en í flestum löndum sem við viljum bera okkur saman við.

„Ef bólan tekur hann ekki“ – Eir IX (fyrri hluti)

„Ef bólan tekur hann ekki“ – Eir IX (seinni hluti)

 

 

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn