Sunnudagur 26.2.2017 - 11:00 - FB ummæli ()

Strengjabrúðan RÚV og öryggi okkar hinna

Til að nauðsynleg þjóðþrifamál fái góðan framgang þarf virka þjóðfélagsumræðu. Að mörgu þarf að hyggja og þegar byggja á stórt og vandað til framtíðar. Þetta ekki ekki síst við um stærstu og dýrustu ríkisframkvæmd Íslandsögunnar, nýjan þjóðarspítala, og þegar sá gamli er löngu sprunginn og úr sér genginn. Þróun sem þjóðin hefur ekki farið varhluta af sl. árstug og fé ávalt vantað til úrbóta eða framkvæmda. Smjörklípuaðferðin þess vegna látin duga á Alþingi okkar Íslendinga.

Nú er hins vegar mál að linni, á einu besta hagsældartímabili Íslandssögunnar. Í stað bestu lausnar, á hins vegar að halda áfram með áætlanir um gamlan samsuðuþjóðarspítala og byggist á hugmyndum í lok síðustu aldar og breytingum sem gerðar voru á kreppuárunum hinum síðari. Mikla óhagkvæmnin er varðar nýbyggingar og endurnýjun á hálfónýtu húsnæði Hringbrautarlóðarinnar (alls um 140.000 fm. þar 80.000 fm í nýbyggingum), og mikils aukakostnaðar miðað við að byggja nýtt á opnum og hagkvæmum stað (reiknaður aukakosnaður enda yfir 100 milljarðar IKR). Sérstakt áhyggjuefni er skert aðgengi starfasfólks og sjúklinga að spítalanaum á illa staðsettri lóð sem stöðugt hefur verið þrengri stakkur búinn af borgaryfirvöldum í Reykjavík.

Ábendingar ýmissa fagaðila og fjöldasamtaka sl. ár, m.a. frá SBSBS, hafa verið hundsar. Alvarlegast að mínu mati er skert og óöruggara aðgengi í sjúkraflutningum, m.a. fyrir sjúkra-/þyrlusjúkraflug, að ekki sé nút talað um ef Reykjavíkurflugvöllurinn allur verður farinn úr Vatnsmýrinni. Kynningar RÚV á málinu hefur alveg vantað má segja frá upphafi. Mál sem m.a. hefur verið staðfest með bréfi ritstjórna Kastljóss að stjórnendur þar á bæ telji að ekki megi ræða eða „rugga bátnum“. Ekki megi þannig stugga við sérhagsmunatengslum hjá ríki og borg. Áætlanirnar hafa engu að síður í heild sinni mætt harðri gagnrýni heilbrigðisstarfsfólks í meira en áratug og skoðanakannanir endurtekið sýnt vilja hjá þjóðinni að áta endurskoða staðarval nýja spítalans í heild sinni og byggingaáform sem aðrar þjóðir klára á 5-10 árum á vel völdum stað.

Þöggun stjórnvalda og sér í lagi með þátttöku RÚV, er ein alvarlegasta þöggun á opinberri umræðu síðari ára. Alvarlegasti hlutinn snýr að mínu mati eins og áður sagði að væntanlegu óöryggi tengt sjúkraþyrlufluginu á Nýjan Landspítala. Þar vantar nýtt áhættumat fyrir lendingar vegna breyttra forsenda á hönnun þyrlupalls á spítalanum eftir 2012, nánar tiltekið brottnám aðflugsbrauta (opinna svæða) með uppbyggingu sunnan við spítalann (á Valslóð) sem og lokun neyðarbrautarinnar (aðal aðflugsbrautar fyrir þyrlurnar). Sem lækni og fagaðila ber mér skylda að kalla eftir hjálp þar sem slysin gerast og fyrirbyggja ný eins og kostur er. Ekki er til of mikils mælst að fá a.m.k. einhver viðbröðgð frá ábyrgum aðilum. Sjúkt heilbrigðiskerfi og helsjúkar spítlalaáætlanir geta í myndlíkingu verið sjúklingar og fjölmiðlar nærstaddir vegfarendur. Mál sem getur varðað samgönguöryggi og velferð í mestu neyð lífsins hjá flestum. Ekki síst hjá landbyggðarfólki og sjómönnunum okkar. En lífsklukkan tifar og brátt verður ekki aftur snúið af áðurnefndri nýrri og sjálfskapaðri neyðarbraut. Nýr heilbrigðisráðherra og meirihluti Alþingis hefur hingað til horft undan. Þverpólitíska hringavitleysan heldur þannig áfram og sem alls ekki má einu sinni að ræða í fjölmiðli sem við við töldum okkar allra!

Þöggun á þjóðaröryggi við hönnun Nýs Landspítala?

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 16.2.2017 - 10:18 - FB ummæli ()

Þöggun á þjóðaröryggi við hönnun Nýs Landspítala?

http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2017/02/16/thoggun-a-thjodaroryggi-vid-honnun-nys-landspitala/Nýtt mat æpir fyrir öruggara aðgengi sjúkra og slasaðra í framtíðinni að fyrirhuguðum Nýjum Landspítala við Hringbraut og sem tengist í dag m.a. 1000 sjúkraflugum á ári, þar af um 300 með þyrlum LHG og sem langflest eru til þjóðarspítalans okkar í Reykjavík (LSH). Alger óvissa er nú um rekstur Reykjavíkurflugvallar og sem var megin forsenda fyrir upphaflegu staðarvali spítalans um aldarmótin síðustu vegna sjúkraflugsins, eða allt til ársins 2012 þegar ákvörðun var skyndilega tekin af borgaryfirvöldum  að Reykjavíkurflugvöllur skyldi með tímanum burt úr Vatnsmýrinni og reyndar borginni allri.

Sér í lagi vantar nú strax nýtt áhættumat fyrir væntanlegt sjúkraþyrluflug til spítalans og þar sem neyðarbrautin er svo gott sem farin. Megin aðflugs/fráflugsbraut að spítalanum og upphaflegar hugmyndir gerðu alltaf ráð fyrir hjá SPITAL hópnum og þegar sótt um um leyfi flugmálayfirvalda að reisa þyrlupall á spítalanum. Þegar er farið að byggja á Valslóðinni og stefnan tekin hjá Reykjavíkurborg með byggingar í sjálfri Vatnsmýrinni. Miklu verri skilyrði þar með fyrir þyrlurnar að athafna sig við spítalann og engin opin öryggissvæði (fyrir neyðarlendingar) í kringum þyrlupallinn eina á 5. hæð rannsóknarhússins, rétt fyrir utan glugga legudeilda meðferðarkjarnans. Gjörbreyttar forsendur þannig og upphaflegar áætlanir um nauðsynlegt þyrluflug gerðu alltaf ráð fyrir. Allt til ársins 2012 og sem flestar þjóðir kappkosta að hafa í sem bestu lagi við hönnun nýrra spítala.

Afar mikil og almenn ánægja ríkir til að mynda með ákvörðunum stjórnvalda nú í Noregi og Danmörku á byggingum nýrra þjóðarspítala til framtíðar. Svo sem í Kalnes, Aarhus, Herlev og Hilleröd sem allt hefur tekið innan við áratug að skipuleggja og byggja, á sem bestum stað. Metnaðarfull og afar hagkvæm byggingaverkefni þar sem byggt er á opnum svæðum m.t.t. hagkvæmni (sparnaðar), góðs aðgengis almennings, öruggra sjúkraflutninga og þróunarmöguleika byggðar síðar (stækkunarmöguleika spítalana þar á meðal). Af hverju ætlum við þá að þurfa að byggja okkar þjóðarspítala á eins óhagkvæman og óöruggan máta og hugsast getur. Hvað sérhagsmunahópar í gamla miðbænum í Reykjavík ráða þarna öllu. Þokkaleg þjóðargjöf það fyrir þjóðina fyrir a.m.k. 150 milljarða ISK þegar upp verður staðið frá verkefninu í lokin, kannski árin 2030-2035.

Öll þessi mál hefur ekki mátt ræða sl. misseri á RÚV, útvarpi og sjónvarpi allra landsmanna. Þrátt fyrir endurteknar ábendingar til að mynda SBSBS (staðfest skriflega af fréttastjóra Kastljóss 14.12.2015 til undirritaðs og að stjórnendur RÚV líti á málið sem endanlega afgreitt og ekki eigi að rugga bárnum meira!). Ekki til frekari kynningar fyrir þjóðinni og sér í lagi landsbyggðinni! Mál sem samt allar skoðanakannanir hingað til styðja og sýna að meirihlutavilji sé til að endurskoða í heild sinni. Ein alvarlegasta þöggun í opinberri stjórnsýslu á seinni árum að mínu mati og sem varðar velferð og öryggi okkar allra í framtíðinni. Og þar sem sjálft Alþingi þar að auki stingur bara hausnum í sandinn!

https://www.facebook.com/vilhjalmur.arason/posts/10203013599378471?pnref=story

 

Sjúkraflug á Íslandi í öngstræti!

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Íþróttir · Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 11.2.2017 - 17:31 - FB ummæli ()

Gegn ölóðum áfengisáróðri á Alþingi

Áfengi er sennilega miklu skaðlegra heilsunni en tóbak og ef allt er reiknað með. Okkur finnst sjálfsagt að takmarka aðgengið að tóbaksvörunum eins og hægt er, m.a. með því að taka tóbaksvörur úr hillum marvöruverslana og stinga þeim undir borðið hjá afgreiðslukössunum. Tóbaksauglýsingar eru líka bannaðar og aðvörunarmerkingar alls staðar. Samt berjast nú sumir fyrir auknu aðgengi og frjálsri verslun með áfengið í matvöruverslunum á Íslandi árið 2017. Tæplega að það verði líka sett undir afgreiðsluborðin síðar.

Talsmenn Samtaka verslunarinnar og ritstjórar fjölmiðla, m.a. á víðlesnasta dagblaði landsins Fréttablaðinu í dag og sem eingöngu er rekið af auglýsingatekjum, berjast nú fyrir framgangi nýs frumvarps á Alþingi Íslendinga um frjálsa sölu áfengis í matvöruverslunum fyrir allra augum og að innlendar auglýsingar verði leyfðar í fjölmiðlum landsins. Jafnvel auglýsingaherferðir í íþróttaþáttum ljósvakamiðla. Erlendir viðskiptaaðilar eins og verslunarkeðjan Costco sjá tækifærið og hafa verið með fingurnar í frumvarpsdrögunum. Mönnum virðist ekkert heillagt í þessum efnum og berjast hiklaust gegn lýðheilsumarkmiðum og sérþekkingu heilbrigðisstarfsfólks sem telja eftir áratuga reynslu erlendis að óheft aðgengi að áfengi auki söluna og þar með neyslu á einum varasamasta skaðvaldi samfélagsins. Sama hvert litið er í félagslegu og heilsusamlegu tilliti. Slysatíðni í umferðinni, ofbeldisverka í samfélaginu, vaxandi tíðni lifrarbólgu og vaxandi óvinnufærni. Tölur um að 10% þjóðarinnar þurfi að leita aðstoðar í dag vegna áfengissýkinnar til meðferðaaðila og okkar lækna, talar auðvitað skýrasta málinu til Alþingismanna.

Það er einkennilegt að nýkjörnir fulltrúar þjóðarinnar neiti að hlusta á neyðaróp þjóðfélagsins og álit flestra sérfræðinga í málefnum félags- og lýðheilsu. Að þeir ætli virkilega að láta beygja sig undir gróðasjónarmið verslunareiganda í nafni „frjálsrar verslunar “ og þar með gegn almennum viðskiptahagsmunum fólksins í landinu í stóra samhenginu með sölu nauðsynjavara til heimilisins.

Áframhaldandi skert aðgengi að áfengi eins og nú er háttað með söluþjónustu ÁTVR og áframhaldandi öflugum forvörnum sem við höfum m.a. séð árangur af í minnkaðri áfengis- og tóbaksneyslu unga fólksins á Íslandi sl. áratug, er varnarsigur fyrir heilbrigðisöflin og þótt vissulega víða megi gera betur. Við höldum a.m.k. sjó. Og nú eru goshillurnar jafnvel líka að tæmast í verslununum eftir áralangan áróður gegn óhóflegri sykurneyslu landans. Leyfum ekki kaupmönnunum að fylla hillurnar í staðinn af miklu skaðmeiri vökva.

Þið góða og réttsýna fólk á Alþingi, standið öryggis- og heilsuvaktina með okkur heilbrigðisstarfsfólkinu fyrir þjóðina, gegn óhóflegum og hættulegum þrýstingi sérhagsmuna verslunarinnar, heilsu okkar allra vegna.

Úr öskunni í eldinn, í þágu verslunarinnar!

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 8.2.2017 - 14:24 - FB ummæli ()

Vírusarnir í apótekunum

Fáfræði þegar kemur að skynsamlegri notkun lyfja, er mikil hér á landi og krafan á bráðalausnir hverskonar er meiri en í nágranalöndunum. Skortur er á heilsugæsluþjónustu á daginn, en meira álag á skyndiþjónustu og bráðalausnir í apótekunum á kvöldin. Allskyns kúrar þrífast sem og svart pýramídasölukerfi í fæðubótaefnunum, þar sem maður er settur jafnvel á mann í söluherferðum.

Fréttir sem rata á forsíður helstu ríkisfjölmiðla og dagblaða erlendis, en miklu síður hér heima, er röng og stundum mikil notkun algengra lyfja, m.a. lausasölulyfja. Lyf sem eru mikið auglýst í íslensku fjölmiðlunum og á risaskiltum í stórmörkuðunum. Heilu húsgaflarnir jafnvel lagðir undir. Eins og um hverja aðra markaðsvöru væri að ræða og stundum að því er virðist í hörku samkeppni milli apóteka á lyfja, snyrtivöru- og fæðubótamarkaðnum. Markaður sem Samtök verslunarinnar vill nú líka bæta áfenginu inn í með lagasetningu á Alþingi.

Flest lausasölulyfja geta verið skynsamleg í litlu magni eftir ráðleggingum lyfjafræðings og í samræmi við heilbrigði og kvartanir þeirra sem í hlut eiga. Eins og fram kemur í frétt Fréttablaðsins í dag, fær samt ekki nema um 30% viðskiptavina apótekanna nauðsynlegar ráðleggingar frá lyfjafræðingi við kaupin. Ýmsar alvarlegar aukaverkanir geta hins vegar fylgt með í kaupunum. Otrivin menthol nefdropar t.d. gegn kvefi og flensueinkennum sem nú herjar, hefur skemmt nefslímhúðir landans meira en nokkuð annað gegnum tíðina, aðallega vegna óhóflegrar notkunar. Mörg gigtarlyf geta t.d. verið varasöm og jafnvel lífhættuleg.

Ofurlyf eru þau lyf stundum kölluð sem markaðssett eru með það í huga að virka að einhverju leiti kröftugar en eldri lyfin, þótt áhrifin komi oft í reynd ekki nema takmörkuðum fjölda að gagni. Lyf sem eru ætluð fáum en síðan markaðssett fyrir fjöldann, jafnvel sem lausasölulyf. Í flokki ofurlyfja eru t.d. nýjustu maga, ofnæmis og gigtarlyfin. Lyf sem Lyfjastofnun Evrópu hefur í sumum tilvikum verið með til sérstakrar athugunar á, hvort taka eigi ekki alfarið af lausasölumarkaði.

Lyfseðilsskyldar ávísanir á ákveðin lyf og lyfjaflokka er út af fyrir sig ákveðið vandamál hér á landi og sem mikið hefur verið til umræðu. Lyfjaávísanir sem er á ábyrgð lækna og heilbrigðisyfirvalda. Þar sem virkt eftirlit ríkir engu að síður fram af hálfu Landlæknisembættisins og þar sem bann hefur verið sett á allar almennar auglýsingar. Sjúklingar eru auk þess oftast meðvitaðir um hugsanlegar aukaverkanir og rétta notkun, þótt allt megi ofnota og misnota. Lausasölulyfin og sem í sumum tilvikum geta verið jafn hættuleg, eru hins vegar ekki undir neinu sérstöku eftirliti þótt lögum samkvæmt sé lyfjasalan undir ábyrgð lyfsalans. Þar sem greinilega miklar brotalamir liggja í afgreiðslu lausasölulyfjanna vegna markaðslögmálanna og samkeppninnar. Vírusarnir í apótekunum ef svo má segja.

http://www.visir.is/sjaldnast-veitt-radgjof-er-lyf-eru-keypt-i-apotekum-synir-rannsokn/article/2017170209052

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 3.2.2017 - 11:07 - FB ummæli ()

Úr öskunni í eldinn, í þágu verslunarinnar!

sala-640x480Enn skýtur áfengisfrumvarpi um frjálsa sölu áfengis í kjörbúðum upp kollinum af undirlægi Samtaka verslunarinnar og þeirra sem mest hafa haft sig frammi um framgangs málsin á Alþingi sl. ár. Sjálfur ritari Sjálfsstæðisflokksins sem nýsestur er á Alþingi hefur jafnvel gengið svo langt að segja að ekki þurfi að ræða þetta frekar, svo sjálfsög sé krafan. Mikill vanþroski þarna á ferðinni. Allir þeir sem unnið hafa að vímu- og áfengisvörnum eru á annarri skoðun. Landlæknisembættið (Lýðheilsustöð), SÁÁ og heilbrigðisstarfsfólk almennt talað og samkv. skoðanakönnunum meirihluti landsmanna. Samtök lækna hafa endurtekið ályktað um skaðann, ekki síst er vaðar aðgengi ungs fólks. Áfengi er eitt mesta böl nútíma þjóðfélags, þótt lítið tár geti á góðri stund glatt mannsins hjarta í góðra vina hópi. Sjálfsagt er að hafa a.m.k. hömlur á sölunni gagnvart ólögráða og eins að leyfa ÁTVR og þar með ríkinu að njóta söluhagnaðar og sem samt nær aldrei að bæta skaðann sem leggst á þjóðfélagið um síðir. Og allra síst á að auglýsa óhollustuna eins og Samtök verslunarinnar vill og fram kemur í nýja frumvarpi félaganna á Alþingi.

Mikið hefur verið barist gegn öðrum miklu vægari vímuefnum í lausasölu eins og rafrettum og sænsku snusi og sem alfarið er bannað að selja hér á landi, en selt með öðrum tóbaksvörum erlendis enda miklu skaðminni heilsunni. Í nafni þess að takmarka samt neyslu sem mest á öllu níkótíni. Samtök verslunarinnar og flutningsmenn frumvarpsins á þeirra vegum, sjá hins vegar mikla gróðamöguleika með sölu áfengis í matvöruverslunum og miklar auglýsingartekjur fyrir íþróttafélögin. Þvílík hræsni varðandi velferð unga fólksins í landinu. „Áfengissölusinnar“ hafa jafnvel borið saman frjálsa sölu áfengis í matvöruverslunum nú við afnám söluákvæða á mjólkurvörum eingöngu í mjólkurbúðunum á sínum tíma. Sú breyting skilaði sér reyndar vel, enda megin takmarkið að auka söluna á hollustuvörum, ekki minnka. Sölupakkningar og gerilseyðing mjólkurvara og geymsluþol leyfði þetta. Þessi samanburður sýnir best hjartalagið sem að baki býr hjá þeim sem berjast fyrir frjálsri sölu áfengis. Stjórnvöld og Alþingi ættu auðvitað að stuðla að bættri lýðheilsu, en ekki öfugt. Höfum reyndar séð nýlega áður hvernig lýðheilsusjónarmiðin eru látin víkja fyrir vilja verslunarinnar með sölu á t.d. erlendu kjöti, sýktu af sýklalyfjaónæmum bakteríum og sem eru nánast óþekktir í okkar íslensku flóru. Eitt af stærstu áhyggjuefnum WHO (Alþjóða heilbrigðisstofnunni) í framtíðinni.

Svo ánægjulega vill til er sala sykurdrykkja að dragast saman eftir fræðsluherferð sl. misseri um óhollustu sykurdrykkja. Nú er hins vegar önnur og varasöm herferð komin í gang þar sem Samtök verslunarinnar vill láta fylla tómu goshillurnar í verslununum með áfengum drykkjum. Úr öskunni í eldinn ef svo má segja út frá lýsheilsusjónarmiðum og ef Alþingi stendur nu ekki sinn vörð.

Áfengi í vöru- og blómabúðum? (Eir XI)

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 9.1.2017 - 00:29 - FB ummæli ()

Höfuðborgarbúinn og landsbyggðin

holmavik

Hólmavík, 7. janúar 2017

Nú sit ég einn á læknavaktinni minni á Hólmavík og bíð eins og oftast eftir næsta útkalli. Norðan stórhríð i aðsigi. Umhugsunin hvað kann að bíða getur verið ansi íþyngjandi og flestir héraðslæknar kannast við. Annars er dvölin kærkomin eftir atið alla daga á Bráðamóttöku LSH, mínum aðal vinnustað. Stutt í nauðsynlegar rannsóknir og hjálp á Landspítalanum öllum. Þar sem allir vinna eftir bestu getu þrátt fyrir oft óhóflegt álag.

Í dreifbýlinu er þetta allt örðuvísi og ekki eins fyrirséð. Vaxandi túrismi hefur margfaldað álagið og sem tengist orðið flestum alvarlegustu útköllunum. Heilsugæslan á Hólmavík, sem heyrir undir Heilbrigðisstofnun Vesturlands (HVE), hefur haft sama mannafla á að skipa og aðstæður þau 20 ár sem ég hef verið í þar tímabundinni vinnu minni. Svo er um flesta aðra staði á landinu. Reyndar nýr sjúkrabíll sem er nú samt orðin gamall og slitinn og nýtt hjartalínuritstæki. Héraðið nær yfir 300 km frá suðri til norðurs eftir Ströndum. Hluti af leiðinn norður í Norðurfjörð er oft illfær og stundum lokuð. Þjóðbrautin norður yfir Steingrímsfjarðarheiði til Ísafjarðar tilheyrir héraðinu svo og innsti hluti Ísafjarðadjúpsins. Tæpir 300 km samt til Ísafjarðar frá Hólmavík. Flestir sjá hve margfeldisáhrifin vegna ferðamanna og umferðar norður er mikil, þótt íbúatala héraðsins sé ekki há. Reyndar meðalaldur íbúa ein sú hæsta á landinu. Einn sjúkrabíll, einn læknir og einn hjúkrunarfræðingur auk annars frábærs starfsfólks við heilsugæsluna og sjúkrahúsið á Hólmavík.

Þegar ég kom hingað fyrst var flugvöllurinn á Hólmavík nothæfur fyrir sjúkraflug. Svo er ekki lengur og illa haldið við og blautur. Vegna hættu á skemmdum á mikið öflugri sjúkraflugvélum sem nú eru notaðar eru malarvellir ekki lengur taldir nothæfir. Þannig er líka komið fyrir eldri flugvöllunum við Djúpið og í Reykhólsveit. Eini nothæfi flugvöllurinn er á Gjögri, langt úr alfaraleið.

Þegar slys verða á þjóðveginum eða annars staðar í sveitinni er oft um langan veg að fara. Héraðið er þá jafnvel án læknishjálpar ef keyrt er með sjúkling suður og sem tekur a.m.k. sex klukkustundir frá Hólmavík. Úr Djúpinu eða Norðurfirði getur slíkur flutningur tekið 12 klukkustundir eða meira. Lengsta vitjun sem ég veit um og flutningur út Reykjafirði nyrðri að sumri til, tók sólarhring. Vegna alls þessa sjá flestir hvað sjúkraflutningur með flugi getur bjargað miklu og þá sérstaklega ef kostur er á þyrluflutnngi LHG og veðurskilyrði og ísing í loftunum leyfir. Og gleymum heldur ekki sjómönnunum.

Ef bjóða á útlendingum og ferðafólki að ferðast um landið okkar er lágmark að sinna neyðarþjónustu sómasamlega. Stórauknar tekjur ríkisins ættu auðvitað að fara í að bæta þessa innviðaþjónustu. Bæta þarf þó sérstaklega strax við þyrlukost LHG með læknishjálp og jafnvel að staðsetja þyrlu á Akureyri og kannski aðra á Egilsstöðum, a.m.k. á sumrin. Jafnvel að koma á léttari þyrlusjúkraflutningum af Suðurlandi og bent var á í nýrri grein í Læknablaðinu eftir Björn Gunnarsson, lækni. Í greininni kom fram að sjúkraflutningar taka að jafnaði of langan tíma hér á landi og meira álag er á þyrluflug vegna lélegs ástands flugvalla víða og lágmarksmönnunar heilbrigðisstarfsfólks í héraði. Yfir 2 milljónir ferðamanna sl. ár og þar sem aukningin hefur verið um 40% á ári, kallar á bráðaaðgerðir strax. Nær vikuleg rútuslys í vetur og og önnur óhöpp sem sífellt eru í fréttum lýsir þörfinni vel. Og við höfum í raun verið ótrúlega heppin og bæta þarf ábyrgð ferðaþjónustufyrirtækja. Gera þarf eins stórátak í löggæslu á vegunum og stuðla að bætu umferðaöryggi.

Það er stórfurðulegt hvað stjórnvöld sýna vanda dreifbýlisins lítinn skilning. Til stendur reyndar að endurnýja þyrluflota LHG með 3 gömlum þyrlum og sem standast ekki lengur ýtrustu kröfur hjá bræðrum okkar og systrum í Noregi. Þar er til að mynda verið að endurnýja þyrluflotann með 17 nýjum þyrlum af fullkomnustu gerð, AW101 sérhæfða björgunarþyrla Norðmanna er með flughraða 277km/klst og hefur flugþol næstum 7 tíma og getur brætt af allt af 6 cm ís með afísunarbúnaði. Þær verða staðsettar er á um 20 bækistöðvum um landið allt. Það er fyrir utan þyrlu og björgunartækjakost hers og lögreglu sem jafnhliða er hluti almannaöryggisneti þeirra en sem kostar norskt þjóðfélag hátt í 1000 milljarða á ári hverju með hergögnum). (Hver þyrla, kostar sennilega á núvirði um 4 milljarði IKR og sem Íslendingar pöntuðu með Norðmönnum en hættu við árið snarlega árið 2008 http://www.defenseindustrydaily.com/norway-opens-up-sar-helicopter-competition-03020/). Er til mikils ætlast að Íslendingar bæti nú rösklega í 2017 og léttum þá um leið aðeins á sjálfboðavinnu björgunarsveita um landið allt og sem bjargað hafa því sem sem mögulegt hefur varið að bjarga hingað til. Þar hefur okkar mesta lán legið hingað til. Furðulegast af öllu er þó skilningsleysi ríkis og borgar nú að láta loka neyðarbrautinni svokölluðu á Reykjavíkurflugvelli eins og ekkert sé. Framkvæmd á ábyrgð ríkisins þegar upp er staðið og sem hefur þegar ollið miklum töfum á sjúkraflutningum í misjöfnum veðrum. Hvað þarf mikið til?

Að sama skapi er stórfurðulegt að byggja á nýjan þjóðarspítala sem býður ekki upp á sem besta aðkomu fyrir sjúkraflutninga utan af landi í framtíðinni. Hvað sem segja má með umferðaröngþveitið í miðbænum og sem stjórnvöld hyggjast leysa með bættum almannasamgöngum í borginni í stað umferðamannvirkja. Með lokun neyðarbrautar og uppbyggingar nú við gamla NA endann (m.a. á Valslóð og við Hlíðarenda) lokast um leið opið aðflugssvæði á fyrirhugaðan þyrlupall 5 hæðar rannsóknarbyggingar á lóðinni, rétt utan við glugga legudeilda meðferðarkjarnans sjálfs í framtíðinni! Lendingar þar eru reyndar fyrirhugaðar samkvæmt SPITAL hópsins aðeins í „neyðartilvikum“ (vegna almennt slæmra aðstæðna til lendinga). Áætlun sem 2012 miðaðist aðeins við innan við 20 lendingar á ári og þannig í raun í undantekningatilvikum. Þyrlusjúkraflutningar nálgast hins vegar í dag að vera um 300 á ári og aldrei fleiri en í ár og mættu vera mikið fleiri. Helmingur sjúklinga eru illa rannsakaðir sjúklingar eftir slys hverskonar og sem fyrri reynsla sýnir að meirihluti þurfi á skurðaðgerðum og gjörgæsluplássi að halda. Þvílík naumhyggja og þröngsýni varðandi framtíðarþjóðarsjúkrahúsið okkar, neyðarflutninga og heilsuöryggi almennt. Reykjavíkurflugvöllur var reyndar eitt af þremur helstu forsendum fyrir staðarvalinu á Hringbraut í upphafi eða allt þar til borgin ásældist meira byggingarland og fékk ríkið til að kippa þessari forsendu burt árið 2012. Enginn veit síðan í dag með framtíð hans.

Landsmenn og stjórnmálaöfl eiga nú að grípa strax í taumana. Við viljum flest halda landinu í góðri byggð og tryggja öllum lágmarks nútímalegt öryggi. Við viljum góða neyðarflutninga og nauðsynlega heilbrigðisþjónustu um landið allt eins og best má verða. Borgaryfirvöld í höfuðborginni hugsa hins vegar bara mest um sína. Mest um þéttingu íbúabyggðar, hótel og atvinnutækifæri í miðbænum. Að græða sem mest á túrismanum, sem reyndar er mikil tálsýn og flestum má vera ljóst. Umferðaröngþveiti og síðan ómögulegt skipulag varðandi nýja framtíaþjóðarspítalann og neyðarsjúkraflutninga gegnum miðbæinn ber þessu best vitni og sem hingað til hefur ekki fengist að ræða hjá yfirvöldum eða í ríkisfjölmiðlum. Ríkið dregur hins vegar áfram lappirnar og treystir á flesta aðra, aðallega sjálfboðavinnu björgunarsveita og gamla forna tíð.

http://www.laeknabladid.is/tolublod/2017/01/nr/6182

 

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 5.1.2017 - 17:56 - FB ummæli ()

Sjúkraflug á Íslandi í öngstræti!

flug

Á flugvellinum á Gjögri í haust

Árið er 2017. Hvað getur slæmt ástand síðan versnað mikið í framtíðinni tengt skipulagi á sjúkraflugi og þyrlusjúkraflugi á Íslandi vegna frammistöðu Reykjavíkurborgar sem hýsir þjóðarsjúkrahúsið okkar og stjórnvalda sem bera ábyrgð á flutningunum og aðstæðum við væntanlegt nýtt þjóðarsjúkrahús á Hringbaut?

15800786_10202890194613429_4328986368506402049_o

Ein af 17 glænýju AW101 þyrlum norsku strandgæslunnar sem þeir eru nú að fá afhenda á árinum og sem ætlaðar eru til sjúkraflutninga, sérútbúnar fyrir flug norðurslóðum með fullkomnum nauðsynlegum tækjabúnaði (m.a. til leitar) og fullkomnum afísingabúnaði (sem eldri þyrlur hafa ekki). Nýja sérhæfða björgunarþyrla Norðmanna er með umtalsvert meiri flughraða 277km/klst og hefur flugþol í allt að 7 klst. Hún getur brætt allt að 6 cm ísskán af skrokknum og hreyflum með afísingarbúnaði sínum. Tvær slíkar höfðu Íslendingar pantað 2008 fyrir LHG en hættu síðan við 2012. Norðmenn reka yfir 20 bækistöðvar slíkt sjúkraþyrluflug víðsvegar um landið allt og þar sem þessar þyrlur verða staðsettar.

Sl. daga hefur ítrekað verið bent á vanda sjúkraflugs hér á landi sl. ár og sem nálgast að vera 1000 á ári og eykst stöðugt. Aðallega er rætt nú um skert öryggi vegna lokunar  neyðarbrautar á Reykjavíkurflugvelli. Skertir samningar um flug alls staðar af landinu sem eru um 700 á ári, vöntun á flugbrautum fyrir vélar sem slíkt flug krefst úti á landi og vannýting á þjónustu þyrlusveitar LHG hefur einnig verið nefnt. Erlendum ferðamönnum fjölgar um 30% á ári og nýjustu fréttir herma að 80% aukning er á alvarlega slösuðum túristum í umferðinni á Íslandi 2015-2016 samkvæmt nýjustu fréttum og þar sem fyrri rannsóknir sýna að túristar eiga stærsta þátt í alvarlegustu umferðaslysunum á ófullkomnum vegunum landsins. Fyrirséð þannig vaxandi skerðing að nauðsynlegum öruggum flutningum á bráðveikum og slösum af landinu öllu til þjóðarsjúkrahússins til sérhæfðar greiningar og meðferðar og þar sem hver mínúta getur skipt máli.

Sem ákveðna lausn við vanda sem skapast hefur af lokun neyðarbrautar á Reykjavíkurflugvelli hafa stjórnvöld beint augum að opnun neyðarbrautar á Keflavíkurflugvelli sem mun kosta allt að 300 milljónir króna og sem samt engan vegin fullnægir þjónustu þegar um neyðartilfelli er að ræða og sem lengir flutning um a.m.k. eina klukkustund. Nú þegar er viðbragðstími fyrir sjúklinga með blóðþurrðarsjúkdóma (aðllega í hjarta og heila) oft allt of langur og fram kemur í nýrri grein í Læknablaðinu. Ekkert síður er fyrirséð mikil skerðing aðgengis að nýja þjóðarsjúkrahúsinu við Hringbraut vegna þyrlupalls sem reisa á við á þaki rannsóknahússins, rétt utan við glugga legudeilda meðferðarkjarnans á 5-6 hæð og þar sem öll opin svæði umhverfis til neyðarlendinga vantar.

Forsvarsmenn ríkis og borgar vísa hvor á annan. Ríkið ber ábyrgð á framkvæmdum við Nýjan Landspítala og borgin á lokun neyðarbrautar. Upphaflega eða árið 2012 gerðu þessir aðilar þó með sér samning að flugvöllur væri ekki skilyrði lengur við staðarval spítalans. Skipuleggjendur Spítal hópsins reikna síðan með að þyrlupallur verði aðeins notaður í undantekningatilfellum við sjúkraþyrluflugið eða sem samsvaraði um 12 lendingum á ári (árið 2012) og þegar sjúkraflutningar með þyrlum LHG nálgast að vera um 300 á ári. Í um helming slíkra flutninga er um alvarlegra veika eða slasaða að ræða sem þurfa að komast sem fyrst undir læknishendur til frekari greiningar og meðferðar. Áverkar og veikindi eru oft enda óljósir í byrjun og þar sem flestir þurfa á síðar skurðaðgerðum og gjörgæsluplássi að halda.

Eins er bent á í Læknablaðinu að sennilega séu þyrlusjúkraflutningar þegar í dag vannýtt tækifæri hér á landi og bent jafnvel á þörf á léttari þyrlum til sjúkraflutninga, t.d. frá Suðurlandi. Eins og nú horfir er því allt útlit fyrir að flutningstími sjúkra og slasaðra að þjóðarsjúkrahúsinu okkar og sérhæfðrar læknishjálpar geti lengst til muna í framtíðinni með lokun neyðarbrautar Reykjavíkurflugvallar og staðsetningar Nýs Landspítala við Hringbraut þar sem aldrei verður hægt að bjóða upp á öruggt sjúkraþyrluflug. Er þetta það sem þjóðin kaus varðandi endurreisn heilbrigðiskerfisins árið 2017 og fyrir nána framtíð?

 

http://www.laeknabladid.is/tolublod/2017/01/nr/6182

http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2016/12/02/miklar-adgangshindranir-ad-neydarthjonustu-i-honnun-nys-landspitala/ 

http://ruv.is/frett/akureyrarbaer-krefst-thess-ad-brautin-opni-a-ny 

http://www.ruv.is/frett/segir-timaspursmal-hvenaer-sjuklingur-skadast

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 3.1.2017 - 06:54 - FB ummæli ()

Djákninn á Hringbraut !

djakninn_a_myrkaÞað virðist dýrkeypt áramótaleikrit í gangi í fjölmiðlum vegna nauðsynlega spaslvinnu á gamla ónýta þjóðarsjúkrahúsinu á Hringbraut og sem kosta mun okkur að lokum meira en nýtt með fyrirhuguðum bútasaum. Ekkert nýtt hefur í raun komið fram í málinu varðandi núverandi ástand og myglu húsnæðisins og staðsetninguna á þröngri og gömlu Hringbrautarlóðinni í Miðbænum/Vesturbænum þekkja allir. Nýbyggingamöguleikar þjóðarsjúkrahúss á besta stað, með hraðari framkvæmdum og fyrir minna vegna hagkvæmnisáhrifa og flest nágranaríki framkvæma í dag þekkja hins vegar færri, en sem samtökin SBSBS hafa margoft bent á sl. ár.

Leikurinn nú er því í versta falli ljótur og sérsniðinn af þrýstingi sérhagsmunahópa fyrir að flýta framkvæmdum á Hringbrautarlóðinni, hvað sem það kostar að lokum. Í raun á heilsuspillandi stað og sem er ómögulegur út frá aðgengis- og öryggissjónarmiðum. Einskonar skollaleikur um nauðsynlegasta heilbrigðismál þjóðarinnar til framtíðar og sem enginn stjórnmálamaður eða ríkisfjölmiðill minntist á í áramótadagskrá sinni. Á einu mesta hagsmunamáli þjóðarinnar. Stjórnvöld hafa enda í raun verið helsjúk á geði hvað þessi mál varðar sl. ár og taka engu tiltali. Grafið sér þess í stað dýpri og dýpri gröf, ár eftir ár og sem er að verða þjóðinni að dýrkeyptum harmleik. Eins og undir álögum eða undir göldrum – Garún, Garún…

Dauðasyndirnar sjö við Hringbraut!

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 26.12.2016 - 14:15 - FB ummæli ()

Þjóðarsóminn og Sólheimaljósið

solheimarNú um jólahátíðina og vegna umræðu dagsins um nýjan þjóðarspítala sem stjórnvöld þykjast ekki hafa efni að að byggja upp myndalega og til langrar framtíðar, rifjast upp gamall pistill um Sólheima fyrir austan fjall og þar sem við stórfjölskyldan dvöldumst eina helgi á aðventunni fyri 9 árum. Dvöl og lífsreynsla sem ég skrifaði um stuttan pistil fyrir nokkrum árum síðan. Hvernig þetta litla samfélag fyrir fatlaða var byggt upp af elju og útsjónarsemi, næst nátttúrunni fyrir um 80 árum síðan. Maður undrast fullkomleika sambýlisins og þeirrar fyrirmyndar sem staðurinn er fyrir fólk sem má sín lítils. Sagan um upphafið er vel skráð m.a. af Jónínu Michaelsdóttur blaðamanni, og þá sérstaklega af þætti Sesselju Hreindísi Sigmundsdóttur sem byggði upp staðinn með eindæmri atorku og trú á sérstöðu fatlaðra. Og að stundum er betra að gefa en þyggja.

Orð Sesselju ættu að vera mjög hvetjandi á tímunum sem við nú lifum ”Mér leggst alltaf eitthvað til”. En einnig hugvekja hvernig stjórnvaldið og jafnvel Alþingi hugsar mest um það eitt að spara fyrir líðandi tíma, einkum þegar kemur að heilbrigðis- og velferðarmálum, í stað framsýnnar hugsunar og sem sparað getur þjóðfélaginu miklar upphæðir til lengri tíma litið um leið að bæta gæði þjónustunnar og heilbrigði þjóðarinnar.

Ljósið í sveitinni hennar Sesselju gefur enn í dag ótrúlega mikla birtu, kærleika og jafnvel visku. Miklu meira en við gerum okkur flest grein fyrir, en skynjum betur eftir á, eins og eftir aðeins stutta heimsókn í Sólheima. Orkan fylgir manni síðan eftir að heim er komið og alltaf síðar þegar tendrað er á heimatilbúnu kerti frá Sólheimum, ljósi jólanna.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 19.12.2016 - 13:19 - FB ummæli ()

Leynimakk ríkis og borgar um aðgangshindranir að nýjum þjóðarspítala á Hringbraut!

mblÍ Morgunblaðinu í dag segir Hjálmar Sveinsson, formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar að vegna fjölgunar íbúa og bifreiða stefni í að umferðin verði dauðastopp í Reykjavík eftir nokkur ár. Þess vegna verði að fá fólk til að nota almenningssamgöngur. Þetta stangast á við sjónarmið Hringbrautarsinna sem sjá engin sérstök umferðarvandamál til framtíðar. Hjálmar segir að ekki hafi verið gengið eftir fjármagni frá ríkinu, einum milljarði á ári frá árinu 2012 og sem ríkið var búið að lofa til uppbyggingar samgöngumannvirkja í borginni (m.a. Miklubrautina í stokk, nýja akstursbraut um Hlíðarfót og svo sjálfa Sundabraut sem væri samt mest á kostnað ríkisins). Stefna borgarinnar sé nefnilega að minnka vægi einkabílsins sem mest og að tilgangslaust sé að lappa upp á þegar sprungið kerfi!  Allt þá ein hringavitleysa!

Ákvörðun borgarráðs frá árinu 2012 er þannig ákvörðun um afnám á einni aðal forsendum staðarvals Nýs Landspítala við Hringbraut á sínum tíma upp úr aldarmótunum og sem lýsir í raun fordæmislausu geðþóttarvaldi í stjórnsýslu landsins út frá sérhagsmunum, ekki síst í ljósi þess að aðrir samgöngumöguleikar eru óráðnir eða í skýjunum (samgöngur með lestum og sporvögnum í framtíðinni)! Skítt með þegar fyrirsjáanlegt aðgengi að nýja þjóðarspítalanum næstu áratugina við Hringbraut (strax árið 2023), m.a. hvað alla sjúkraflutninga varðar.

Menn nefna jafnvel í þessu samhengi að starfsfólk geti bara gengið eða hjólað í vinnuna þegar þar að kemur. Ótrúlegur einfeldningsháttur vil ég segja og sem litast fyrst og fremst af draumsýn og sérhagsmunum borgarstjórnar um að halda stærsta vinnustað landsins í miðborginni og sem næst HÍ, hvað sem það kostar. Á kostnað gæða og þróunar spítalans til lengri framtíðar og ásættanlegs þjónustuaðgengis fyrir önnur hverfi en bara miðborgina sjálfa. Hvað þá landsbyggðina alla. Jafnframt óska borgaryfirvöld, til að bæta gráu á svart, að flugvöllurinn hverfi alfarið úr Vatnsmýrinni í framtíðinni og þar sem þegar sér fyrir að orðnar eru miklar aðgangshindranir fyrir væntanlegt sjúkraþyrluflug að spítalanum (með lokun neyðarbrautar og íbúa/hótelbyggðar við NA enda á Valslóðinni) sem og þegar skert öryggi fyrir allt sjúkraflug til spítalans í misjöfnum veðrum. Samtals um 1000 sjúkraflug á ári í dag. Allt til að þókknast stefnu borgaryfirvalda að „þétta miðbæinn sem mest“, í stað að þéttingu íbúabyggða í úthverfum borgarinnar allrar og jafnari aðgangs að atvinnutækifærum nálægt sinni heimabyggð, hvar svo sem menn búa. Eins að tryggja ekki frekar samgöngur betur milli hverfa og stofnbrauta úr öllum áttum kringum höfuðborgarsvæðið og hugmyndin að borgarlínu vissulega gerir að vissu marki, svo langt sem hún nær.

Ábyrgðin á framkvæmdum við Hringbrautarlóð nú er auðvitað Alþingis og ríkisstjórnar landsins og sem virðist taka þátt í blekkingarleik Reykjavíkurborgar heilshugar gagnvart þjóðinni, enda hentar ölmusuaðferðin til reksturs heilbrigðiskerfisins mönnum best á þeim bænum. Nú líka á einum mestum hagsældarárum Íslandssögunnar og sem margoft hefur verið bent á hjá SBSBS (Samtökum um betri spítala á betri stað) og víðar þessa dagana.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn