Þriðjudagur 07.04.2015 - 14:31 - 6 ummæli

Húsnæði fyrir þá fátækustu

1800 manns voru á biðlista eftir félagslegu húsnæði hjá sjö stærstu sveitarfélögunum samkvæmt könnun velferðarráðuneytisins.  Á fyrstu sex mánuðum ársins 2014 voru aðeins 8% sem fengu úrlausn á sínum vanda.  Á fundum mínum með sveitarfélögum víða um land hafa komið fram verulegar áhyggjur af  húsnæðismálum fólks í félagslegum eða fjárhagslegum vanda og skort á húsnæðisúrræðum fyrir fatlað fólk, námsmenn og aldraða.

Í skýrslu Velferðarvaktarinnar um aðgerðir til að vinna bug á fátækt er lögð m.a. áhersla á húsnæðismál. Þar þurfi sérstaklega að taka tillit til efnalítilla barnafjölskyldna og einstaklinga sem búa við fátækt þegar unnið er að úrbótum. Benti Velferðarvaktin á að viðunandi húsnæðisstaða fólks er talin vera forsenda þess að hægt sé að hjálpa fólki að takast á við félagslegan eða fjárhagslegan vanda sinn.

Í niðurstöðum verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála var talið að hægt væri að lækka leigu til þessara hópa verulega með því að veita stofnframlög fremur en lán með niðurgreiddum vöxtum.  Stofnframlög ættu einnig að koma frá sveitarfélögum og þau gætu verið í formi gatnagerðargjalda, lóða, fjárframlaga og/eða ábyrgða.  Aukið eigið fé myndi mögulega líka leiða til betri lánskjara á markaði til þessara félaga og leiða til jafnvel enn hagstæðari leigukjara. Samhliða þessari breytingu þyrfti að ráðast í átak til að fjölga íbúðum félaga sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða með stofnframlögum. Stofnframlögin yrðu þannig einn af nokkrum lykilþáttum í nýju húsnæðiskerfi fyrir fólkið í landinu, þar sem kerfið er fyrir fólkið en ekki öfugt.

Um þetta snýst frumvarp mitt um stofnframlög til félaga sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða.  Að tryggja að tekjulægsta fólkið á Íslandi hafi þak yfir höfuðið, öruggan samastað fyrir sig og fjölskylduna sína.

Eitthvað sem íslenskt samfélag á að geta boðið upp á.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (6)

  • Óskar Guðmundsson

    Ef reka á kerfi án „hagnaðarsjónarmiða“ er þá ríki/borg tilbúin að gera slíkt hið sama þegar kemur að gjöldum, lóðum osfrv.
    Mögulegt væri að gera undanþágu og að ríkið gæfi út verðtryggð skuldabréf með lágri ávöxtunnarkröfu til fjármögnunnar og sæi um ferlið.

    Þá og væri gáfulegt að flytja einingahús til landsins, ekki ósvipað Viðlegusjóðshúsunsum sem byggð voru eftir gosið í Vestmannaeyjum.

    http://www.pdx.edu/sites/www.pdx.edu.realestate/files/2Q10-8-Keetwonen-4-30-10.pdf

    Félagslegar smáíbúðir til 12-15 ára og yrðu seldar að þeim tíma sem frístundahús.
    Fjármögnun á hverri íbúð færi þá varla yfir 7 milljónir.

  • Borgar Bui

    Afhverju þorir þú ekki að segja eins og er að það sé lokað fyrir ummæli hjá þér?

  • Þú virðist ekki koma neinu í verk aðeins í nefndir. Íhaldið stoppar þig með öll mál sem gætu leitt til hagkvæmni í húsnæðismálum tekjulágra. Í þessu samstarfi er Framsókn komið í hið hefðbundna hækjuhlutverk og uppsker samkvæmt því.

  • Anna Sigríður Guðmundsdóttir

    Sæl Eygló. Mér er það vel ljóst að þú hefur ekki þau fjármagnsvöld sem þú ættir að hafa sem velferðarráðherra. Það er mjög alvarlegur stjórnsýslubrestur á Íslandi, að ráðherrar málaflokkanna sem þeir hafa á sinni ábyrgðarkönnu, hafi ekki fjármálavald yfir viðkomandi málaflokkum.

    Þannig er fjármálavaldsins ráðherra með ábyrðarlausan og ólíðandi stopptakka á þeim málaflokkum, sem aðrir ráðherrar bera ábyrgð á. Svona skörun á ábyrgð og fjármagns/framkvæmdar-valdi er ekki hægt að líða. Bankar/lífeyrissjóðir sitja svo á peningaskömmtunartakkanum, og misnota yfirburðarfjármagnsstöðu án löglegra valdheimilda.

    Af einhverjum undarlegum ástæðum virðast vera til endalausir peningar í þessum fjármagnsstofnunum, til að byggja lúxushóter út um allt? En þegar kemur að því að fjármagna kaup á mannabústöðum á kaupmáttarviðráðanlegum kjörum, þá er siðblindan í þeim stofnunum svo gríðarleg, að það virðist ekki snerta samvisku stjórnarmanna þeirra stofnana, að sumir hafi ekki möguleika á heimili á Íslandi.

    Þetta er skelfileg staðreynd, og lýsir vel nútíma hernaði fjármálaglæpastofnana.

    Íslensk fjármálastýring fær ekki plús í siðferðisvirðingarkladda heimsins, ef ekki er til snefill af siðferðisstjórnun innan fjármagnsstofnana, sem hagnast gríðarlega á að selja okurvaxta/verðtryggingar-rænd heimili fólks. Það er ekki siðmenntað og því síður réttarfarslega verjandi, að hagnast á að selja hvítflibba-þýfi.

    Þeir sem lægstu tekjurnar hafa, geta ekki átt heimili á Íslandi í dag! Það er staðreynd sem ekki er hægt að loka augunum fyrir.

    Í Noregi var hægt að leigja eina aukaíbúð í eignarhúsnæði einstaklinga, án þess að borga skatt af þeim leigutekjum. Ég veit ekki hvort þetta er þannig á Íslandi í dag. En það myndi auðvelda leigutaka og leigusala að standa skil á okurlánum lánastofnana, ef svona kerfi væri möguleiki. Hvers vegna ætti það ekki að vera möguleiki?

    Búseti er svo til fyrirmyndar á Íslandi, og stórmerkilegt að það kerfi sé ekki styrkt enn frekar af ríkinu.

    Sveitarfélögin eru misvel í stakk búin til að bera þann kostnað, án aðkomu ríkissjóðs. Sérstaklega þegar fiskveiðkvóti er rændur aftur og aftur af sveitarfélögum landsins, og tekjur falla með einu pennastriki valdaútgerðar-spillingarinnar.

    Það er mér svo alveg hulin ráðgáta hvers vegna hálaunað stóreignafólk þarf bætur frá ríkinu til allra mögulegra hluta? Og borga þar að auki nánast sömu skattaupphæð til ríkissins og þeir sem eru á lægstu framfærslu?

    Nágrannaþjóðirnar myndu skammast sín fyrir svona lítinn skattamun á lægstu og hæðstu félagsuppihalds-þátttökunni, eins og viðgengst á Íslandi! Fólk sem er með tekjur undir framfærsluviðmiðum er meira að segja látið borga skatt og útsvar á Íslandi?

    Hvernig er hægt að réttlæta slíka þrælaskatta?

    M.b.kv.

  • Anna Sigríður Guðmundsdóttir

    …sömu skattaprósentu átti þetta að vera, en ekki skattaupphæð…

    M.b.kv.

  • Anna Sigríður Guðmundsdóttir

    Sæl Eygló. Hvað varð um athugasemdina sem ég skrifaði í gær um þessi mál?

    Var athugasemdin ekki samþykkt af ritskoðuninni, og ef svo er, þá væri fróðlegt að vita hver stýrir athugasemdar-ritskoðunum við pistlana þína?

    Engin skoðun er svo slæm, að hún eigi ekki rétt á sér. Það er að segja ef sú skoðun skaðar ekki aðra.

    M.b.kv.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og tveimur? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur