Sunnudagur 23.09.2018 - 11:17 - Rita ummæli

Gjaldfrjálsar skólamáltíðir

Í sumar lagði Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins til að skólamáltíðir í skólum Reykjavíkurborgar yrðu gjaldfrjálsar.  Tillagan var felld með þeim rökstuðningi að hún yrði of kostnaðarsöm.  Í staðinn var vísað til þess að meirihlutinn hyggðist setja þak á kostnað barnafjölskyldna vegna skólamáltíða frá og með 2021 þannig að mest yrði greitt fyrir tvö börn, þvert á skólastig.  Áætlað var að heildarkostnaður við að afnema gjaldtöku fyrir skólamáltíðir í skólunum borgarinnar að fullu yrði nærri tveimur milljörðum króna.

Kolbrún lagði svo aftur fram tillögu í borgarstjórn í haust um að kostnaður myndi lækka um þriðjung og var afgreiðslu hennar frestað.

Á sama tíma bárust fréttir af því að Fjarðabyggð hefði ákveðið að lækka verð á skólamáltíðum í leikskólum og grunnskólum um þriðjung.  Það yrði fyrsta skref sveitarfélagsins í átt að því að gera skólamáltíðir gjaldfrjálsar.

Nú þegar hefur Þingeyjarsveit  byrjað að bjóða upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir í bæði grunn- og leikskólum.  Boðið er upp á morgunmat, ávaxtastund og heitan mat í hádeginu í mötuneytum skólanna.  Í sveitarfélaginu eru tveir grunnskólar og þrír leikskólar með 145 börnum.  Áætlaður kostnaður vegna gjaldfrjálsu máltíðanna er um 12 milljónir króna á ári eða um 83 þús. kr. á  barn.

Í Vogum á Vatnsleysuströnd hefur verið boðið upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir frá 2006.  Skólabörn á Skagaströnd og á Svalbarðsströnd njóta einnig þess að greiða ekki fyrir skólamatinn.

Rökstuðningurinn fyrir því að afnema gjaldtöku á skólamáltíðum hefur verið að mismuna ekki börnum á grundvelli efnahagslegrar stöðu foreldra þeirra í samræmi við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og létta undir með barnafjölskyldum.

Gjaldfrjálsar skólamáltíðir hafa lengi verið baráttumál Vinstri Grænna.  Hins vegar kom fram í bókun fulltrúa VG í velferðarráði í sumar að ekki hefði náðst samstaða innan meirihlutans um að afnema gjaldtökuna en að ákveðin skref yrðu tekin í að  lækka heildargjaldtökuna í lok kjörtímabilsins.

Ég vona sannarlega að við munum sjá fleiri sveitarfélög taka Þingeyjarsveit sér til fyrirmyndar og bjóða börnum í bæði leik- og grunnskólum upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir.

Þannig vinnum við gegn mismunun barna á grundvelli stöðu foreldra þeirra og stuðlum að bættri heilsu þeirra og námsárangri þar sem öll börn fái hollan og góðan mat.

———

Nokkrir fróðleiksmolar um skólamáltíðir á Norðurlöndunum:

  • Í Svíþjóð og Finnlandi greiða sveitarfélögin fyrir skólamáltíðirnar. Í hinum löndunum þurfa foreldrar að greiða fyrir skólamáltíðirnar eða senda börnin með nesti í skólann.  Oft er þó máltíðin niðurgreidd að hluta.
  • Á Íslandi er mælt með að borða fisk tvisvar í viku en í Svíþjóð einu sinni í viku.
  • Í finnsku námsskránni eru tvær síður sem fjalla um skólamáltíðir. Í sænsku námsskránni er ekki eitt orð um skólamáltíðir, ekki einu sinni orðið sjálft.
  • Í Noregi er algengt að nemendur taki með sér samlokur í hádegismat.
  • Í Danmörku bjóða ca. 80% af skólunum upp á einhvers konar máltíð (morgunmat, ávexti eða hádegismat)  en langflestir nemendur borða hádegismat sem þeir koma sjálfir með.
  • Í Svíþjóð hefur verið boðið upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir í 70 ár og kostnaður fyrir skólamáltíðirnar er 44% hærri en fyrir gjaldfrjáls námsgögn nemenda.

Heimild: Måltidsbloggen

Ljósmyndirnar eru af skólamáltíðum í Svíþjóð af vefnum Smakfullabloggen.

Flokkar: Matur · Skólamáltíðir

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og þremur? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur