Fimmtudagur 12.03.2015 - 16:25 - Rita ummæli

Líkamsvirðingarbarátta í áratug

handleggir

Á morgun, 13. mars, er Dagur líkamsvirðingar. Þessi dagur er mikill örlagadagur í sögu líkamsvirðingar því á þessum degi árið 2009 var fyrsta bloggfærslan send út af líkamsvirðingarblogginu undir yfirskriftinni „Slagurinn er hafinn“ og þremur árum síðar – án þess að nokkur hefði áttað sig á tengslunum á þeim tímapunkti – voru Samtök um líkamsvirðingu stofnuð sama dag árið 2012.

Í dag er því vert að líta yfir farinn veg og skoða hvernig baráttan fyrir líkamsvirðingu hefur þróast hér á landi. Það er alltaf erfitt að tímasetja upphaf samfélagsbaráttu því þetta er svona fyrirbæri sem þróast og maður áttar sig kannski ekki á því að það sé byrjað fyrr en löngu eftir að það er farið af stað. Saga baráttunnar fyrir líkamsvirðingu fer þó að spanna ansi langan tíma eftir því hvenær byrjað er að telja. Í mínum huga hófst baráttan árið 2004. Þá kom ég fílefld heim af alþjóðlegri átröskunarráðstefnu, nýbúin að kynnast heilsu óháð holdafari (Health at Every Size), og var svo upprifin af þessu öllu saman að ég skrifaði langa blaðagrein í fljúgandi innblæstri um árangursleysi megrunar, líffræðilega stjórnun þyngdar og feitt fólk í góðu formi sem birtist í víðlesnu dagblaði þarna um sumarið. Viðbrögðin voru nákvæmlega engin en þarna var teningunum kastað. Ég ætlaði að verða aktivisti.

Á þeim tíma voru samt ekki komin nein íslensk orð yfir það sem ég ætlaði að fara að gera, hvorki yfir það sem ég vildi berjast fyrir (líkamsvirðing) né það sem ég vildi berjast gegn (fitufordómar, útlitsdýrkun og megrunarmenning). Þetta var allt frekar óljóst en ég vissi að ég vildi leggja mitt af mörkum til að breyta samfélagslegum viðhorfum um útlit og líkamsvöxt. Ég vissi að núverandi staða væri slæm og skapaði margvísleg vandamál og vanlíðan. En ég vissi ekki alveg hvað ætti að koma í staðinn eða hvað það ætti að heita.

Ég kynntist Megrunarlausa deginum (International No Diet Day) í tengslum við vinnu mína við meðferð átraskana. Hann átti sér langa sögu og hafði verið haldinn árlega víða um heim í 15 ár. Þessi baráttudagur virtist viðráðanlegt verkefni fyrir nýbakaðan aktivista sem vissi ekki alveg hvað ætti til bragðs að taka. Næstu sjö árin stóð ég, í samvinnu við ýmsar góðar konur, fyrir margvíslegum uppákomum með það að markmiði að vekja samfélagið einu sinni á ári upp af sínum megrunardoða. Við gáfum út blað, prentuðum póstkort og framleiddum barmmerki, sendum skjáauglýsingar í sjónvörp og kvikmyndahús, bjuggum til baðvogir sem gáfu hrós og merktum strætisvagna Reykjavíkur með líkamsvirðingarvænum skilaboðum. Það var einmitt í tengslum við Megrunarlausa daginn sem orðið líkamsvirðing fæddist. Ég var búin að brjóta heilann í margar vikur og mánuði yfir því hvernig ég ætti fara að því að orða það sem þessi barátta snérist um. Hvað vorum við eiginlega að reyna að gera? Hvert er markmiðið?

Markmiðið er að jöfn virðing sé borin fyrir öllum líkömum. Á ensku var til dæmis verið að nota orð eins og „size-acceptance“ en fyrir mér átti að ganga lengra en bara að samþykkja eitthvað eða sættast við það. Við viljum virðingu. Standa jafnfætis í félagslega stiganum óháð stærð eða lögun. Mannvirðing. Sjálfsvirðing. Líkamsvirðing. Þetta orð nær bæði yfir það persónulega (samband okkar við eigin líkama) og hið pólitíska (hvernig umhverfið tekur líkömum okkar).

Fljótlega kom þó í ljós að árlegur viðburður var ekki nóg. Það þurfti stærra og lengra samtal. Árið 2009 ákvað ég því að byrja að blogga og þá fóru hlutirnir að gerast. Þá fékk ég til dæmis að kynnast haturspósti. Það er alltaf einhverjum sem hugnast ekki sú frekjulega hugmynd að allir eigi að hafa jafnan tilverurétt og ná ekki upp í nef sér af hneykslun og réttlátri reiði yfir því að einhver skuli dirfast að leggja þvílíkt og annað eins til. Það er svolítið fyndið og svolítið sorglegt að sjá þetta gerast í hvert einasta sinn sem mannréttindabarátta fer af stað. Alltaf sama sagan. Og þegar samfélagsbarátta er jafn stutt á veg komin eins og líkamsvirðingarbaráttan þá er mikið samfélagslegt rými fyrir slíka aðila til að hrópa fordómana sína yfir holt og hæðir. Það er áhugavert að fylgjast með því.

En það gerðist fleira. Þegar bloggið fór af stað, og seinna líkamsvirðingarsíðan á Facebook, dró það ekki bara hatursormana út úr holunum sínum heldur kallaði líka fram fleiri hugrakka aktivista. Smám saman bættist í líkamsvirðingarhópinn þannig að sproti að grasrót fór að myndast. Höfundum á líkamsvirðingarblogginu fór að fjölga og sífellt fleiri létu til sín taka í umræðunni. Árið 2012 var kominn myndarlegur hópur sem stofnaði með sér samtök og það árið var Megrunarlausi dagurinn kvaddur með pompi og prakt. Við stóðum fyrir flottu samstöðuátaki með bandarískum aktivistum sem ýttu úr vör átakinu „I stand“ sem var andsvar við fitusmánandi lýðheilsuskilaboðum sem birtust víða um Bandaríkin á þeim tíma. „I stand“ eða „Ég stend“ gaf almenningi kost á því að taka afstöðu gegn slíkum áreitum með því að senda inn myndir af sér ásamt slagorðum um það sem það vildi standa fyrir (eða gegn) í þessum málum. Á Íslandi tóku tæplega 200 manns á öllum aldri þátt í þessu uppátæki og ef þið þurfið einhverntíman á innblæstri að halda þá mæli ég með því að heimsækja myndaalbúmið sem finna má á facebook síðu líkamsvirðingar undir heitinu „Fyrir hvað stendur þú?“.

Við sem stofnuðum Samtök um líkamsvirðingu vorum þó sammála um að við vildum frekar að baráttudagur okkar tengdist því sem við erum að berjast fyrir en því sem við erum að berjast gegn. Það er bara skýrara að segja hvað maður vill frekar en hvað maður vill ekki. Megrunarlausi dagurinn, eins skemmtilegur og hann var, var óttalega misskilinn. „Á maður þá að vera í megrun alla hina dagana?“ og „ég fékk mér stóra köku í tilefni dagsins“ var meðal þess sem heyrðist aftur og aftur. Fólk virtist skilja þennan dag að miklu leyti í gegnum megrunarlinsuna sem gegnsýrir samfélagið. Það var þreytandi að leiðrétta það í sífellu að þetta væri ekki átdagurinn mikli, og nei, það er ekki pælingin að vera bara laus við megrun í einn dag. Við óttuðumst að við værum ekki að ná almennilega í gegnum þessa linsu heldur værum bara að gefa fólki einn megrunarfrídag á ári þar sem það gæti farið og fengið sér köku. Það er svolítið eins og ef þú segir fólki að hugsa EKKI um bleika fíla, þá bara hugsar það um bleika fíla. Ef þú vilt að það hugsi um eitthvað annað þarftu að beina sjónum þangað. Við vildum skilgreina baráttudag okkar út frá því sem við vildum alveg endilega fá fólk til að hugsa meira um: Líkamsvirðingu.

Í fyrra var Dagur líkamsvirðingar haldinn í fyrsta sinn. Þá héldum við líkamsvirðingarhátíð á leikskóla með Pollapönkurum sem komu og léku lagið sitt „Enga fordóma“ fyrir krakkana sem ætluðu að ærast úr fögnuði. Við sendum líka bréf til allra leik-, grunn- og framhaldsskóla í landinu og hvöttum þá til að vinna með líkamsvirðingarþema þennan dag. Við fengum í kjölfarið að heyra ótrúlega fallegar og hjartnæmar sögur frá kennurum sem tóku þetta alla leið með sínum nemendum og unnu skemmtileg verkefni í tengslum við líkamsvirðingu. Þennan fyrsta líkamsvirðingardag kom líka út fyrsta líkamsvirðingarbókin, Kroppurinn er kraftaverk, sem hefur það að markmiði að efla jákvæða líkamsmynd og virðingu fyrir fjölbreytileika líkamsvaxtar meðal yngstu barnanna.

Nú í ár ætlum við að taka samtalið lengra. Við búum í litlu samfélagi og getum ráðið því svo mikið sjálf hversu mikla útlitsdýrkun og fitufordóma við viljum hafa í samfélaginu okkar. Á morgun munu því Samtök um líkamsvirðingu bjóða fjölmiðlum upp á ókeypis örnámskeið til að fræðast um hvernig menningin okkar elur á fitufordómum, megrunarþráhyggju og útlitsdýrkun. Við ætlum að freista þess að fá fjölmiðla í lið með okkur um að vera hluti af lausninni frekar en vandanum. Það verður spennandi mælikvarði á hversu langt við erum komin í þessari baráttu að sjá hversu margir munu vilja eiga þetta samtal við okkur.

 

 

Flokkar: Líkamsvirðing

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og átta? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com