Föstudagur 19.6.2015 - 10:31 - Lokað fyrir ummæli

Stefnuleysi í húsnæðismálum ríkisins

Þegar kemur að húsnæðismálum ríkisins er stefnuleysið sláandi. Gróf séð má skipta ríkisfyrirtækjum og stofnunum í 3 flokka þegar kemur að húsnæðismálum:

  • Í fyrsta flokki eru ríkisfyrirtæki og stofnanir utan fjárlaga svo sem ÁTVR, Isavia, FME, Landsbankinn og Seðlabankinn. Hjá þessum stofnunum er yfirleitt ekkert til sparað. Alltaf er keypt það fínasta og flottasta. Það væsir ekki um starfsmenn í þessum flokki.
  • Í öðrum flokki eru ráðuneytin og stofnanir á fjárlögum sem fá forgang hjá stjórnmálastéttinni. Þarna er húsakostur yfirleitt þokkalegur en íburður er minni en í fyrsta flokki.
  • Í þriðja flokki er svo Landsspítalinn og aðrar stofnanir sem ekki eru í náðinni. Þarna þurfa sumir að hýrast í gámun og aðrir berjast við myglusvepp.

Hver vegna lætur ríkið svona stéttaskiptingu viðgangast? Af hverju fá sumir að bruðla en aðrir þurfa að spara? Er ekki hægt að setja fyrirtækjum og stofnunum ríkisins húsnæðisstefnu líkt og launastefnu?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 15.6.2015 - 16:42 - Lokað fyrir ummæli

Krónan ekki lausnin

Hagfræðingar hins virta dagblaðs Financial Times hafa komist að annarri niðurstöðu um krónuna en íslenskir kollegar þeirra. Gengisfelldur gjaldmiðill er engin lausn segir Martin Sandbu í grein á vefsíðu blaðsins í dag:

In sum, the lessons we should draw from Iceland are nuanced – there is no real argument for copying their entire policy package wholesale. Instead, we should distinguish what worked from what didn’t or was counterproductive. Most unambiguously, debt can and should be written down radically. Devaluation, however, does not seem to buy you anything extra – so the eurozone should keep its focus on debt restructuring rather than speculating, let alone encouraging, any country’s exit. Finally, capital controls may be considered – but if they should be as narrowly tailored as possible to hit only those flows that genuinely must be avoided.” FT.com 15.06.15

Þá er einnig haldið fram í sömu grein að Ísland hefði geta lift höftunum þá þann hátt sem nú er gert fyrir löngu.

“… so it seems Iceland is finally getting around to doing something it could have done years ago.


Hin svo kallaða “íslenska leið” lítur nú svolítið öðruvísu út þegar hún er skoðuð af óháðum aðilum úr fjarlægð. Hún er nú ekki sú söluvara erlendis sem menn halda á Íslandi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 15.6.2015 - 08:02 - Lokað fyrir ummæli

Markaðsbúskapur án markaðslausna

Ísland er gott dæmi um þjóðfélag þar sem menn rembast við að reka markaðsbúskap án markaðslausna. Höftum, skömmtunum og lögum er beitt í stað þess að finna sameiginlegar lausnir. Menn sömdu ekki um Icesave og ekki um markrílinn og ekki hafa samningar náðs við hjúkrunarfræðinga en samningar virðast ætla að takast við kröfuhafa enda hafa menn eytt ómældum peningum þar til að borga hæfum útlendingum til að semja við aðra útlendinga. En ástandið í heilbrigðismálum þjóðarinnar tekur nú glansinn af þessu afreki útlendinganna. Þetta sýnir líka forgangsröðunina – peningar ofar heilsu.

Það verður ekkert fyrsta flokks heilbrigðiskerfi rekið á Íslandi nema á markaðsverði. Það þýðir lítið að horfa í baksýnisspegilinn og vona að fortíðin komi tilbaka. Það gerist ekki. Menn verða að horfast í augu við raunveruleikann og viðurkenna að markaðsbúskapur verður ekki rekinn nema að leyfa lögmálinu um framboð og eftirspurn að finna sinn farveg. Það verður ekki vinsælt vegna þess hversu ríkisafskipti hérlendis eru mikil og bjaga alla ákvarðanatöku.

En lausnin er ekki í órafjarlægð. Hana er að finna á hinum Norðurlöndunum. Þar hafa menn áratuga reynslu af því að reka markaðsbúskap sem aðlagar sig að velferðarkerfinu án endalausra inngripa stjórnmálamanna. Hvers vegna geta Íslendingar ekki lært af nágrannaþjóðunum? Eru menn enn fastir í hugmyndafræði Ólafs Ragnars um yfirburði Íslendinga í einu og öllu? Sæt hugmynd en barnaleg í besta falli.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 14.6.2015 - 07:07 - Lokað fyrir ummæli

„Krónugettó“ framtíðarinnar

Einhver mestu forréttindi við afnám hafta er að fá aftur erlend lán á vöxtum sem fólk ræður við. En þau lán verða ekki til allra eins og fyrir hrun. Þau verða líklega aðeins fyrir þá sem tilheyra gjaldeyrishagkerfinu og svo fáa útvalda vini stjórnmálastéttarinnar. Þannig mun afnám hafta auka efnahagslega stéttaskiptingu. Þeir sem munu fá aðgang að erlendum lánum munu geta keypt helmingi stærra húsnæði en hinir og helmingi flottari bíl, að ekki sé talað um íbúð á sólarströnd. Smátt og smátt munu myndast “krónugettó” þar sem krónufólkið býr og þrælar fyrir vöxtum sem borga niður eignir gjaldeyriselítunnar.

Það verður spennandi að sjá hvernig stjórnmálamennirnir ætla að stýra þessari þróun. Þeir hafa jú sagt að stöðugleiki sé númer eitt sem þýðir að halda á genginu “stöðugu”, en það mun gera erlend lán ómótstæðileg þar sem gjaldeyrisáhættan verður þá mun minni en fyrir hrun? Því verður að skammta erlend lán – en hverjir verða svo heppnir að vera valdir í þann forréttindahóp?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 12.6.2015 - 11:06 - Lokað fyrir ummæli

Las Vegas norðursins opnar aftur!

Seðlabankastjóri hefur tilkynnt á Bloomberg að spilavíti norðursins muni opna aftur eftir 7 ára lokun. Hann lofar betri stjórnun og býður spekúlanta velkomna en biður þá að kunna sér hófs.

Hér er ég auðvitað að tala um hin frægu vaxtamunaviðskipti sem byggja á að erlendir spekúlantar taka lán í erlendum gjaldeyri sem þeir láta íslenska krónuþræla borga vextina af og hirða svo hagnaðinn sem eftir verður og flytja úr landi í gjaldeyri. Þetta er ekkert annað en fjárhættuspil sem byggir á pýramídakerfi. Þeir græða mest sem koma fyrst og fara fyrst út. Það er nú hálf furðulegt að seðlabanki sem varar við því að almennir fjárfestingarsjóðir megi ekki eiga í íslenskum bönkum skuli standa fyrir svona fjárhættuspili. Ekki er heldur að sjá að neinn íslenskur stjórnmálaflokkur setji sig á móti þessu spilavítisbrölti!

En er þetta ekki siðlaust gæti einhver spurt? Er rétt að láta íslenskt launafólk sem varla nær endum saman um hver mánaðarmót borga í Ferrari bílum og snekkjum erlendra spekúlanta? Hvers vegna stoppa menn ekki svona lagða, sérstaklega eftir hina hræðilegu reynslu fyrr á öldinni? Það er vegna þess að framtíðar „stöðugleiki“ krónunnar byggir á velvilja erlendra spekúlanta. Þetta er það verð sem Íslendingar verða að borga fyrir að halda í krónuna. Og fyrstu áhrifin eru jú góð. Gengi krónunnar mun hækka, flatskjár og bílar lækka í verði, alla vega tímabundið, og þar sem Íslendingar hugsa sjaldan lengur en fram í næstu viku er hægur vandi að selja mönnum þessa vitleysu. Það kemur að skuldadögum en er á meðan er hugsa flestir.

En þeir erlendu kúnnar sem fyrstir fá að spila í sal Seðlabankans fá afhenta teninga þar sem allar hliðar eru merktar “6”. Ekki amalegt. Hér er verið að gefa kröfuhöfum tækifæri á að vinna sitt tilbaka. Svona virkar hinn alþjóðlegi fjármálamarkaður. Ekkert er ókeypis – einskiptishagnaður ríkisins lendir á herðum heimilanna. Þetta geta menn síðan reiknað og gert upp eftir 20 ár.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 11.6.2015 - 09:27 - Lokað fyrir ummæli

Eignastýring eftir höft

Margir eru eflaust farnir að velta fyrir sér hvernig þeir eigi að varðveita sparifé sitt nú þegar höftin verða losuð. Er skynsamlegt að færa fé yfir í gjaldeyri og þá hversu mikið?

Reynslan fyrir hrun sýndi að alltof margir höfðu fjárfest alltof mikið í íslenskum eignum eða eignum erlendis tengdum íslenskum aðilum. Þegar hrunið kom brann flest íslenskt sem brunnið gat.

Lexían hér eins og fyrr er skynsöm áhættudreifing. Aldrei að vera með öll eggin í sömu körfunni og þar er krónukarfan ein sú minnsta í heimi og veitir enga áhættudreifingu fyrir innlenda aðila sem eru þegar með stærstan hluta eigna sinna í krónum, þ.e. innlent húsnæði, innlendan sparnað og lífeyri sem er um 70% í krónueignum.

Hér er gott að líta yfir hafið og á fjárfestingarstefnu norska olíusjóðsins. Sá sjóður er með allar sínar fjárfestingar í gjaldeyri, þ.e. hann fjárfestir ekki í norskum krónum.  Þessi fjárfestingastefna hefur nú sannað sig eftir að norska króna féll yfir 20% gagnvart dollar á síðasta ári.  Þeir Norðmenn sem hafa fylgt norska olíusjóðinum standa uppi með gríðarlegan hagnað í eigin gjaldmiðli, á sama tíma og dregur úr þrótti norska hagkerfisins. Þannig á góð eignastýring, sem byggir á skynsamri áhættudreifingu, að virka. Nú hefur norska krónan talsverða yfirburði yfir íslensku krónuna og því ættu norskar áhættudreifingarreglur að gilda enn frekar hér á landi en í Noregi.

Vandamálið á Íslandi er að leið norska olíusjóðsins er skynsöm fyrir einstaklinginn en ósjálfbær fyrir íslenska krónuhagkerfið.  Það er hreinlega ekki til nógur gjaldeyrir til að allir fari með krónusparnað yfir í gjaldeyri á sama tíma.  Það yrði líka túlkað sem vantraust á krónuna erlendis ef allir Íslendingar væru á hlaupum með krónur yfir í gjaldeyri og væntingar myndu fljótt vakna um gengisfellingu sem myndi aftur auka útflæði á gjaldeyri. Slík atburðarrás endar með nýjum höftum.

Það er því ljóst að fystu skref í afnámi hafta verða uppdubbuð hænuskref og krónan mun alltaf búa við alls konar “varúðarreglur”. Fyrsta flokks norrænt fjárfestingarumhverfi verður aldrei í boði á Íslandi með krónuna sem gjaldmiðil. Í besta falli fá Íslendingar einhvers konar útgáfu að kínversku kerfi þar sem menn fá árlegan skammt af gjaldeyrisheimild, t.d. 10,000 dollara til erlendra fjárfestinga. En hvernig er best að fara með slíka heimild?

Tímasetningin fyrir losun hafta er ekki sú besta þegar kemur að erlendri fjárfestingu. Allar erlendar eignir eru í hæstu hæðum. Dow Jones vísitalan hefur meir en tvöfaldast frá 2009. Lítil sem engin ávöxtun er á erlendum skuldabréfamarkaði og fæstir mæla með honum um þessar mundir þegar vextir eru á uppleið. Þá verða menn að passa sig á fjárfestingasjóðum, oft fylgir þeim mikill kostnaður sem menn átta sig ekki alltaf á, en í lágvaxtaumhverfi munar um 1.7% þóknun. En umfram allt þurfa menn að passa sig á sölumönnum sem lofa gulli og grænum skógum og nota hagnaðartölur liðins tíma til að plokka þóknun af ginnkeyptum sparifjáreigendum.  Hagnaður síðasta árs hefur ekkert spágildi. Reglan er að hagnaður og áhætta fara saman.  Því meiri sem hagnaðarvonin er því meiri áhættu er fólk að taka. Og þegar kemur að hlutabréfafjárfestingum ættu menn að muna erlendu regluna um að fjárfestar verða að vera tilbúnir að tapa öllu þar.  Því segja sérfræðingar að áhættufælnir fjárfestar eigi helst ekki að fjárfesta í hlutabréfum nema þeir séu skuldlitlir og eigi góðan varasjóð upp á að hlaupa.

En það þarf ekki að leita langt eftir einu besta fjárfestingartækifæri á Norðurlöndunum.  Það er að borga niður íslensk lán.  Fátt gefur jafn góða og trygga ávöxtun.  Fyrir þá sem vilja reyna fyrir sér erlendis geta menn gert margt vitlausara en að fylgja norska olíusjóðinum og sérfræðingum hans.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 10.6.2015 - 08:46 - Lokað fyrir ummæli

Losun hafta án ESB

Það eru ekki bara kröfuhafar sem borga losun hafta með stöðugleikaálagi eða skatti. Það gera líka íslensku heimilin og fyrirtækin sem þurfa að borga sitt stöðugleikaálag í gegnum okurvexti krónunnar.

Þó 500 ma kr. frá kröfuhöfum sé há upphæð er hún einskiptisaðgerð upp á 1.5 m kr. per íbúa. Vaxtaþrældómur krónunnar er hins vegar nokkuð sem seint mun taka enda. Hver á að borga fyrir stöðugleikann þegar kröfuhafar eru farnir?

Hagfræðingar eru strax farnir að vara við hækkandi eignaverði samhliða hækkandi vöxtum. Það verður aldeilis tvöfalt kjaftshögg fyrir ungu kynslóðina, þar sem færri og færri munu geta eignast húsnæði af sömu stærð og gæðum og foreldrar þeirra.

Þó auðvitað sé gleðilegt að samningar séu loksins að nást við kröfuhafa og höftin losuð má ekki gleyma að hádegisverðurinn er aldrei ókeypis. Peningar kröfuhafa er ekki fundið fé, það kemur að skuldadögum en það verða því miður aðrir sem borga en verður boðið í kröfuhafaveisluna.

Sú leið sem hér var farin við losun hafta er ekki sú eina, eins og látið er í veðri vaka. Losun hafta samhliða ESB aðild var annar valmöguleiki sem kjósendur höfnuðu. Það þýðir þó ekki að sú leið sé efnahagslega síðri. Það eru ekki margir innan ESB sem myndu kjósa íslenskt vaxtaumhverfi og verðtryggingu yfir sig jafnvel þó 10,000 evrur væru í boði.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 9.6.2015 - 06:57 - Lokað fyrir ummæli

Lee Buchheit semur

Ljóst er að samningar við kröfuhafa eru langt komnir, þökk sé AGS og Lee Buchheit, aðalsamningamanni Íslands í Icesave deilunni sem vinstri sjórnin réði til landsins. Menn verða nú að gefa Steingrími prik fyrir það.

Það eru litlar líkur á að þessi fordæmalausi stöðugleikaskattur verði notaður, enda gerir hann lítið annað en að rýra orðspor Íslands og hræða fjárfesta frá landinu. Hvers vegna að gera hann að aðalefni kynningar á losun hafta þegar samningsdrög við kröfuhafa voru augljóslega aðalfréttin?

Stóra spurningin nú er hvað verður gert við hundruði milljarða frá kröfuhöfum. Seðlabankastjóri ítrekar að peningana eigi að nota til lækkunar skulda sem er rétta aðgerðin, en ansi er ég hræddur um að ístöðulitlir stjórnmálamenn á atkvæðaveiðum hafi aðrar hugmyndir. Einhverjar meiri sárabætur þarf Framsókn að fá, fyrir að þurfa að lúffa fyrir útlendingum, en að veifa stöðugleikaskatti á kynningu í Hörpu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 8.6.2015 - 13:47 - Lokað fyrir ummæli

Stalínískur tónn

Það var stalínískur tónn í kynningu um losun fjármagnshafta. Þið gerið eins og við segjum annars setjum við 39% eignaskatt á ykkur.

Tal um fordómalausar aðgerðir og afnám einkaréttarins var óheppilegt. Ef markmiðið var að gefa kröfuhöfum spark í rassinn þá held ég að menn hafi aðeins farið fram út sér og hrætt líftóruna úr framtíðarfjárfestum. Það sem gerist einu sinni getur gerst aftur. Það verða djarfir fjárfestar sem þora að koma með sparifé sitt til Íslands í framtíðinni.

Það er ekki að furða að AGS hafi hvatt menn til samvinnu í nýlegri skýrslu. Þessi kynning sendir út þau skilaboð að á Íslandi séu menn ekki hrifnir af samvinnu þegar vandamál koma upp, þar gildi auga fyrir auga og tönn fyrir tönn. AGS veit að svona frontur virkar ekki á 21. öldinni, eins og dæmin í Argentínu og Venesúela sýna.

En var þessi tónn nauðsynlegur í ljósi þess að kröfuhafar hafi skrifað undir viljayfirlýsingu um stöðugleikaskilyrði. Hvers vegna ekki að hrósa mönnum og hvetja. Af hverju þessi hótunartónn? Hvaðan kemur hann og hverjum þjónar hann? Er þetta kannski bara til innanlandsbrúks?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 7.6.2015 - 07:44 - Lokað fyrir ummæli

Bankasala keisarans

Nokkrar umræður hafa spunnist um hina svokölluðu “sölu” á nýju bönkunum rétt eftir hrun. Menn tala um að ríkið hafi tapað milljörðum í þessari “sölu”. Hér held ég að gæti ákveðins misskilnings.

Ríkið var ekki að selja banka heldur að fjárfesta í nýju bankakerfi. Réttara er að gagnrýna þær fjárfestingarákvarðanir sem teknar voru þegar nýju bankarnir voru stofnaðir og eiga líklega eftir að koma í veg fyrir að ríkið nái að hámarka þessa fjárfestingu. Tæknilega séð þurfti að stofna nýja banka, en þeir voru verðlausir án eigna kröfuhafa enda voru gömlu bankarnir í einkaeigu og eignir verða ekki teknar af mönnum nema að fullar bætur komi þar til. Það verðmæti sem hefur „skapast“ frá hruni er að mestu leyti endurmat á eignum gömlu bankanna sem ríkið átti aldrei. Það að það klúðraðist að kaupa lykileignir af kröfuhöfum strax eftir hrun á verði þess tíma er tapað fjárfestingartækifæri en ekki eignatilfærsla frá ríkinu til kröfuhafa. Nú á að reyna að snúa klukkunni við og reyna að endurvekja þetta fjárfestingartækifæri með stöðugleikaskatti, en það er annað mál.

Það voru engir viljugir kaupendur að nýjum bönkunum 2009. Kröfuhafar voru hálfpartinn þvingaðir til að taka eignarhluta í bönkunum í skiptum fyrir eignir þeirra. Þeir hefðu helst viljað að ríkið hefði átt alla bankana en það var ekki mögulegt vegna þess að ríkið átti enga peninga til að fjármagna efnahagsreikning þeirra allra. Hefði ríkið ætlað sér að fjármagna alla bankana og eiga þá alla hefði það kostað gríðarlegan niðurskurði í heilbrigðiskerfinu og menntakerfinu. Það hefði auðvitað ekki verið forsvaranlegt svo menn urðu að ná samningum við kröfuhafa til að endurreisa bankana. Það var þetta peningaleysi ríkisins – enda var þá nýbúið að tæma Seðlabankann – sem styrkti stöðu kröfuhafa á þessum tíma.

Menn verða líka að muna að markaðsverð banka í Evrópu á þessum tíma var langt undir bókfærðu virði og enn eru bankar sem lentu illilega í kreppunni 2008 með markaðsvirði undir bókfærðu virði, þar á meðal stórir bankar í Þýskalandi. Það á síðan eftir að koma í ljós hvort markaðsvirði nýju íslensku bankanna nær bókfærðu virði eða ekki. En þar eru bankarnir þrír misvel staddir í dag og það er sú staða sem mun líklega ráða mestu um hvert “tap” ríkissjóðs verður.

Spurningin sem spyrja þarf er hvers vegna er eignarhlutur ríkisins að mestu í Landsbankanum? Af hverju völdu menn Landsbankann? Og hvers vegna fengu kröfuhafar 95% í besta banka landsins? Líklega spilaði Icesave þarna inn í, en það var áhætta að láta næstum alla fjárfestingu ríkisins í þann banka sem var mest laskaður eftir hrunið. Og sú ákvörðun á líklega eftir að skipta mestu máli þegar menn í framtíðinni gera upp hagnað eða tap ríkisins á fjárfestingu þess í endurreisn bankakerfisins.

Það hefði líklega verið betra fyrir ríkissjóð hefðu menn tekið 30-40% hlut í öllum bönkunum og haldið eftir svokölluðu ráðandi hlutabréfi, “golden share”, þar sem ríkið hefði haft neitunarvald yfir ákvörðunum um eignarhaldi og sölu bankana. Þar með hefði ríkið fengið betri áhættudreifingu og meiri arðsemi. Það eru einmitt þessi innri fjárfestingarhlutföll ríkisins í bönkunum sem hægt er að gagnrýna málefnalega. En þau snérust um kaup en ekki sölu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur