Miðvikudagur 3.6.2015 - 09:36 - Lokað fyrir ummæli

Sprek á verðbólgubálið

Nýtt fasteignamat er eldiviður á verðbólgubálið. Matið á verslunar- og skrifstofuhúsnæði í miðbænum hækkar í sumum tilfellum um 25% annað árið í röð.  Hvernig eiga fyrirtækin að mæta svona tveggja stafa hækkunum ofan á nýja kjarasamninga?  Einhvers staðar verða peningarnir að koma. Það er alveg ljóst að verðbólgan á eftir að taka snöggan kipp og ekki er ólíklegt að stýrivextir Seðlabankans eigi eftir að fara upp í tveggja stafa tölu áður en yfir líkur.  Þar með hækka öll lán og þannig er fólk á landsbyggðinni látið borga hækkanir í miðbæ Reykjavíkur – tær snilld hefði einhver sagt!

Þeir sem græða mest á verðbólgunni og hækkandi fasteignamati eru bankarnir. Þetta mun rétta rekstur þeirra við, sérstaklega reglulegan rekstur sem hefur verið ansi slakur undanfarið.  Það er því ekki undarlegt að bankamenn vilji fá hækkaðar bónusheimildir, verðbólgan fyllir jú allar bónuskistur þeirra sama hvort þeir eru vakandi eða sofandi, og því er mikilvægt að fá heimildir til að tæma þær.

Íslenska vitleysan heldur áfram.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 30.5.2015 - 18:00 - Lokað fyrir ummæli

Launamisrétti krónunnar

Launamisrétti á Íslandi ræðst að miklum leyti af því hvaða peningahóp fólk tilheyrir.

Gróft séð má skipta þjóðinni í 3 gjaldmiðla hópa.

Í fyrsta flokki eru þeir sem standa í útflutningi og gera upp í erlendum gjaldeyri. Stærstu aðilarnir í þessum hóp, eins og sjávarútvegsfyrirtækin eru að mestu leyti einangruð frá krónuverkuleikanum. Þau geta tekið erlend lán og þessi hópur upplifir krónuna meir eins og erlendir ferðamenn, fá helling af krónum fyrir sinn gjaldeyri.

Í öðrum flokki eru þeir sem geta notað verðtryggða krónu. Þetta eru t.d. fjárfestar, leigusalar, aðilar sem standa í sjálfstæðum rekstri og geta velt verðhækkunum fyrir á aðra, og svo lífeyrisþegar sem fá greitt úr sjóðum sem eiga miklar verðtryggðar eignir. Þá er fjármálageirinn að miklu leyti í þessum hópi enda auðvelt að haga hlutum svo að tekjur þar séu að mestu verðtryggðar.

Í þriðja flokki eru svo almennir launamenn sem fá greitt í óverðtryggðum krónum. Þessi hópur ber oftast minnst úr býtum en ber stærstu áhættuna af óstöðugleika og verðbólgu. Verst staddir í þessum þriðja flokki eru lífeyrisþegar og öryrkjar sem þurfa að treysta alfarið á hið opinbera kerfi. Þar fara saman lægstu kjörin en mesta áhættan. Svo er þessi hópur verðlagður út af helstu mörkuðum landsins svo sem húsnæðismarkaði og fjármálamarkaði af fólki í fyrsta og öðrum flokki.

Svona peningaleg stéttaskiptingi getur aldrei gengið upp til lengdar og er uppskrift að eilífum átökum. Það er í raun aðeins ein jafnréttisleið út úr þessum vanda og það er að allir taki upp sama gjaldmiðil eins og fyrsti flokkur, nefnilega stöðuga erlenda mynt! Allar krónuleiðir munu leiða til misréttis á milli þjóðfélagshópa vegna þess að stærstu og öflugustu aðilar landsins hafa fyrir löngu kastað krónunni. Svo einfalt er það.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 23.5.2015 - 12:55 - Lokað fyrir ummæli

Verðtryggða krónu fyrir alla

Fjárfestar hafa val. Þeir geta valið á milli verðtryggðra og óverðtryggðra samninga. Launþegar hafa ekkert slíkt val, þeir verða að dröslast með óverðtryggða krónu sem fáir vilja sjá.

Sama hvernig kjarasamningar launþega fara, fjárfestar eru á grænni grein. Þeir munu alltaf koma betur út en flestir aðrir, vegna þess að þeir hafa val. Ávöxtunarkrafa á óverðtryggða fjámálagjörninga hefur þegar rokið upp áður en kjarasamningar eru í höfn. Krafa fjárfesta fæst með væntingum en ekki verkföllum. Og því hærri sem samningar launþega verða þeim mun hærri verður vaxtahækkunin til fjárfesta. Sjálfstæður seðlabanki sér til þess með dyggum stuðningi frá AGS.

Gamla leiðin út úr þessari klemmu er að gera Seðlabankann pólitískan og handstýra vöxtum, en þá þarf höft, því annars kollsteypist gengi krónunnar. En þar sem ríkisstjórnin setur afnám hafta í forgang er þessi leið illfær og því detta fjárfestar í tvöfaldan lukkupott, fá hærri vexti og enn meira val. Það er því vandséð að nokkur stétt komi betur út úr kjaradeilunni en fjárfestar. Þeirra “kjarasamningar” eru í raun verðtryggðir.

Skynsamlega leiðin er að gefa launþegum val, þeir eiga eins og fjárfestar, að geta valið um óverðtryggða eða verðtryggða kjarasamninga. Slíkt myndi auka stöðugleika og gefa fyrirtækjum hvata til að fjárfesta í framlegðaraukandi aðgerðum. Atvinnuleysi myndi aukast tímabundið og illa rekin fyrirtæki færu á hausinn, enda gera verðtryggðir launasamningar miklu hærri kröfur til stjórnunar fyrirtækja og stofnana. Þessi leið er í raun nauðsynlegur áfangi á þeirri vegferð að taka upp alvöru gjaldmiðil í framtíðinni. Alveg eins og lítil börn læra að pissa í kopp er kominn tími til að Íslendingar læri að lifa án gengisfellinga og óðaverðbólgu. Einhvers staðar verða menn að byrja.

En litlar líkur eru á að þessi leið verði farin, til þess eru Íslendingar einfaldlega of íhaldssamir, þeir hræðast breytingar og hagsmunaöfl óverðtryggðrar krónu fyrir launafólk eru of sterk. Launþegar munu því áfram þurfa að borga fyrir verðtryggingu fjárfesta með óverðtryggðum launasamningum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 22.5.2015 - 12:28 - Lokað fyrir ummæli

AGS: Minni hagvöxtur 2016-17

Það er alltaf athyglisvert að lesa skýrslur AGS um stöðu efnahagsmála á Íslandi. Þetta eru skýrslur sem erlendir aðilar bera mikið traust til, enda eiga Íslendingar enga sjálfstæða stofnun í þessum málaflokki.

Kjaradeilan er ofarlega í hugum AGS manna og telja þeir að kjarasamningar sem ekki er innistæða fyrir geti tafið bæði fyrir efnahagsbatanum og afnámi hafta.  Þá hvetja þeir Íslendinga til að vinna með erlendum aðilum í samvinnu og grípa ekki til aðgerða sem mismuni fólki.  Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem AGS varar við séríslenskum einstrengishætti þegar kemur að samningagerð og skorti á vilja til að semja á skynsamlegum nótum.  Þá eru í skýrslunni hinar venjulegu ítrekanir AGS um mikilvægi sjálfstæði Seðlabankans og nauðsyn þess að styrkja FME, en sú ítrekun hefur meira vægi nú eftir hið vandræðalega fall Sparisjóðs Vestmannaeyja.

Þegar kemur að afnámi hafta eru aðstæður hagstæðar nú, að mati AGS, en kjarasamningar gætu tafið afnámsferlið.  AGS útilokar ekki skattheimtu sem tæki við losun hafta en telur skynsamlegt að ríkisstjórnin grípi til varúðarráðstafana skyldi skattheimtan enda fyrir dómstólum.  Þá hvetur AGS til þess að hugsanlegar heimtur af stöðugleikaskatti verði notaðar til að lækka skuldir ríkissjóðs.

Hið dökka ský í skýrslu AGS eru áhrif kjarasamninga á hagvöxt 2016-17.  Ef kjarasamningar verða umfram framleiðslugetu þjóðarbúsins verður að herða á peningamálastjórnuninni og grípa til aðhaldsaðgerða í ríkisfjármálum.  Þetta þýðir hækkun á vöxtum og AGS leggur til að skattar verði hækkaðir í gegnum samræmingu á virðisaukaskattþrepum með aðgerðum til að verja hina lægst launuðu. Afleiðingin verður minni hagvöxtur á næstu árum.

Því miður eru skýrslur AGS ekki mikið ræddar á Íslandi og eflaust eru þær, af mörgum, afgreiddar eins og erlendar skýrslur fyrir hrun sem “hræðsluáróður” útlendinga sem lítið skilja óskiljanlega Íslendinga.  Stóri munurinn nú og þá er að Ísland er á undanþágu frá ESB með frjálst flæði fjármagns innan EES.  Sú undanþága byggir á því skilyrði að Íslendingar hagi sér “skynsamlega” og fylgi ráðum AGS, en líta má á AGS sem eftirlitsaðila ESB á Íslandi.  Allt tal um að Ísland sé efnahagslega sjálfstæðara en hin Norðurlöndin sem eru innan ESB er barnaskapur.  ESB og AGS hafa mikil ítök á bak við tjöldin á Íslandi sem lítið er talað um.  Í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga á 19. öld töldu menn að efnahagslegt sjálfstæði væri skilyrði fyrir pólitísku sjálfstæði.  Í dag sópa menn þessu öllu undir teppið og halda að nóg sé að tala digurbarkalega.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 13.5.2015 - 07:51 - Lokað fyrir ummæli

Fjármagnskostnaður hækkar

Sú nýja túlkun að tap þrotabúa eigi að skattleggja mun breyta allri fjármögnun fyrirtækja í framtíðinni, standi þetta álit. Afleiðingin verður dýrari fjármögnun, einhæfara atvinnulíf og aukið atvinnuleysi. Það er ekki hægt að hækka bæði fjármagnskostnað og launakostnað fyrirtækja á sama tíma, nema eitthvað gefi eftir.

Spurningin sem fjárfestar velta fyrir sér eftir að þessi nýja staða er komin upp er hver sé munurinn á hlutabréfum og almennum skuldabréfum á efnahagsreikningi íslenskra fyrirtækja m.t.t. áhættu? Miklar líkur eru nú að bæði verði verðlaus við þrot. Þar með þurfa fjárfestar að endurverðleggja skuldabréfafjármögnun í ljósi aukinnar áhættu. Arðsemiskrafa á skuldabréfum færist nær hlutabréfakröfunni – fá fyrirtæki geta staðið undir slíku. Eina leið fyrirtækja til að ná í lánsfé á viðráðanlegum kjörum er að leggja fram mjög öruggar tryggingar. Þetta þýðir að aðeins stöndugustu og eignamestu fyrirtækin fá bestu lánskjörin, kjör annarra versna og í réttu hlutfalli við tapáhættu fjárfesta við þrot.  Ríkið refsar nefnilega þeim fjárfestum sem ekki heimta nógu góð veð!

Nýsköpun mun færast úr landi enda verður Ísland endanlega ósamkeppnishæft á fjármögnunarmarkaði með bæði hávaxtakrónu og fjármálastrúktúr þar sem lítill munur er á lánsfé og hlutafé. Þá verður ríkisábyrgð á lánum enn verðmætari og mikill þrýstingur mun skapast frá atvinnulífinu að ríkið hjálpi til, til að koma í veg fyrir atvinnuleysi. Það má halda vel á spöðum til að slíkar ráðstafanir fari ekki að grafa undan ríkisfjármálum og endanlega krónunni.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 11.5.2015 - 07:40 - Lokað fyrir ummæli

Allt í molum

Ríkisrekið heilbrigðiskerfi má muna sinn fífil fegri. Þegar ríkið getur ekki lengur tryggt öryggi sjúklinga segja þeir aðilar sem bera ábyrgð á kerfinu yfirleitt af sér. Erlendis væri heilbrigðisráðherra og líklega landlæknir búnir að segja af sér á þessum tímapunkti. Í raun stæðu allar ríkisstjórnir í hinum siðmenntaða heimi á bláþræði í svona alvarlegri deilu. Hvergi væru ráðherrarstólar taldir mikilvægari en dauðvona sjúklingar.

Í raun er staðan sérstaklega alvarleg á Íslandi þar sem almennir sjúklingar hafa ekkert val. Ef ríkisspítalinn lokar eru það aðeins þeir efnamestu sem geta leitað á erlenda prívatspítala. Þannig er ójöfnuður til heilbrigðisþjónustu líklega hvergi meiri í Norður-Evrópu en einmitt nú á Íslandi.

Lausn á þessari deilu krefst forgangsröðunar og skilnings á þeirri staðreynd að fyrsta flokks heilbrigðisþjónusta verður ekki rekin nema á heimsmarkaðsverði, líkt og menn verða að kaupa olíu og bensín á heimsmarkaðsverði. Þvi verður fjárveiting til heilbrigðismála að taka mið af því. Það er tilgangslaust að telja mönnum trú um að hægt sé að reka ríkið hallalaust með því að fjársvelta heilbrigðiskerfið. Ef ríkið ræður ekki við þessi útgjöld verður að finna aðrar lausnir, en án heilbrigðiskerfis þrífst ekkert samfélag.

Lausn á vandamálum heilbrigðisþjónustu á Íslandi verður að setja í forgang. Hér þurfa stjórnvöld að marka skýra stefnu og girða heilbrigðsmálin frá öðrum málaflokkum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 10.5.2015 - 08:04 - Lokað fyrir ummæli

Hvers vegna tapaði Miliband?

Helgarblöðin í Bretlandi velta sér upp út kosningaúrslitunum og mikið er spekúlerað hvers vegna Verkamannaflokkurinn tapaði og Íhaldsmenn sigruðu?

Grunnstefið í kosningabaráttu Miliband´s var að ráðast á ójöfnuð í samfélaginu. Þetta átti að vera lykillinn að betra velferðarkerfi og betri kjörum fyrir 90% þjóðarinnar, hin 10% áttu svo að borga. Vandamálið er að enskir kjósendur kaupa ekki svona marxíska einföldun. Þeir vita að til þess að fá betri kjör er ekki nóg að lofa að skipta kökunni jafnar, það þarf líka að huga að því að kakan sé ekki fengin að láni. Til að skipta auði þarf að skapa hann fyrst.

Íhaldsmenn hömruðu hins vegar á mikilvægi traustrar efnahagsstjórnunar og gátu þar vísað í góðan árangur Osborne´s, fjármálaráðherra þeirra í síðustu stjórn. Enda telja margir að Osborne hafi átt stærstan þátt í sigri Íhaldsmanna. Þá passaði Cameron sig á því að halda Íhaldsflokknum sem breiðri fylkingu þar sem pláss er bæði fyrir andstæðinga og fylgjendur ESB aðildar. Hann lofar þjóðaratkvæði um ESB og menn treysta því að hann standi við það loforð.

Íslenskir stjórnmálaflokkar gætu lært ýmislegt af breskum stjórnmálamönnum ef þeir kærðu sig um, en líklega er fjórflokkurinn svo stútfullur af besserwisserum að ekkert pláss er þar fyrir nýjar hugmyndir og áherslur.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 7.5.2015 - 07:11 - Lokað fyrir ummæli

Icesave leið úr höftum

Fjármálaráðherra segir að halda eigi genginu stöðugu þegar höftin verða losuð og sumir eru farnir að tala um að gengið hækki í kjölfarið, þar sem útlendingar munu flykkjast með evrur, jen og dollara til Íslands til að fá hina háu krónuvexti. Þetta er ekkert nema Icesave í nýjum búningi. Enn eina ferðina á að lokka fé útlendinga til landsins með háum vöxtum. Nú til að losa höftin og viðhalda stöðugleika. En hver borgar brúsann?

Hvað á að gera við þetta fjármagn sem sumir halda að muni streyma til landsins? Hvaða atvinnugreinar geta staðið undir okurvöxtum til útlendinga í gjaldeyri? Það eru auðlindagreinarnar. En þar sem stærstu fyrirtækin í þeim flokki geta fjármagnað sig beint og milliliðalaust er hætt við að allt þetta nýja hávaxtafjármagn fari beint í neyslu og þá verður að borga vextina með því að ná í meira fjármagn erlendis! Fólk mun aftur finna fyrir kaupmáttaraukningu sem engin innistæða er fyrir. Svo mun á einhverjum tímapunkti koma bakslag í innflæðið og þá er ekki lengur hægt að redda gjaldeyri til að borga útlendingunum. Þá verður að takmarka útflæði á gjaldeyri með höftum, skattlagningu og/eða gengisfellingu. Hljómar kunnulega?

Eini munurinn nú og fyrir hrun er að margir erlendir aðilar gera sér grein fyrir sumum áhættuþáttum Íslands. Þeir endurspeglast í lélegu lánshæfi landsins sem er ekki lengur í A flokki. Þar með verður krafan um háan raunvaxtamun enn hærri en þegar Icesave átti að redda Landsbankanum. Erlendir lífeyrissjóðir og varkárir fjárfestar munu ekki taka þátt í svona leik – brennt barn forðast eldinn. En þetta verður spennandi leikur fyrir áhættusækna “hrægamma” sem vita að Ísland er fast á þeirra yfirráðasvæði svo lengi sem menn halda dauðahaldi í krónuna.

Stöðugleiki á gjaldeyrismarkaði er ekki ókeypis og það vita “hrægammar”. Kostnaðurinn við krónuna fer því vaxandi og “hrægammar” munu gera sér góðan mat úr því. Þeir vita að sumar orrustur tapast, en þegar litið er til lengri tíma græða flestir áhættusæknir vogunarsjóðir alltaf á krónunni og því frjálsari sem krónan er því meiri er hagnaðarvonin.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 4.5.2015 - 06:24 - Lokað fyrir ummæli

Makríllinn fer sömu leið og Borgun

Markrílfrumvarpið er blaut tuska framan í launafólk á viðkvæmum tíma. Það er hreint ótrúlegt að í hvert skipti sem Framsókn kastar upp teningi kemur upp klúður. En í þetta skipti mun guðfaðir ríkisstjórnarinnar skerast í leikinn og stoppa svona „gjafagjörning à la Borgun“.

Líklegast er að ríkisstjórnin verði að draga frumvarpið til baka með skottið á milli fótanna. Það eru forsetakosningar á næsta ári og Ólafur Ragnar er meiri refur en svo að hann láti svona klúður klúðra eigin möguleika á endurkjöri.

Ef frumvarpið er ekki dregið tilbaka, á Ólafur Ragnar engan annan möguleika en að láta frumvarpið í þjóðaratkvæði, fari undirskrifalistinn yfir 50,000 nöfn. Það stefnir nefnilega í alvöru forsetakosningar á næsta ári, ef Katrín Jakobsdóttir bíður sig fram gegn Ólafi. Og þá veit Ólafur að hann skýtur sig í fótinn með því skrifa undir ný makríllög, sem njóta stuðnings flokka á Alþingi sem mælast með 32% fylgi. Hann verður stimplaður sem forseti auðvaldsins á móti framboði launamanna. Allir vita hvernig slík kosning fer.

Það er eins og ráðgjafar ríkisstjórnarinnar hafi klikkað á að taka með í reikninginn að endurkjör ÓRG trompar öll frumvörp sitjandi ríkisstjórnar ári fyrir forsetakosningar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 3.5.2015 - 09:05 - Lokað fyrir ummæli

Verkföll tefja haftalosun

Höftin verða nú varla leyst á meðan allt logar í verkföllum.  Slíkt væri óábyrgt.  Gengið myndi strax falla meir en ella vegna aukinnar óvissu sem felst í óleystum og ófjármögnuðum vinnudeilum. Þannig skýtur það nokkuð skökku við að forsætisráðherrann virðist leggja meira kapp á að semja við erlenda kröfuhafa en íslenskt launafólk.  Liggur virkilega meira á að koma haftamálinu í gegn fyrir þinglok en að finna lausn á kjaradeilunni?  Á hvaða forsendum er það byggt?

Eins og margir hafa bent á eru ytri aðstæður til að losa um höftin góðar, en innri aðstæður hafa versnað. Kjaradeilur ógna stöðugleika meira en kröfuhafar og þær munu hafa meiri áhrif á gengi krónunnar til lengri tíma litið. Mál kröfuhafa er afmörkuð einskiptisaðgerð.  Þegar það er búið fara kröfuhafar og munu ekki koma aftur. Það verður ekki eins auðvelt að finna skynsamlega og ásættanlega lausn á kjaradeilu launafólks, og þær lausnir verða ekki varanlegar eins og sagan kennir okkur.

Það sem flækir málið og takmarkar lausnarmengið er lélegur aðgangur landsins að erlendum fjármálamörkuðum.  Það er ekki lengur hægt að fá aukin lífskjör að „láni“ erlendis.  Nú verða menn að sníða sér stakk eftir styrk útflutningsgeirans til gjaldeyrisöflunar. Þetta þýðir að ef launahækkanir verða meiri en sem nemur vexti í gjaldeyrisbúskap landsins verða fleiri krónur að elta sömu evruna. Lausnin á því vandamáli er annað hvort hert höft eða gengisfelling. Þannig er ljóst að ef höftin verða losuð eftir verkföll fellur króna í réttu hlutfalli við ófjármagnaðar launahækkanir.

Það er því ansi ólíklegt að hægt verði að losa höftin án þess að gengið falli með viðeigandi verðbólguskoti.  Eina leiðin til að verja gengið er með áframhaldandi höftum.  Draumurinn um haftalausa krónu fjarlægis með harðnandi verkfallsaðgerðum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur