Föstudagur 16.5.2014 - 10:20 - Lokað fyrir ummæli

Landsbankamistökin

Ein mestu mistökin eftir hrun var að endurreisa Landsbankann, banka sem var ónýtur eftir Icesave ævintýrið.

Þegar vinstri stjórnin ákvað að ríkið ætti að eiga og reka banka hljóp aldeilis á snærið hjá kröfuhöfum. Á einu augnabliki urðu innlendar eignir þrotabúanna, sem voru á þeim tíma illseljanlegar, allt í einu markaðsvara. Íslendingar vildu halda í innlendar eignir búanna og ríkið var tilbúið að styðja við þetta verkefni. Hér græddu kröfuhafar á hræðslu Íslendinga við útlendinga og hugmyndafræði vinstri aflanna um ríkisafskipti.

Önnur mistök voru að kaupa innlendar eignir gamla Landsbankans fyrir gjaldeyri. Hér gættu menn ekki að lexíu hrunsins að tryggja jafnvægi á eigna- og skuldahliðinni. Það er góð regla að kaupa lán í sama gjaldmiðli og lántakandinn er með tekjur í.

Þriðju mistökin voru að setja ekki skilyrði í samninga við kröfuhafa um að verðmiðinn á eignasafninu og skuldabréfið væri háð því að samningar næðust um Icesave. Þetta uppsagnarákvæði vantaði þegar ljóst varð að ekki yrði samið um Icesave.

Fjórðu mistökin voru að fara ekki eftir ráðgjöf sænskra sérfræðinga sem höfðu reynslu af norrænu bankakrísunni í lok 20. aldarinnar.

Þessi mistök stjórnvalda áttu sinn þátt í að verð á skuldabréfum föllnu bankanna hækkaði. Þannig er hluti af hagnaði þeirra sem keyptu bréf á eftirmarkaði eftir hrun, Íslendingum sjálfum að þakka.

Krúnudjásn fyrri ríkisstjórnar er orðið að myllusteini núverandi stjórnar og gæti hæglega breyst í jarðsprengju hjá þeirri næstu, ef ekki er vel haldið á spilum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 14.5.2014 - 06:56 - Lokað fyrir ummæli

Landsbankinn toppar Icelandair

Þóknun stjórnarformanns Landsbankans er 600,000 kr á mánuði á meðan sambærileg þóknun hjá Icelandair er 550,000 kr. Stjórnmálamenn ættu því að fara varlega í að gagnrýna Icelandair á meðan þeirra eigin sjoppa borgar betur!

Auðvelt er að blekkja með prósentureikningi og hér er alveg sérstalega ómaklega vegið að stjórnarformanni Icelandair sem hefur verið lykilinn í uppbygginu félagsins. Án hans væru líklega margir flugmenn Icelandair án vinnu.

Það er erfitt að sjá hvernig leysa á svona deilu þegar röksemdafærslan er komin á jafnt lágt stig.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 12.5.2014 - 07:42 - Lokað fyrir ummæli

Skuldabréfið og ESB

Í sinni einföldustu mynd er stóra skuldabréf Landsbankans nýtt seljandalán frá kröfuhöfum fyrir þeim innlendu eignum sem þrotabúið seldi nýja Landsbankanum, t.d. sjávarútvegslán og fasteignalán. Seljandinn, þrotabúið, er með veð í eignasafni Landsbankans sem tryggingu fyrir greiðslu og þau veðbönd losna ekki fyrr en skuldabréfið er greitt upp.

Vandamálið er að stjórnvöld voru með í að kaupa innlendar eignir þrotabús Landsbanka Íslands fyrir gjaldeyri. Það er því þegar komið fordæmi fyrir því að innlendar eignir þrotabúanna hafi verið seldar fyrir gjaldeyri með vitund og samþykki stjórnvalda. Ef kröfuhafar Landsbankans fá undanþágu frá gjaldeyrishöftunum á greiðslum af þessu bréfi er einnig komið fordæmi fyrir slíkri undanþágu.

Þar sem fjármálaráðherra þarf að veita þá undanþágu og ríkið tók þátt í að stofna bankann er ansi erfitt að halda fram að stjórnvöld komi ekki nálægt þessu máli.

Það er því eðlilegt að kröfuhafar hinna bankanna bíði og sjái hvað fjármálaráðherra geri? Boltinn er hjá honum. Ef hann segir já, þá er komið skýrt fordæmi fyrir hin búin. Ef hann segir nei, þá hafa stjórnvöld tekið afstöðu sem kröfuhafar þurfa að vega og meta. En, nei, leysir engan vanda bara frestar honum. Ekki má gleyma að nú þegar ríkir samningur á milli ríkisbankans og kröfuhafa sem er tryggður með fullum veðum og var gerður eftir að neyðarlögin voru sett.

Það sem gerir málið snúið er að krónan er ónýt sem alþjóðleg mynt. Í fyrri forsendum átti að skera á þann hnút með ESB aðild sem núverandi ríkisstjórn virðist enn andsnúin. Hún á þá ekki aðra möguleika en að reyna að reisa krónuna við með eignum kröfuhafa. Hvort sú aðgerð “heppnist” er m.a. háð því að Ísland afturkalli ESB umsóknina, þar sem ESB valkosturinn er mjög verðmætur ekki aðeins fyrir Ísland heldur einnig kröfuhafa. Með því að afturkalla umsóknina, verður ESB valkosturinn enginn næstu áratugina, og þar með lækkar verðmiðinn á innlendum eignum búanna eins og öðrum eignum á Íslandi. Það er hins vegar skammsýni að fórna ESB valmöguleikanum eingöngu til að fá banka á afslætti fyrir vildarvini.

En jafnvel þó að ESB umsóknin verði afturkölluð, er kálið ekki sopið þó í ausuna sé komið. Það getur reynst erfitt að afskrifa eignir annarra gegn vilja þeirra. Eignarréttarákvæðið er skýrt. Fullar bætur þurfa að koma í staðinn. Hvernig bæta menn upptöku á dollurum sem hefur þá stöðu að vera “reserve currency” heimsins? Það væri gaman að sjá hvernig Ísland ætlar að sannfæra dómara í New York að skipti yfir í krónur sem er hvergi skráð á viðurkenndum gjaldeyrismarkaði sé “full and fair”.

Eina leiðin er að setjast niður og semja. Auðvita er það ekki auðvelt með ESB umsóknin uppi í lofti. Hún er lykilforsenda til þess að samningar náist og hægt sé að lyfta höftunum. Það er allra hagur að menn fari að ákveða sig hvort þeir ætla inn í ESB eða ekki. Það er mjög erfitt að sjá að það náist nógu breið samstaða um heildarsamninga við kröfuhafa fyrr en það ligggur skýrt fyrir hvort Ísland ætlar inn eða ekki. Biðstaða eykur aðeins óvissuna og er ekki á bætandi nú þegar svikalogni krónunnar og haftanna er að ljúka með verkfallshrinu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 10.5.2014 - 08:40 - Lokað fyrir ummæli

Úr skjóli í mótvind haftanna

Það skjól sem krónan og gjaldeyrishöftin veittu fyrstu árin eftir hrun hefur snúist upp í mótvindi sem eykst með hverju árinu og heldur heimilunum og fyrirtækjunum í heljargreipum.

Látum tölur úr nýlegri grein Financial Times tala. Þar er vísað í að fjármagnskostnaður írska ríkisins sé orðinn lægri en hjá Bretum þrátt fyrir að Bretland hafi eigin gjaldmiðil og hafi lánshæfiseinkunn í A flokki. Írar eru enn með sömu lánshæfiseinkunn og Ísland, BBB en hún er jákvæð á meðan Ísland hefur neikvæða einkunn.

2011 náði ávöxtunarkrafa á írsk skuldabréf hæst 14% á meðan sambærilega krafa í krónum á íslensk bréf var í bilinu 6-7%. Þá veittu höftin skjól.

Í dag er ávöxtunarkrafa á 5 ára ríkisbréf, 1.03% í evrum á Írlandi og 6.08% í krónum á Íslandi. Ef við leiðréttum fyrir verðbólguna eru raunvextir á írsku bréfin 0.8% á meðan þeir eru 3.8% á þau íslensku. Á þremur árum hefur skjólið snúist upp í hressilegan mótvind krónunnar.

Ef íslenska ríkið hefði aðgang að írskum kjörum væri hægt að lækka vaxtakostnað ríkisins sem er í kringum 80 ma kr um tugi milljarða. Að sama skapi myndi vaxtakostnaður heimilanna og fyrirtækja hríðfalla. Í dag nota menn gengið 155 kr evran þegar verið er að kaupa inn drasl frá evruríkjunum en þegar kemur að því að borga skuldir “kostar” evran yfir 500 kr. Hvernig á að lækka þetta íslenska vaxtaorkur?

Í grunninn endurspegla þessar tölur traust og væntingar fjárfesta. Fjárfestar á Írlandi hafa trú á írsk stjórnvöld og evruna. Íslenska raunávöxtunarkrafan sem er rúmlega 4 sinnum hærri í þessu dæmi, sýnir að íslenskir fjárfestar hafa ekki sömu trú á krónuna og íslenska efnahagsstefnu. Erlendir aðilar á við OECD tala um að hækka þurfi vexti á Íslandi í framtíðinni, svo líklega getur þetta bil enn breikkað.

Það er kominn tími á að þeir sem aðhyllast krónuna fari að útskýra hvernig og hvenær eigi að ná vöxtum niður á svipað stig og í nágrannalöndunum? Eða er framtíðarsýnin að Ísland verði hávaxtaland Evrópu? Land spekúlanta og vogunarsjóða, þar sem menn veðja á að dýr lán standi undir vafasömum fjárfestingum?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 9.5.2014 - 07:27 - Lokað fyrir ummæli

Kröfuhafaboltinn hjá stjórnvöldum

Landsbankinn og kröfuhafar mega vera þokkalega sáttir við þann samning sem þessir “einkaaðilar” hafa náð. Landsbankinn fær lengingu og kröfuhafar hærri vexti. Þeir hafa lokið sinni vinnu. Nú er komið að Seðlabankanum og stjórnvöldum að klára sinn hluta málsins.

Ríkisbankinn segir að þetta sé mikilvægur áfangi í að lyfta höftum og jákvæður samningur fyrir þjóðarbúið. Það skýtur því óneitanlega skökku við að fjármálaráðherra og Seðlabankastjóri skulu ekki taka betur undir þennan áfanga opinberlega.

Það er eins og þetta komi stjórnvöldum á óvart. Enn er ekki tímabært að segja hvort bankinn fái samþykki fjármálaráðuneytisins fyrir þessum samningi, segir fjármálaráðherra. Voru ekki aðilar ráðuneytisins og Seðlabankans í þeim hópi sem gerðu þennan samning? Hvers vegna eru menn ekki betur undirbúnir?

Þessi samningur setur ríkisstjórnina í ákveðna klemmu það er ljóst, en með því að spila endalausan varnarleik og hrekjast úr einu horni í það næsta var varla við öðru að búast. Á endanum verður einhver að taka forystuhlutverkið að sér og höggva á hnútinn. Landsbankinn og kröfuhafar fá prik fyrir það.

Nú eru stjórnvöld hins vegar með boltann og fróðleg verður að sjá hvernig leik þau munu spila.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 8.5.2014 - 10:19 - Lokað fyrir ummæli

Næsta bankakrísa

Sérfræðingar erlendis eru farnir að spá að næsta bankakrísa verði ekki eiginfjárkrísa heldur lausafjárkrísa. Ástæðan er fjármögnun bankanna. Þeir eru í miklu mæli fjármagnaðir með óbundnum innistæðum sem bera litla ávöxtun og þar með er fátt sem heldur þessu fé inni í bönkunum ef óróleiki skapast á mörkuðum.

Þessi sviðsmynd mætti fá meiri athygli hér á landi. Það er nefnilega margt sem bendir til að nýlegar hugmyndir stjórnvalda í bankamálum muni gera lausafjárkrísu erfiðari en auðveldari viðureignar.

Það sem spilar hér saman eru gjaldeyrishöftin, bankaskatturinn, ríkisábyrgð á innlánum og hugmyndin um að flytja húsnæðislán í ný félög.

Með því að flyta húsnæðislán úr bönkunum og í ný félög sem eru undanþegin bankaskatti leiðir það til þess að bankarnir veikjast á sama tíma og innistæðueigendur fá fullan þunga af bankaskattinum á sig. Loforð um lægri ávöxtun með hærri áhættu mun ekki auka innflæði sparifjár til bankanna. Ef á sama tíma menn ætla að aflétta ríkisábyrgð á innistæður og lyfta gjaldeyrishöftunum mun það setja mikinn þrýsing á útflæði innlána bankanna. Slíkt baðkar mun tæmast fljótt.

Það getur orðið dýrt að girða fyrir þessa sviðsmynd. Hærri vextir og hærra hlutfall skuldabréfa í fjámögnun bankanna mun draga úr hagnaði þeirra og þar með lækka verðmiðann við hugsanlega sölu. En það getur einnig orðið erfitt fyrir banka sem eru rétt stignir úr öskustónni að fjármagna sig með skuldabréfum ef þeir missa fasteignalánin og veðin sem þeim fylgja.

Því miður virðist fátt um heilstæða hugsun í íslenskum bankamálum rúmum 5 árum eftir hrun. Íslenska bankakerfið er ekki sloppið fyrir horn. Og ný glerhöll við Hörpu er alls ekki lausnin. Betur má ef duga skal.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 7.5.2014 - 07:12 - Lokað fyrir ummæli

Gamli “Dansk” verður dýr

Það er alltaf hægt að treysta því að Íslendingar velji dýrustu lausnirnar hverju sinni. Nú á að fara að innleiða 200 ára gamalt danskt húsnæðiskerfi sem ég dreg stórlega í efa að Danir myndu sjálfir velja nú á 21. öldinni, ef þeir ættu að byrja upp á nýtt.

Aðeins sú staðreynd að það eigi að reisa 4-5 nýjar fjármálastofnanir hjá 320,000 manna þjóð ætti að vekja menn til umhugsunar. Allar þessar nýju stofnanir þurfa yfirstjórn, áhættustjórn, innri endurskoðun og her sérfræðinga, að ekki sé talað um aðalstöðvar á fínasta stað í bænum. Allt mun þetta kosta peninga, sem hver á að borga? Halda menn virkilega að þetta kerfi verði ódýrt í rekstri? Eru engin takmörk fyrir því fjármagni sem hægt er að eyða í fjármálaþjónustu hér á landi? Forgangsröðunin virðist skýr, peningar ofar heilsu og menntun.

En mun þetta dýra lánakerfi virka á Íslandi eftir danskri forskrift? Það dreg ég stórlega í efa. Danska kerfið byggir á sterkum, þróuðum og stöðugum fjármálamarkaði þar sem hægt er að gefa út óverðtryggð skuldabréf til 30 ára á föstum vöxtum sem almenningur ræður við. Íslenski markaðurinn er einfaldlega of lítill, vanþróaður og óstöðugur fyrir jafn markaðsdrifið kerfi og það danska – saga krónunnar og verðtryggingarinnar segir okkur það. Þá hefur danska skuldabréfakerfið hættulega hvata sem geta leitt til yfirskuldsetningar og dregið út eignamyndun, enda er Danmörk með einn stærsta fasteignalánamarkað í heimi miðað við landsframleiðslu.

Það sem tryggir dönskum fasteignakaupendum góðan aðgang að fjármagni á lágmarkskjörum er traust fjárfesta á danskri hagstjórn og sú staðreynd að danska krónan er fest við gengi evrunnar á trúverðugan hátt. Stór hluti fjármögnunarinnar í danska kerfinu byggir á skuldabréfaútgáfu í evrum sem er markaðssett til erlendra fjárfesta, enda bera flest dönsk húsnæðisbréf AAA lánshæfiseinkunn. Hvernig á svona þróað og öruggt kerfi að virka í ótryggu og litlu íslensku haftaumhverfi?

Þá er það stílbrot í jafn miðstýrðu og sósíalísku hagkerfi og hinu íslenska að velja markaðskerfi þar sem fjárfestar ráða vaxtakjörum. Það mun hreinlega aldrei ganga upp að láta fjárfesta ráða vöxtum á íslenskum fasteignamarkaði. Þetta vita fagfjárfestar og stjórnmálamenn og því verður að finna íslenskt fiff á þetta í gegnum ríkisrekið apparat sem dælir skattpeningum inn í kerfið.

Þá veikir svona húsnæðislánakerfi viðskiptabankana þar sem bestu og traustustu eignir þeirra færast í ný félög. Bankarnir munu þurfa að byggja enn frekar á fjárfestingabankastarfsemi og áhættumeiri lánveitingum. Þar með eru innistæðueigendur skildir eftir í áhættusæknari bönkum, þvert á þá umræðu sem fór fram fyrir nokkrum árum um að aðskilja fjárfestinga- og viðskiptabankastarfsemi til að vernda innistæðueigendur. Afleiðingin verður hvati fyrir innistæðueigendur að fara með sparnað sinn til áhættuminni banka erlendis þegar höftin hverfa. Þannig mun þetta kerfi aðeins bæta í hina innlendu snjóhengju.

Hversu lengi mun þetta nýja gamla danska kerfi virka á Íslandi. Ekki 200 ár, svo mikið er víst.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 4.5.2014 - 07:47 - Lokað fyrir ummæli

Eru rúbluvextir handan við hornið?

Eitt hefur Pútin ekki tekist og það er að tryggja Rússum sömu vaxtakjör á fasteignalánum og evruríkin búa við.

Rússland hefur sömu lánshæfiseinkunn og Ísland, BBB-, er með sveiflukennda hagstjórn og glímir við háa verðbólgu en er ekki með verðtryggingu eða gjaldeyrishöft eins og Ísland. Verðbólgan í Rússlandi er 6.9% og vextir á húsnæðislánum um og yfir 13.5% (raunvextir 6.6%). Til samanburðar eru vextir á húsnæðislánum á Írlandi sem einnig er með BBB lánshæfiseinkunn um og yfir 4.2% og verðbólga þar er 0.2%. (raunvextir 4.0%) Á Íslandi eru óverðtryggðir vextir um og yfir 6.75% og verðbólgan 2% (raunvextir 4.75%).

Nú skal strax tekið fram að þessi samanburður er ófullkominn og byggir á einföldu dæmi. Fleira er ólíkt en líkt með ofangreindum löndum en samt veitir þessi samanburður örlitla sýn inn í hvað gæti gerst þegar og ef höftum verður aflétt á Íslandi.

Ef við leiðréttum vaxtastigið á fasteignalánum á Íslandi fyrir skort á stærðarhagkvæmni og dýru bankakerfi er rökrétt að álykta að lægstu vextir hér á landi eru farnir að nálgast sambærilega evruvexti. M.ö.o. höftin hafa fært ákveðnum hópi fasteignaeigenda (þeim sem eru með 30%+ eigið fé) vaxtastig evrunnar. Þetta er sá hópur sem hefur líklega grætt mest á höftunum. Fjármagnskostnaður þessa hóps hefur lækkað sem aftur hefur ýtt undir hækkandi fasteignaverð og aukna einkaneyslu.

Þeir sem eru að taka sín fyrstu skref á fasteignamarkaðinum eða eru leigjendur horfa hins vegar upp á hækkandi eignaverð og leiguverð. Höftin hafa ekki fært þeim kaupmátt evrunnar. Það skýtur því óneitanlega skökku við að sá hópur sem hefur mest notið vaxtalækkunarinnar eigi nú að fá höfuðstólslækkun á meðan leigjendur fá enga “leiðréttingu” og unga fólkið sem gat keypt 3ja herbergja íbúð í fyrra á aðeins fyrir 2ja herbergja kytru í dag.

Það sem hefur fengið of litla umræðu er að þegar höftin hverfa þá hverfa líka þessir “evruvextir” á fasteignalán. Og ef verðtryggingin hverfur á sama tíma færist Ísland nær Rússlandi og rúbluvaxtastigi. Í þeirri sviðsmynd verða lægstu vextir á fasteignalánum líklega í tveggja stafa tölum. Sé staðan á íbúðamarkaði erfið í dag verður hún að martröð í hinni rússnesku sviðsmynd.

Hvernig ætla menn að forðast þessa sviðsmynd? Hvernig ætla menn að aflétta höftum og verðtryggingu, og á sama tíma halda genginu og vaxtastiginu stöðugu? Halda menn virkilega að afturköllun á ESB umsókninni hjálpi hér til?

Ein mikilvægasta afleiðing haftanna er sú vaxtaaðlögun að evruvöxtum sem hefur átt sér stað á fasteignalánum. Þetta er aðlögun sem er pólitískt mjög erfitt að snúa við. Hærri fjármagnskostnaður heimilanna dregur úr einkaneyslu og gerir drauminn um eigið húsnæði enn fjarlægari fyrir næstu kynslóð.

Því lengur sem höftin eru við lýði því líklegra er að menn snúist til ESB aðildar, enda verður hún og evran á endanum eina raunhæfa leiðin til að halda vöxtum lágum og losna við höftin. Vilja menn frekar áframhaldandi höft eða rúbluvexti? Þetta er í hnotskurn þær 3 leiðir sem eru í boði.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 26.4.2014 - 07:35 - Lokað fyrir ummæli

Tímaskekkja Landsbankans

Að ætla sér að byggja aðalstöðvar fyrir banka á dýrustu lóð landsins er algjör tímaskekkja. Engum banka í nágrannalöndunum myndi detta svona vitleysa í hug.

Bankar eru veitufyrirtæki og sem slík eiga að hafa starfsemina í látlausu, einföldu og ódýru húsnæði. Þetta gerðu menn sér strax grein fyrir hjá OR þegar Planið var sett af stað þar eftir hrun.

Það er hins vegar ótrúlegt að Landsbankinn sem ríkið varð að bjarga á kostnað skattgreiðenda skuli á sama tíma ætla að byggja glæsihöll undir starfsemi sína sem mun líklega verða margfalt dýrari en hús Orkuveitunnar.

Flestir sjá að hér er ekki verið að hugsa um hagsmuni eigenda eða viðskiptavina. Þetta er óverjanlegt bruðl en einhvern veginn er bankinn orðinn eða hefur alltaf verið ríki í ríkinu og eigendur virðast ófærir um að hafa stjórn á stefnu bankans.

Því miður, er fátt sem bendir til að þessi vitleysa verði stoppuð.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 25.4.2014 - 08:22 - Lokað fyrir ummæli

Glöggt er gests augað

Það er varla hægt annað en að vera sammála Huang Nubo þegar hann segist hafa áhyggjur af reynsluleysi íslenskra ráðamanna.

Hafi menn efast um þessi orð Nubos þurfu þeir hinir sömu ekki að bíða nema í nokkra daga til að fá staðfestingu á þeim. Vinnubrögðin í kringum framboðslista flokks forsætisráðherra í höfuðborginni fyrir sveitarstjórnarkosningar í maí tala sínu máli og ættu að vekja menn til umhugsunar.

Það sem fylgir oft reysluleysi er hik og ákvörðunarfælni. Frestur er á illu bestur verður allt í einu mottóið. Þetta sést vel í stærstu málum þjóðarinnar, ESB umsókninni og gjaldeyrishöftunum.

Nú er stefna ríkisstjórnarinnar alveg skýr í ESB málinu, stjórnin hefur rúman þingmeirihluta og nýtur blessunar bæði forseta Íslands og Morgunblaðsins. Þá er málið einfalt, hægt að afgreiða fyrir hádegi á virkum degi. En þrátt fyrir þessa yfirburði, hikar stjórnin. Það er eins og hún sé hætt að trúa eigin framtíðarsýn.

Gjaldeyrishöftin eru annars eðlis, þar er málið sérlega flókið enda er það ekki einkamál Íslendinga ef þeir vilja að krónan sé á alþjóðlegum gjaldeyrismarkaði. Þar þarf að vinna með útlendingum, en hvernig á það að vera hægt þegar menn geta varla unnið að sæmilegri lausn mála með eigin flokksmönnum? Lítið hefur þokast í þessu mikilvæga máli síðustu 5 árin. Þegar menn rekur í stans er skipuð ný nefnd, svo er hún stækkuð og svo bíðan menn eftir skýrslum. Þannig líða árin og líklega áratugirnir. Menn eru alltaf að bíða og sjá enda áhættusamt að afnema höftin.

En þessi stóru mál eru tengd, nokkuð sem margir eru loksins farnir að gera sér grein fyrir. Ef við lítum á áhættuna sem fylgir þessum málum kemur í ljós að áhættan er hámörkuð með því að byrja á að hætta við ESB umsóknina og svo fara að aflétta höftunum. Enn eitt dæmið um að menn hugsa ekki málin til enda.

Því miður eiga áhyggjur Nubos við rök að styðjast.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur