Fimmtudagur 20.2.2014 - 10:20 - Lokað fyrir ummæli

Actavis er írskt

Actavis blómstrar á Írlandi.  Þar eru vaxtaskilyrði hagstæð.  Hlutabréfin á alvöru markaði hafa hækkað um tæp 150% á einu ári og starfsmenn eru nálægt 18,000.

Uppgangur hjá Actavis eftir að það yfirgaf Ísland hefur verið ótrúlegur.

Actavis var íslensk hugmynd en fer ekki á flug fyrr en það kemst í erlenda haga?  Hvað veldur og hvaða lærdóm geta menn dregið af þessu?

Það sem er jú kaldhæðnislegt er að þetta íslenska risafyrirtæki skuli þurfa að flytja til ESB lands þar sem allt er í kalda koli, samkvæmt íslenskum stjórnmálamönnum, enda þurfa Írar að druslast áfram með evru.  Ekki bjargaði krónan Actavis, svo mikið er víst.

Þetta Actavis dæmi sýnir vel það bjarg sem Ísland þarf að klífa með krónu og EES samning á bakinu ef hagvöxtur á að koma úr alþjóðageiranum. Yfirgnæfandi líkur eru á að á næstu árum komi hagvöxtur frá auðlinum landsins, einkaneyslu og fjárfestingum í steinsteypu.  Hvort sá vöxtur sé sjálfbær til lengri tíma litið og geti staðið undir norrænum lífskjörum er hins vegar mjög vafasamt, en það verður höfuðverkur næstu kynslóðar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 19.2.2014 - 08:50 - Lokað fyrir ummæli

Dýr verður Már allur!

Bloomberg sjónvarpsstöðin flytur okkur þær fréttir í morgun að Ísland sé að íhuga risaskuldbréfaútgáfu til að borga björgunarlánin frá nágrannalöndunum og AGS tilbaka.

Tímasetningin er varla tilviljun.  Auðvita er skynsamlegt að prófa markaðinn núna áður en erlendir vextir fara að hækka.  En þessi tilkynning mun einnig hjálpa núverandi seðlabankastjóra.

Það væri óðs manns æði að fara að skipta út seðlabankastjóra á sama tímapunkti og ríkið íhugar endurkomu út á hinn alþjóðlega fjármálamarkað.  Það myndi eingöngu auka óvissu og hækka vaxtaálagið á útgáfunni.

Það gæti því orðið ansi dýrt fyrir þjóðarbúið að gera breytingar á Seðlabankanum einmitt nú.  En hvenær hafa Íslendingar íhugað kostnaðinn þegar þeir vilja breyta hlutunum?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 16.2.2014 - 19:39 - Lokað fyrir ummæli

Vald í skjóli hafta

Eitt af því sem forsætisráðherrar nágrannalandanna passa upp á þegar þeir koma í sjónvarpsviðtal er að sýna ítrustu varkárni þegar málefni seðlabanka þeirra ber á góma.

Þeir vita að markaðurinn hlustar á hvert einasta orð sem ráðherrann segir.  Ef markaðsaðilum líkar ekki orð eða hegðun ráðherra má sjá það næsta morgun á gjaldeyrismörkuðum.

Þessar áhyggjur þurfa menn ekki að hafa þegar gjaldeyrishöft ríkja, þá geta menn leyft sér að nota sinn eigin seðlabanka sem pólitískan fótbolta.

Öryggisventill markaðarins er aftengdur með höftum.  Þetta eykur völd stjórnmálastéttarinnar og hún getur tekið ákvarðanir þvert á stefnu seðlabankans án þess að hafa áhyggur af markaðinum.

Völd íslenskra ráðherra eru líklega þau mestu í Evrópu og þó víða væri leitað.  Til lengri tíma er þetta ofurvald án öryggisventils ein hættulegasta afleiðing haftanna.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 13.2.2014 - 15:03 - Lokað fyrir ummæli

Hvert stefnir Ísland?

Það þarf ekki mikla þekkingu á Íslandi til að sjá að stefna og markmið eru ekki hátt skrifuð hjá “þetta reddast” þjóðinni.

Til að átta sig á hvert Ísland stefnir er gott að líta á hvað þjóðin vill:

– Fullveldi án erlendra afskipta
– Krónu án hafta og verðbólgu
– Aðgang að innri markaði ESB
– Aðgang að erlendu lánsfé á lágum vöxtum

og hvað hún vill ekki:

– ESB aðild
–  Evru
– Lagasetningu frá Brussel
– Beina erlenda fjárfestingu í auðlindum landsins

Þetta er auðvita svolítið eins og að vilja pizzu en borða ekki ost og vera með óþol fyrir hveiti.

Vandinn liggur í krónunni og EES aðildinni.  Þetta eru tvær veikar og valtar stoðir.  Krónan er jú aðeins til heimabrúks enda á hún fáa aðdáendur fyrir utan Ísland og svo er það EES vandamálið.  Það er aðeins tímaspursmál hvenær lög sem koma með tölvupósti frá Brussel og Alþingismenn botna ekkert í fara að valda verulegum vandamálum hjá fullvalda þjóð.

EES og krónan voru tól sem á margan hátt hentuðu Íslandi vel á síðustu öld en eru nú bæði komin á síðasta söludag.  Hvað þjóðin ætlar að taka upp í staðinn, er stóra spurningin?  Við vitum jú öll hvað menn vilja ekki gera, sem aðeins takmarkar lausnarmengið en leysir ekki vandann.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 12.2.2014 - 09:29 - Lokað fyrir ummæli

Icelandair flétta?

Framtakssjóður selur bréf sín í Icelandair fyrir um tæpa 7 ma kr. og margfaldar fjárfestingu sína.  Eða hvað?

Fullyrt er í Morgunblaðinu að lífeyrissjóðir og sjóðir Landsbankans hafi keypt hlut Framtakssjóðs og að Landsbankinn hafi séð um söluna.  En hver á Framtakssjóðinn.  Jú lífeyrissjóðirnir og Landsbankinn, sem er stærsti einstaki hluthafinn sbr. vefsíðu Framtakssjóðs.

Hér virðist að sömu aðilar séu báðum megin við borðið?  Maður trúir því varla að ríkisbankinn hafi sjálfur séð um söluna og selt innanbúðar?  Ef það er rétt, vekur það upp spurningar á hvaða grundvelli verðmyndun Icelandair bréfanna er byggð?  Svo má spyrja hvernig fjármögnuðu þessir sjóðir ríkisbankans þessi kaup?  Með láni frá bankanum?  Vonandi ekki.

Það er ljóst að bæði Framtakssjóður og Landsbankinn hafa mikinn hag af því að selja bréfin eins hátt og hægt er.  Tímasetningin er athyglisverð enda eru Icelandairbréfin í hæstu hæðum á sama tíma og flugvélaflotinn fer að nálgast síðasta notkunardag og mikill kostnaður er framundan þegar félagið fer úr einni í tvær flugvélategundir.

Ansi er ég hræddur um að einhver muni sitja uppi með Svarta-Pétur fyrr en seinna?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 11.2.2014 - 08:34 - Lokað fyrir ummæli

Höftin: Kínverska lexían

Í Kína eru gjaldeyrishöft eins og á Íslandi þó höftin í Kína séu ekki nærri eins ströng og á Íslandi.  En hvers vegna eru höft í Kína?  Kínverjar eru ekki með neina kröfuhafa snjóhengju og eiga einn stærsta gjaldeyrisvarasjóð í heimi.

Nýlega fjallaði FT einmitt um höftin í Kína og komst að þeirri niðurstöðu að ástæða þeirra er valdapólitík og skortur á trausti.  FT tók dæmi þar sem talað var við 10 kínversk ungmenni og spurt hvað þau myndu gera við sparnað ef það væru engin gjaldeyrishöft.  Öll 10 svöruðu eins.  Kaupa dollara og fjárfesta í Bandaríkjunum.  Ansi er ég hræddur um að FT fengi svipuð svör á Íslandi.

Umræðan á Íslandi snýst aðalega um fjármálastöðugleika sem er nauðsynlegt skilyrði fyrir afléttingu á höftum en er ekki nægjanlegt.  Það sem fær minni umræðu er traust og öryggi.

Það er t.d. mjög erfitt að sjá að hægt verði að aflétta höftum á meðan bankakerfið er að mestu leyti í ruslaflokki (BB einkunn) og tryggingasjóður innistæðueigenda er nær tómur og stendur í málaferlum við erlendar ríkisstjórnir.  Margir munu vilja geyma sinn sparnað hjá bönkum í fjárfestingaflokki með A einkunn og tryggingakerfi sem er í stakk búið að taka á áföllum.

Nú munu sumir segja að þetta skipti ekki máli þar sem ríkið tryggir allar innistæður.  En er svo?  Þó það heiti í orði að allar krónur séu tryggðar er ljóst að það á ekki við í raun.  Kröfuhafar munu þurfa að gefa eftir af sinni krónueign sem þýðir auðvita að þeirra krónur voru ekki að fullu tryggðar í hruninu  Þá er spurningunni um hversu lengi ríkið “tryggir” innistæður ósvarað.  Allt þetta skapar óvissu sem er eitur í beinum fjárfesta og sparifjáreigenda.

Eins og í Kína verður það traust, öryggi og valdapólitík sem á endanum mun ráða mestu um framtíð hafta á Íslandi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 10.2.2014 - 16:48 - Lokað fyrir ummæli

EES engin framtíðarlausn

Þjóðaratkvæðisgreiðslan um síðustu helgi í Sviss sýnir vel hversu hættulegt það er að byggja untanríkispólitík á samningum við ESB sem innihalda mikinn lýðræðishalla.

Það tók Sviss fimm ár að ná tvíhliða samningum við ESB en aðeins eina helgi að setja alla þá vinnu í uppnám.

Niðurstaða kosninganna er áfall fyrir svissnesku ríkisstjórnina og svissneska atvinnurekendur.  Þá kemur kosningin á óþægilegum tíma fyrir ESB löndin enda talið að ESB andstæðingar innan ESB nái miklu flugi efir niðurstöðuna í Sviss.

Það er ljóst að það er lítil stemning innan ESB að láta samninga við EFTA ríkin verða vatna á millu ESB andstæðinga.  Það má því búast við að þær raddir verði háværari sem segja að annaðhvort séu evrópuríki í ESB eða fyrir utan.  Lönd geti ekki litið á ESB sem konfektkassa þar sem hægt er að velja bestu bitana en skilja aðra eftir í Brussel.

Það er því ekki ólíklegt að innan ESB vilji menn setja mun skýrari ramma um alla samninga við evrópuríki sem ekki vilja ESB aðild og þar er EES samningurinn engin undantekning.

Þessi uppákoma í Sviss mun auka kostnað þeirra ríkja sem vilja vera fyrir utan ESB en njóta innri markaðar ESB.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 9.2.2014 - 14:16 - Lokað fyrir ummæli

Icelink

Sæstrengur til Bretlands hefur fengið nafnið Icelink.  Bretar telja að orka frá Íslandi geti séð 3m heimilum fyrir orku og muni kosta um 4 ma punda, sem er ódýrara en kjarnorkuver.  Þá eru fjárfestar í Bretlandi þegar byrjaðir að tala við erlenda lífeyrissjóði um fjármögnun.

Þetta kemur fram í frétt í Sunday Times í dag.  Allt virðist komið á fleygiferð í Bretlandi á meðan Íslendingar gera lítið annað en að rífast um málið.

Eins og svo oft áður þarf að lesa erlendu blöðin til að fá nýjustu fréttir frá Íslandi!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 9.2.2014 - 07:54 - Lokað fyrir ummæli

Lúxus í forgang

Þegar kemur að fjárfestingum eftir hrun er lúxus settur í forgang.  Lúxushótel fyrir velstæða ferðamenn og lúxusíbúðir í 101 fyrir elítuna þar sem fermetrinn kostar allt að 1 m kr.

Engir peningar eru til í ný sjúkrahús, skóla eða húsnæði fyrir þá sem hírast í kústaskápum í atvinnubyggingum.

Er skynsamlegt að forgangsraða takmörkuðum gjaldeyri á þennan hátt?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 8.2.2014 - 15:42 - Lokað fyrir ummæli

1:12 er nóg!

Samtök launþega ættu að kynna sér svissnesku þjóðaratkvæðistillöguna um þak á laun forstjóra.

Eru árslaun hins almenna launamanns ekki nóg sem mánaðarlaun toppanna?
1 12

Að þurfa að lögbinda svona hlutfall á auðvita ekki að vera nauðsynlegt en þróunin hér á Íslandi fyrir og eftir hrun sýnir að litla íslenska klíkusamfélagið er alls endis ófært um að setja sér eðlilegar reglur um starfskjör forstjóra.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur