Fimmtudagur 6.2.2014 - 13:27 - Lokað fyrir ummæli

Sochi og Selfoss

Það er engin hefð fyrir þvi að Forseti Íslands sé við opnun vetrarólympíuleika.  Þegar Kanadamenn héldu leikana síðast 12. febrúar 2010 var Ólafur Ragnar staddur á Selfossi.

Hvers vegna er Forseti Íslands að heiðar Rússa sérstaklega?  Standa Rússar Íslendingum nær en Kanadamenn?

Utanríkisstefna Íslands virðist nú byggja á einni allsherjar hentistefun Ólafs Ragnars.  Það sem hann vill gengur.  Enginn segir múkk.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 4.2.2014 - 09:09 - Lokað fyrir ummæli

Laun forstjóra

Laun forstjóra á Ísland eru að nálgast 5,000,000 kr. á mánuði á meðan lægstu laun eru um 214,000 kr.  Þetta gerir hlutfall upp á 1:23.

Í Bandaríkjunum er þetta hlutfall um 1:400 og í Þýskalandi 1:140.  Nú eru fyrirtæki í þessum löndum dálítið stærri og flóknari í stjórn en litlar sjoppur á Íslandi.  Hvaða hlutfall er þá rétt hér?

Hér er athyglisvert að rifja upp nýlega þjóðaratkvæðisgreiðslu í Sviss einmitt um þetta hlutfall.  Svissnenski sósíalista flokkurinn stóð fyrir þjóðaratkvæði á síðasta ári sem fól í sér að takmarka laun forstjóra þar í landi við hlutfallið 1:12.  Þessi tillaga var felld en fékk stuðning 35% kjósenda.  Verkalýðsfélög í Bretlandi telja að svona hlutfall eiga að vera 1:20.

Íslenska hlutfallið er orðið hærra en bæði þessi viðmið?  Hvers vegna?  Af hverju er ekki meiri umræða um þessi mál?  Hvaða hlutfall telur ASÍ vera viðunandi?

Ástæða þess að þetta hlutfafll er hátt á Íslandi miðað við smæð hagkerfisins er ekki að laun forstjóra séu há, heldur eru lægstu launin óeðlilega lág á Íslandi.

Það er hins vegar undarlegt að verkalýðshreyfingin skuli ekki setja svona mál hærra á dagskrá hjá sér.  Land sem setur lög um kynjahlutföll í stjórnum fyrirtækja ætti að vera í fararbroddi í þessu hlutfallsmáli.

Í raun er hvergi mikilvægara að setja leiðbeinandi tilmæli um launahlutföll en í litlum klíkusamfélögum þar sem erfitt getur verið að standa einn í stjórn gegn því að laun forstjórans séu hækkuð margfalt á við lægstu laun.   Er ekki eðlilegt að auðveldasta leið stjórna til að hækka kaup forstjórans sé að hækka kaup þeirra lægstlaunuðu?

Þetta er einfalt í framkvæmd.  Launahlutföll ættu að vera hluti af stjórnarháttum fyrirtækja og ef stjórnir vilja víkja frá leiðbeinandi tilmælum á að leggja þær tillögur fyrir hluthafafund.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 3.2.2014 - 11:46 - Lokað fyrir ummæli

Atvinnuþróun eftir hrun

Tölur Hagstofunnar um mannfjölda sýna vel þá þróun sem hefur átt sér stað eftir hrun.  Erlendir ríkisborgarar flytja til landsins en Íslendingar úr landi.

Þetta er í samræmi við þá gjá sem er á milli atvinnustefnu og menntastefnu á Íslandi.

Ísland er auðlindaland og gerir meira út á auðlindir landsins eftir hrun en fyrir, eins og vöxtur í ferðamennsku sýnir.  En auðlindaatvinnuvegir landsins þurfa frekar fáa háskólamenntaða einstaklinga.  Menntastefnan byggir hins vegar á því prinsíppi að troða öllum í gegnum háskóla.

Afleiðingin er offramboð af háskólamenntuðu fólki sem leiðir til lágra launa og lélegrar framleiðni.  Margir sætta sig ekki við þessi kjör og þeir sem geta fengið vinnu erlendis fara úr landi og aðrir fá sér vinnu sem á lítið skilt við það háskólanám sem það stundaði.  Þannig endum við uppi með skort á hæfu fólki í heilbrigðisþjónustu og tæknigreinum en of mikið af menntuðu fólki í flestum öðrum greinum.  Það er ýmist í ökkla eða eyra.

Svona misvægi er dýrt.  Ungu fólki er enginn greiði gerður með því að smala þeim öllum inn í háskóla og þegar það svo útskrifast er valið útlönd eða lág laun á Íslandi.

Ef þessi þróun heldur áfram mun íslenskt samfélag breytast mikið á næstu 50 árum.  Þetta er þróun sem er þekkt út um allan heim en er hins vegar erfitt að snúa við þegar hún er komin á skrið.  Til þess þarf skýra framtíðarsýn, sterka leiðtogahæfileika og fjárfestingar erlendis frá.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 2.2.2014 - 09:02 - Lokað fyrir ummæli

Undirmálslán

40 ára verðtryggð húsnæðislán eru íslensk undirmálslán.

Útfærslan á þessu lánaformi er fyrst og fremst byggð á pólitískri forskrift.

Eins og við önnur undirmálslán er hið pólitíska markmið að koma sem flestum í gegnum greiðslumat og þannig að láta drauminn um eigið húsnæði rætast fyrir sem flesta kjósendur.  Svona kerfi eru alltaf vinsæl til atkvæðaveiða en langtímakostnaðurinn er hár og lendir yfirleitt á þeim lægstlaunuðu og skattgreiðendum.

Verðtryggð lán hafa marga eiginleika kúluláns í erlendum gjaldeyri.  Vandinn við þessi lán er að greiðslubyrðin og eignamyndunin er mest í lok lánstímans, þegar flestir eru komnir á eftirlaun og hafa ekki tekjur til að ráða við lánin.   Það er í hæsta máta  óábyrgt af stjórnmálamönnum og lánastofnunum að skuldsetja fólk langt inn í ellina án þess að tryggja að lántakandinn ráði við greiðslubyrðina á þeim tíma.

Það er ekki verðtryggingin í sjálfu sér sem er vandamálið hér, heldur hvernig þessi lán eru seld.  Ef fólk ræður ekki við greiðslubyrðina af óverðtryggðu láni eru yfirgnæfani líkur að það lendi í vandræðum með verðtryggt lán fyrr en seinna.  Því þarf að setja spurningamerki við sölumennsku bankanna þegar þeir selja viðskiptavinum sem ekki komast í gegnum greiðslumat á óverðtryggðu láni verðtryggt lán.

Það sem þarf að skoða er á hvaða forsendum verðtryggð lán eru seld af fjármálastofnunum.  Margt bendir til að greiðslumat og áhættumat á þessu lánaformi sé ófullnægjandi.  Lausnin er ekki að banna heldur að bæta.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 1.2.2014 - 10:49 - Lokað fyrir ummæli

Krónan tapar

Flokkarnir tveir sem mest berjast gegna ESB, VG og Framsókn tapa mest í nýrri skoðanakönnun.  Þetta er á sama tíma og fylgi við aðildarviðræður eykst.

Hin lýðræðislega krafa um að þjóðin fái að ráða málum í þjóðaratkvæðisgreiðslu verður ekki stöðvuð.  Það er ekki hægt að handstýra þessu eins og í Rússlandi og Kína.

Það sem á endanum mun koma Íslandi inn í ESB er krónan.  Vandamálin við að halda úti eigin gjaldmiðli 320,000 manna hagkerfis eru óleysanleg á 21. öldinni.

Fálmkenndar tilraunir stjórnmálamanna til að reyna að fiffa málin með því að nota rómantík og lýðskrum frá 20. öldinni eru dæmdar til að mistakast.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 24.1.2014 - 09:47 - Lokað fyrir ummæli

Ekki svo auðvelt

Jæja, þá er loksins farið að renna upp fyrir mönnum að það er ekki svo auðvelt að afnema verðtrygginguna.  Það sama á við um gjaldeyrishöftin og lágu launin.  Allt er þetta beintengt við gjaldmiðilinn – krónuna.

Krónan er versti óvinur launamannsins – hún þrífst á háum vöxtum og lágum launum.

Spurningin sem þeir lægst launuðu ættu að spyrja er hvað á að gera fyrir þann hóp sem ekki kemst í gegnum greiðslumat á 25 ára lánum og hafa neyðst til að taka 40 ára lán til þess eins að eiga von um að eignast eigið húsnæði.   Greiðslubyrði af verðtryggðu 25 ára láni er 25% hærri en af 40 ára láni.

Þúsundir heimila munu ekki ráða við greiðslubyrði af 25 ára lánum að óbreyttu, en hversu stór er þessi hópur?

Eitt er víst, þessar tillögur munu enn auka vandann á leigumarkaðinum.  Eftirspurn eftir litlum og vel staðsettum íbúðum mun rjúka upp.

Þá munu þessar tillögur auka áhuga manna á evru og ESB aðild enda óvíst að þúsundir kjósenda séu tilbúnir að gefa upp drauminn um eigið húsnæði til þess eins að halda í ónýta krónu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 19.1.2014 - 09:22 - Lokað fyrir ummæli

x-D sýni á ESB spilin

Það er kominn tími til að Sjálfstæðisflokkurinn sýni á ESB spilin sín.

Er flokkurinn kópía af Framsókn eða ætlar flokkurinn að vera breiðfylking þar sem er rými fyrir kjósendur með mismunandi skoðanir í ESB málinu?

Hver er systurflokkur Sjálfstæðisflokksins í Bretlandi, UKIP eða Íhaldsflokkurinn?  Þetta er spurning sem kjósendur framtíðarinnar þurfa svar við.

Vinstra megin við miðju hafa kjósendur val, sérstaklega eftir að Jóhanna keyrði Samfylkinguna langt inn á vinstri kantinn.

En hægra megin við miðju hafa kjósendur sem vilja ræða og skoða ESB aðild ekkert val.  Ólíkt því sem hefur gerst í Danmörku og Svíþjóð er enginn borgaraflokkur á Íslandi sem styður Evrópusamvinnu.  Á Íslandi er stór hluti kjósenda skilinn á vergangi af stjórnmálastéttinni og þetta sést vel ef kosningatölur eru skoðaðar.

Miðjan er galopin.  Jóhanna keyrði Samfylkinguna frá miðju og inn á vinstri kantinn og galt afhroð.  Davíð, á bak við tjöldin, tókst að halda Sjálfstæðisflokknum þar sem hann parkeraði honum á síðustu öld og þar situr hann nú fastur með fjórðungsfylgi.  Framsókn notfærði sér tómarúmið og hoppaði á UKIP – Le Pen lýðskrumsvagninn í Evrópu og sigraði.

Það eru mistök að halda að allir ESB sinnar séu í Samfylkingunni.  ESB aðild gengur þvert á hægri-vinstri línur í stjórnmálum eins og sést vel þegar flokkamynstur í Evrópu er skoðað.  Það eru hins vegar þjóðernissinnar á við UKIP og Le Pen sem eru hörðustu andstæðingar ESB.

Ef Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin ætla að endurheimta fyrra fylgi verða þessir flokkar að færa sig inn á miðjuna og breyta sér aftur í breiðfylkingar.  Sjálfstæðisflokkurinn verður að ná lendingu í ESB málinu og þynna út Davíðsáhrifin og Samfylkingin verður að þynna út gamla Alllaballa liðið í brúnni.

Vinstri vængur íslenskra stjórnmála hefur ekki afl til að koma Íslandi inn í ESB.  ESB aðild verður ekki að veruleika fyrr en flokkur hægra megin við miðju styður aðild.  Af núverandi flokkum er Sjálfstæðisflokkurinn eini kandídatinn.  Ef hann segir pass, þá verður spennandi að sjá hvernig tómarúmið hægra megin við miðju verður fyllt.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 18.1.2014 - 12:38 - Lokað fyrir ummæli

Sovét heilbrigðiskerfi

Íslenska heibrigðiskerfið virkar nú eins og kerfin í gamla Sovét.  Eini munurinn er að á Íslandi flytja læknar jafn og þétt úr landi og setjast að þar sem markaðslögmálin fá að gilda.  Þetta var ekki leyft í Sovét – enda var lausnin þá að banna fólki að flytja til annarra landa.

Íslenskir stjórnmálamenn hafa engar lausnir við þessum vanda.  Þeir vita ekkert hvað á að gera nema kyrja sömu gömlu flokkssöngvana um ríkisrekið kerfi.  Og hér er sami rassinn undir öllum flokkum.  Enginn þeirra hefur þor eða kjark til að ræða hvað þá innleiða lausnir sem byggja á markaðslögmálum og það á líka við flesta þingmenn Sjálfstæðisflokksins.

Svo virðist sem Íslendingar vilji frekar varðveita núverandi kerfi sem eru byggt og stjórnað af annars flokks stjórnmálamönnum en að hafa aðgang að fyrsta flokks læknum?

Það er athyglisvert að bera saman þróunina á síðustu fimm árum í heilbrigðismálum í Bandaríkjunum og á Ísland.  Obama hefur unnið þrekvirki í að breyta bandaríska kerfinu og gera öllum Bandaríkjamönnum kleyft að fá aðgang að heilbrigðisþjónustu sem byggir á fyrsta flokks læknum, lyfjum og meðferðum.    Á sama tíma hefur íslenska heilbrigðiskerfið smátt og smátt koðnað niður og þjónustan versnað.  Ný lyf, tæki og ungir læknar með þjálfun í nýjum meðferðum er á jöfnu og stöðugu undanhaldi í íslenska kerfinu.  Ísland á engan stjórnmálamann sem raunverulega berst fyrir því að íslenskir sjúklingar hafi aðgang að fyrsta flokks þjónustu.

Það er varla hægt að hugsa sér vitlausara kerfi en það sem borgar fyrir menntun og þjálfun fyrsta flokks lækna og segir svo farið bara til útlanda því það er pólitískt óverjandi á Íslandi að borga læknum markaðslaun og enginn má byggja og reka spítala nema ríkið.  En þar sem ríkið hefur eytt öllu í að bjarga bönkum og skuldurum verða engir peningar til næstu áratugina til að byggja nútíma ríkisspítala hvað þá borga heilbrigðisfólki markaðslaun.

Ísland er ríkt land og það eru til nógir peningar til að byggja nútíma spítala og borga læknum markaðslaun.  Allt sem þarf er vilji og rétt forgangsröðun, sem því miður fæst seint með annars flokks stjórnmálastétt sem er uppteknari af lýðskrumi og skammtímalausnum.

Þegar ég tala við Íslendinga erlendis er það yfirleitt íslenska heilbrigðiskerfið sem er helsta fyrirstaða fólks við að flytja til Íslands.  Ekki krónan, EBS, gjaldeyrishöftin eða litla íslenska klíkusamfélagið.  Það að hafa ekki greiðan aðgang að fyrsta flokks læknum er málið.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 16.1.2014 - 12:45 - Lokað fyrir ummæli

Stórt og dýrt bankakerfi

New York Times er með úttekt á íslenskum bönkum eftir hrun og kemst að þeirri augljósu niðurstöðu að bankar á Íslandi séu of stórir og dýrir fyrir þann litla markað sem þeir þurfa að þjóna innan hafta.

Líklega voru það mistök að endurreisa Landsbankann eftir hrun með peningum skattgreiðenda.  Sá banki var of laskaður með Icesave á bakinu.  Þá er engin þörf fyrir 3 stórbanka í litlu hagkerfi.  Samkeppnisrökin geta villt mönnum sýn.  Það er betra að hafa 2 stóra banka sem keppa sín á milli á eðlilegum samkeppnisgrundvelli en 3 sem ekki starfa á sama grundvelli.

Arion Banki og Íslandsbaki hafa svipaða uppbyggingu en Landsbankinn sker sig úr.  Það kostaði ríkið offjár að kaupa sig inn í Landsbankann og ekki er ljóst að þeir peningar skili sér aftur til skattgreiðenda nokkurn tíma.  Ef það er núnan stefna stjórnmálastéttarinnar að ná peningum út úr bankakerfinu með skattlagningu voru það mistök að kaupa Landsbankann.  Eða eins og sagt er á ensku: “Why buy the cow, when you can get the milk for free?”

En það er ekki bara að Landsbankinn hafi verið keyptur of dýru verði hann skekkir samkeppni á bankamarkaði og hjálpar við að viðhalda dýru og óskilvirku bankakerfi sem heimilin og fyrirtækin þurfa á endanum að borga fyrir með hærri gjöldum og vaxtamun.

Á meðan Arion banki og Íslandsbanki eru að undirbúa sig fyrir framtíðina og byggja upp sambönd við fjárfesta erlendis með skuldabréfaútgáfu og umsóknum um lánshæfismat er Landsbankinn upptekinn af fortíðinni.  Stóra skuldabréfið sem Seðlabankinn segir að ógni fjárhagsstöðuleika landsins tekur upp drjúgan tíma hjá Landsbankanum.  Eitt stærsta verkefni bankans er að finna nógan gjaldeyrir til að borga af stóra bréfinu sem sligar efnahagsreikning hans.  Vextir af bréfinu hækkuðu á síðasta ári svo það kemur ekki á óvart að enn þarf bankinn að loka afgreiðslum (það heitir víst að sameina á bankamáli) og hækka gjaldskrár.  Dýr erlend fjármögnun Landsbankans setur honum skorður og heftir hann í samkeppninni við hina bankana.  Þeir njóta þess og sjá enga ástæðu að fara í harða samkeppni við stirða risaeðlu ríkisins og ekki skemmir fyrir að ÍLS, hin fjármálastofnun ríkisins, er helsærð.

Hér er því ríkið búið að koma upp kerfi sem malar gull fyrir kröfuhafa gömlu bankanna.  Ein ástæða þess að innlendar eignir kröfuhafa hafa hækkað svo í verði frá hruni eru vanhugsaðar pólitískar ákvarðanir stjórnmálamanna um mikilvægi þess að ríkið sé starfandi á fjármálamarkaði án þess að sá rekstur byggi á sjálfbærri stefna sem verndar hagsmuni skattgreiðenda.

Ef ríkið ætlar að eiga og reka fjármálastofnanir á við Landsbankann og ÍLS er það lágmark að stjórnmálamenn setji þeim rekstri viðskiptaramma sem ekki íþyngir almenningi.  Ef menn treysta sér ekki í það, þá ættu menn að huga að því hvernig ríkið kemur sér út úr þessum rekstri með sem minnstu tapi fyrir skattgreiðendur.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 12.1.2014 - 08:32 - Lokað fyrir ummæli

ESB: Skaðleg framsóknarlógík

Í helgarútgáfu Fréttablaðsins flettir Þorsteinn Pálsson vel ofan veikum fyrirslætti núverandi ríkisstjórnar hvers vegna ekki megi að láta þjóðina ráða hvort ESB viðræðum verði haldið áfram.

Forysta Sjálfstæðisflokksins mætti í þessu máli taka systurflokk sinn í Bretlandi sér til fyrirmyndar.

Forsætisráðherra Breta hefur sagt að ekki komi annað til greina en að leyfa bresku þjóðinni að velja hvort Bretar haldi áfram að vera meðlimir í ESB eða ekki.  Hann lofar þjóðaratkvæði um þetta fyrir 2017.

Cameron og forysta breska Íhaldsflokksins er hlynnt áframhaldandi þátttöku Breta í ESB en samt treystir hann sér til að halda þjóðaratkvæði um úrsögn úr ESB.

Hér er Cameron að friða minnihluta þingamanna í Íhaldsflokknum sem vilja segja skilið við ESB og óttast Ukip flokkinn (breska Framsóknarflokkinn).  Báðir stjórnarflokkarnir styðja ESB aðild og meirihluti kjósenda er fylgjandi aðild í skoðanakönnunum.  Þannig að eftir íslensku framsóknarreglunni er engin ástæða til að halda þjóðaratkvæðisgreiðslu um úrsögn Breta úr ESB – ekki satt?  Munurinn á milli Bretlands og Íslands í þessu tilviki er að breskir þingmenn eru miklu sjálfstæðari en þeir íslensku og þingræðið er þroskaðra í Bretlandi.

Það breytir þó ekki því, að ekki verður komist hjá þjóðaratkvæði um ESB hér á landi fyrr en seinna.  Það eru veikleikamerki að ríkisstjórnin og þá sérstaklega Sjálfstæðisflokkurinn skuldi ekki taka af skarið og lofa þjóðaratkvæði á þessu kjörtímabili.  Það eru miklu fleiri ESB aðildarsinnar sem kjósa Sjálfstæðisflokkinn en Framsókn.  Ef Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að eiga von um að toga fylgið yfir 30% í næstu kosningum verður forysta hans að koma til móts við ESB aðildarsinna.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur