Sunnudagur 1.12.2013 - 10:50 - Lokað fyrir ummæli

Sáttmáli kynslóðanna

Af mörgum furðulegum röksemdafærslum í kynningu leiðréttingarhópsin var talið um “sáttmála kynslóðanna” upplýsandi.  Þar endurspeglaðist vel viðhorf núverandi valdakynslóðar Íslands.  En hún skilgreinir sáttmálann á þann veg að forsendubresturinn sé ekki henni að kenna og því eigi allt að renna til hennar.

Gamla fólkið fær ekkert og börnin borga brúsann.  Þannig vilja menn hafa það á Íslandi í dag.

Það er mikill barnaskapur að halda að kröfuhafar muni borga þennan leiðréttingarpakka.  Þeir verða í besta falli milligöngumenn, en á endanum borgar þjóðin sjálf.

Það fær enginn frían hádegisverð hjá hinum alþjóðlega fjármálamarkaði.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 30.11.2013 - 17:55 - Lokað fyrir ummæli

Leiðrétting með sjálfsábyrgð

80 ma kr niðurfelling höfuðstóls yfir 4 ár að hámarki 4m kr per heimili getur varla talist skuldaniðurfelling á heimsmælikvarða.  Kröfuhafar munu anda léttar eftir þessa kynningu, enda er upphæðin mun lægri en búist var við. Fyrir kosningar talaði forsætisráðherra um svigrúm upp á 800 ma. kr.  Hinn hluti leiðréttingarinnar, 70 ma kr, er fjármagnaður af lántakendum sjálfum og svo eru þeir í ábyrgð fyrir niðurfellingunni þar til yfir líkur.

Það er engin ríkisábyrgð á þessu – lántakendur bera sjálfir ábyrgð á höfuðstólsniðurfellingunni.  Það er skiljanlegt enda er alls ekki víst að þetta verði allt fjármagnað með  skattlagningu.

Í fljótu bragði virkar þetta eins og ríkið sé að fara Fjallabaksleið til að sína kröfuhöfum á spilin án þess að koma beint að málum.

Að mörgu leyti veltir þessi kynning upp fleiri spurningum en hún svarar og ekki er óvissunni eytt – en það var líklega aldrei markmiðið á þessari stundu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 30.11.2013 - 09:33 - Lokað fyrir ummæli

Jólasveinninn fjármagnar?

Það verður spennandi að fylgjast með kynningu á skuldaúrræðum ríkisstjórnarinnar  Sérstaklega verður fróðlegt að sjá hvernig og hver eigi að fjármagna þetta.  Í Morgunblaðinu er haft eftir formanni nefnarinnar sem vann tillögurnar að:

„Það var ekki verkefni hópsins að velta fyrir sér tekjuöflun ríkissjóðs í þessu máli. Við gáfum okkur tilteknar forsendur um fjármögnun verkefnisins, þannig að það væri þá fullfjármagnað. Það kemur aðeins ein tillaga frá hópnum. Við skoðuðum tugi sviðsmynda. Fimm voru skoðaðar alla leið,“

Hver er þá að velta fyrir sér tekjuöflun á þessu verkefni?  Á þetta bara að reddast?  Getur það virkilega verið að gefa eigi heimilunum væntingar um ákveðna upphæð í leiðréttingu áður en fjármögnunin er tryggð?

Heyrst hefur að fjármagna eigi þetta með skattlagninu á þrotabú kröfuhafa?  Þar er ekkert fast í hendi og sú leið gæti tekið mörg ár með endalausum málaferlum.  Hvaða áhrif mun sú óvissa hafa á efnahagshorfur landsins og aðganga að erlendum fjármálamörkuðum?  Varla verður gjaldeyrishöftunum lyft á meðan allt logar í málaferlum?

Þá má velta fyrir sér fordæminu sem gæti skapast við skattlagningu á þrotabú?  Hvar endar það?  Hvaða forsendur eiga lánveitendur nú að vinna eftir hvað varðar gjaldþrota áhættu á lánveitingar til Íslands og hvaða aukaálag mun fylgja í kjölfarið?  Er hér eingöngu verið að velta kostnaði á milli kynslóða?  Vonandi fást svör við þessum spurningum síðdegis.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 29.11.2013 - 09:38 - Lokað fyrir ummæli

Fullveldi á brauðfótum

Á meðan ný ríkisstjórn hefur stöðvað ESB aðildarviðræður og Forsetinn sagt að ESB hafi ekki vilja til að klára viðræðurnar eru ríkisstofnanir á fullu að redda fjámálastöðugleika landsins með því að biðla til velvilja ESB þjóða.

Það er furðuleg íslensk afstaða sem felur í sér andstöðu við ESB og evru en stuðning við framtíðarstefnu sem byggir á að betla evrur og pund frá ESB löndum og righalda í ólýðræðislegan EES samning og ónýta krónu.   Þessi tvískinnungur er ansi vandræðalegur og er ekki fallinn til að auka alþjóðlegan trúverðugleika á framtíðarplani Íslands fyrir utan ESB.  Það kæmi mér ekki á óvart að menn í Brussel brosi yfir aðferðum Íslendinga og telji þær í ætt við óþekkan ungling í sælgætisbúð sem heimtar að háma í sig sælgætið en neitar að borga fyrir það.

Fjármálastöðugleiki Íslands veltur á að Icesave kröfuhafar Landsbankans samþykki lengingu í bréfum sínum.  En stærstu kröfuhafar bankans eru auðvita bresk og hollensk stjórnvöld – ESB þjóðir.  Kröfuhafar hinna bankanna eiga síðan að fjármagna skuldaniðurfellingu og ýmiss önnur verkefni stjórnvalda.

Það segir allt sem segja þarf um stöðu efnahagslegs fullveldis Íslands að ríkisstjórn sem telur það sitt fyrsta verk að stöðva ESB viðræður getur ekki fjármagnað fjármálastöðuleika landsins nema með hjálp ESB landa!  Hvar eru Rússar og Kínverjar núna eða hinar margrómuðu norðurslóðir – nóg er þeim hampað á Íslandi á tyllidögum?  Efnahagslegt fullveldi sem byggir á velvild ESB landa og sparibauk kröfuhafa er harla aumt.

Og hvað er pólitískt fullveldi án efnahagslegs fullveldis?  Þessari spurningu var oft velt upp í stjálfstæðisbaráttunni á 19. öld.  Á hún ekki jafnt við á 21. öldinni?

Við skulum vona að ESB þjóðirnar hafi vilja til að bjarga fjámálastöðugleika Íslands.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 28.11.2013 - 08:19 - Lokað fyrir ummæli

Icesave í bakið

Á fimm ára afmæli hrunsins fékk íslenska þjóðin miður skemmtilega gjöf frá Icesave kröfuhöfum.  Vaxtagreiðslur vegna Icesave hækkuðu um 3.4 ma kr. í erlendum gjaldeyri.  Þetta er upphæð sem munar um og íslenska ríkið verður af, en skattgreiðendur í Hollandi og Bretlandi munu njóta góðs af á meðan íslensk stjórnvöld gefa fátt annað en boðið upp á niðurskurð.

Miðað við allt það fjaðrafok sem varð í Icesave umræðunni er svolítið furðulegt hversu litla athygli þessi afmælispakki hefur fengið.  Icesave er alls ekki búið.  Kostnaðurinn fer hækkandi og nú er talað um að lengja í Icesave um allt að 15-20 ár með tilheyrandi aukakostnaði?  Þjóðin er ekki spurð um þetta að þessu sinni.  Með snjallri markaðssetningu er búið að pakka Icesave í nýjar umbúðir og parkera hjá ríkisstofnun.  Innihaldið er jafn eitrað sem áður en umbúðirnar villa sýn.

Icesave pakkinn situr nú á efnahagsreikningi ríkisbankans og tikkar þar eins og sprengja.  Þessa sprengju þarf að aftengja sem fyrst, en ekki grafa ofaní jörð og vona að hún eyðist á 15 árum.

Icesave skuld ríkisbankans er í formi risaskulabréfa í erlendri mynt sem kröfuhafar gamla bankans eiga og er tæplega 300 ma kr.  Á fimm ára afmæli hrunsins hækkaði vaxtaálagið á þessum bréfum um 1.15% (115 punkta) sem gera um 3.4 ma kr árlega. Í stað þess að greiða ríkinu, sem er 98% eigandi bankans, sinn hluta af þessari upphæð í formi arðgreiðslu og skatta fer hún úr landi og endar að mestu leyti hjá skattgreiðendum Hollands og Bretlands, þvert á vilja íslensku þjóðarinnar í tveimur nýlegum þjóðaratkvæðisgreiðslum!  Hvað klikkaði hér?

Eitt það versta sem hægt er að gera í stöðunni er að fara að lengja í þessari Icesave hengingaról.  Við það hækkar aðeins heildar Icesave kostnaðurinn og þarf ekki annað en að líta á ávöxtunarkröfu á íslensk ríkisbréf sem gefin voru út eftir hrun í dollurum til að fá hugmynd um nýtt vaxtaálg sem kröfuhafar myndu krefjast enda á ríkisbankinn ekki í önnnur hús að venda en að biðja kröfuhafa um að bjarga sér.  Þokkaleg samningsstaða það, svo ekki sé meira sagt.  Og það sem er verra, er að með þessari leið aukast líkur á að Landsbankinn fari sömu leið og Íbúðalánasjóður og endi á spena skattgreiðenda.  Hér þarf því að stíga varlega til jarðar og horfa fram á veginn.

Gjaldeyrisstaða þjóðarbúsins leyfir ekki að þessi skuldabréf séu borguð upp á samningstíma, þ.e. fyrir 2019.  Því tala menn um að lengja þurfi í bréfunum.  En er það skynsamlegt?  Ríkisbankinn starfar á samkeppnismarkaði og það getur haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir samkeppnisstöðu hans og markaðsvirði að taka á sig svo stóra og óhagstæða skuldbindingu til langs tíma.  Með því er verið að gefa samkeppnisaðilum sóknarfæri ekki ólíkt því sem bankarnir höfðu gagnvart ÍLS fyrir hrun.  Ósveigjanleg og dýr skuldabréfaútgáfa hefur leikið fjármálafyrirtæki ríkisins grátt og það má ekki endurtaka leikinn hér.  Vítin eru til að varast þau.

Besta leiðin er að aftengja þessa Icesave sprengju á samningstímanum.  Það verður aðeins gert með eignasölu enda leyfir hvorki skuldastaða né lánshæfismat Íslands hagkvæma endurfjármögnun á erlendum mörkuðum.  Samtímis þeirri sölu þarf að endurskipuleggja ríkisbankann og marka honum nýja stefnu.  Þar gæfist t.d. tækifæri á að sameina ÍLS og Landsbankann undir einn hatt og þar með draga úr kostnaði og flækjustigi hjá ríkinu.

Vandamálið hér eru auðvita gjaldyrishöftin sem bæði tefja og auka óvissu og þar með draga úr hugsanlegu vermati eigna.  Hins vegar gæti vel lukkuð eignasala flýtt fyrir liðkun á höftum.  Það er síðan spurning hvort Íslendingar séu tilbúnir að pakka lánum sjárvarútvegsins og annarra útflutningsgreina saman og selja til erlendrar fjámálastofnunnar fyrir skuldabréf í erlendri mynt sem síðan yrði selt og peningarnir notaðir til að greiða upp Icesave í eitt skipt fyrir öll?

Markaðsaðstæður erlendis eru hagstæðar fyrir svona sölu, vextir eru enn lágir og markaðsaðilar eru opnari fyrir áhættubréfum sem bera góða ávöxtun, en þeir hafa verið um langan tíma.  Gjaldeyrishöftin segja auðvita strik í reikninginn, en einhvern tíma verða menn að þora að stíga út fyrir verndarvegg þeirra.

Með þessari leið ættu einnig að opnast möguleikar fyrir íslensk útflutningsfyrirtæki að fjármagna sig á ódýrari hátt hjá erlendum aðilum, sem mun á endanum skila sér í hærri launum innanlands en minna innlendu bankakerfi.  Það verður ekki bæði haldið og sleppt.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 27.11.2013 - 14:04 - Lokað fyrir ummæli

ESB stuðningur eykst með Framsókn

Á einu ári hefur stuðningur við ESB aðild aukist frá 33.7% í 41,7% samkvæmt könnun Capacent.  Þetta er aukning um 23% á einu ári (8% stig)   Það kemur kannski ekki öllum á óvart að þetta gerist á vakt Framsóknar.

Nú hefur lítið gerst í Evrópumálum á þessu ári nema að viðræður hafa verið stöðvaðar.  Hvað getur skýrt þessa miklu aukningu?  Líklegt verður að telja að margir séu vonsviknir yfir fagnaðarboðskap Framsóknar.  Krónan, lágu launin og háu vextirnir er erfiðari draugur að kveða niður en Framsókn reiknaði með.  Og Framsókn getur ekki látið ESB möguleikann hverfa, hann er alltaf til staðar og veltur sífellt upp spurningum um hvað ef?

Mikið veltur á að skuldaniðurfelling Framsóknar lukkist vel og að gjaldeyrishöftin og verðtrygging á neytendalánum hverfi fljótt, annars er hætta á að stuðningur við ESB fari yfir 50%.

Það yrði saga til næsta bæjar ef ríkisstjórn Framsóknar leiddi Ísland í faðm ESB!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 6.11.2013 - 11:15 - Lokað fyrir ummæli

Aftur í faðm AGS

Kynning Eatwells lávarðar um erlenda greiðslustöðu Íslands kemur ekki á óvart.

Kurteis enskur lávarður kemst að þeirri niðurstöðu að  “Ísland hafi frestað gjaldþroti árið 2008 til betri dags”

Nú er þessi dagur að renna upp og vandamálið verður aðeins leyst með sameiginlegu átaki stjórnvalda, kröfuhafa og AGS.

Vandamál þrotabúanna er því ekki lengur “einkamál” slitastjórnanna.  Stjórnvöld þurfa að eiga beina aðkomu og biðja um aðstoð frá AGS.

Ekki er lengur hægt að keyra á stefnunni “frestur er á illu bestur”.  Nú verða íslensk stjórnvöld að fara að sýna lit og finna sameiginlega lausn sem er trúverðug.  Traust og trúverðugleiki er lykilinn, segir lávarðurinn.  Ekki er boðlegt að stjórnvöld hunsi og reyni að gera lítið úr erlendum skammstöfunarstofnunum.

Viðvörunarorð lávarðsins eru skýr en hætta er á að kurteist yfirbragð þeirra verði mistúlkað af Íslendingum sem ekki átta sig á alvarleika málsins og þeirri þröngu og erfiðu stöðu sem erlend skuldastaða landsins er komin í.

Að fresta vandamálinu og vona að það reddist með séríslensku popúlisma fiffi er það sem erlendir aðilar óttast mest.  Íslenskir launþegar ættu einnig að óttast þá sviðsmynd.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 5.11.2013 - 10:22 - Lokað fyrir ummæli

80% vilja ESB

80% breskra fyrirtækja telja að Bretlandi sé best borgið innan ESB.  Aðrir valmöguleikar séu byggðir á fölskum væntingum.

Þetta segir í nýrri skýrslu sem breska viðskiptaráðið kynnti nýlega.  Þar kemur fram að hagnaður Breta að ESB aðild er metinn á 4-5% af landsframleiðslu.

Forsætisráðherra Breta fagnar skýrslunni og telur hana mikilvæga, og auðveldi stjórnmálamönnum að útskýra fyrir kjósendum hvers vegna ESB aðild sé best fyrir Breta.

Vonandi fá Íslendingar jafn vel unna og ítarlega skýrslu um þá valmöguleika sem Íslandi standa til boða.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 31.10.2013 - 14:59 - Lokað fyrir ummæli

Krónan og vogunarsjóðir

Valið stendur á milli ESB aðilar og evru eða vogunarsjóða og haftakrónu.  Án ESB aðilar verða vogunarsjóðir í lykilaðstöðu til að skammta og stýra erlendu fjármagni til Íslands.  Völd þeirra munu aukast og þeir eru þegar búnir að koma sér vel fyrir.

Vogunarsjóðir eiga ekki aðeins kröfur á gömlu bankana, heldur líka íslenska ríkið, Landsvirkjun, sveitarfélög og aðra innlenda aðila.  Aðkoma þeirra að endurfjármögnun Lýsingar nýlega, sýnir vel að Ísland er á yfirráðasvæði vogunarsjóða og þeirra bankamanna.  Þeir eru jú sérfræðingar í áhættufjárfestingum.  Stórir erlendir viðskiptabankar á við Deutsche Bank vilja ekki lána til aðila í íslenskum áhættuflokki, það kostar þá dýrmætt eigið fé, en það er af skornum skammti.

Með krónuna verða Íslendingar að reiða sig á vogunarsjóði og AGS, aðrir eru ekki tilbúnir að taka þá áhættu að lána hingað erlendan gjaldeyri.  Og ætli Íslendingar að lyfta gjaldeyrishöftum munu vogunarsjóðir leika lykilhlutverk sem eini aðilinn sem mun treysta sér til að taka þátt í þeim markaði, en gjaldeyrismarkaður sem aðeins byggir á innlendum aðilum er ekki trúverðugur.

Nú hverfur ekki íslensk áhætta með ESB aðild en munurinn er að þá er búið að marka trúverðuga framtíðarstefnu í gjaldmiðilsmálum og aðkoma evrópska seðlabankans að íslenskri peningamálastefnu mun opna fyrir fleiri fjármögnunarleiðir og draga úr völdum vogunarsjóða.

Með krónuna sem framtíðargjaldmiðil verða vogunarsjóðir og kröfuhafar hins vegar hér á landi næstu áratugina, þeir eru ekkert á förum, þvert á móti hefur kosningaloforðsklúður framsóknar styrkt stöðu þeirra.

Á endanum munu Íslendingar þó átta sig á að haftakrónan og vogunarsjóðir eru allt of dýr kostur.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 25.10.2013 - 11:01 - Lokað fyrir ummæli

Til upprifjunar

Fyrir kosningar boðaði Sigmundur Davíð eftirfarandi á vefsíðu sinni:

Lofað var stóru svigrúmi:

…eðlilegt svigrúm nemi þegar allt er talið um 800 milljörðum. Það er miklu meira en þarf til að leiðrétta stöðu heimilanna. Samhliða því er hægt að bæta stöðu ríkissjóðs og endurreisa velferðarkerfið.

sem átti að vera einfalt í framkvæmd:

Þetta er einfalt: Það þarf að skipta eignum þrotabúanna. Það þjónar hagsmunum allra. Samhliða þeim uppskiptum verður hægt að aflétta gjaldeyrishöftum og koma til móts við skuldsett heimili og bæta ríkinu og velferðarkerfinu það tjón sem leiddi af hruninu sem nú er verið að gera upp. Við höfum einstakt tækifæri til að bæta tjón undanfarinna ára. Það tækifæri má ekki glatast!

með Sjálfstæðismenn í aftursætinu :

Formaður Sjálfstæðisflokksins er hins vegar orðinn harður á því að ná þurfi fjármagni með góðu eða illu. Það er þá væntanlega ekki „bara fugl í skógi“.

Er furða að einhver spyrji: hvað klikkaði hjá Framsókn?

 

Heimild:  sigmundurdavid.is, “Þetta tækifæri kemur ekki aftur”

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur