Föstudagur 19.7.2013 - 08:01 - Lokað fyrir ummæli

Græða á hótelum

Allir ætla að græða á hótelbyggingum og sjálfsagt munu margir gera það, en það græða ekki allir þegar gert er út á lágt gengi og lág laun.

Þeir sem eru bjartsýnastir í hótelbransanum hljóta að vinna eftir þeirri forsendur að lág laun og lágt gengi haldist hér sem lengst – á því byggir þessi gróðaformúla.

Ferðamennskan er ansi tvíbent sverð.  Það eru ekki mörg varanleg hálaunastörf sem hún skapar og ekki þarf hún mikið af háskólamenntuðum sérfræðingum.

Þá virðast flest hótel vera fjármögnuð í krónum og þannig er öll fjármögnunaráhættan innanlands og nota verður takmarkaðan gjaldeyri í þetta.  Hótelherbegi eru ekki ódýr í byggingu.  4 stjörnu hótel kosta um 20-25m kr. per herbergi og lúxus 5 stjörnu er yfir 30 m kr. herbergið.  Gjaldeyrir sem fer í hótelbyggingar er ekki notaður í annað.  Lönd þar sem hótelbyggingar virðast tímabundið arðbærasta fjárfestingin eru yfirleitt lítil og vanþróðu.

Þá er spurning hvort eigið fé í þessum hótelum sé nóg til að standa af sér sveiflur í eftirspurn, t.d. eitt myndarlegt Kötlugos? Í niðursveiflu eru það einmitt of stór 4 og 5 stjörnu hótel sem lenda helst í erfiðleikum.

Nær allir erlendir ferðamenn sem gista á hótelum koma hingað til lands með flugvélum, þannig að hótelrekstur er ansi háður stefnu og styrk flugfélaganna sem hingað fljúga.

Bankarnir mega halda vel á spöðum ef öll þessi hótellán eiga að borgast til baka á réttum tíma.  Ætli sé ekki rétt að fara að huga að afskriftasjóði fyrir hótelfjárfestingar.

Það eru nefnilega alltaf þessir ófyrsjánlegu forsendubrestir sem fara svo illa með fjárfestingar á Íslandi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 18.7.2013 - 14:13 - Lokað fyrir ummæli

Svigrúmið lítið

Svigrúm ríkisins til launahækkana virðist ansi takmarkað.  Samkvæmt nýjum ríkisreikningi  fyrir árið 2012 var hallarekstur ríkisins 10 ma kr meiri en áætlað var, eða um 36 ma kr.

Heildarlaunakostnaður ríkisins er um 140 ma kr. á ári eða tæplega 25% af gjöldum ríkissjóðs.  Hver 10% hækkun á launum kostar því 14 ma kr.

Það er markmið stjórnarinnar að minnka ríkishallann á sama tíma og skattar eiga að lækka.  Þetta þýðir aðeins eitt – meiri niðurskurð.

Til að halda jafnvægi í ríkisfjármálunum verða launahækkanir fram yfir verðlagsþróun aðeins fjármagnaðar með fækkun ríkisstarfsmanna.  Því má ætla að 10% almenn launahækkun hjá ríkinu kalli á 5% fækkun ríkisstarfsmanna í viðbót við aðrar aðhaldsaðgerðir. M.ö.o til að ríkisstarfsmenn fái hærri laun þarf að fækka þeim.

Það kæmi ekki á óvart að fjárlög fyrir 2014 innihaldi fækkun ríkisstarfsmanna upp á 10%.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 17.7.2013 - 11:39 - Lokað fyrir ummæli

Franska leiðin

Umræða um heilbrigðiskerfið er ekki nógu öguð.  Kerfið skiptist upp í tvo megin þætti: 1) tryggingarþátt og 2) þjónustuþátt.

Nær öll umræðan er um þáttöku einkaaðila í þjónustuhlutanum en hún er auðvita nú þegar mikil þó einkaspítalar séu enn bannorð á Íslandi.

Hinn þátturinn er alveg jafn mikilvægur, þ.e. hvernig staðið er að tryggingarþættinum.  Í dag er þetta mjög frumstætt, annað hvort borga opinberar sjúkratryggingar eða einstaklingurinn.  Það vantar inn tryggingar fyrir þann hluta sem sjúkratryggingarnar borga ekki.

Íslenska kerfið er ekki eins og breska kerfið þar sem opinberir aðilar borga svo að segja alla þjónustuna og ekki heldur eins og franska kerfið þar sem flestir kaupa sér aukatryggingu til að standa straum að þeim útgjöldum sem falla fyrir utan opinbera kerfið.

Það er alveg ljóst að í framtíðinni þarf að fara blandaða leið í heilbrigðismálum.  Hlutur einkaaðila í bæði þjónustuþættinum og tryggingarþættinum mun aukast.  Skuldastaða ríkissins verður helsti drifkrafturinn hér, þökk sé hruninu!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 16.7.2013 - 14:38 - Lokað fyrir ummæli

ESB: Framsókn hikar

Ríkisstjórnin byrjaði strax á því að stöðva ESB viðræður og Forsetinn tók heldur betur undir það og sagði að ESB hefði ekki vilja til að ljúka viðræðum.  Utanríkisráðherra var sendur til Brussel til að flytja boðskapinn við góðar undirtektir hér heima.

En nú bregður svo við að sjálfur forsætisráðherran hefur tekið sér tíma til að skreppa til Brussel og spjalla við ESB menn og tilkynnir að Alþingi eigi að fá að ákveða næstu skref í aðildarviðræðum við Evrópusambandið.

Þetta hlé á aðildarviðræðum verður þá kannski bara smá sumarfrí eftir allt saman?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 16.7.2013 - 12:00 - Lokað fyrir ummæli

Að geta sagt NEI

Svo virðist sem Ísland sé komið fram yfir síðasta söludag þegar kemur að helstu innviðum samfélagsins.  Lífeyriskerfið, heilbrigðiskerfið, menntakerfið, stjórnsýslan og húsnæðislánakerfið eru dæmi um kerfi sem þarf að endurnýja.

Vandamálið er að flest kerfi hökta enn, þau eru dýr í rekstri, flest of stór og óskilvirk, og alls ekki í takt við stöðu Íslands sem fátækasta og skuldugasta lands Norðurlandanna.  Breytingar eru nauðsynlegar en það er hræðsla við breytingar.  Flestir halda að hrunið gangi yfir og allt verði eins og áður.  Það er því miður tálsýn.

Það er fátt sem bendir til að staða Íslands innan Norðurlandanna muni breytast mikið á næstu áratugum.  Eina von Íslands til að ná fyrri stöðu er að olía finnist í vinnanlegu magni en það verður varla fyrr en eftir 2050.

Því fyrr sem þjóðin kemst út úr sorgarferli hrunsins og sættir sig við orðinn hlut, því betra.   Verkefnin bíða og efnin eru takmörkuð.  Það verður útilokað að uppfylla væntingar eða kröfur þjóðarinnar m.t.t. lífskjara eða velferðar um nána framtíð, því þarf stjórnendur sem geta forgangsraðað og hafa bein í nefinu til að segja NEI.  Þetta litla þriggja stafa orð er lykilinn að nauðsynlegum breytingum á íslensku samfélagi sem miða að því að sníða landinu stakk eftir vexti.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 16.7.2013 - 06:34 - Lokað fyrir ummæli

Magma stýrt af „kamelljóni“

Landsbréf sem er í eigu Landsbankans gaf nýlega út yfirlýsingu varðandi Magma bréfið, þar sem framkvæmdastjórinn sagði:

“Ég fagna því að kauptilboði Landsbréfa hafi verið tekið, en við teljum skuldabréfið spennandi fjárfestingakost.”

Hvað er svona spennandi við skuldabréfið og hvað eru fjárfestar að kaupa?

Er Landsbréf að selja stöðugt sjóðsflæði eða veðið á bak við skuldabréfið sem eru hlutabréf í HS Orku?

Umfjöllun í DV virðist gefa í skyn að greiðsluflæðið af bréfinu sé ekki stöðugt og er jafnvel búist við greiðslufalli þannig að eigendur gætu þurft að ganga að veðum?

Þetta vekur upp spurningu um hvernig staðið var að verðlagninu á bréfinu til OR?  Byggðist það á sjóðsflæðisútreikningum eða verðmati á veðinu á bak við bréfið? Þegar sjóðsflæði á óskráðu bréfi er ótryggt borga fjárfestar varla meira en verð undirliggjandi veðs.

Orð framkvæmdastjórans verða því varla túlkuð á annan hátt en að það sem sé “spennandi” við þennan fjárfestingakost séu yfirráð yfir hlutabréfum í HS Orku frekar en ótryggt sjóðsflæði?  En hvers virði er HS Orka?  Ekki hefur hún reynst Alterra (áður Magma) sá gullkálfur sem ýmsir spáðu, hlutabréfin hafa fallið um 80% á þremur árum í kauphöllinni í Toronto.

Alterra hefur verið að reyna að selja HS Orku eins og kom fram í yfirlýsingu til kanadísku kauphallarinnar.  Sú sala rann út í sandinn í byrjun árs og því er orðið mjög brýnt fyrir Alterra að endurfjármagna skuldabréfið á bak við kaupin á HS Orku.  Fyrirtækið er í lausafjárvanda enda er ekki algengt að stjórnarformaður skráðs fyrirtækis veiti því persónulega lánalínu.  Alterra  segir jafnframt í ársskýrslu fyrir árið 2012 að það þurfi m.a. að leita á fjármálamarkaði til að endurfjármagna Magma bréfið.

„The Company believes the long term bond liabilities of Magma Energy Sweden A.B., assumed upon acquisition of HS Orka, may be funded from a combination of cash flows from operations and accessing capital markets.“

En það virðist ganga erfiðlega enda ekki ljóst hvernig Alterra ætlar að skaffa sjóðsflæði til að tryggja endurgreiðslur á nýju skuldabréfi eða láni? Og hver er þá lausnin?

Ein leið er að gjaldfella bréfið í gegnum Magma Energy Sweden AB en í umfjöllun stjórnenda um ársreikning 2012, í kaflanum afborganir af lánum segir:

All entities are expected to generate sufficient cash flow to service and repay their existing long-term loans, except for Magma Energy Sweden which is a holding Company that generates no cash flow of its own.“

Ross myndi bíða álitshnekkis í Kanada ef þessi leið yrði farin og hann á mikið undir að halda kanadískum lífeyrissjóðum góðum.

Hin leiðin er að leita að endurfjármögnun á Íslandi.  Og viti menn, hér munu gjaldeyrishöftin líklega bjarga Alterra, því að á Íslandi eru bréf sem bera stopular greiðslur í gjaldeyri “spennandi” kostur.  OR getur auðvita ekki farið að veita Magma Energy Sweden endurfjámögnun í gegnum skilmálabreytingar og lengingu á skuldabréfinu, en aðrir fjárfestar gætu tekið þátt í slíku.  Því átti OR ekki annan kost en að selja bréfið.  Nýir fjárfestar sem kaupa bréfið munu síðan strax þurfa að semja við Alterra um að létta á skuldum félagsins.  Líklega verður þetta einhver samsuða af hlutabréfum í HS Orku og nýju skuldabréfi til lengri tíma.  Öllu verður þessu pakkað sama í spennandi umbúðir af Landsbréfum svo hægt verði að koma HS Orku á markað sem fyrst, þannig að allir græði nema auðvita OR.

Þeir sem eru spenntir fyrir þessu tækifæri ættu að lesa viðtal við Ross Beaty í kandadíska dagblaðinu The Globe and Mail frá 12. apríl 2013 sem birtist undir titlinum “Between a rock and a green place”  Þar lýsir Ross sér á eftirfarandi hátt:

“I am a chameleon,” Mr. Beaty says happily over lunch at Diva restaurant on Vancouver’s Howe Street. “I have ultragreen environmental instincts but I don’t want government meddling with my abilities as an entrepreneur. I don’t want them getting in my face and telling me what to do. It is a contradiction and I just have to live with it.”

Það verður fróðlegt að fylgjast með endalokum þessa máls.  Mun Alterra takast að snúa taflinu við og láta íslenska lífeyrissjóði bjarga sér?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 13.7.2013 - 15:23 - Lokað fyrir ummæli

Besta hagræðingin

Eitt besta hagræðingartækifæri sem Ísland á er 20 ma kr. hagræðing innan grunnskólans og  framhaldsskólans.  Þessar stofnanir eru þær dýrustu innan OECD og kosta um 5% af VLF á meðan meðaltalið innan OECD er um 3.8%.  Ef Ísland setur sér það markmið að grunnskólinn og framhaldsskólinn kosti ekki meira en OECD meðaltalið (sem er kostnaður Finna) sparast um 20 ma kr. á ári hjá opinberum aðilum.  Það eru peningar sem betur er varið í heilbrigðismál.

Það er ekki eins og íslenskir drengir séu að fá mikið út úr þessum stofnunum sem skila hlutfallinu 30/70 á milli drengja og stúlkna  inn í Háskóla Íslands.

Íslenskt menntakerfi er skólabókardæmi um kerfi þar sem hægt er að gera hlutina hraðar, betur og ódýrari allt á sama tíma.  Allt sem þarf er kjarkur og þor.

Það þarf að gera róttæka uppstokkun á grunnskólanum þar sem meira tillit er tekið til raunverulegra þarfa drengja og kreddukenningar sem augljóslega skila ekki kynjajafnræði til náms eru lagðar til hliðar.  Stytta þarf skólann um eitt ár.

Framhaldsskólann þarf að stytta um eitt ár og útskrifa stúdenta 18 ára eins og gerist í nágrannalöndunum.

Íslenskir krakkar geta ekki verið tregari en danskir!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 12.7.2013 - 15:18 - Lokað fyrir ummæli

Íslandsbanki bestur

Það er auðvelt að vera sammála Euromoney þegar þeir velja Íslandsbanka sem besta banka á Íslandi.

Eftir hrun hefur Íslandsbanki markað sér öfluga og aðgreinda stefnu frá hinum stóru bönkunum og tekist að halda því frumkvæði.  Íslandsbanki hefur iðulega verið fyrstur með nýjungar og unnið fagmannlega að áhættustýringu sem sést best á markaðssetningu Íslandsbanka á fasteignalánum.  Þegar vefsíða Íslandsbanka er lesin er maður ekki skilinn eftir með spurninguna „hvernig í ósköpunum ætli bankinn fjármagni þessi lán“ eins og við lestur hjá keppinautunum.  Íslandsbanki tekur fjármöngunaráhættu alvarlega og sýnir það í verki.

Viðurkenning Euromoney er enn ein sönnu þess að Íslandsbanki er sá banki á Íslandi sem fjárfestar vilja helst komast yfir.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 12.7.2013 - 07:19 - Lokað fyrir ummæli

OR og Goldman Sachs

Líklegt er að Goldman Sachs sé á bak við söluna á Magma bréfi OR.  Goldman veitti nýlega lán til OR á hagstæðum kjörum sem átti að halda leyndu en lak út.  Goldman er einn fremsti fjárfestingabanki heims og afgreiðir varla stök viðskiptalán til félaga eins og OR.

Goldman er þekktur fyrir að endurskipulegga efnahagsreikninga hjá lösuðum fyrirtækjum og koma þeim á réttan kjöl.  Hér er líklega um pakkalausn að ræða þar sem efnahagsreikningur OR er hreinsaður upp með Goldman láni og sölu á Magma bréfinu.  Sjálfsagt er tiltektinni ekki lokið, enda sleppir Goldman ekki kúnnum fyrr en þeir eru vel snurfusaðir.

Þetta skýrir líka leyndina.  Goldman var eflaust ekki ánægður með að lánakjörin láku út og hefur sett ströng skilyrði fyrir leynd á Magma bréfinu.  Þá hefur Goldman eflaust valið Landsvaka sem milligöngumann á Íslandi og talið tryggast að versla við ríkisbanka enda er mikil reynsla hjá Goldman að hjálpa ríkisstjórnum í efnahagslegum erfiðleikum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 11.7.2013 - 20:24 - Lokað fyrir ummæli

Orðsporsáhætta

Það var mjög athyglisvert að lesa yfirlýsingu Dags B. Eggertssonar um Magma málið. Á visis.is er haft eftir Dag:

“Landsbréf leggur fram tilboð með fyrirvara um fjármögnun.  Þeir stofna félag sem ýmsir koma að.  Það er það sem er ófrángengið þeirra megin og þess vegna er málinu ekki lokið heldur var borgarráð að veita Orkuveitunni heimild til að halda áfram með málið.”

Á sama tíma er gefin út tilkynning sem segir að borgarráð samþykki að taka 8.6 ma kr. tilboði í Magma skuldabréfið sem Landsbréf í eigu Landsbankans gerir með fyrirvara um endanlega fjármögnun.

Hvernig getur Landsbréf sem er 98% í eigu skattgreiðenda gert 8.6 ma kr. tilboð sem fer fyrir borgarráð án þess að hafa trygga fjármögnun eða vitað hverjir koma þar að?  Er Landsbankinn hér að nota aðstöðu sína sem ríkisbanki til skjóta samkeppnisaðilum ref fyrir rass?

Það er ekki hægt að líta fram hjá þeirri staðreynd að það eru opinberir aðilar sem sitja báðum megin við borðið hér.  Þetta mál er allt orðið hið vandræðalegast og vinnubrögðin eru hin furðulegust.

Hvers vegna þurfti borgarráð að samþykkja þessa sölu áður en fjármögnun var lokið og fjárfestar voru þekktir?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur