Miðvikudagur 29.9.2010 - 08:43 - 9 ummæli

Alþingismenn á síðasta söludegi

Eftir daginn í gær er erfitt að sjá hvernig þeir menn  sem sitja  á Alþingi núna geti unnið saman.  Andrúmsloftið er eitrað, hverjum er hægt að treysta, hverjir eru samstarfsaðilar og á hvaða forsendum vinna menn saman? 

Kjósendur hafa fengið sig fullsadda á ástandinu.  Vandamálið er ekki stofnunin Alþingi, heldur þeir einstaklingar sem nú sitja á Alþingi.   Það er deginum ljósara að þeir sem sátu á þingi fyrir og um hrun þurfa að víkja.

Ekkert nema algjör endurnýjun á fólki í öllum flokkum mun duga.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 28.9.2010 - 18:24 - 9 ummæli

Hin fullkomna niðurstaða?

Laun heimsins eru vanþakklæti.  Það fær Geir Haarde að upplifa.  Nú þekki ég ekki Geir, en hann virðist vera einstaklega ljúf og hógvær persóna sem lenti í slæmum félagsskap.  Íslensk stjórnmál eru eins og stjórnmál í flestum löndum aðeins fyrir harða og freka nagla, sem þrífast best í alls konar plotti og baktjaldamakki.  Nú ætla ég ekki að gera lítið úr ábyrgð Geirs.  Hann stóð vaktina í hruninu og því verður ekki breytt.  Það því leyti var hann óheppinn.  Hrunið hefði ekki orðið betra ef Davíð og Halldór hefðu staðið í brúnni. 

Það eina sem hægt er að segja um þessa niðurstöðu, er að Alþingi hefur komist að hinni fullkomnu Machiavelli útkomu. 

Eina ljósið í tilverunni, en það er veikt og flöktandi, eru kjósendur.  Þeir hafa vald til þess að dæma þá alþingismenn sem svona matreiddu málið. 

Nú munu alþingismenn í klassískum Machiavelli stíl segja að þetta hafi verið „ömurleg“ niðurstaða, þeir munu reyna eins hratt og þeir geta, að fjarlæga sig frá þessari niðurstöðu, vegna þess að þeir vita að nú hefur taflið snúist við og spjótin standa á þeim.  Þegar kemur að því að bjarga eigin skinni verður að gefa íslenskum alþingismönnum 10 af 10.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 27.9.2010 - 18:09 - 1 ummæli

Langtímavextir hækka

Skuldabréfavísitalan lækkaði mikið í dag og nú hefur vaxtakrafan á 10 ára óverðtryggð ríkisskuldabréf hækkað um rúmlega 75 punkta síðan Seðlabankinn lækkaði stýrivexti um 75 punkta.  Það getur því orðið bið á því að almennir vextir lækki.

Bankar hafa lítið svigrúm til að lækka innlánsvexti á sama tíma og ávöxtun á ríkisskuldabréf hækkar og þar með verður bið á að útlánsvextir lækki.

Lækkun Seðlabankans á sama tíma og tilkynnt var um að afnám gjaldeyrishaftanna væri komin á dagskrá var óheppileg.  Þar með jók Seðlabankinn óvissuna og var varla á bætandi, þar sem margt bendir til að Seðlabankinn sé of bjartsýnn um verðbólguvæntingar.

Ákvarðanir Seðlabankans virðast núna úr takti við væntingar markaðarins.  Bankinn var of varkár fyrir ári síðan og hafði ekki nóga trú á sjálfum sér og stjórnvöldum til að hefja lækkunarferlið fyrr.  Nú virðist bankinn vera orðinn of djarfur og farinn að lækka þegar viðvörunarljós eru að kvikna.  Hér má ekki mikið út af bera, því ef markðurinn missir trúna á virkni Seðlabankans gæti fjármögnunarkostnaður ríkisins hækkað á alversta tíma.

Svo er spurning hvort Seðlabankinn hefði átt að gefa yfirlýsingu um afnám haftanna áður en Icesave er til lykta leitt.  AGS hefur margsinnis sagt að Icesave samningur sé skilyrði fyrir að höftunum verði lyft.  Er AGS kannski að þrýsta á stjórnvöld um að leysa Icesave með því að gefa merki um að erlendir fjárfestar verði að fá sitt og að ekki sé hægt endalaust að láta þá sitja á hakanum – því sé ákvörðunin um að létta höftunum frá AGS komin en ekki Seðlabankanum?

Það er stundum erfitt að átta sig á hver heldur á sleifinni, þegar svona margir kokkar eru í eldhúsinu.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 27.9.2010 - 09:38 - 67 ummæli

Úr skjalaskáp AGS

Nú þegar líður að þriðju endurskoðun á aðstoð AGS til Íslands er athyglisvert að kíkja á gömul fyrirheit og athugasemdir í skjölum AGS sem finna má á vefsíðu þeirra: www.ifm.org

1. Icesave

Um Icesave er þessa mola að finna:

AGS segir:

„The need to reassess financing assurances contributed to a delay in the second review. Bilateral program financing from the Nordic countries has been linked to progress towards resolving the Icesave issue. Staff was comfortable that the program was fully financed for the next 12 months, due to a current account surplus in the presence of capital controls.  However, the uncertainty introduced by the evolving Icesave negotiations meant that a new assessment of medium-term financing was necessary. It is staff’s assessment that financing assurances are in place: the Icelandic authorities have reaffirmed their intent to reach a settlement and unlock bilateral financing.“

While the authorities remain committed to an Icesave solution to unlock bilateral program financing, it is possible that wider political barriers in Iceland prove insurmountable. In the event that the bilateral finance under the program is no longer available, the authorities’ economic program would confront a serious challenge in late 2011, when external public debt maturities begin to rise. Coping with this would likely require a considerable re-orientation of policies, including deep fiscal cutbacksThe authorities are aware of the possible challenge and have contingency plans in  place, and have committed in the letter of intent to consult with the Fund in the event of this contingency.“

Íslensk stjórnvöld svara:

Iceland has already affirmed in its Letter of Intent dated 15 November 2008 that it is willing to ensure that the United Kingdom and the Netherlands will be reimbursed in respect of deposits of Landsbanki branches in those two countries (up to the Euro 20,887 minimum provided for under Icelandic Law and the EU Deposit Guarantee Directive 90/19/EC). Iceland has also given an assurance that the United Kingdom and the Netherlands will receive the reasonable time value of money, provided that comprehensive agreements are reached. Iceland remains ready to conclude at the earliest convenience the negotiations with the Governments of the United Kingdom and the Netherlands regarding a legal and financial settlement of this matter.

2. Gjaldþrot og uppboð eigna einstaklinga

AGS segir:

„The changes would primarily aim at: (i) providing additional debt advisory or mediation tools for debtors to facilitate debt workouts; (ii) providing further incentives to expedite voluntary out-of-court workouts; and (iii) expanding the coverage of debt distressed individuals. The authorities stressed that after these refinements they plan not to introduce any further modifications to the framework and indeed would allow the twice-extended moratorium on foreclosures to expire with no further extensions.“

Stjórnvöld svara:

We emphasize that with this refined framework in place, there will be no further extensions of the moratorium on foreclosures, and we will allow it to expire on schedule at end-October 2010.

3.  Fjárlög 2011

AGS segir:

“The government has made significant progress in preparing the budget for 2011. The planned 3 percent of GDP fiscal adjustment can deliver a primary surplus and a reduction in Iceland’s public debt, provided budget implementation stays on track in 2010, and banking sector contingencies are small. Spending reductions are the bulk of the proposed adjustment, and the focus of the work should now be on translating approved administrative reductions into concrete measures.”

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 26.9.2010 - 05:48 - 5 ummæli

Rekstur Reykjavíkur: leikur að skuldatölum OR

Árshlutareikningur Reykjavíkurborgar var lagður fyrir borgarráð á fimmtudaginn.  Fréttir af honum sýna vel hvernig fréttamiðlar standa sig alls ekki þegar kemur að reikningsskilum og láta stjórnmálamenn vaða uppi með alls konar villandi talnaleiki.

Á vef mbl.is segir:

„Fjármagnsliðir voru jákvæðir um 2.149 milljónir króna en áætlun gerði ráð fyrir að þau yrðu neikvæð um 2.367 milljónir króna. Munurinn skýrist einkum af gengis- og verðlagsbreytingum.“

Á visir.is er þetta skýrt nánar:

„Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn og fyrrverandi borgarstjóri, segir í tilkynningu að niðurstaðan staðfesti þann árangur sem borgin hafi notið vegna ábyrgrar fjármálastjórnunar undanfarinna ára“

Fyrir þá sem ekki eru inn í rekstrarmálum Reykjavíkur, skýrast þessar „góðu rekstrartölur“ af skuldastöðu OR.  Hinar gríðarlegu erlendu skuldir OR  lækkuðu mældar í krónum vegna hækkunar á gengi krónunnar og það skapaði fjármálalegar tekjur upp á 4.5 ma kr hjá OR á fyrri hluta 2010.  Þessi liður var neikvæður upp á 11.5 ma kr. á fyrra hluta 2009 þegar gengið var að falla.

Ef við drögum þessar 4.5 ma kr. frá hagnaði á fjármálaliðum Reykjavíkur, enda hefur þetta ekkert með ábyrgan fjármálarekstur að gera, fáum við út neikvæða fjármálalega stöðu upp á 2.351 ma kr. sem er ansi nálægt áætlun.  Það eru kannski góðu fréttirnar?


Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 25.9.2010 - 11:25 - 46 ummæli

Þak á vexti gerir illt verra

Samtök heimilanna setja fram athyglisverðar tillögur um húsnæðislán og vexti í nýlegu plaggi sem nefnist  „Grunnur að þjóðarsátt“.  Þar eru stjórnvöld hvött til að setja 4% þak á verðbætur og leggja verðtryggingu niður.  Þá eiga óverðtryggð húsnæðislán aldrei að bera hærri vexti en 6% og  5% þak skal sett á vexti ríkisskuldabréfa.

Því miður er engar tillögur að finna hvernig á að tryggja fjármögnun í svona handstýrðu kerfi.

Með því að setja þak á ávöxtun er allri óvissu komið yfir á fjármagnseigendur.  Og með meiri óvissu kemur hærri ávöxtunarkrafa.  Svona lög munu því hafa þveröfug áhrif á markaðshegðun fjárfesta.  Að fara að bæta óvissu ofná þann óstöðuleika og óvissu sem ríkir í dag, mun aðeins gera illt verra og í raun draga fjárfesta útúr húnsæðislánakerfinu. 

Það er heldur ekki forsvaranlegt að biðja lífeyrissjóðina eða skattgreiðendur að fjármagna þessar hugmyndir og þar með niðurgreiða húsnæðislán.  Þá er ósvarað hinum lagalegum spurningum sem víkja að samningsfrelsi og almennum samkeppnislögum.

Ef við lítum aðeins nánar á þessar tölur, þá eru þær ósköp eðlilegar þar sem lög og regla ríkir á fjármálamörkuðum.  Í Bandaríkjunum eru fastir vextir á 15 ára húsnæðisláni um 4% og í Sviss er hægt að fá 5 ára húsnæðislán á 2.9% óverðtryggðum vöxtum.  Á Írlandi eru vextir á 5 ára húsnæðisláni rétt yfir 4% , þannið að raunvextir í okkar nágrannalöndum á 5 ára lánum eru á bilinu 2.5%-4%.  Nú verður verðbólga hér á landi fyrir 2010 líklega um 4% og 2011 er spáð 3% verðbólgu, þannig að óverðtryggðir vextir, miðað við markaðsaðstæður í nágrannalöndunum, yrðu að vera á bilinu 6.5%-8% miðað við 4% verðbólgu og 5.5%-7% miðað við 3% verðbólgu. 

Ljóst er að verðbólga hér á landi verður að vera stöðug og innan við 2.5% mörk Seðlabankans ef þetta á að eiga einhvern möguleika að ganga upp og þá aðeins hjá bestu kúnnunum með sterkasta greiðslumatið og bestu tryggingarnar.  Þegar vikmörkin eru svona þröng er ekkert svigrúm lengur til að láta bestu viðskiptavinina niðurgreiða vexti til hinna sem eru áhættumeiri.  Önnur afleiðing af þröngum vikmörkum er að lán verða líklega ekki hærri en 60% af gangverði fasteigna.

En fjárfestar hafa val.  Ef þeim líst ekki á þetta kerfi, geta þeir einfaldlega stofnað sjóð sem kaupir fasteignir og leigir þær út og þannig fengið markaðsarðsemi af sinni fjárfestingu.  Því þarf að setja þak á leigu samhliða svona kerfi, annað væri ósanngjarnt gagnvart fólki á leigumarkaði.  Þá er ekki hægt að mismuna verktökum sem byggja hús og íbúðir, þeir þura líka að fá lán með þaki, og svona koll af kolli …

Krafan um 6% óverðtryggða vexti er ekki ósanngjörn, en við verðum að bíða og taka til hjá okkur fyrst og sýna að við getum rekið nútíma hagkerfi á stöðugan, heilbrigðan og trúverðugan hátt og þá mun markaðurinn fylgja á eftir.  Það eru því miður, engar töfralausnir til.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 24.9.2010 - 14:42 - 10 ummæli

Að ári liðnu – meðaleinkunn: C+

Fyrir nákvæmlega ári síðan skrifað ég eftirfarandi færslu:

Dýrmætur tími hefur farið í eintómt rifrildi á síðasta ári.  Við fengum ár hjá AGS til að koma hjólum atvinnulífsins af stað áður en til niðurskurðar og skattahækkana kemur á árunum 2010, 2011 og 2012.

Fyrir tæpu ári síðan [2008] var gert ráð fyrir að núna [09/2009] væru:

  • Gjaldeyrishöftin úr sögunni
  • Verðbólga horfin og vextir lágir
  • Krónan stöðug og verðmeiri
  • Bankar endurfjármagnaðir og farnir að lána
  • Mannfrek verkefni komin af stað
  • Fyrirtæki og heimilin endurfjármögnuð
  • Icesave afgreitt
  • AGS á þriðju endurskoðun
Lítið hefur þokast í þessum málum.  Hvers vegna?
Hvaða afleiðingar mun niðurskurður og skattahækkani hafa þegar við erum svona illa undirbúin?
Hvað boðar blessuð nýárssól?
———-

Lítum nánar á þessa punkta og íhugum hvað hefur áunnist síðan þetta var ritað.  Ég hef reynt að gefa einkunnir á skala A-E.  Gaman væri að heyra hvort fólk er sammála þessari einkunnargjöf?

  • Gjaldeyrishöftin úr sögunni – Lítið miðað en einhver hreyfing er komin á málið:  C
  • Verðbólga horfin og vextir lágir – Síðustu 3 mánuðir góðir:  B
  • Krónan stöðug og verðmeiri – Gengið hækkað um 12% :  A-
  • Bankar endurfjármagnaðir og farnir að lána – Gjaldeyrislánin settu strik í reikninginn:  B-
  • Mannfrek verkefni komin af stað – Hér hefur lítið áunnist:  D+
  • Fyrirtæki og heimilin endurfjármögnuð – Enn ríkir óvissa þrátt fyrir dóm:   C+
  • Icesave afgreitt – Allt í knút:  D
  • AGS á þriðju endurskoðun – Loksins á dagskrá:  B

Ef Icesave væri afgreitt og fleiri mannfrek verkefni væru komin á dagskrá væri staðan alls ekki svo slæm og meðaleinkunnin væri nálægt B, en varla er hægt að gefa hærri meðaleinkunn en C+ miðað við stöðuna í dag.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 24.9.2010 - 08:41 - 9 ummæli

Hugmyndaskortur tefur uppbyggingu

Þegar kemur að stjórnun og skipulagi er Ísland einstaklega íhaldssamt og hugmyndasnautt land, ólíkt því sem er á sviði lista og bókmennta.

T.d eru róttækar hugmyndir um hvernig við skipuleggjum og stjórnum okkar atvinnulífi eins konar tabú, og hvergi er þetta augljósara en í opinbera geiranum.

Flestir geta verið sammála um að hagvöxtur er nauðsynlegur til að viðhalda okkar lífskjörum og velferðarkerfi.  Gríðarlegur samdráttur hefur orðið hér síðustu tvö ár og enn bíðum við eftir að þetta snúist við.

Ástæður þess að hagvöxtur lætur bíða eftir sér eru margar, skortur á fjármagni á viðráðanlegu verði er ein, en önnur er ósveigjanleiki í skipulagi og stjórnun.

Í sinni einföldu mynd er VLF á mann byggð upp af margfeldi landsframlegðar og fjölda unna klukkustunda á ári per mann, sem ég kalla hina tvo stillihnappa.  Á Íslandi hefur landsframlegð alltaf verið fremur lág en fjöldi vinnuklukkustunda há, ólíkt okkar nágrönnum.  Þetta hefur að sumu leyti komið okkur til góða í þessari kreppu.  Við höfum getað stillt kerfið af með því að nota báða stillihnappana, fyrst lækkuðum við landsframleiðslu per unna klukkustund (sem er í alþjóðlegum samanburði mæld í USD, PPP)  með gríðarlegri gengisfellingu og svo höfum við verið að „fínstilla“ hlutina með því að fækka unnum klukkustundum sem kallast víst að aðlaga starfshlutfall að fjárhagsáætlun.

En þessi margrómaði sveigjanleiki, hefur sínar dökku hliðar.  Fyrir almennt launafólk þýðir þetta lægri launataxta og hærra verðlag en í nágrannalöndunum.  Eina leiðin fyrir einstaklinginn er að vinna fleiri stundir og berjast fyrir hærri töxtum en stjórnvöld svara þá með gengisfellingu.  Í hagkerfum sem ekki nota gengisfellingar er verk stjórnvalda miklu vandasamara og erfiðara.  Þar þurfa menn virkilega að bretta upp ermarnar og vinna hörðum höndum við að skipuleggja og stjórna hagkerfinu þannig að framlegðarvöxtur verði jákvæður og jafn.  Á Íslandi kemur þetta í skorpum og rykkjum.

En ástandið í dag er um margt óvenjulegt.  Enn önnur gengisfelling eða fækkun vinnustunda mun ekki bæta ástandið og gera næstu lendingu mjúka.  Nú er komið að því að Ísland fari að gera ráðstafanir til að bæta framlegð og auka gjaldeyristekjur.  Nýjar, sveigjanlegar og praktískar hugmyndir eru eina leiðin til að losa um gamlar stillingar sem eru hættar að virka.

Fyrst verður að líta á vaxtarhorfur í okkar aðalatvinnugreinum og meta möguleika á framlegðaraukningu og gjaldeyrisskapandi störfum.  Við verðum að fara að koma með raunhæfar hugmyndir um hvernig við færum störf á milli greina og þá sérstaklega hvernig við  hvetjum og þjálfum fólk til nýrra og þjóðhagslega hagkvæmari starfa.

Eitt stærsta verkefnið hér er að minnka opinbera geirann og færa fólk yfir í greinar sem bjóða upp á háan framlegðarvöxt of gjaldeyrisskapandi verkefni.  Þetta verður ekki gert af viti nema með því að auka framlegð opinbera geirans á sama tíma.  Aðeins þannig er hægt að standa vörð um grunnþjónustu og fækka fólki á sama tíma.  Hér þurfum við að þróa og innleiða róttækar hugmyndir sem taka á skipulagi, stjórnun og vinnutilhögun.  Vandamálið er hins vegar að þá þarf að taka á gömlum valdastrúktúr sem byggir á áratuga pólitík, úreltri hugmyndafræði og óskrifuðum venjum.  Fáir treysta sér út í þá ormagryfju og því hjökkum við í sama farinu og bíðum eftir næstu gengisfellingu og lækkuðu starfshlutfalli.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 22.9.2010 - 17:08 - 8 ummæli

Már snýr upp á spekúlanta

Í þjálfunarbúðum SAS liðsveitarinnar í breska hernum er sagt að til að sigra andstæðinginn þurfi menn að hafa tvö af hinum þremur essum: „strength, speed, surprise“.

Seðlabankinn virðist vera farinn að tileinka sér þetta viðhorf en seðlabankar eru þekktir fyrir allt annað en hraða og að koma á óvart.

Markaðurinn átti greinilega ekki von á þeim áherslubreytingum sem Már tilkynnti í dag.  Þó vextir hafi lækkað er afnám gjaldeyrishaftanna allt í einu komið á dagskrá.

Þetta var að mörgu leyti klókt af Má, enda eru veikar forsendur fyrir frekari lækkun eins og ég hef skrifað um áður, og því skynsamlegt að snúa sér að hinu mikilvæga verkefni Seðlabankans, að tryggja efnahagslegan stöðuleika, en afnám gjaldeyrishaftanna er hluti af því dæmi.

Í framtíðinni þarf markaðurinn að reikna með „óútreiknanlegum“ Seðlabanka.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 22.9.2010 - 10:51 - 7 ummæli

Lægstu vextir á Íslandi

Eftir vaxtalækkun Seðlabankans eru vextir á Íslandi í íslenskum krónum að verða með þeim lægstu í Evrópu.  Fá ríki geta fjármagnað sig á jafn hagkvæman hátt og íslenska ríkið og ekkert ríki með jafn lélegt lánstraust hefur aðgang að svo ódýru innlendu fjármagni og Ísland.

Vaxtakrafa á 5-10 ára ríkisskuldabréf, óverðtryggð, er nú um 5.3%, verðbólga mælist 4.5.%, þannig að raunvextir sem ríkið borgar eru 0,8%.  Þetta er rétt fyrir ofan það sem svissneska ríkið borgar en þar eru raunvextir 0.5%, þó að uppbyggingin sé þar aðeins önnur, vaxtaálagið á óverðtryggð ríkisskuldabréf í Sviss er 0.9%, en verðbólga 0.4%.

En það er ekki sanngjarnt að bera Ísland saman við besta bekkinn í efnahagsstjórnun, við eru neðst í tossabekknum og eigum að bera okkur sama við lönd í okkar flokki.  Ef við lítum á Írland, þá er nýlokið uppboði á 8 ára ríkisskuldabréfum, óverðtryggðum í evrum með vaxtakröfu upp á 6%, verðbólga í Írlandi mælist -0.1%, þannið að raunvextir á Írlandi eru yfir 6%, eða 7 sinnu hærri en hér.  Svipað er upp á teningnum hjá Grikkjum og Portúgölum en ástandið er aðeins betra á Spáni og Ítalíu.

Þetta er auðvita okkar dásamlegu krónu að þakka. Með henni er hægt að handstýra öllu, fyrst eru taxtalaun lækkuð um helming (mælt í evrum) og Ísland gert að láglaunalandi til að viðhalda samkeppnishæfni og til sporna við atvinnuleysi og svo eru áhættumetnir raunvextir keyrðir niður undir núllið og  sparifjáreigendur (og þá sérstaklega eldri borgarar) eru skikkaðir (eða plataðir) til að niðurgreiða innlenda fjármögnun,  þökk sé gjaldeyrishöftum og lélegri neytendaráðgjöf.

Á Írlandi hafa sparifjáreigendur val,  þeir geta valið  að kaupa írsk ríkisskuldabréf og fengið 6.1%  raunávöxtun, þeir geta sett peninga inn á írska banka og fengið 3.5% raunávöxtum eða þeir geta farið með sitt sparifé í þýska eða franska banka og fengið lægri ávöxtun en minni áhættu.  Þetta stendur Íslendingum ekki til boða.   Hér eru allir fastir í sömu áhættunni en enginn fær áhættumetan ávöxtun sem er ekki það sama og nafnvextir eða raunvextir.

Það verður fróðlegt að fylgjast með uppboði á ríkisskuldabréfum á föstudaginn og sjá hver ávöxtunarkrafan á verðtryggð og óvertryggð bréf verður.

Margt bendir til að ávöxtunarkrafa á óverðtryggð bréf og innlán sé komin úr takt við framtíðarvæntingar hvað verðbólgu snertir.  Sparifjáreigendur ættu að hugsa sitt mál og íhuga að koma sér yfir í verðtryggð innlán og ríkisbréf.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur