Fjármálaráðherra skrifar grein í dag í Fréttablaðið sem hann nefnir, Landið tekur að rísa. Þar fer hann yfir það sem vel hefur tekist hjá ríkisstjórninni. Það er rétt hjá Steingrími að virða ber það sem vel hefur tekist og vissulega hefur prógramm AGS og ríkisstjórnarinnar tekist vonum framar og er það vel. Hins vegar er mikið eftir, eins og hann segir, án þess að hann tilgreini hvað það er. Hér lofar Steingrímur fortíðina og nútíðina en dregur ekki nóga skýra mynd upp af framtíðinni.
Það sem vekur kannski mesta athygli í grein fjármálaráðherra er það sem hann minnist ekkert á – fjármögnun og lánstraust ríkisins. Allt stefnir í að vaxtagjöld verði stærsti póstur í ríkisútgjöldum í framtíðinni og því mun aðgangur að fjármagni og lánstraust skipta miklu máli sérstaklega þegar AGS fer af landi brott. Svo er það spurningin um framtíðargjaldmiðilinn og höftin sem heldur er ekkert minnst á.
Hér er Steingrímur auðvita í vanda því ríkisstjórnin virðist ekki samstíga hvað varðar mikilvæg atriði í framtíðarsýn landsins. Samfylkingin telur að ESB aðild sé eðlilegt og nauðsynlegt framhald af AGS prógramminu, þannig verði öruggast og best haldið áfram á þeirri leið sem nú er mörkuð. VG eru hins vegar tvístígandi og þá sérstaklega hin svo kallaða órólega deild innan flokksins.
Hér er fjármálaráðherra auðvita ekki einn á báti. Meirihluti þjóðarinnar virðist vilja allt nema ESB aðild á eftir AGS prógramminu, litlu máli skiptir hvað þetta er enda eru VG og D hér sammála sem ætti að hringja viðvörunarbjöllum hjá kjósendum.
Eitt er víst, núverandi staða þar sem erlend lán eru niðurgreitt af AGS og hinum Norðurlöndunum er ekki til frambúðar. Þegar hendi AGS sleppir hvað tekur þá við, grísk vaxtakjör? Lánstraust Grikklands og Íslands er það sama svo það er rökrétt ályktað. Það er að segja ef einhver vill lána okkur án AGS eða ESB? Grikklandi er haldið á floti með ESB björgunarhring, sem auðvita veit ekki á gott fyrir okkur ein og óstudd.
Það er mikið ábyrgðarleysi og skammsýni að senda AGS á brott án þess að hafa gert viðunandi ráðstafanir í fjármögnunar- og gjaldmiðlamálum landsins. Nú næstum tveimur árum á eftir hrun erum við litlu nær. Enginn flokkur hefur komið fram með nýjar hugmyndir á þessu tímabili.
Þeir sem ekki vilja ESB aðild, sem er líklega meirihluti þjóðarinnar, verða nú að fara að bretta upp ermarnar og taka til hendinni. Halda menn virkilega að þetta muni bara reddast!