Sunnudagur 29.8.2010 - 08:13 - 21 ummæli

2 stelpur og 1 strákur

Kynjahlutfall í mörgum framhaldsskólum landsins stefnir í 2 stelpur á móti hverjum strák.  Í lauslegri könnun á nýnemum í MR kemur í ljós að um 64% eru stúlkur og 36% piltar, tveir bekkir eru eingöngu skipaðir stelpum.  Er þetta jafnrétti?

Það er alveg greinilegt að grunnskólinn er að bregðast drengjum.  Möguleiki þeirra á topp framhaldsmenntun er nær helmingi minni en hjá stelpum.  Hvers konar menntakerfi er það sem „síar“ út helminginn af öðru kyninu á grunnskólastigi og rænir það framhaldsmenntunarmöguleikum?  Getum við verði stolt af svona kerfi?

Er eðlilegt og rétt að rétta af stöðu kvenna í þjóðfélaginu með því að skekkja menntunarmöguleika sona þeirra?

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 28.8.2010 - 15:05 - 14 ummæli

Besti flokkurinn gerir illt verra

Lengi getur vont versnað og það á svo sannarlega við um OR.  Hækkunin þar á bæ var meiri en flestir reiknuðu með en þó ekki, þegar betur er að gáð.  Áður en þessi hækkun var tilkynnt var ákveðið af hinum nýja borgarmeirihluta að OR með sinn gríðarlega skuldabagga hætti við stóriðju og leggja því hlutfallslega meiri byrðar á herðar almennings.

Þessi stefnubreyting skýrir að hluta til hækkun taxta OR umfram 20%.  Stóriðja er jú arðbærasti hluti OR, taxtar þar eru í erlendri mynt og hafa snarhækkað miðað við taxta í krónum.

Í þeirri stöðu sem OR er í dag kæmi best við buddu borgarbúa að auka hlutdeild stóriðju, fá þar inn fleiri stóra kúnna sem borga í alvöru gjaldmiðli.  Þar með væri verið að dreifa skuldaklúðri fortíðarinnar yfir á fleiri herðar en ekki færri og ná meira jafnvægi og stöðuleika í fjármálin.

Stefnu og stöðu OR átti að ræða fyrir kosningar, þar áttu flokkarnir að setja fram sínar áherslur og plön.  Þá hefðu borgarbúar haft a.m.k einhverja hugmynd um hvað þeir væru að kjósa mælt í krónum og aurum, í stað þess að þurfa að afhenda flokkunum enn eina óútfyllta ávísun.

Stefna Besta flokksins er vissulega mjúk, græn og hugguleg en hún er dýr og mun kosta hækkanir og niðurskurð sem margir hafa kannski ekki gert sér grein fyrir.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 28.8.2010 - 09:44 - 36 ummæli

Efnahagslegt sjálfstæði – „Icelandic style“

Í sjálfstæðisbaráttunni á 19. öld töldu margir að efnahagslegt sjálfstæði væri nauðsynlegur grunnur undir pólitískt sjálfstæði.  Núverandi kynslóð sem hefur tekist að rústa arfleið forfeðra sinna er á öðru máli og skyldi engan undra.

Eimskipafélagið, Landsbankinn, Útvegsbankinn, Búnaðarbankinn, Rafmagnsveitan og Hitaveitan, allt voru þetta stolt foreldra okkar og fyrri kynslóða sem höfðu lagt mikið á sig til að byggja þessi fínu fyrirtæki upp fyrir næstu kynslóðir.  Ekki grunaði menn að börn þeirra myndu rústa þessum gersemum og koma þeim beint eða óbeint í hendur útlendinga.   Þessi fyrirtæki sem þjóðin barðist fyrir að setja á stofn sem hluta af sjálfstæðisbaráttunni.

Núverandi kynslóð Íslendinga hefur annan skilning á hugtakinu „sjálfstæður“ en fyrri kynslóðir eða aðrar þjóðir.  Í hugum flestra annarra verður efnahagslegt sjálfstæði ekki aðskilið frá pólitísku á þann hátt sem Íslendingar telji að „reddist“.  Lönd í Asíu telja að sjálfstæði sé í réttu hlutfalli við stærð  gjaldeyrisvarasjóðs og því lengra í burtu sem þau geta haldið AGS því sjálfstæðari eru þau.   Ekki svo á Íslandi, þar skiptir formið öllu máli.

Bein eða óbein yfirráð erlendar aðila yfir atvinnutækifærum virðist aukaatriði miðað við formleg yfirráð yfir auðlindum.  En auðlindir í hendi stjórnmálamanna án aðgangs að opnum fjármagnsmörkuðum á sanngjörnu verði kalla yfirleitt á spillingu og valdníðslu segir saga annarra landa.  Er reynsla okkar af eftirlitsstofnunum framkvæmdavaldsins nægilega traust til að hafa engar áhyggjur af þessum málum.  Varla.

Svo er vert að athuga að enn eina ferðina í Íslandssögunni eru það fulltrúar erlendra aðila og fjármagnseigenda sem eru orðnir að elítustétt í landinu og eru með margföld laun verkafólks og þeirra sem vinna hjá þeim fyrirtækjum sem þessir útlendingar eiga beint eða óbeint.

Þetta 18. aldar fyrirkomulag virðist ekki skipta öllu máli í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga á 21. öldinni.  Formið skiptir meira máli en innihaldið.  Svo framalega sem Íslendingar eiga auðlindirnar að forminu til er sjálfstæðið tryggt.  Sú staðreynd að útlendingar eiga í raun togara, frystihús, orkuvinnslu og banka í gegnum skuldir og geta ráðið arðsemiskröfu á sitt fjármagn í gegnum lánstraust sem þeir ákveða, skiptir Íslendinga í dag minna máli en forfeður okkar eða aðrar þjóðir.

Lausnin er í raun einföld.  Íslendingar hafa óskoraðan yfirráðarétt og eignarhald yfir íslenskum auðlindum en arðurinn rennur til útlendinga í formi vaxta sem þeir skammta sér sjálfir.  Eru þá ekki allir ánægðir?  Hvað ætli næsta kynslóð Íslendinga segi?  Hennar tími mun renna upp.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 24.8.2010 - 09:43 - 5 ummæli

OR spá að rætast – því miður!

Hér er færsla frá 13. apríl 2010 þegar ég spáði að OR yrði að hækka taxta um 20%.   RÚV birtir frétt í dag þar sem talið er að búið sé að ákvarða hækkun upp á 20% sem verði kunngerð á föstudaginn.

————–

Það er næsta ljóst að miklar taxtahækkanir á heitu vatni og rafmagni eru handan við kosningarhornið fyrir viðskiptavini OR.

Ekki þarf annað en að líta á rekstur OR sem enn er rekin með miklu tapi.  Rekstrartekjur OR voru 2009 um 29 ma en tap fyrir skatta var 3.9 ma.  Til að koma þessum rekstri yfir núllið og geta greitt Reykjavíkurborg arð upp á 1 ma kr. þarf taxtahækkun upp á 20%.

Vilji Reykjavíkurborg hærri arðsgreiðslu, segjum 2 ma kr, þá verður taxtahækkunin um 25%.  Þannig virkar það.

Þetta er mikilvægt mál sem borgarbúar þurfa að setja sig inn í fyrir kosningar.  Þeir þurfa að krefja frambjóðendur um svör við hvernig þeir ætli að rétta af rekstur OR?

Eins og staðan er í dag er langlíklegast að þessu verði öllu velt yfir á borgarbúa, eftir kosningar.

Klassískt ekki satt!

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 23.8.2010 - 16:19 - 14 ummæli

Landið rís, en hvað svo?

Fjármálaráðherra skrifar grein í dag í Fréttablaðið sem hann nefnir, Landið tekur að rísa.  Þar fer hann yfir það sem vel hefur tekist hjá ríkisstjórninni.  Það er rétt hjá Steingrími að virða ber það sem vel hefur tekist og vissulega hefur prógramm AGS og ríkisstjórnarinnar tekist vonum framar og er það vel.  Hins vegar er mikið eftir, eins og hann segir, án þess að hann tilgreini hvað það er.  Hér lofar Steingrímur fortíðina og nútíðina en dregur ekki nóga skýra mynd upp af framtíðinni.

Það sem vekur kannski mesta athygli í grein fjármálaráðherra er það sem hann minnist ekkert á – fjármögnun og lánstraust ríkisins.  Allt stefnir í að vaxtagjöld verði stærsti póstur í ríkisútgjöldum í framtíðinni og því mun aðgangur að fjármagni og lánstraust skipta miklu máli sérstaklega þegar AGS fer af landi brott.  Svo er það spurningin um framtíðargjaldmiðilinn og höftin sem heldur er ekkert minnst á.

Hér er Steingrímur auðvita í vanda því ríkisstjórnin virðist ekki samstíga hvað varðar mikilvæg atriði í framtíðarsýn landsins.  Samfylkingin telur að ESB aðild sé eðlilegt og nauðsynlegt framhald af AGS prógramminu, þannig verði öruggast og best haldið áfram á þeirri leið sem nú er mörkuð.  VG eru hins vegar tvístígandi og þá sérstaklega hin svo kallaða órólega deild innan flokksins.

Hér er fjármálaráðherra auðvita ekki einn á báti.  Meirihluti þjóðarinnar virðist vilja allt nema ESB aðild á eftir AGS prógramminu, litlu máli skiptir hvað þetta er enda eru VG og D hér sammála sem ætti að hringja viðvörunarbjöllum hjá kjósendum.

Eitt er víst, núverandi staða þar sem erlend lán eru niðurgreitt af AGS og hinum Norðurlöndunum er ekki til frambúðar.  Þegar hendi AGS sleppir hvað tekur þá við, grísk vaxtakjör?  Lánstraust Grikklands og Íslands er það sama svo það er rökrétt ályktað.  Það er að segja ef einhver vill lána okkur án AGS eða ESB?  Grikklandi er haldið á floti með ESB björgunarhring, sem auðvita veit ekki á gott fyrir okkur ein og óstudd.

Það er mikið ábyrgðarleysi og skammsýni að senda AGS á brott án þess að hafa gert viðunandi ráðstafanir í fjármögnunar- og gjaldmiðlamálum landsins.  Nú næstum tveimur árum á eftir hrun erum við litlu nær.  Enginn flokkur hefur komið fram með nýjar hugmyndir á þessu tímabili.

Þeir sem ekki vilja ESB aðild, sem er líklega meirihluti þjóðarinnar, verða nú að fara að bretta upp ermarnar og taka til hendinni.  Halda menn virkilega að þetta muni bara reddast!

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 21.8.2010 - 12:31 - 18 ummæli

Icesave er ekkert rauðvín!

Icesave er ekki eins og eitthvað eðalvín sem batnar með árunum.  Nú stingur stjórnarþingmaður upp á því að við tökum enn einn snúninginn á þessu máli og setjum það niður í kalda geymslu.  Nú þurfa Íslendingar ekki að hafa forystu um þetta mál lengur, er sagt, vegna þess að ESB hefur komist að þeirri niðurstöðu að ríkisábyrgð fylgi ekki á innistæðutryggingum.

Nú eiga orð ESB að vega meir en viljayfirlýsing íslensku ríkisstjórnarinnar vegna þess að þau henta betur.  Ekki virðist skipta máli að við höfum margsagt við alþjóðasamfélagið að við ætlum að borga þetta, aðeins sé deilt um vexti og kjör.  Við höfum barist fyrir því á öllum vígstöðum að þessi deila sé tvíhliða deila Íslands við Bretland og Holland og hafi ekkert með ESB að gera, nema, auðvita þegar það hentar okkur.  Er þetta trúverðugt eða uppbyggandi?

Er furða að deilan sé komin í þennan hnút þegar svona er að málum staðið.

Á meðan Icesave er óleyst verður ESB aðild sett á ís, erlendir fjármálamarkaðir verða áfram lokaðir og lánstraustið mun á endanum falla niður í ruslaflokk.  Útlendingar munu einfaldlega gefast upp á Íslandi.  Ekkert hagkerfi í heimi þarf á Íslandi að halda, útflutningur til Íslands skiptir engu máli fyrir önnur lönd.  Og hvers vegna að fjárfesta á Íslandi þegar menn geta fengið 10.5% vexti hjá gríska ríkinu!

———-

Eins og Íslendingar settu málið upp í byrjun deilunnar hefur tíminn ekki unnið með okkur.  Þegar Svavar náði vöxtum niður í 5.5% voru vextir á grískum ríkisskuldabréfum 4.5%.  Nú þarf gríska ríkið að borga 10.5% vexti en við höfum sama lánstraust og Grikkir.  Á meðan við deilum um vexti og kjör lækkar okkar lánstraust og áhættumetnir vextir hækka.  Bretar og Hollendingar geta nú sagt að þeir séu að taka á sig helming af vaxtakostnaði okkar miðað við markaðsvexti.  Nei, tíminn til að semja um vexti hefur aldrei verið verri en nú!

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 20.8.2010 - 13:09 - 9 ummæli

Þjóðargjaldþrot ekki útilokað

Frankfurter Allgemeine Zeitung greinir frá því að þjóðargjaldþrot á Íslandi sé ekki útilokað og í raun líklegar en á Grikklandi þar sem ESB geti betur hjálpað Grikkjum.  Þetta er auðvita ekki góð greining í svona víðlesnu og virtu þýsku blaði enda eigum við líklega mest undir Þjóðverjum komið við endurfjármögnun lána í framtíðinni.  Hins vegar verður að segjast eins og er að líkurnar á þjóðargjaldþroti hér eru langt frá því að vera núll og því er nauðsynlegt að gera ráðstafanir í tíma til að bregðast rétt og fljótt við ef síga skyldi á ógæfuhliðina.

Líklegast er að viðvörunin komi frá OR, sem er eins konar kanarífugl í námunni.  Ef ekki tekst að semja um endurfjármögnun OR er voðinn vís.  Erlendir bankar munu þá vilja ganga að sínum veðum sem verður erfitt þar sem orkuauðlindir eiga að vera í íslensku eignarhaldi.  Þeir munu því búast við að ríkið taki OR eignarnámi en hafi enga burði til að greiða skaðabætur og því séu miklar líkur á að Ísland verði eins konar Venesúela Evrópu.

Þetta mun koma af stað keðjuverkun, krónan mun hríðfalla, bankarnir riða til falls, innflutningshöft verða sett á og gríðarlegur landflótti mun skella á.  Þetta er hin svartasta sviðsmynd sem verður að ræða en ekki stinga undir stól.  Líkurnar eru ef til vill ekki miklar en afleiðingarnar svo hrikalegar að ekki er forsvaranlegt að keyra á „við reddum þessu þegar þar að kemur“

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 19.8.2010 - 22:28 - 11 ummæli

Háskólamenntun hrakar!

Hafnarháskóli er í 40. sæti yfir bestu háskóla í heimi og besti háskóli á Norðurlöndunum og hefur líklega verið svo um langan tíma.  Enginn íslenskur háskóli kemst á topp 100 listann.

Fyrir um 100 árum voru nær allir háskólamenntaðir menn á Íslandi frá Hafnarháskóla og þar með menntaðir í besta háskóla Norðurlandanna.  Íslenskir háskólamenntaðir embættismenn voru þá með þeim best menntuðu í norður-Evrópu.  Ekki lengur.

Í dag eru flestir menntaðir alfarið á Íslandi og þar með er rökrétt að álykta að miðað við hin Norðurlöndin er menntun þessara háskólagenginna Íslendinga lélegri en gengur og gerist í norður-Evrópu.

Það er nefnilega ekki allt sem hefur „batnað“ á síðustu 100 árum!

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 19.8.2010 - 18:33 - 7 ummæli

Færeyingar í fyrirrúmi

Það er nokkuð ljóst að með nýjum samningi sem heilbrigðisráðherra hefur skrifað undir við stjórnvöld í Færeyjum munu færeyskir sjúklingar verða settir í forgang á Landspítalanum.  Þeir  borga jú með gjaldeyrir og færeysk stjórnvöld hafa val, ef þau eru ekki sátt við þjónustuna hjá Álfheiði geta þau sent sína sjúklinga til Danmerkur eða Svíþjóðar.  Íslenskir sjúklingar hafa ekkert svona val og enginn er til staðar að standa vörð um hvað þjónustu þeir fá frá Álfheiði.  Þeir verða möglunarlaust að sætta sig við 20. aldar hugmyndafræði VG í heilbrigðismálum.

Aldrei hefur verið betra að vera Færeyingur en Íslendingur en 2010!

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 17.8.2010 - 06:17 - Rita ummæli

Uppstokkun ekki niðurskurður

Í nýjasta hefti The Economist, er fjallað um tillögur og aðferðir ríkisstjórnar Bretlands til að ráðast á halla í ríkisfjármálum sem stefndi í 11% er verst lét.  Þar er haldið fram að ríkisstjórn Cameron’s sé að brjóta blað í niðurskurði á ríkisútgjöldum og að aðferðirnar séu mjög róttækar og geti orðið fyrirmynd annarra skuldsettra ríkja.  Niðurskurður er kannski ekki rétta orðið hér heldur uppstokkun, því allar deildir og stofnanir ríkisins þurfa að stefna að 25% lækkun á útgjöldum nema heilbrigðisþjónustan þar sem enginn niðurskurður er boðaður.   Þessi uppstokkun er um 75% af aðlögunaraðgerðum Bretlands, en skattahækkanir ekki nema 25%.

Þegar markið er sett svona hátt í lækkun útgjalda, 25%, er ekki hægt að beita flötum niðurskurði.  Öll ráðuneytin (nema heilbrigðisráðuneytið) þurfa að ákveða hvaða þjónustu þau veita til borgaranna og hvernig.  Í raun má segja að aðgerðirnar falli í 3 hópa.

1. Þjónustan endurskipulögð, einfölduð og /eða minnkuð

2. Þjónustan aflögð, stofnunum lokað

3. Þjónustan flutt yfir í einkageirann að hluta til eða öllu

Greinarhöfundur The Economist, hefur að vísu nokkrar efasemdir um að svona rótækt plan muni takast að öllu leyti, en segir að breska ríkið eigi varla annarra kosta völ ef Bretland eigi að verða samkeppnishæft á alþjóðamarkaði og pundið ekki að hríðfalla með tilheyrandi lífskjaraskerðingu.

Það er ljóst að Bretar hafa komist að þeirri niðurstöðu að flatur niðurskurður og skattahækkanir einar sér duga ekki og þeir vita af eigin reynslu að niðurskurður í heilbrigðiskerfinu er ekki forsvaranlegur og í raun stórhættulegur, enda tók það Verkamannaflokkinn yfir 10 ár að byggja upp heilbrigðisþjónustuna eftir niðurskurð Íhaldsflokksins á 10. áratug síðustu aldar.

Íslenska ríkisstjórnin og flestir stjórnmálamenn hér á landi virðast á hinn bóginn vera staðnaðir í aðferðum 20. aldarinnar.  Í staðinn fyrir að standa að heilstæðri áætlun líkt og Bretar, er hér hver höndin upp á móti annarri í einhverjum ömurlegum sandkassaleik sem á eftir að rústa þjónustu ríkisins en skilja eftir dýrt og laskað bákn.  Þetta veit ekki á gott.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur