Þriðjudagur 10.8.2010 - 15:32 - 11 ummæli

Vængstýfður Seðlabanki

Seðlabankinn er einhver mesta hrakfallastofnun sem Íslendingar hafa sett á laggirnar og er samkeppnin þó stíf.  Í raun endurspeglar Seðlabankinn vandamálin í íslenskri stofnanavæðingu sem flest má rekja til leiðtogaskorts og samskiptaörðugleika.

Það er loksins að renna upp fyrir Íslendingum að stofnanir eru ekki sterkari en þeir aðilar sem leiða þær.

Það er nefnilega ekki nóg að setja upp stofnanir að erlendri fyrirmynd.  Þær þurfa leiðtoga og sérþjálfaða starfsmenn sem geta unnið sína vinnu sjálfstætt og faglega.

Til að manna slíkar stofnanir þarf ráðningarferli sem eru óháð pólitískri afskiptasemi.  En þar sem pólitískir ráðherrar líta á sig sem yfirstarfsmannastjóra framkvæmdavaldsins er ekki von að þetta breytist í bráð – hrun eða ekki hrun.

Þetta er vandamál sem hefur legið hjá ráðherrum landsins í yfir 100 ár og lausnin verður að byrja þar hvenær svo sem það verður.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 10.8.2010 - 09:09 - 7 ummæli

Falskur botn

Seðlabankastjóri segir að botninum sé náð í þessari efnahagskreppu.  En hvaða botni höfum við ná?  Það er spurningin.  Varla held ég að sjúklingar landsins finni fyrir einhverjum botni, þjónustan er frekar í frjálsu falli.  Opinberi geirinn er langt frá því að botna í þessari kreppu.

Þeir einu sem finna fyrir „uppsveiflu“ svo orð Seðlabankastjóra séu notuð eru þeir sem beint og óbeint geta treyst á erlenda eftirspurn og svo þeir sem kaupa innflutta vöru, en hún hefur lækkað mælt í krónum vegna gjaldeyrishafta.  Uppsveifla sem byggir á gjaldeyrishöftum og fjármögnun AGS er varla sjálfbær til lengri tíma litið.

Ég er ansi hræddur um að botn Seðlabankastjóra sé falskur.  Aðeins þegar höftunum sleppir og krónan er sett á flot ásamt brotthvarfi AGS mun hinn sanni botn birtast.

Á meðan erum við í raun á flugi undir stjórn AGS og höfum það huggulegt, en hvar og hvernig við lendum er allt óvissu háð.  Við verðum að fara að finna lendingarstað áður en eldsneytið rennur út.  Það er hið mikla mál – en rifrildi um veitingar um borð og hver fær að sitja hvar, má bíða betri tíma.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 9.8.2010 - 13:23 - 9 ummæli

Í Indíánaleik

Nokkrar umræður hafa spunnist um grein Ögmunar, Virkið í norðri og ásókn útlendinga í íslenskar auðlindir.  Hér er auðvita á ferðinni gömul lumma sem allir íslenskir stjórnmálamenn geta treyst á.  Það hefur enginn stjórnmálamaður tapað atkvæðum á því að minna á hvað útlendingar séu miklu verri en Íslendingar.  Það er alltaf hægt að stóla á minnimáttarkennd landans gagnvart hinum erlendu öflum.  Gömlu nýlenduherrarnir deyja aldrei í gömlu nýlendunum, það segir saga okkar og saga annarra.

Nú er í sjálfu sér ekkert að því að Ögmundur minni okkur á hin hræðilegu nýlenduveldi 19. aldar en hversu raunveruleg er þessi hætta á 21. öldinni og er þetta okkar eini og versti óvinur?

Ef ræða á þetta á málefnalegum grunni þarf að lista alla óvini, erlenda sem innlenda og meta hversu mikil hætta stafar af þeim.  Hér er mikið verk að vinna sem því miður enginn íslenskur fölmiðill er í stakk búinn að inna af hendi og er það miður.

Svo má spyrja, hver er reynsla Íslendinga af innlendu eignarhaldi?  Eru lífskjör almennings betur tryggð af fámennri klíku á mölinni í Reykjavík eða bírókrötum í Brussel?  Er ekki eðlilegt í ljósi reynslunnar að sumir fari að efast um ágæti hins íslenska aðals?  Hvert eiga menn þá að snúa sér?

Að lokum má minna á að umræðan um íslenskt eignarhald er ansi akademísk, enda er aðeins stigsmunur á stöðu þeirra sem eiga hlutabréfin og skuldabréfin.  Saga Íslands segir mönnum að betra er að eiga skuldabréfin en hlutabréfin.   Þar er staða útlendinga sterkari en Íslendinga.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 9.8.2010 - 07:21 - 5 ummæli

„Ad astra per alas porci“

Hér er komið gott mottó á íslensku krónuna sem myndi sóma sér vel á mynt og seðlum landsins.  Þetta mottó, sem var í miklu uppáhaldi hjá rithöfundinum John Steinbeck, lýsir á mjög raunhæfan hátt hvernig krónan mun geta komið efnahag landsins aftur á flug.

Svo er spurningin hvort þetta sé ekki bara uppáhaldsmottó Íslendinga?  Útrásin var byggð á þessu og margt bendir til að framtíðarsýn margra byggi á svona mottógrunni.

Ætli þessi hugsunarháttur komi með kalda vatninu?

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 7.8.2010 - 22:29 - 3 ummæli

Enn um mannaráðningar

Hér er bloggfærsla sem ég skrifaði í febrúar 2009 um mannaráðningar.  Sumt hefur breyst síðan þá og nú er meiri umræða um þessi mál sem er af hinu góða en betur má ef duga skal.

———

Í þessari kreppu sem við upplifum núna er íslenskum mannauði mikið hampað og er allra manna mál að ekkert komi okkur út úr þessum erfiðleikum nema hinn mikli íslenski mannauður.  En mannauður er eins og eldur.  Hann þarf að hemja og halda undir ströngu og stöðugu eftirlit annars er voðinn vís eins og dæmin sanna.

Bankahrunið er að miklu leyti af manna völdum.   Hér brást hinn íslenski mannauður heldur betur. Eins og ein helsta blaðakona á The Times sagði um daginn:  „Þegar stórfeldur efnahags-stormur geisar eins og nú, er ekki hægt að skella allri skuld á ónóg lög og reglugerðir.  Það sem þjóðir þurfa helst eru einstaklingar með reynslu, sjálfstæða hugsun, fumlaus og fagleg vinnubrögð, en umfram allt góða dómgreind.“  Því miður hefur ekkert af þessum eiginleikum fólks átt upp á pallborðið á Íslandi undanfarin ár.  Mannaráðningar hafa verið handahófskenndar í besta falli, en oftar en ekki byggja þær á pólitík og kunningsskap.

Það sem er oftast mikilvægast í ráðningum á Ísland er að umsækjandinn sé „einn af okkur“.  Þetta þýðir að hún eða hann sé þægilegur í viðmóti, falli vel inn í hópinn, sé á sömu bylgjulengd og skilji nákvæmlega hvert og hvernig fyrirtækið eða stofnunin stefnir.  Sem sagt, hóphugsun (e. groupthink) er sett skilyrði sem gerir allt svo þægilegt og huggulegt.  Enginn er að tefja málin með því að spyrja óþægilegra spurninga sem eru alltaf afgreiddar sem fíflaskapur eða misskilningur.  Allir þegja og þögn er alltaf afgreidd sem samþykki.  Ef einhver vogar sér að fara út fyrir markaðar línur fær sá sami umsvifalaust reisupassann.  Þannig er öðrum gert viðvart um að það sé betra að halda sér á mottunni.

Þetta kerfi hefur sína kosti, fyrirtæki og stofnanir geta unið hratt og markviss að sínum markmiðum og í lygnum sjó getur allt litið út fyrir að ganga upp.  Vandamálið er að ef rangur kúrs er settur í byrjun er ekki hægt að leiðrétta hann fyrr en um seinan.  Ekkert virkt varnarkerfi er til staðar enda engin reynsla af gagnrýnni og sjálfstæðri hugsun.  Endalokin geta orðið hörmuleg og eru mýmörg dæmi um það í sögunni.  Því miður virðist íslenska þjóðin nú vera að upplifa sitt skólabókardæmi um afleiðingar hóphugsunar.  Það verður dýrt og sársaukafullt.   Sagan kennir okkur að eitt af því sem oft er spurt um þegar hóphugsun tekur völdin er: „hvernig gat svona vel menntað og gáfað fólk tekið svona afleitar ákvarðanir?“

Hvernig komumst við út úr þessum vítahring?  Með því að læra að hlúa að og ýta undir sjálfstæða og gagnrýna hugsun.  Gera það að skyldu allra að spyrja spurninga og falla ekki í þá gildru að yfirmenn hafi betri hugmyndir af því þeir eru hærra settir.  Þetta þarf að setja í starfslýsingar og sjá svo um að breidd og víðsýni ríki í ráðningu á nýju starfsfólki.

Eitt af því sem er erfitt fyrir marga nýja stjórnendur er að ráða fólk sem er öðruvísi en það sjálft, fólk sem hugsar öðruvísi, hefur aðrar skoðanir og er ekki alltaf sammála.  Það reynir á leiðtogahæfileika að stjórna slíku teymi.   Miklu auðveldara og skemmtilegra er að vinna með sínum líkum.  Takið eftir hvernig Obama myndaði sína stjórn.  Þar var leitað langt út fyrir hina venjulegu flokksgæðinga sem álitu sig eiga sín ráðuneyti vís.  Obama hefur reynt að ráða fólk með mikla reynslu og ólíkar skoðanir.  Það verður ekki auðvelt fyrir hann að stjórna þessum hóp.  Þar má búast við hörðum deilum og skoðanaágreiningi.  En það er eitt af aðalsmerkjum góðra leiðtoga að geta leitt og fengið ólíka einstaklinga til að vinna saman. Það er lítill vandi að leiða hóp þar sem einstaklingar skilja sína persónu eftir  heima þegar farið er til vinnu og eru sammála öllu og öllum á sínum vinnustað.

Nú þarf hið opinbera að ganga fram með góðu fordæmi og innleiða nýjar, faglegar og alþjóðlega viðurkenndar aðferðir við mannaráðningar.  Í mörgum okkar nágrannalöndum starfa ráðninga nefndir eða stofnanir sem hafa eftirlit með að opinberir aðilar og stjórnsýslan fylgi eftir óháðu og faglegu ráðningarferli og stöðumati í öllum opinberum ráðningum og mannabreytingum.

Núverandi ástand er vægast sagt ömurlegt.  Nýjustu dæmin eru bankaráðin, bakastjórar, stjórn FME og LÍN.  Var farið efir faglegu og óháðu ferli við þessar ráðningar? Hverjir komu þar að og hvaða áhrif höfðu þeir á niðurstöður?  Ný lög um Seðlabankann taka fram að auglýsa þurfi stöðu seðlabankastjóra.  Þetta er vissulega framför en hér er byrjað á öfugum enda.  Fyrst þarf að skilgreina og ákveða ferlið áður en eitt ákveðið ráðningartæki er valið.  Ég hef mínar efasemdir um að auglýsing ein og sér nægi til að fá hæfustu einstaklinganna sem umsækjendur.  Það er kominn tími til að fagfólk komi að og taki til í ráðningarmálum hins opinbera.  Betra seint en aldrei.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 2.8.2010 - 08:23 - 19 ummæli

Hin íslenska gáta

Margir velta fyrir sér gátunni, hvernig Ísland ætlar að koma sér út úr hinum miklu erfiðleikum sem hér steðja að.  Ofan á efnahagslegt og fjármálalegt hrun höfum við bætt við pólitískri og lagalegri óvissu, svona til að kóróna allt.

Hver höndin er uppi  á móti annarri.  Engin samstaða er innanlands um leiðir, aðra en þá að vera á spena AGS um óákveðinn tíma.  Að halda uppi fölskum lífskjörum með ódýru sparifé útlendinga er jú sérgrein Íslendinga og næstum talið sjálfsagt.  En hversu lengi er alþjóðasamfélagið tilbúið að fjármagna þessa vitleysu?

Það er æ betur að koma í ljós að við eigum fátt sameiginlegt með hinum Norðurlöndunum og flest bendir til að bilið á milli okkar og þeirra muni breikka í framtíðinni.  Að sumu leyti erum við alltaf að líkjast Rússum meir og meir og orð Churchill’s frá 1938 eiga orðið vel við Ísland á 21. öldinni.

„I cannot forecast to you the action of Russia. It is a riddle, wrapped in a mystery, inside an enigma; but perhaps there is a key. That key is Russian national interest.“

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 30.7.2010 - 07:50 - 5 ummæli

Deilur um öryggi í Hvalfjarðargöngunum

Áður en göngin voru opnuð voru þegar uppi deilur um öryggi í göngunum eins og þessi frétt frá 1997 sýnir:

Eldvarnir í Hvalfjarðargöngum:
Rifist um hver eigi að ráða –
framkvæmdaaðili og Vegagerð viðurkenna ekki lögsögu Brunamálastofnunar


„Við    höfum    vissulega haft áhyggjur, en enn er tími til stefnu,“ segir Bergsteinn Gizurarson brunamálastjóri í samtali við DV um brunavarnir í Hvalfjarðargöngunum. Ágreiningur er milli Brunamálastofnunar og eigenda Hvalfjarðarganganna um hvernig brunavörnum þar verði háttað og á hvern hátt verði staðið að flutningum á eldfimum efnum um göngin, svo sem olíu, bensíni og gasi.

Brunamálastofnun telur að hönnuðir og framkvæmdaaðilar við göngin eigi að þróa brunavarnakerfi og brunaáætlanir fyrir göngin og leggja þær fyrir Brunamálastofnun. Það hefur hins vegar ekki verið gert, engin slík gögn eða teikningar hafa borist stofhuninni. Brunamálasrjóri segir að í því efni sé vissulega ekki öll nótt úti enn.

„Við lítum svo á að þetta eigi að fara hér í gegn, en það eru skiptar skoðanir um það.“ Hann segir að málin eigi eftir að skýrast á næstu mánuðum áður en göngin verða tekin í notkun um um miðjan júlí-mánuð nk.

Guðlaugur Hjörleifsson, verkefnisstjóri Spalar hf. sem borar Hvalfjarðargöngin og mun reka þau, staðfesti að þessi ágreiningur væri uppi. Hann væri um það hvort Vegagerðin hefði lögsögu í öllum málum sem vörðuðu göngin og hönnun þeirra, eins og hverja aðra vegi í landinu, eða hvort aðrar stofhanir hefðu yfir einhverjum einstökum þáttum þeirra að segja, eins og Brunamálastofnun. Hann vildi að öðru leyti ekkert tjá sig um málið og vísaði á Vegagerðina.

Brunamálastjóri segir aðspurður að ef eldur kæmi upp í flutningafarartæki fyrir eldfim efni inni í göngum eins og Hvalfjarðargöngunum yrðu vart möguleikar á ráða við hann. Spurningin væri fyrst og fremst um það að til væri áætlun um skjót viðbrögð með það fyrir augum fyrst og fremst að tæma göngin og loka fyrir umferð inn í þau meðan hættuástand stæði.

DV-Vísir – 28. október 1997

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 29.7.2010 - 14:25 - 18 ummæli

Hvalfjarðargöngin

Lengi getur vont versnað.  Nú er komið í ljós að Hvalfjarðargöngin, stolt Íslendinga, eru verstu og hættulegustu göng Evrópu!  Félag þýskra bifreiðaeigenda (ADAC) hefur gert mikla úttekt á göngum á Evrópu og komist að þessari niðurstöðu. Ég læt fylgja hér slóð á vefsíðu þeirra þar sem er að finna myndband sem lýsir vel hvað er að í Hvalfjarðargöngunum.

ADAC myndband.

Hvernig væri að fá Þjóðverja til að taka út aðra þætti íslensks samfélags, svo sem stjórnsýsluna, embættismannakerfið, störf Alþingis, mennta- og heilbrigðiskerfið, bara svona til að byrja með.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 29.7.2010 - 08:18 - 16 ummæli

Uffe, ESB og Icesave

Það er varla hægt annað en að vera sammála Uffe Ellemann-Jensen í greiningu hans á ástandinu hér á landi.  Á milli línanna má lesa að Uffe telur Íslendinga skorta vilja, getu og trúverðugleika til að sækja um ESB aðild.

Hér er virtur fyrrverandi danskur ráðherra sem þekkir landið vel og nýtur trausts erlendis, óbeint að segja að þó Ísland sé landfræðilega hluti af Norðurlöndunum á það að öðru leyti heima fyrir utan Grikkland.  Grikkir gengu allt of snemma inn í ESB og fengu evru áður en þeir voru tilbúnir að ráða við sterkan gjaldmiðil.  ESB aðild er eins og vandmeðfarið tæki sem auðveldlega má misbrúka.  Mörg lönd sunnar í álfunni hafa brennt sig á þessu en það á ekki við hin Norðurlöndin sem eru innan ESB.

Icesave deilan styrkir erlenda aðila í þessari trú.  Það er ekki að þeir séu endilega að tengja þessi mál saman en þeir spyrja sig, ef Ísland getur ekki leitt Icesave samninginn til farsællar lausnar hvaða líkur eru þá á að þeir geti tekið að sér miklu flóknara verkefni sem er ESB aðildarsamningur?

Og lausn Ellemanns, jú, að Íslendingar hengi sig aftan í Norðmenn þegar þeir ákveða að ganga inn í ESB.  Þetta er óskaniðurstaða Norðmanna, þeir óttast ekkert meir en að Íslendingar gangi fyrst inn og semji um fiskveiðar í  Norður-Atlantshafi (eða líklegra að þeir klúðri samningum um fiskveiðar) sem setji norskar viðræður seinna í mjög erfitt ferli.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 28.7.2010 - 07:04 - 37 ummæli

Klúðurskreppa

Ef klúður væri útflutningsgrein, væri Ísland á grænni grein!  Maður er farinn að spyrja sig hvort kreppan á Íslandi sé ekki fyrst og fremst klúðurskreppa?

Var bankahrunið hér ekki fyrst og fremst vegna samtvinnaðs klúðurs á öllum þjóðfélagsstigum?  Svo kom Icesave, Magma og gengislánin.

Eitt sem maður tekur eftir eru brenglaðar hugmyndir Íslendinga þegar þeir bera sig saman við útlendinga.  Yfirleitt er allt betra á Íslandi.  En er svo?  Ættum við ekki að staldra við og spyrja okkur hver er orsök alls þessa klúðurs?  Höfum við ekki ofmetið okkar þekkingu, kunnáttu og fagleg vinnubrög og vanmetið smæð okkar?  Er einfaldlega hægt að skrifa þetta allt á 20-30 útrásarvíkinga?  Hefur þetta ekki dýpri rætur?  Ættum við ekki að fara að athuga hvað gæti verið ábótavant í menntun, starfsþjálfun og starfsskipulagi á Íslandi?

Ég held að margir útlendingar geri sér oft betur grein fyrir ástandinu hér.  Hins vegar eru  þeir kurteisir og vilja ekki blanda sér í innanríkismál landsins.  Einangrun og kortur á sjálfsþekkingu getur stundum verið dýr.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur