Fimmtudagur 3.6.2010 - 13:01 - 6 ummæli

Samtök atvinnulífsins: aftur til fortíðar?

Samtök atvinnulífsins telja að bankarnir séu að svelta atvinnulífið.  Það hafi verið munur fyrir hrun þá hafi allir haft greiðan aðgang að lánsfé á góðum kjörum.  En góðum kjörum fyrir hvern?  Fór bankahrunið fram hjá formanni SA?

Allir sem hafa greiðslugetu og traust veð geta fengið lán í bönkunum í dag.  Það er ekki vandamálið.  Vandamálið er að þeir sem vilja fá lán hafa enga greiðslugetu eða traust veð.  Hinir sem hafa besta lánstraustið þurfa engin lán. 

Allt of lengi hefur íslenskt atvinnulíf þrifist á niðurgreiddu lánsfé. Sá tími er liðinn og því fyrr sem SA gerir sér grein fyrir nýjum leikreglum því betra. 

Skuldsetning einkageirans á Íslandi er ein sú mesta sem um getur í víðri veröld, hún verðu ekki læknuð með því að hrópa á enn meira lánsfé.

Það væri nær fyrir SA að líta í eigin barm og kalla eftir ábyrgri fjármálastjórnun hjá sínum meðlimun í stað þess að skella skuldinni á nýju bankana.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 3.6.2010 - 12:01 - 6 ummæli

Verðbólgusprengja OR

Hér eru tvær færslur sem ég skrifaði um yfirvofandi taxtahækkun OR í apríl sem fáir vildu ræða þá.  Nú er blaðinu auðvita snúið við þegar þeir sjórnmálaflokkar sem sitja í sjórn OR hafa stórtapað.  Nú er tilkynnt um hækkanir upp á næstum 40% yfir 5 ár þremur dögum eftir kosningar.

OR mun ekki aðeins kynda heimili borgarbúa heldur einnig verðbólguna á næstu árum.

—————-

Það er næsta ljóst að miklar taxtahækkanir á heitu vatni og rafmagni eru handan við kosningarhornið fyrir viðskiptavini OR. 

Ekki þarf annað en að líta á rekstur OR sem enn er rekin með miklu tapi.  Rekstrartekjur OR voru 2009 um 29 ma en tap fyrir skatta var 3.9 ma.  Til að koma þessum rekstri yfir núllið og geta greitt Reykjavíkurborg arð upp á 1 ma kr. þarf taxtahækkun upp á 20%.

Vilji Reykjavíkurborg hærri arðsgreiðslu, segjum 2 ma kr, þá verður taxtahækkunin um 25%.  Þannig virkar það.

Þetta er mikilvægt mál sem borgarbúar þurfa að setja sig inn í fyrir kosningar.  Þeir þurfa að krefja frambjóðendur um svör við hvernig þeir ætli að rétta af rekstur OR?

Eins og staðan er í dag er langlíklegast að þessu verði öllu velt yfir á borgarbúa, eftir kosningar. 

Klassískt ekki satt!

———–

Vandamál OR er frekar einfalt, tekjur duga ekki fyrir skuldum.  Lausnin er hækkaðar tekjur en það þýðir taxtahækkun á notendur.  Út frá viðskiptalegum sjónarmiðum hefðu taxtar átt að hækka fyrir löngu til að taka á þessum vanda.  Frestun á taxtahækkun gerir vandann einungis verri og skellurinn fyrir neytendur verður enn verri þegar hann kemur.

Hins vegar hentar það ekki stjórnmálamönnum að hækka taxta fyrir kosningar og þar með eru þeirra hagsmunir settir ofar viðskiptalegum hagsmunum OR.  Það er því ekki hægt annað en að draga þá ályktun en að OR sé rekið út frá pólitískum forsendum og það skýrir ákvörðun Moody’s.

Stjórnarformaður OR hefði frekar átt að gagnrýna stjórnmálamenn en boðberann Moody’s.  Hitt er víst að hækkun taxta OR eftir kosningar verður myndarleg kúla, sem stækkar dag frá degi.

——–´

Mín síðasta færsla um OR fyrir kosningar endað svona:

Með Besta flokknum kemur nýtt fólk með nýja hugmyndir og áherslur.  En það er einmitt það sem stjórn OR þarf.

Nýir vendir sópa best.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 2.6.2010 - 13:44 - 5 ummæli

Skortur á óháðum fjárfestingarbanka tefur endurreisn

Bankarnir eru að enda með hálft atvinnulífið í fanginu segja menn og margt er til í því.  Þetta er ekki sök nýju bankanna heldur eru þeir hér að bregðast við aðstæðum í íslensku atvinnulífi og að reyna af bestu getu að standa vörð um eignir og störf.   Bankarnir vilja eflaust losna við þessi fyrirtæki sem fyrst enda ekki í þeirra verkahring að reka fyrirtæki sem þeir lána í.  Hins vegar verða þeir að selja eignir á viðunandi verði og í opnu, óháðu og gegnsæu ferli.   Og hér er vandinn.

Í eðlilegu markaðsumhverfi ættu bankarnir að geta fengið faglegan þriðja aðila til að sjá um söluna.  Þetta er í verkahring fjárfestingabanka sem hafa tengsl við fjárfesta og þekkja betur til atvinnurekstrar og endurskipulagningar en viðskiptabankar.  Þá skapar þetta fjarlægð frá eiganda og lánsveitanda sem er nauðsynleg til að auka traust og trúverðugleika.

Fjárfestingabankar auðvelda líka alla endurskipulagningu þar sem þriðji aðili getur tekið eignir frá fleiri en einum banka og sameinað og lagað að markaðsaðstæðum til að gera seljanlegri.  Þá hafa fjárfestingarbankar sterk alþjóðleg tengsl og erlendir fjárfestar eru vanir og kjósa að vinna með slíkri stofnun sem á auðveldar með að gæta jafnt allra hagsmuna í söluferlinu.

Þegar bankakerfið var endurreist hefði mátt huga betur að þessum þætti.  Þetta þarf ekki að vera svo flókið eða stórt í sniðum.  Eins og staðan er í dag er ein hugmynd að fá sænskan fjárfestingarbanka til að setja upp litla starfstöð hér sem starfaði undir erlendri stjórn og eftirliti, alla vega fyrst um sinn.  Til að byrja með þyrfti 5 erlenda sérfræðinga sem myndu ráða 10-15 Íslendinga.  Þannig fengist reynsla, fjarlægð, traust og tengsl.  Stokkhólmur er miðstöð fyrir fjárfestingar á Norðurlöndunum.  Þangað sækja fjárfestar innan svæðisins jafnt sem utan hugmyndir og ráð.  Það er því eðlilegt fyrir Íslendinga að snúa sér þangað.

Flokkar: Óflokkað · Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 31.5.2010 - 20:26 - 16 ummæli

Bakdyraskattlagning á lífeyri upp á 16 ma kr.

26 lífeyrissjóðir tóku þátt í gjaldeyrisbraski Seðlabankans.  Seðlabankinn keypti íslenskar krónur á aflandsmarkaði hjá Seðlabanka Lúxemborgar á 270 kr. evruna og selur svo sömu krónurnar fyrir evrur til lífeyrissjóðanna en nú á 220 kr.  Hreinn hagnaður Seðlabankans er 50 kr. á hverja evru sem lífeyrissjóðirnir láta Seðlabankann fá eða samtals 16 ma kr..  Már gerir hér reyfarasölu en svokallaður „hagnaður“ lífeyrissjóðanna er annað mál.

Það sem vekur sérstaka athygli er að lífeyrissjóðirnir virðast allir sem einn taka þátt í þessu án nokkurrar umræðu við sína sjóðsfélaga.  Á hvaða forsendum var ákveðið að færa enn fleiri lífeyrisegg í valta íslenska körfu?  Hvernig réttlæta stjórnir lífeyrissjóðanna þessa „fjárfestingu“, sérstakleg út frá fjárfestingarstefnu um dreifða áhættu?  Hver er hinn erlendi fórnarkostnaður við þessi kaup?  Hvaða erlendu eignir voru seldar?  Hvernig voru bréf Seðlabankans „verðlögð“?  Voru skammtímasjónarmið látin gilda, þ.e. langtímafjárfestingarsjónarmiðum um dreifða áhættu var fórnað til að fegra stöðu sjóðanna til skemmri tíma litið? 

Er virkilega ekki til einn lífeyrissjóður á landinu  sem taldi þessi kaup ekki í hag sinna sjóðsfélaga og þar af leiðandi tók ekki þátt í þessu braski sem í grunninn er ekkert nema tilfærsla á peningum sjóðsfélaga í ríkiskassann.  Þetta er nefnilega ekkert annað en bakdyraskattalagning á lífeyri upp á 16 ma kr. en vegna tvöfalds gengis krónunnar geta stjórnir lífeyrissjóðanna tilkynnt þetta sem pappírsgróða fjárfestingu.

Og vegna þess að þetta er „skattlagning“ urðu allir að taka þátt í þessu.

Ef einhver lífeyrissjóður hefði talið það góða fjárfestingu að færa erlendar eignir yfir í íslenskar krónur hefði verið eðlilegast að sá lífeyrissjóður hefði keypt krónubréfin beint af Seðlabanka Lúxemborgar eða í gegnum Seðlabanka Íslands á kostnaðarþóknun en ekki á „skattlagningarverði“.

Það er löngu tímabært að endurnýja stjórnarhætti innan lífeyrissjóðanna og setja þar inn stjórnarmenn sem fyrst og fremst hugsa um hag sjóðsfélaga.  Það er ekki í verkahring lífeyrissjóðanna að bæta Seðlabankanum það tap sem varð á gjaldeyrisforða landsmanna í hruninu, eða hvað?

Ps. Sjaldan hefur 16 ma kr. skattlagning fengið jafn litla umræðu.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 31.5.2010 - 17:14 - 6 ummæli

Embættismenn fá völdin í Reykjavík

Nú mun reyna á æðstu embættismenn Reykjavíkurborgar sem aldrei fyrr.  Stærsti borgarstjórnarflokkurinn hefur nefnilega litla reynslu af borgarmálum og stjórnun. 

Í raun er borgarstjórnarflokkur Besta flokksins ansi einsleitur, allt er þetta fólk á svipuðum aldri sem flest ef ekki öll búa í 101.  Aðeins ein kona er í hópnum og ekki örlar fyrir sterkri stjórnunarreynslu í fjármálum hjá þessum hópi, að ég get séð.  Jón Gnarr viðurkennir að hann sé ekki talnaglöggur og kunni rétt plús og mínus samanber viðtal við hann í DV.  Þetta getur orðið vandamál því fjárhagsstaða borgarinnar og OR er erfið og flókin.  Hér verður Besti að reyna sig á ráð og útreikninga annarra.  Í svona stöðu skiptir öllu máli að menn velji rétta ráðgjafa.  Það verður athyglisvert að fylgjast með hvar og hvernig Besti sækir sín ráð.  Verður það Samfylkingin sem hvíslar í eyra Jóns Gnarrs, eða embættismenn eða kannski allt annar hópur sem enginn veit hverjir eru? 

Ef rétt er á spilum haldið geta leikarar orðið að sterkum og vinsælum stjórnmálaleiðtogum, eins og sagan sýnir okkur.  Kannski fetar Jón Gnarr í fótspor Ronald Reagans, það er aldrei að vita.  Hann gæti gert margt vitlausara.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 30.5.2010 - 11:45 - 1 ummæli

Sveifla út og suður

Þetta eru fyrstu kosningar sem ég man eftir þar sem sveiflan er hvorki til vinstri né hægri.  Gömlu leiðtogarnir sem eru fastir í fortíðinni vita ekki sitt rjúkandi ráð og telja öruggast að hrósa sigri.  Allir nema Jóhanna, sem eðlilega túlkar niðurstöðurnar sem afhroð fyrir fjórflokinn.

Þar sem fjórflokkurinn fékk sterka mótstöðu tapa allir hlutar hans.  Jafnvel stefnulaust grínframboð í Reykjavík nær 6 mönnum inn, en það sem er athyglisverðast eru niðurstöðurnar á Akureyri.  Þar er alvöruframboð sem nær meirihluta og enginn af fjórflokkunum fær 15% atkvæða.

Það eru niðurstöðurnar á Akureyri sem fjórflokkurinn þarf að hræðast.  Þar sem fjórflokkurinn er einn um hituna virðist Sjálfstæðisflokkurinn halda sínu og kemur sterkur út.  Hér virðast kjósendur vera að sýna óánægju sína með efnahagsstefnu núverandi ríkisstjórnar þar sem seinagangur og rifrildi einkenna flest mál.   Sérstaklega er Samfylkingunni refsað enda samkvæmt tölum að norðan, virðist flokkur forsætisráðherra orðinn sá fimmti stærsti!

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 29.5.2010 - 17:56 - 2 ummæli

Tími leigusala að renna upp

Þau frumvörp sem tveir ráðherrar  leggja fram fyrir Alþingi um bætta stöðu skuldara gegn kröfuhöfum eru um margt skynsamleg.  Þau munu hjálpa núverandi kynslóð sem glímir við of há lán, en hins vegar verða afleiðingarnar lægri lánshæfni fyrir næstu kynslóð og skuldlitla einstaklinga.

Ef ný lög, sem allt bendir til, gefa lánastofnunum aðeins færi á að endurheimta það verð sem fæst á nauðungaruppboði, ef allt fer á versta veg, verður sú tala útgangspunktur í framtíðarlánveitingum.  Þetta þýðir að venjulegt lánshlutfall upp á 80% af kaupverði fasteigna í gamla kerfinu lækkar niður í 60% í því nýja, enda er þetta algengt lánshlutfall í þeim löndum þar sem fasteignin er eina veðið á móti láninu.

Þetta mun þýða að næsta kynslóð verður að búa lengur í ódýru leiguhúsnæði (eða heima hjá mömmu og pabba) og spara og spara og spara fyrir útborgun sem líklega verður a.m.k 25% af kaupverði í beinhörðum peningum.  Lán út á 2. og 3. veðrétt munu heyra sögunni til, að mestu leyti, og uppáskriftir verða mun erfiðari þar sem lánshæfni allra fasteignaeigenda lækkar í þessu nýja kerfi.

Gríðarleg eftirspurn verður eftir hagkvæmum 2ja og 3j herbergja íbúðum bæði til leigu og kaups.  Þetta verða þær íbúðir sem ungt fólk sækist eftir að kaupa í samkeppni við efnasterka leigusala sem sjá mikið tækifæri í ört stækkandi leigumarkaði.  Niðurstaðan verður hátt kaup- og leiguverð á minnstu íbúðunum sem aftur þýðir að enn erfiðara verður fyrir unga fólkið að eignast þak yfir höfuðið.  Hér mun því skapast ákveðinn vítahringur fyrir næstu kynslóð sem þeir efnameiri munu geta hagnast verulega á.

Þessi breyting mun því gagnast þeim í núverandi kynslóð sem skulda mest og þeim sem eiga mest.

Fyrir þá sem halda að Íbúðarlánasjóður komi hér til bjargar, verður að segjast að framtíðarútlitið á þeim bæ er ekki gott.  Í fyrsta lagi, vill flokkur félagsmálaráðherra að Ísland gangi í ESB og þar eiga ríkisstyrktar lánastofnanir ekki upp á pallborðið.  Í öðru lagi, og óháð ESB umsókn, er ákveðin óvissa uppi með fjármögnunarleiðir og -kostnað Íbúðarlánasjóðs í framtíðinni.  Getur „ríkið“ skaffað h0num samkeppnishæft fjármagn á móti innlendum lánastofnunum sem líklega verða í erlendri eigu og munu þar með hafa betra lánstraust en ríkið?  Þessar lánastofnanir munu geta boðið fjársterkum innlendum aðilum sem vilja byggja upp keðju af leiguhúsnæði fyrir hinn ört vaxandi markað, bestu hugsanlegu lánskjör og þar með mun tími hinna fjársterku leigusala aftur renna upp á Íslandi.

Þið heyrðuð þetta fyrst hér á mínu bloggi!

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 28.5.2010 - 11:06 - 7 ummæli

Skuldir halda verðbólgu uppi

Eins og búast mátti við er verðbólgan lífseig.  Fyrirtæki eins og ríkið eru að velta sínum skuldavanda yfir á almenning í formi hækkaðs vöruverðs.  Það er mjög freistandi að hækka verð á vörum og þjónustu um 0.5% í hverjum mánuði enda auðvelt að fela vegna óstöðugs gengis og brenglaðs verðskyns almennings. 

Það eru litlar líkur að verðbólgan hér á  landi fari nokkurn tíma niður fyrir 5% yfir 12 mánaða tímabil á meðan við erum að glíma við óviðráðanlegar skuldir.

Í framtíðinni má búast við meiri hækkunum á gjöldum opinberra stofnanna og svo eru gríðarlegar hækkanir á rafmagni og heitu vatni handan við hornið.

Nei, verðbólgubálið er vel kynt og nógur efniviður bíður þess að komast á það bál.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 27.5.2010 - 19:04 - 2 ummæli

17.5% niðurskurður á sjúkrarúmum á milli ára

RÚV segir frá því að sjúkrarúmum á Landspítalanum verði fækkað um 116 í sumar frá síðastliðnu sumri og verða nú  545.  Þetta er einn mesti niðurskurður hlutfallslega sem kynntur hefur verið af þessari ríkisstjórn.  Á meðan má ekki hreyfa við einum einasta stól hjá ráðherrum og þeirra liði.

Árið 2008 voru sjúkrarúm rúmlega 800 á Landspítalanum þannig að nær liggur að þriðja hvert rúm verið autt í sumar. 

Þessar tölur tala sínu máli og segja meir um áherslur þessarar ríkisstjórnar en flest annað.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 26.5.2010 - 11:46 - 3 ummæli

Atvinnulíf án forystu

Það er ekki raunhæf krafa að tveir ráðherrar, Steingrímur og Jóhanna geti reist við hagkerfi heillar þjóðar án utanaðkomandi hjálpar. 

Atvinnulíf Íslands er  forystulaust og hefur verið um fjölda ára.  Flestir sem stóðu í atvinnurekstri eru útskúfaðir og fyrirlitnir enda virðist sem svo að þetta fólk hafi alls ekki staðið í heilbrigðum atvinnurekstri heldur verið á persónulegu lánafylliríi.

Þjóð sem ekki á hóp einstaklinga sem hefur reynslu og þekkingu af almennum atvinnurekstri er ekki í góðum málum.  Stjórnmálamenn, bankar,  lífeyrissjóðir, skilanefndir eða embættismenn geta ekki breytt sér í frumkvöðla á einni nóttu.

Hér þarf þjóðin hjálp.  En í stað þess að þyggja hjálp frá vinveittum og heiðarlegum nágrönnum okkar lendum við í klónum á erlendum hrægömmum sem bíða við sjóndeildarhringinn og nýta sér forystuleysið.  Það er munur á útlendingum alveg eins og Íslendingum.  Nokkuð sem væri hollt að muna.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur