Þriðjudagur 24.11.2015 - 11:45 - Lokað fyrir ummæli

Vaxtaokur stjórnvalda

Raunvextir hafa farið hratt lækkandi á Íslandi og eiga enn eftir að lækka, sérstaklega ef vel tekst til með afnám hafta og lánshæfiseinkunn landsins batnar. Lífeyrissjóðirnir hafa verið leiðandi í að færa neytendum þessa lækkun í formi lægri vaxta á verðtryggðum húsnæðislánum. En á sama tíma eru stjórnvöld í gegnum ÍLS að selja neytendum húsnæðislán á föstum verðtryggðum vöxtum sem taka mið af vaxtakostnaði liðins tíma. Á hvaða forsendum byggist sú sala og er hún í þágu neytandans?

Hver gætir hagsmuna unga fólksins og heimilanna í þessu máli? Hvað segir FME, Neytendasamtökin og Samkeppnisstofnun um svona okursölu til neytenda? Ekki mikið – og hvers vegna? Af hverju þessi þögn um stofnun sem heldur stórum hópi landsmanna og ekki síst landsbyggðinni í gíslingu okurvaxta og gerir greiðslumat óyfirstíganlegt fyrir svo marga?

Því miður eiga heimilin fárra kosta völ. Erfitt er að fá rétta og óháða ráðgjöf. Í staðinn fyrir að leysa áratuga vanda ÍLS og skapa grundvöll fyrir eðlilegan fjármálamarkað eru stjórnmálamenn uppteknir af kjánalegum patentlausnum sem byggja flestar á boðum og bönnum.

Það sem menn ættu að vera að gera er að undirbúa markaðinn og heimilin fyrir nýtt lágraunvaxta umhverfi. Eitt fyrsta skrefið er að vara heimilin við að taka verðtryggð lán á föstum vöxtum, á meðan þessi aðlögun stendur yfir. Mikilvægt er að lántakendur átti sig á eiginleikum lána með breytilegum vöxtum sem eru sveigjanleg og uppgreiðanleg. Þegar vextir lækka getur lántakandinn endurfjármagnað lánið, t.d. hjá samkeppnisaðila sem býður betri kjör. Svona lán eru oft eitur í beinum lánastofnana, enda vilja þær halda í sína viðskiptavini frá vöggu til grafar, en slíkt er yfirleitt aldrei í þágu neytandans.

Fjármálaráðgjöf til neytenda á Íslandi er frumstæð og einhæf. Hún er að mestu í höndum seljandans sem hefur yfirburða þekkingu og reynslu sem hann notar til að pína sem mest út úr viðskiptavininum.  Þá er miður, að Ísland búi ekki yfir ríkisfjölmiðli sem er óháður auglýsingum, en slíkar stofnanir gegna mikilvægu hlutverki í nágrannalöndunum við að miðla óháðum upplýsingum til neytenda.  Hér er því mikið umbótarverk að vinna fyrir hinn einsleita hóp sem einkennir íslenska stjórnmálastétt og vildarvinahóp hennar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 7.11.2015 - 14:26 - Lokað fyrir ummæli

Gamalt bankavín á nýjum belgjum

Nú berast þær fréttir til heimila landsins að tveir hópar berjist um yfirráð yfir Arion banka. Einn þeirra nefnist Virðing sem er stjórnað af fólki úr Kaupþingi og hinn kallar sig Artica Finance og samanstendur af stjórnendum af fyrirtækjasviði gamla Landsbankans.

Það verður spennandi að sjá hvor hópurinn nær völdum yfir Arion banka. Það virðist vera í höndum lífeyrissjóðanna að ákveða það? Ætli stjórnir þeirra munu spyrja eigendur sína ráða? Varla. Hver verður aðferðafræði lífeyrissjóðanna í þessu vali? Það væri fróðlegt að vita.

Það sem er sorglegt við þetta allt saman er að enn eina ferðina eru það verðbréfafyrirtæki sem ráða ferð. Hvar er hópurinn sem samanstendur af fólki með yfirgripsmikla reynslu af viðskiptabankaþjónustu – fólk sem setur heimilin og lítil fyrirtæki í fyrirrúm?

Það eru því miður litlar líkur á að íslenskum bönkum verði stjórnað að fólki með alvöru bankareynslu. Þetta verða fyrst og fremst vildarvinir lífeyrissjóðanna og stjórnmálastéttarinnar. Rannsóknarskýrsla Alþingis gæti allt eins hafa verði skrifuð á 18. öld og komin í örugga geymslu á virðulegu safni.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 3.11.2015 - 07:47 - Lokað fyrir ummæli

10% forsætisráðherra

Flokkur forsætisráðherra Íslands nýtur stuðnings aðeins 10% kjósenda í nýlegum skoðanakönnunum.  90% kjósenda telja aðra flokka færari að stjórna Íslandi í framtíðinni. Það hlýtur að vera einsdæmi meðal lýðræðisþjóða að flokkur með svona lítinn stuðning skuli hafa öll völd. Og allt snýst þetta um völd.

Í nýlegu viðtali við erlendan fjölmiðil gefur forsætisráðherra okkur athyglisverða innsýn inn í valdaheim sinn. Þar segir hann um ESB að hann telji “ólíklegt – í raun útilokað – að Íslandi gangi þar inn í náinni framtíð” . Þetta er auðvitað blaut tuska í andlit kjósenda.  Alvöru forsætisráðherra hefði svarað svona spurningu með því að segja að það væri á valdi kjósenda að ákveða hvort og hvenær Íslandi myndi ganga inn í ESB.  En ekki Sigmundur Davíð.

Eitthvað segir mér að klaufalegt dramb og lýðskrumstónn forsætisráðherra eigi stóran þátt í að Framsóknarflokkurinn mælist aðeins með 10% fylgi. Píratar þurfa ekki að hafa mikið fyrir lífinu með svona forsætisráðherra.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 31.10.2015 - 12:33 - Lokað fyrir ummæli

Hver vill kaupa banka?

Hver vill eiga banka á Íslandi? Þetta er spurning sem margir velta fyrir sér. Ríkið þarf að losa um eignarhald á stórum hluta í bankakerfinu á sama tíma og kröfuhafar Arion banka. Það stefnir því í heimsmet í brunaútsölu á bankaeignum. Ekki sér enn fyrir endann á íslensku bankabraski sem hófst í byrjun þessarar aldar.

Seðlabankinn hefur áhyggjur af rekstri íslenskra banka sem er skiljanlegt. Arðsemi af reglulegum rekstri þeirra er óviðunandi, sérstaklega þegar leiðrétt er fyrir íslenskt vaxtastig og íslenska áhættuþætti. Hvers vegna ættu menn að fjárfesta í íslenskum bönkum þegar hægt er að fá betri og öruggari fjárfestingu í sænkum bönkum, svo dæmi sé nefnt? Ein leið til að koma í veg fyrir það er að viðhalda höftum. Þau eru mikilvægur þáttur í að “hámarka” söluverð á íslenskum bönkum.

En hver eru þá gæði íslenskra banka í dag? Vissulega hafa þeir mikið eigið fé, en hvað eru menn tilbúnir að borga fyrir það? Það veltur á ýmsu, en næsta öruggt er að ef höftin hverfa á undan sölu verður kaupverðið undir bókfærðu virði. Meðalmarkaðsverð banka í Evrópu í dag er um 90% af bókfærðu virði og þýski stórbankinn Deutsche Bank selst á hálfu bókvirði. Líklegt er að íslensku bankarnir liggi einhvers staðar þarna á milli.

En arðsemi á eigið fé er ekki eini þátturinn sem fjárfestar horfa á. Gæði lánabókarinnar er stór þáttur og sagan segir okkur að í örríkjum, þar sem allir þekkja alla, er varasamt að vanmeta þennan þátt. Vandamál í íslenskum bankarekstri má nær alltaf rekja til lánabókarinnar. Spurningin sem eðlilega vaknar er, hversu stór hluti lánabókarinnar eru örugg lán sem munu borgast tilbaka? Hvernig var staðið að endurskipulagningu lána eftir hrun? Er lánabókin full af vildarvinalánum, en sala á Símanum og Borgun bendir til að vildarvinaþjónusta bankanna sé mun umfangsmeiri en menn vilja viðurkenna? Þá er það spurningin um samþjöppunaráhættu í lánabókinni. Íslenskar hótelbyggingar hafa nær allar verið byggðar á ábyrgð íslenskra fjárfesta með lánsfjármagni frá bönkunum. Slíkar fjárfestingar eru ekki áhættulausar og gætu allar súrnað á sama tíma. Hvað þá? Eignir á efnahagsreikningi geta því auðveldlega verið ofmetnar.

En hvað með fjármögnun bankanna? Kostnaður við hana getur verið vanmetinn. Innlán eru enn ríkistryggð sem skekkir verðlagninguna og þá er skuldabréfaútgáfan nær öll sértryggð sem eykur áhættu fyrir innistæðueigendur þegar ríkisábyrgð hverfur. Bönkunum hefur ekki tekist að gefa út skuldabréf, á viðráðanlegu verði, sem geta tekið á sig tap, ólíkt bönkum í nágrannalöndunum. Skuldabréf sem ekki eru sértryggð eru í eðli sínu víkjandi, í ljósi neyðarlaganna, og hafa lægri réttarstöðu en innlán. Fjárfestar eru tregir til að halda á slíkum bréfum nema til skemmri tíma, og verðið er líklega of hátt fyrir skynsaman rekstur bankanna. En án virks markaðar með víkjandi skuldabréf er erfiðara að meta þá áhættu sem markaðurinn leggur í rekstur bankanna. Það vekur líka upp þá spurningu, hvers vegna ættu fjárfestar að vilja kaupa hlutabréf ef enginn vill kaupa víkjandi skuldabréf?  Það gera menn því aðeins, að þeir hafi áhuga á völdum og áhrifum sem hlutabréf veita og svo hugsanlegu gróðatækifæri fái þeir hlutaféð á brunaútsöluverði og með seljandaláni. Þessi staða sýnir vel hversu óþroskaður íslenskur fjármálamarkaður er.

Það er því varla hinn undirliggjandi rekstur sem menn eru spenntir fyrir heldur brasktækifæri í spilavítisarmi bankanna. Enda hafa flestar þær stofnanir sem aðeins stunda venjulega viðskiptabankaþjónustu, þ.e. sparisjóðirnir, gefist upp eða farið á hausinn. Það bankakerfi sem nú mun rísa eftir formúlu stjórnmálastéttarinnar verður ekki áhættulaust fyrir heimilin. Menn þurfa ekki annað en að horfa á rekstur RÚV og ÍLS til að sjá hvert getur stefnt. Ef höftin verða losuð fá sparifjáreigendur hins vegar val. Þeir geta látið sparifé sitt í vörslu íslenskra sjórnmálamanna og vildarvina þeirra eða t.d. í vörslu kanadískra banka sem stjórnað er af fagfólki.

Eina von Íslendinga til að geta endurreist og rekið trúverðugt bankakerfi er að fá erlenda fagaðila með í hluthafahóp bankanna. Ef allir bankarnir enda í höndum Íslendinga munu áhættufælnir sparifjáreigendur hefja útrás með sitt fé. Þannig er erlent eignarhald á bönkunum tengt afnámi hafta og í raun nauðsynlegt skilyrði fyrir varanlegu afnámi þeirra.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 30.10.2015 - 08:34 - Lokað fyrir ummæli

Enginn er óháður

Nú þegar samningar virðast í höfn við kröfuhafa byrjar íslenska rifrildið. Annað hvort er um heimssögulegan viðburð að ræða eða heimsmet í klúðri. Sumir segja að 400 ma kr. vanti upp á að stöðugleiki náist, aðrir að allt sé klappað og klárt.

Vandamálið er að enginn aðili í þessu máli er óháður. Nú sést vel hversu bagalegt það er að eiga ekki óháða þjóðhagsstofnun. Allt er í hers höndum hagsmunahópa og sá sem öskrar hæst hefur yfirleitt vinninginn. Svona vinna menn ekki í nágrannalöndunum. Þetta er merki um vanþroskað samfélag.

Kosturinn er þó, að margra mati, að þegar eitthvað fer úrskeiðis í íslensku efnahagslífi í framtíðinni verður hægt að kenna þessum samningi um. Þannig mun Icesave og kröfuhafar verða brennimerktir inn í íslenska þjóðarsál út þessa öld.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 27.10.2015 - 10:33 - Lokað fyrir ummæli

Vextir og húsnæðisverð

Reynslan frá nágrannalöndunum sýnir að þegar vextir lækka fer nær öll lækkunin í hendur húsnæðiseigenda í formi hækkaðs eignaverðs. Hvergi var þetta augljósara en þegar Írar tóku upp evru og húsnæðisvextir helminguðust sem leiddi til tvöföldunar á eignaverði í Dublin.

Lexían er skýr. Það skiptir öllu máli að hafa fest sér húsnæði áður en vextir hrapa. Það eru mistök að bíða og halda að menn geti keypt stærra og betra húsnæði eftir vaxtalækkun, vegna þess að þeir ráði þá við hærra lán. Hækkunin kemur strax fram og oft á undan vaxtalækkuninni. Það sem skiptir máli eru væntingar markaðarins. Og stjórnmálamenn geta oft stýrt þeim.

Þegar forsætisráðherra talar um “vaxtaokur” og að lækka verði vexti á húsnæðislánum er hann að setja væntingar hjá eignaaðilum um hækkun á verði og það fljótt. Þeir sem geta, halda þá að sér höndum og bíða með að setja eign á sölu. Þannig minnkar framboðið sem aftur ýtir undir verðhækkun. Þannig geta orð forsætisráðherra sem ganga þvert á stefnu Seðlabankans haft öfug áhrif og gert unga fólkin enn erfiðara að stíga sín fyrstu skref út á markaðinn.

Ríkisstjórn sem ekki treystir eigin Seðlabanka getur ekki rekið trúverðuga peningastefnu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 26.10.2015 - 15:13 - Lokað fyrir ummæli

Króna gamla fólksins

Það hlýtur að hafa verið áfall fyrir gamla gengið í Sjálfstæðisflokknum þegar ályktun um að skoða aðra gjaldmiðla en krónuna var samþykkt á nýafstaðnum landsfundi. Þetta gengur þvert á stefnu ríkisstjórnarinnar og Framsóknarflokksins sem ræður þar för.

Skoðanakannanir sýna líka að þar sem krónan nýtur fylgis þar er erfitti að finna kjósendur undir þrítugu. Krónan er einfaldlega ekki kúl. Tíminn vinnur ekki með krónunni.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 25.10.2015 - 08:44 - Lokað fyrir ummæli

Ákall um samfélagsbanka

Krafan um samfélagsbanka er mjög skiljanleg. Samfélagsbanki er ófullkomin lausn og verður mun dýrari en margir halda. En “einkareknir” bankar sem setja vildarvini ofar öllu er enn verri lausn.

Fátt hefur dregið meir úr trausti á bankakerfinu á síðustu misserum en klúðursleg eignasala til vildarvina. Þetta er ekki merki um heilbrigt fjármálakerfi. Það sem er illskiljanlegt er hvers vegna er Ísland í þessari stöðu eftir allt sem á undan er gengið? Hér þarf að horfa til þeirra aðila sem bera ábyrgð á ástandinu en það eru fyrst og fremst stjórnir bankanna, svo FME og löggjafinn.

Eitt fyrsta verk eftir hrun var að endurskoða lög um fjármálafyrirtæki og hlutafélög. Skerpt var á kröfum og skyldum stjórnarmanna og fyrirtækjum bannað að vera með starfandi stjórnarformenn. En þetta virðist ekki hafa dugað. Í því ástandi sem ríkir á íslenskum fjármálamarkaði í dag er eftirlitshlutverk stjórna lang mikilvægast. Það hlutverk stendur og fellur yfirleitt með sambandi stjórnarformanns og forstjóra. Ef það er of náið er hættunni boðið heim. Þetta samband á ekki að vera vinasamband. Það á frekar að líkjast sambandi Soffíu frænku við ræningjana. Það þarf einfaldlega miklu meira “ja fussum svei” í íslenskar stjórnir.

FME sleppur heldur ekki vel frá þessum vanda fjármálakerfisins. Á vefsíðu þess segir:

Hlutverk Fjármálaeftirlitsins er að standa vörð um traust og heilbrigði fjármálamarkaðarins.

Það er erfitt að sjá að FME sé að standa sig í þessu hlutverki. Krafan um samfélagsbanka segir okkur það. Þá varpa vandamál bankakerfisins nýju ljósi á skýrslur AGS, þar sem iðulega var bent á nauðsyn þess að efla FME.

Það er nokkuð ljóst að íslenskir bankar og ramminn sem þeir starfa innan er alls ekki tilbúinn fyrir einkavæðingu. Mikið endurbótastarf er nauðsynlegt áður en þeim áfanga er náð og líklega þarf að fá erlenda aðila, á við AGS, til að gera óháða útekt á þeirri vinnu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 22.10.2015 - 15:04 - Lokað fyrir ummæli

Evruhreinsun Sjálfstæðismanna

Í nýlegir Gallup könnun sem Viðskiptablaðið stendur fyrir eru aðeins 4% stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins mjög hlynntir upptöku evru. Menn hljóta að vera ánægðir með hreinsunarstarfið í Valhöll og þegar menn hafa losað sig við þessi 4% þá verður fylgi flokksins komið niður fyrir 20% – glæsilegur árangur munu einhverjir segja.

Kjarni stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins í dag eru hagsmunaaðilar krónunnar, enda er um helmingur flokksmanna mjög andvígir evru.  Spurningin er hvar ætla menn að ná í fleiri svoleiðis kjósendur? Það er helst hjá Framsóknarflokknum og svo VG.  27% Pírata eru mjög hlynntir evru en aðeins 11% mjög andvígir, þannig að erfitt getur reynst fyrir Sjálfstæðismenn að fiska hjá Pírötum.

Það sem er athyglisvert við þessa könnun er að þeir flokkar sem eru harðastir á móti eða með evru hafa misst mikið fylgi til Pírata. VG þar sem aðeins fleiri eru fylgjandi evru en á móti virðast halda sínu. Er það þessi harða afstaða, þar sem stjórnmálamenn vilja hafa vitið fyrir kjósendum, sem skýrir hrun þessara flokka og aftur hin opna afstaða Pírata og VG sem gerir þá meira aðlaðandi fyrir kjósendur?

Kannski er tími stjórnmálamanna sem hlusta lítið og veifa flokksályktunum einfaldlega liðinn?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 22.10.2015 - 08:30 - Lokað fyrir ummæli

2 bankar betri en 3

Ef ríkið tekur við Íslandsbanka verða um 70% af bankaeignum á Íslandi í eigu ríkisins. Í þessu felast bæði tækifæri og ógnir.

Það fyrsta sem gerist þegar einn og sami aðilinn er kominn með 70% af framboði eigna og gefur út yfirlýsingu um að hann verði að selja, lækkar verðið. Það bætir síðan ekki stöðuna að eftirspurnarhliðin er þröng og þekkt, enda eru litlar líkur á að erlendir aðilar hafi áhuga á íslenskum bönkum sem eru bundnir krónunni og eiga ekki vaxtamöguleika fyrir utan Ísland, ólíkt því sem var fyrir síðustu einkavæðingu. Í svona umhverfi eru það lögmál brunaútsölunnar sem ráða. Og það hentar vissulega þeim sem vilja kaupa. Það er því ekki viturlegt að selja 2 ríkisbanka á sama tíma og í óbreyttu ástandi.

Ef ríkið vill hins vegar hámarka söluverðið og byggja tryggari stoðir undir betri og heilbrigðari bankarekstur í framtíðinni þarf að nota þetta einstaka tækifæri til að endurskipuleggja, sameina og hagræða í rekstri og fjármögnun bankanna. Svona tækifæri kemur ekki aftur á þessari öld. En slíkt mun ekki takast nema menn séu tilbúnir í erfiðar ákvarðanir, sem ekki verða vinsælar hjá hinum ýmsu hagsmunahópum. Líklega munu um 400-500 bankastörf tapast og önnur færast til, ný glerhöll við Hörpu sparast og leggja má grunn að nýjum 21. aldar sparisjóði sem vinnur á samfélagslegum nótum og í samkeppni við 2 stórbanka.

Það verður því mikill þrýstingur alls staðar frá að halda stóru bönkunum 3 gangandi óbreyttum. Íslendingar eru í eðli sínu íhaldssamir og hræðast breytingar sem ekki koma með tölvupósti frá Brussel. Samkeppnisrökin verða notuð óspart, þó færa megi sterk rök fyrir því að fjármálakerfi með 2 stóra banka sé til lengri tíma betra fyrir samkeppnina og auki líkur á að smærri stofnanir, eins og t.d. sparisjóðir fáist þrifist. Það þarf nú stundum að grisja skóginn til að leyfa nýjum trjám að festa rætur.

Það verður spennandi að fylgjast með hvaða hópar verða ofaná og fá að ráða ferðinni.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur