Miðvikudagur 21.10.2015 - 07:50 - Lokað fyrir ummæli

Mistök Jóhönnu og Steingríms

Því er haldið fram að mistök síðustu ríkisstjórnar hafi veriða að “afhenda” Arion banka og Íslandsbanka kröfuhöfum. Þetta er ekki rétt. Eins og best sést núna þegar kröfuhafar “afhenda” ríkinu Íslandsbanka, voru mistök Jóhönnu og Steingríms að ríkisvæða Landsbankann.

Kröfuhafar gamla Landsbankans fengu sértryggð skuldabréf í erlendir mynt þegar hinir kröfuhafarnir fengu íslensk hlutabréf í krónum. Fjárfestar sem ekki ganga með pólitísk gleraugu vita að sértryggð skuldabréf í gjaldeyri er mun áhættuminni fjárfesting en hlutafé í íslenskum bönkum í krónum. Og mun arðsamari fjárfesting líka, þegar eignir sem skuldabréfin byggja á eru ofmetnar. Icesave kröfuhafar mun líklega ná um 400 ma kr í gjaldeyri út úr eignum sem seldar voru ríkisbankanum. Ríkið er heppið ef það fær 200 ma kr fyrir hlutafé sitt í Landsbankann á markaði í dag. Hver gerði betri kaup hér? Með því að láta kröfuhafa halda á hlutabréfum en ekki sértryggðum skuldabréfum bera þeir áhættuna en ekki ríkissjóður.

Ef Landsbankaleiðin hefði verið farin með alla bankana á sínum tíma stæði Ísland frammi fyrir mun alvarlegri stöðugleikaógn í dag. Þetta dæmi sýnir vel hvernig alþjóðleg viðmið fjárfesta á mismuninum á milli hlutabréfa og skuldabréfa geta brenglast í litlu klíkusamfélagi þar sem völd og ítök trompa allt og alla.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 20.10.2015 - 09:31 - Lokað fyrir ummæli

Borgun fær Íslandsbanka

Það er klókt af kröfuhöfum að dangla Íslandsbanka framan í ríkisstjórnina.  Það er gulrót sem stjórnmálamenn geta ekki staðist.  Nú munu samningar renna í gegn enda þarf að hafa hraðar hendur við að koma Íslandsbanka í fang vildarvina, áður en kjörtímabilið rennur út.  Hver veit hvað tekur við þegar Píratar komast til valda?

Fáir standa betur að vígi til komast yfir Íslandsbanka en Borgunarmenn nema kannski Kaupfélag Skagfirðinga.  Þetta verður spennandi keppni þar sem sigurvegarinn verður sá sem er frekastur og með bestu samböndin.  Reynsla og þekking af nútíma bankarekstri skiptir litlu máli enda er hún varla til á Íslandi.  Og til að vildarvinirnir fái nú allt á sem hagstæðasta verðinu mun ríkið efna til bankaútsölu aldarinnar. Allt verður selt á sama tíma sem auðveldar mönnum að “útskýra” hvers vegna nauðsynlegt verður að nota lokað söluferli.

Hins vegar eru þetta slæmar fréttir fyrir viðskiptavini bankanna.  Þeir munu borga brúsann í formi ofurvaxta, verðtryggingar og hárra gjalda, enda er verðtryggingin gullkálfur eigenda íslensku bankanna og sjálfstýring þeirra sem eiga að stjórna þeim.  Allt tal um að afnema verðtrygginguna mun nú detta niður.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 17.10.2015 - 13:11 - Lokað fyrir ummæli

Hvað ógnar stöðugleika?

Nýtt riti Seðlabankans, sem nefnist Fjármálastöðugleiki 2015/2, veitir innsýn inn í stöðugleikavanda gömlu bankanna. Almennt er talið að það sem ógni stöðugleika séu innlendar eignir þrotabúanna í krónum og gjaldeyrislán til innlendra aðila. Til að koma þessu út þarf að breyta krónum í gjaldeyri. Erlendar eignir búanna og erlendur gjaldeyrir í reiðufé eða verðbréfum í innlendri vörslu ógnar ekki stöðugleika.

Samkvæmt nýjum tölum frá Seðlabankanum eru heildareignir föllnu búanna um 2,280 ma kr. Innlendar eignir í krónum eru 530 ma kr og þar af er eign í Arion banka og Íslandsbanka metin á 340 ma kr. Gjaldeyrislán til innlendra aðila eru 206 ma kr, en 201 ma kr er Iceave skuld Landsbankans sem búið er að semja um sérstaklega og verður að borga.

Glitnir og Kauþing hafa boðið 320 ma kr í stöðugleikaframlag sem þurrkar út allar íslenskar krónur sem þeir eiga og um helming af eign þeirra í nýju bönkunum, og stöðugleikaframlag LBI upp á 14 ma kr helmingar krónueign þess bú. Eftir stendur þá um 15 ma kr hjá LBI og 180 ma kr hlutur kröfuhafa í Arion Banka og Íslandsbanka ásamt 201 ma kr hjá Landsbankanum og 5 ma kr. í annarri gjaldeyrisskuld.

Hlutur kröfuhafa í Arion banka og Íslandsbanka eftir stöðugleikaframlag er lægri en Icesaveskuld Landsbankans og ber ekki samningsbundna ofurvexti og sértryggingu. Það ætti því að vera ljóst að skuld Landsbankans við Icesave er enn sá hlutur sem mest ógnar stöðugleika og takmarkar svigrúm Seðlabankans. En á þessu Icesave vandamáli er ekki hægt að taka nema að láta kröfuhafa hinna bankanna “borga” sem myndi gerast ef 39% skattur leggst á öll búin. Þá kemur upp sú staða að það verða kröfuhafar Kaupþings fyrst og fremst og svo Glitnis, sem verða látnir skaffa þjóðarbúinu gjaldeyri til að ljúka Icesave!

Það er skiljanlegt hvers vegna AGS varar við þessari 39% leið. Hún endar pottþétt í málaferlum sem enginn veit hvernig endar. Á meðan halda gjaldeyrishöftin áfram og líklega mun lánshæfismat landsins dala. Stöðugleikaframlagssamningur Lee Buchheits við kröfuhafa er verðmætur. Eru menn tilbúnir að kasta honum til að halda út í óvissuna? Í því getur falist hin mesta stöðugleikaógn.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 17.10.2015 - 09:31 - Lokað fyrir ummæli

„EES lite“

The Economist er með vandaða úttekt á hugsanlegri úrsög Breta úr ESB – Brexit – eins og það er kallað. Blaðið styður aðild Breta að ESB, en viðurkennir að frasarnir um aukið sjálfstæði og fullveldi séu lokkandi en þeir byggja frekar á óskhyggju en raunsæi.

Blaðið fer vandlega yfir þá valmöguleika sem Bretar hafa yfirgefi þeir ESB. Einn þeirra er að sækja um aðild að EES sem sé klúbbur “eins smáríkis og tveggja tittlinga” eins og segir í lauslegri þýðingu. Og EES fær ekki háa einkunn. Sá klúbbur er dýr og ólýðræðislegur. Bretar myndu missa öll völd en þurfa að beygja sig undir Brussel og borga 90% af því sem þeir borga í dag. Ansi léleg skipti að mati blaðsins. Þá er vitnað í norska skýrslu um EES og sagt að Norðmenn séu hundóánægðir með EES. Sérstaklega er tekið fram að Noregur geti lent í verri stöðu með fiskútflutning til ESB landanna en Kanada og USA þegar TTIP samningurinn kemst á.

Þá fer blaðið yfir þá hugmynd Evrópuandstæðinga að Bretar geti fengið eins konar “EES lite” samning við ESB, þar sem Bretar stjórni því sem þeir vilja og geti valið bestu bitana úr ESB samstarfinu. Þessi leið er talin óraunhæf enda var EES fyrst og fremst hugsuð sem biðstofa fyrir ríki sem væntanleg myndu sækja um aðild einn daginn, en ekki endastöð fyrir ríki sem segja sig úr sambandinu. Niðurstaða The Economist er að það sé kalt fyrir utan ESB.

Það er nokkuð ljóst að það er lítil framtíð í EES. Þetta er barn síns tíma og passar ekki inn í nútímann. Þá hangir EES á velvilja og buddu Norðmanna og það er ekki víst að þeir séu sérstaklega spenntir fyrir því að halda þessum dýra og ólýðræðislega klúbbi gangandi nú þegar sér fyrir endann á olíuævintýri þeirra. Hver verður þá utanríkisstefna Íslands? Öskupokastefnan – „við höngum alltaf aftan í Norðmönnum” er nú aum lausn og harla lítil fullveldisreisn yfir þeirri leið.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 16.10.2015 - 07:36 - Lokað fyrir ummæli

Einokunin lifir

Íslendingar börðust í aldir við að afnema danska einokunarverslun en innleiddu svo sjálfir enn víðtækari einokun þegar þeir fengu sjálfstæði.

Einkenni einokunarverslunar er ofsagróði í höndum fárra og sterk eiginhagsmunagæsla í krafti þess fjármagns. Þá er innlend einokunarverslun mun lúmskari en sú erlenda en engu hættuminni.

Hér er verið að tala um einokunarverslun með fjármagn. Íslenskur almenningur borgar helmingi hærra verð fyrir fjármagn en Danir. Þá er fjármálaþjónusta hér mjög frumstæð og óskilvirk, enda er svokölluð samkeppni innan einokunarkerfis aðeins að nafninu til. Hinum dönsku einokunarkaupmönnum hefur verið skipt út fyrir íslenska bankastjóra sem lifa góðu lífi og hafa náð vopnum sínum þrátt fyrir að hafa keyrt aðeins út af fyrir 7 árum. Þannig virkar einokunin, hún hugsar um sína og réttir allt við á undraskömmum tíma.

En þessi einokun er helsti dragbítur á framfarir. Hún heldur aftur af velferð og kaupmætti. Ísland er gjöfult land og miklar framfarir hafa átt sér stað á síðustu öld en það er ekki þessu einokunarkerfi að þakka. Án þess væri Ísland líkara Noregi. Kaup almennings væri hærra og velferðarkerfið betra.

Það sorglega er að forystusauðum einokunarinnar hefur tekist að telja mönnum trú um að vandamál Íslands liggi alls staðar annars staðar en í þessu kerfi og að það sé beinlínis óskabarn þjóðarinnar. Nú eru menn uppteknir við að aflétta höftum á þessu kerfi sem mun gera það óstöðugra en auka gróðamöguleika hin fáu á kostnað hinna mörgu.

En vonandi mun einhvern tíma rísa upplýst kynslóð Íslendinga sem hefur þor og kjark til að aflétta þessari einokun. En það verður varla á þessari öld.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 14.10.2015 - 17:48 - Lokað fyrir ummæli

„Æ sér Símagjöf til gjalda“

Sú spurning læðist að manni hvort Símasalan sé hluti af stærri fléttu? Tímasetningin er vægast sagt óheppileg þar sem mikil óvissa ríkir um framtíðareignarhald Arion banka.

Þeir vildarvinir sem fengu að kaupa á lægra verði á undan öðrum, munu stórgræða á greiðanum. Og eins og málshátturinn segir: “æ sér gjöf til gjalda”. Með svona rausnarlegri forgjöf frá Arion er þessi vildarvinahópur í annarri og betri stöðu en almennir viðskiptavinir til að “kaupa” sig inn í Arion banka þegar hann verður “seldur”. Þá mun Símagróðinn koma að góðum notum.

Baráttan um bankana heldur ótrautt áfram og leikreglurnar hafa lítið breyst á síðustu 15 árum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 14.10.2015 - 09:26 - Lokað fyrir ummæli

Símaklúðrið

Arion banki fellur í sömu gryfju og ríkisbankinn þegar kemur að sölu eigna. Formúlan er einföld:

Sjá sjálfur um söluna, nota lokað ferli og velja kaupendur af vildarvinaskrá.

Það sem er athyglusvert er að sú stofnun sem á að fylgjast með bönkunum, FME, virðist samþykkja þessa formúlu með þögn sinni.

Nú er sala á eign eins og Símanum ekki daglegt brauð og því fellur þessi sala undir ábyrgð stjórnar Arion banka. Það er stjórnarformaðurinn sem þarf að gera grein fyrir þessari sölu, ef ekki nú, þá á næsta aðalfundi. Athyglisvert væri að vita hvernig fulltrúi Bankasýslunnar kaus þegar salan kom á borð stjórnar til samþykktar?

Ef FME getur ekki haft stjórn á sölu bankaeigna þarf löggjafinn að taka málið í sínar hendur. Það ætti að vera auðvelt að setja í lög um fjármálafyrirtæki að skylda banka til að nota opið söluferli og láta 3ja og óháðan aðila sjá um sölu eigna eins og bankar yfirleitt gera þegar þeir selja smærri eignir eins og t.d. fasteignir!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 13.10.2015 - 17:05 - Lokað fyrir ummæli

Dýr „fullnaðarsigur“ í Icesave

Bæði forsetinn og forsætisráðherra lýsa yfir að Ísland hafi unnið fullnaðarsigur í Icesave og að því sé lokið. En er það rétt? Kostaði Icesave þá Ísland ekki neitt og átti bú gamla Landsbankans fyrir Icesave. Svarið við því er já og nei. Málið er nefnilega nokkuð flóknara en margir vilja viðurkenna.

Þrotabúa LBI mun líklega innheimta um 1650 ma kr eða um 250 ma kr umfram Icesave og aðrar forgangskröfur. Nær allar eignir LBI eru í gjaldeyri þökk sé íslenska ríkinu sem keypti innlendar eignir gamla bankans fyrir um 380 ma kr í gjaldeyri auk vaxta. Þessi kaup skiptu sköpum og aðeins þannig eignaðist þrotabú LBI nógan gjaldeyri til að borga Icesave. Og þessi gjaldeyrisskuld ríkisbankans ógnar nú efnahagslegum stöðugleika samkvæmt Seðlabankanum.

Kröfuhafar hinna bankanna geta ekki vænst að fá sömu fyrirgreiðslu. Þeir þurfa að gefa mikið eftir af innlendum eignum sínum og fá ekki nema brot af þeirri upphæð sem ríkið borgaði Icesave kröfuhöfum fyrir Landsbankann. Þeir útreikningar eru flóknir en stærðargráðan hleypur á hundrað milljörðum. Sú staðreynd að þrotabú LBI mun líklega borga innan við 5% af heildar stöðugleikaframlagi sýnir best hversu mikla fyrirgreiðslu Icesave kröfuhafar fengu frá íslenska ríkinu.

Það sorglega er að þessi „fullnaðarsigur“ í Icesave varð miklu dýrari en efni stóðu til. Ríkið keypti á allt of háu verði af Icesave kröfuhöfum, borgaði allt í gjaldeyri og gleymdi að setja inn varnagla skyldi Icesave deilan fara fyrir dómstóla. Hér hafa tapast fjármunir sem hefðu geta byggt nýja Landsspítala og gott betur.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 10.10.2015 - 15:11 - Lokað fyrir ummæli

Okurbúlla ríkisins

Ein mesta okurbúlla á Íslandi er rekin af ríkinu. Og eins og oft með ríkisrekstur er þessi okurbúlla rekin með bullandi tapi og hefur þurft stuðning ríkisins í mörg ár til að halda sér á floti. Þetta er Íbúðalánasjóður.

Verðtryggðir vextir hjá ÍLS eru 4.2% en ættu að vera nálægt 3% ef sjóðurinn væri rekinn af faglegum markaðsaðilum en ekki stjórnmálamönnum. Í skjóli þessarar vitleysu græða bankar á tá og fingri enda bjóða þeir vexti sem eru nær 4.2% en 3%. Þannig er hluti af vaxtaokri á íslenskum húsnæðismarkaði stjórnmálamönnum að kenna. Þeir eru frekar hluti af vandanum en lausninni.

En hvers vegna hafa vextir lækkað svona mikið á undanförnum misserum? Ein skýring er að erlendir spekúlantar og hrægammar hafa verið miklu fljótari að notfæra sér uppgang í íslensku hagkerfi en seinvirkir stjórnmálamenn. Erlend eftirspurn eftir íslenskum skuldabréfum hefur hækkað verð þeirra mjög, sem aftur lækkar ávöxtunarkröfuna. Því miður hefur gengið mjög seint og illa að koma þessari lækkun í vasa almennings. Dýrt og óskilvirkt banka- og lánasjóðskerfi hefur notað þessa búbót í eigin þágu til að viðhalda ósjálfbæru viðskiptamódeli.

Sú staðreynd að lífeyrissjóðirnir er sjálfir farnir að fara út á húsnæðislánamarkað með kjör sem eru nær “eðlilegum” markaðskjörum sýnir betur en flest annað hvað íslenskur fjármálamarkaður er frumstæður og þjónar almenningi illa.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 9.10.2015 - 14:25 - Lokað fyrir ummæli

Að sofa á Verðinum

Á vef ríkisbankans segir “Viðskiptavinir Landsbankans njóta sérkjara á tryggingum hjá Verði”. Nú þegar Arion banki hefur á ótrúlegan hátt eignast meirihluta í Verði verður auðvelt fyrir bankann að auglýsa: “Viðskiptavinir Varðar njóta sérkjara á bankaþjónustu hjá Arion”.  Vörður er líklega stútfullur af viðskiptavinum Landsbankans.

Eitt er að kaupa tryggingarfélag, annað að fá stóran hóp viðskiptavina stærsta samkeppnisaðilans í kaupbæti. Á skömmum tíma hefur Arion tryggt sér bæði korta- og tryggingarfélög með kaupum á Valitor og Verði á meðan ríkisbankinn er upptekinn af nýrri glerhöll við Hörpu.

Hvers vegna keypti Landsbankinn ekki Vörð? Eignarhaldið á sinn þátt í því. Arion banki veit að stjórn Landsbankans er veik fyrir, eftir Borgunarklúðrið og verður að vanda sig. Eins og svo oft á Íslandi, vanda menn sig með því að gera ekkert. Það getur verið jafn hættulegt að kaupa á yfirverði og selja á undirverði. Þennan veikleika hefur Arion notfært sér. Þá er óvissan um framtíðareignarhald Arion banka þáttur hér, en sú óvissa gefur núverandi stjórn bankans frjálsari hendur að taka “stórar” ákvarðanir.

Borgun var “tæknilegt” klúður en salan á Verði til Arion er viðskiptalegt klúður sem líklega á eftir að kosta Landsbankann margfalt meir en hið fyrra. Þeir sem eru spenntir fyrir að verða minnihlutaeigendur með ríkinu í Landsbankanum ættu að kynna sér stefnu bankans eða kannski er réttar að kalla þetta stefnuleysi?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur