Þriðjudagur 29.9.2015 - 15:52 - Lokað fyrir ummæli

Volkswagen og Ísland

Skandallinn hjá Volkswagen minnir fjárfesta á hversu mikil áhætta fylgir slæmum stjórnarháttum. Stjórn Volkswagen minnir meira á íslenska klíkustjórn en stjórn alþjóðlegs stórfyrirtækis. Eins og oft á Íslandi er stjórn Volkswagen full af kunningjum, fjölskyldumeðlimum og stjórnmálamönnum. Þar sitja fulltrúar stærstu eigenda sem hafa meiri áhuga á innbyrðis deilum og valdabrölti en að stjórna fyrirtækinu af kunnáttu og festu. Þar er t.d. ekki að finna neina óháða stjórnarmenn með yfirgripsmikla alþjóðlega stjórnunarreynslu, hvað þá reynslu af bifreiðahönnun eða framleiðslu. Hins vegar situr fasteignasali í stjórninni.

Íslenskir fjárfestar mættu gefa meiri gaum af stöðu stjórnarhátta hjá íslenskum fyrirtækjum. Eitt aðalhlutverk stjórnar er að veita framkvæmdastjórn aðhald og hafa eftirlit með mikilvægum ákvörðunum. Það er ekki nóg að fullyrða að slíkt fari fram í árlegri skýrslu stjórnar eins og Volkswagen gerir. Þegar samband stjórnarmanna og framkvæmdastjóra er orðið of náið og framkvæmdastjórinn er farinn að stjórna fyrirtækinu eins og prívat sjoppu eiga viðvörunarljós að blikka hjá fjárfestum.

Volkswagen er skólabókardæmi um hvað getur gerst þegar fyrirtæki fylgja nútíma stjórnarháttum aðeins í orði.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 27.9.2015 - 13:15 - Lokað fyrir ummæli

Icesave slátrar samfélagsbankahugmynd

Það sem vill gleymast í umræðunni um samfélagsbanka er að horfa á efnahagsreikning Landsbankans. Bankinn og efnahagslegur stöðugleiki byggir á fjármögnun frá Icesave kröfuhöfum. Bankinn skuldar Icesave kröfuhöfum 200 ma kr lán sem bera ofurvexti og eru tryggð í bak og fyrir með ríkissuldabréfum og fasteignalánum bankans. Það verður ekki svo auðveldlega hlaupið frá þessari skuld eða henni breytt í stöðugleikaframlag.

Fyrsta hlutverk Landsbankans næstu 10 árin er að borga vexti og afborganir af þessum Icesave lánum. Þessi 200 ma kr. skuld mun koma í veg fyrir að Langsbankinn geti orðið að raunverulegum samfélagsbanka eins og talað er um. Það þarf að smyrja vel ofan á lán og þjónustu bankans til að halda Icesave kröfuhöfum góðum.

Þannig gerir Icesave drauminn um samfélagsbanka að engu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 18.9.2015 - 22:03 - Lokað fyrir ummæli

“ … þannig að við gerðum þetta svona“

Útskýringar borgarstjóra á hvernig borgarstjórn stóð að undirbúningi á banni á vörum frá Ísrael gefur athyglisverða en jafnframt dapurlega innsýn inn í störf æðstu manna borgarinnar.

Borgarstjóri segir að læra eigi af gömlu höfuðborg Íslands, Kaupmannahöfn, sem hafi samþykkt að skoða viðskiptabann á vörur frá landtökubyggðum Ísraelsmanna. Þetta er stórsniðug eftirásepi. Ef menn hefðu nú haft smá vit á að staldra við og nota gráu heilasellurnar áður en ákvörðun um bann á vörum frá Ísrael var samþykkt. Eitt er að samþykkja að skoða bann en annað er að samþykkja bann án þess að vinnar lágmarks heimavinnu.

Burtséð frá hvað mönnum finnst um bannið þá eru vinnubrögðin forkastanleg. Ekkert samráð við utanríkisráðuneytið. Ekkert lögfræðiálit um lögmæti ákvörðunarinnar. Ekkert áhættumat hvað varðar utanríkisviðskipti. Enginn skilningur á jafnræðishalla á ákvörðuninni.

Frasar borgarstjóra minna á frasa Landsbankamanna sem eru í sama bakkgírnum yfir mikilvægum ákvörðunum þar sem heimavinnan klikkaði. Það eru engin styrkleikamerki þegar borgarstjóri er kominn í bakkgír aðeins tveimur dögum eftir að ákvörðunin var samþykkt. Þetta klúður hefur veikt stöðu borgarstjóra sem ekki var sterk fyrir eftir hörmulega rekstrarniðursöðu A-sjóðs borgarinnar. Þá er þessi ákvörðun klassískt dæmi um hóphugsun hjá einsleitum hópi sem lifir og hrærist í eigin heimi. Lítil klíkusamfélög þurfa að vera sívakandi yfir hóphugsunarhættunni.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 18.9.2015 - 12:20 - Lokað fyrir ummæli

Samfélagsbankasmjörklípa

Banki sem fjárfestar vita ekki hvort verður rekinn sem samfélagsbanki eða í hagnaðarskyni hefur lítið verðgildi, sérstaklega hjá alvöru fjárfestum. Hins vegar getur slíkur banki verið spennandi kostur fyrir þá sem leika sér með fé annarra og eru fyrst og fremst að hugsa um að koma sér og sínum í aðstöðu innan íslensks fjámálakerfis. Og því meiri óvissa sem ríkir um framtíðarstefnu ríkisbankans því minni verður samkeppnin í söluferlinu og því meiri afslátt fá þeir sem kaupa, og auðveldara verður fyrir þá að láta líta út eins og að þeir hafi keypt á viðskiptalegum forsendum. Menn eiga nú að kannast við þessar aðferðir.

Þjónusta við viðskipavini mun lítið breytast þó Landsbankanum verið formlega breytt í samfélagsbanka, til þess er ekkert svigrúm á rekstrarreikningi. Og án viðskiptalegs aðhalds er líklegt að þjónustan versni þegar fram líða stundir. Hins vegar dregur allt tal stjórnmálamanna um samfélagsbanka verulega úr samkeppni þegar kemur að sölu ríkisbankans og tryggir lágmarksverð til þeirra sem ekki versla á viðskiptalegum forsendum.

Það er í raun út í hött að selja Landsbankann á meðan ekki ríkir einhugur á milli allra stjórnmálaflokka um framtíðarstefnu hans. Það mun enginn sem verslar fyrir eigin pening vilja vera minnihlutaeigandi með ríkinu, ef minnsti vafi leikur á að bankinn verði ekki rekinn á eðlilegum samkeppnisgrunni og í hagnaðarskyni.

Það er því ekki nóg að stöðugleiki ríki á fjármálamörkuðum og að rekstur bankans sé í lagi til að sala geti farið fram, eins og segir í nýlegu bréfi Bankasýslunnar. Einhugur þarf að ríkja hjá öllum stjórnmálaflokkum um framtíðarstefnu bankans. Án hennar eru menn á leið inn í fortíðina.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 16.9.2015 - 12:11 - Lokað fyrir ummæli

Vandamál Reykjavíkur aukast

Ef borgarfulltrúi tæki að sér starf í Tíbet til að vinna með Tíbetbúum í baráttu þeirra gegn kínverskum stjórnvöldum myndi borgarstjórn setja viðskiptabann á kínverskar vörur?

Hvað er það sem gerir baráttu Palestínumanna mikilvægari en baráttu annarra í þessum heimi? Nú þegar Ísrael hefur verið sett á bannlista hjá borginni, hvað þurfa lönd að gera og ekki gera til að lenda á þessum bannlista? Eða er þetta bara listi fyrir Gyðinga? Við þessu fá borgarbúar líklega aldrei önnur svör en hinn klassíska útúrsnúning borgarstjóra um mikilvægi þess að byggja endalausa hjólastíga og þrengja götur borgarinnar.

Vandamál Reykjavíkurborgar númer eitt, tvö og þrjú er hinn mikli taprekstur. Hann verður ekki lagaður með illa úthugsaðri “utanríkisstefnu”. Það væri óskandi að borgarstjórn gæti tekið á eigin vandamálum jafn fljótt og hún er tilbúin að skipta sér að vandamálum annarra.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 13.9.2015 - 09:24 - Lokað fyrir ummæli

Krónan er gullkálfur spekúlanta

Eins og hér hefur verið skrifað um áður eru líkur á að gengi krónunnar hækki þegar höftum verður aflétt. Þetta virðast fleiri og fleiri erlendir aðilar vera farnir að veðja á, sem opnar leið fyrir kröfuhafa að ná hluta af stöðugleikaálaginu til baka. Lækkun á ávöxtunarkröfu ríkisskuldabréfa á sama tíma og Seðlabankinn hækkar vexti bendir til þess.

Erlendir aðilar munu fá borgað í evrum frá íslensku þrotabúunum og þeir geta því tekið lán í evrum og komið með til landsins sem “nýja” peninga sem þeir nota til að kaupa íslensk ríkisskuldabréf. Þeir greiða síðan erlenda lánið upp með greiðslum frá gömlu bönkunum og selja síðan íslensku ríkisskuldabréfin þegar gengi krónunnar hækkar og skipta yfir í mun fleiri evrur sem þeir mega svo fara með úr landi. Því meira sem gengið hækkar því hærri verður ágóði kröfuhafa. Og þar sem stöðugleikaálagið bætir stöðu ríkissjóðs mun það styðja við hækkun krónunnar, og álagið verður því ekki eins íþyngjandi fyrir kröfuhafa og margir halda.  En þetta tækifæri varir ekki að eilífu og því er ekki undarlegt að margir kröfuhafar hafi samþykkt stöðugleikaleiðina strax.

Þá er þessi gróðaleið aðeins opin fyrir erlenda aðila, sem takmarkar samkeppni og tryggir hámarks ágóða til kröfuhafa.  Já, blessuð krónan er ekkert annað en gullkálfur fjármálaspekúlanta sem eru snarir í snúningum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 11.9.2015 - 09:18 - Lokað fyrir ummæli

Landsbankinn er samfélagsbanki

Landsbankinn er rekinn eins og samfélagsbanki nú þegar. Arðsemi af venjulegum bankarekstri ríkisbankans er um eða undir arðsemiskröfu ríkisskuldabréfa. Þetta þýðir að bankinn er rekinn á “núllinu”. Það sem hefur haldið arðseminni upp síðustu árin eru óreglulegir liðir eins og uppfærsla á lánasöfnum og sala á verðbréfum. Liðir sem fjarar undan því lengra sem líður frá hruni.

Það mun lítið breytast við að tilkynna formlega að bankinn sé samfélagsbanki, nema að það gerir samkeppnisaðilum auðveldar fyrir. Það verða eigendur hinna bankanna sem græða, en ekki almenningur.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 10.9.2015 - 07:52 - Lokað fyrir ummæli

Kínverjar herða gjaldeyrishöftin

Samkvæmt frétt í Financial Times er talið að kínverski seðlabankinn hafi eytt um 200 ma dollurum af gjaldeyrisforða sínum til að tryggja stöðugleika gjaldmiðilsins, renminbi, á undanförnum vikum. Þetta er orðið of dýrt, svo kínverski seðlabankinn hefur hert gjaldeyrishöftin með alls konar nýjum “varúðarreglum” til að tryggja stöðugleika á “ódýrari“ hátt.

Þessi kínverska saga er athyglisverð. Hingað til hafa Kínverjar ekki þurft að hafa mikið fyrir því að tryggja stöðugleika, stöðugt innstreymi af erlendum gjaldeyri hefur séð til þess. En um leið og flæðið fer í hina áttina koma upp vandamál og kostnaðurinn eykst.

Spurningin sem íslenskir fjárfestar ættu að spyrja sig er: hver er sambærileg tala, við 200 ma dollara, hjá íslenska seðlabankanum? Hvenær kemur að sársaukamörkum þegar flæði gjaldeyris fer í hina áttina? Í dag er þetta ekki vandamál á Íslandi alveg eins og það var heldur ekki hjá Kínverjum í um 20 ár, en allt tekur enda.

Reynslan sýnir að þar sem gjaldeyrishöft hafa einu sinni verið notuð er nær ómögulegt að losna alveg við þau. Það er hægt að gefa þeim “frí” um stundarsakir en þau koma alltaf til baka, kannski ekki í sama búningi en samt koma þau. Þetta ættu menn að hafa í huga þegar þeir eru að fjárfesta í íslenskum eignum. Menn þurfa að vera snarir í snúningum, því í svona kerfi gildir “fyrstur kemur, fyrstur fær”.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 4.9.2015 - 08:49 - Lokað fyrir ummæli

Hálfdrættingur seldur

Nýlega tilkynnti fjármálaráðherra að selja ætti 30% í Landsbankanum. Stóra spurningin er þá: mun ríkið fá tilbaka þá peninga sem lagðir voru inn í bankann í hruninu? Það verður að koma í ljós og fer eftir því hverjir verða kaupendurnir og á hvaða forsendnum þeir kaupa?

Eitt það mikilvægasta við sölu á bönkum í dag er gæði tekna þeirra. Því meiri gæði því hærra verð. Fagfjárfestar borga ekki hátt verð fyrir óreglulega liði líkt og fyrir hrun. Mikilvægasti mælikvarðinn á gæði tekna er arðsemi af reglulegum rekstri. Ef þessi liður er ekki í lagi verður að gefa fjárfestum hressilegan afslátt af verðinu. Því lægri sem arðsemin er, því meiri afslátt heimta fjárfestar, alla vega þeir sem taka ákvarðanir á viðskiptalegum forsendum.

Vandamál ríkisins er að Landsbankinn er hálfdrættingur á við banka kröfuhafa þegar kemur að arðsemi af reglulegum rekstri. Á síðasta aðalfundi viðurkenndi stjórnarformaður ríkisbankans að arðsemi án óreglulegra liða væri óviðunandi og aðeins 5-6% eða undir ávöxtunarkröfu ríkisskuldabréfa. Lofaði hann að bankinn myndi ná þessari arðsemi í 10% á 4 árum. Við fyrsta tækifæri tilkynntu bankar kröfuhafa að þeirra arðsemi af reglulegum rekstri væri þegar yfir 10% og þar með er ríkisbankinn hálfdrættingur á við þá og a.m.k 4 árum á eftir. Þessi óheillastaða mun hafa áhrif á það verð sem fjármálaráðuneytið getur vænst við sölu á ríkisbankanum og það verður lægra en hefði bankinn og eigendur hans tekið á þessum málum af festu fyrir 4 árum.

Síðan er það athyglisvert, að við síðasta hálfsársuppgjör er Landsbankinn eini bankinn sem ekki tilkynnti arðsemi af reglulegum rekstri og hvernig bankanum miði að þessu mikilvæga markmiði. Hvers vegna fá hluthafar ríkisbankans ekki sömu upplýsingar og kröfuhafar? Vonandi mun ný stjórn Bankasýslunnar kippa þessu í liðinn.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 1.9.2015 - 10:29 - Lokað fyrir ummæli

Über kúl við Hörpu

Allt er þegar þrennt er og það á við um byggingu á hóteli við Hörpu. Í þriðja sinn frá hruni hefur borgarstjóri kynnt nýjan hóp fjárfesta sem ætlar að reisa lúxushótel við Hörpu. Og í þetta sinn er markið sett hátt, hvorki meira né minna en hótel í hinni über kúl keðju, Edition, en ritstjórar helstu tískublaða heims halda vart vatni yfir Edition hótelunum í Miami, New York og London.

Edition hótelin eru byggð í samvinnu við Marriott og bandaríska hönnuðinn, Ian Scrager, sem er frægastur fyrir að hafa stofnað Studio 54 í New York. Hótelin þykja marka nýja stefnu í lúxus og hönnun þar sem aðaláherslan er lögð á eftirminnilega upplifun gesta samhliða góðri þjónustu. En svona nýr lúxus er ekki ódýr. Gestir mega búast við að ekki verði mikill afgangur af 100,000 kallinum eftir eina nótt um háannatímann! Enda mun byggingarkostnaður í þessum 5 stjörnu flokki varla vera undir 70,000,000 kr. herbergið.

Fyrir ferðaþjónustuaðila, arkitekta og hönnuði eru þetta frábærar fréttir, en hver tekur fjárhagslega áhættu af þessu verkefni? Ekki Marriott, því þeir eru aðeins rekstraraðili hótelsins í Reykjavík, en hópur fjárfesta byggir og rekur hótelbygginguna. Edition hótelin í Miami, New York og London eru hins vegar á efnahagsreikningi Marriott og því er erfitt að meta hvernig fjárhagslega dæmið muni ganga upp fyrir eigendur hótelsins. Að vísu hefur þetta verið reynt áður í Honalulu, en þar gáfust eigendur upp á Edition eftir eitt ár.

Spurningin er á hvaða efnahagsreikningum mun áhættan af þessu verkefni liggja? Verður hún að mestu á Íslandi eða hjá erlendum fjárfestum? Bandarískt fjárfestingafyrirtæki fer fyrir hópi erlendra fjárfesta sem leiða verkefnið ásamt Arion banka, en óljóst er hversu mikið fé þessir aðilar leggja í verkefnið. Eitt vandamál er reynsluleysi aðila. Arion banki hefur litla reynslu af fjármögnun 5 stjörnu hótela og bandaríski hópurinn hefur litla reynslu af verkefnum fyrir utan Bandaríkin. Lítil eldfjallaeyja sem þekkt er fyrir efnahagslegan óstöðuleika er ekki áhættulaus staður fyrir hótel. Þá er auðvitað óljóst hvort það sé nægileg eftirspurn eftir 250 herbergjum í svona sérstökum og dýrum 5 stjörnu flokki í Reykjavík, sem muni skila eigendum viðunandi arðsemi. Sem ráðstefnuhótel verður hótelið einfaldleg of flott og dýrt. Lítill hópur ráðstefnuhaldara getur réttlætt að láta ráðstefnugesti búa á glæsilegu 5 stjörnu hóteli. Eigendur Hörpu fá því varla óskahótelið við hliðina á sér.

Íslensk reynsla af rekstri hótelbygginga er ekki góð, eins og Bændasamtökin vita manna best. Það er vonandi að innlendir aðilar kynni sér þetta verkefni ofan í kjölinn áður en þeir láta eigið fé eða fé annarra, svo sem lífeyrisþega inn í svona verkefni.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur