Mánudagur 07.02.2011 - 12:09 - 1 ummæli

V/ fréttatilkynningar frá NBI

Í fréttatilkynningu frá Nýja Landsbankanum (NBI) er því haldið fram ég fari með rangt mál um stöðu og framtíðarhorfur bankans.  Því hafna ég alfarið.

Á fundi viðskiptanefndar 14. febrúar kom fram að óvissa ríkir um raunvirði eigna bankans, þ.e.a.s. hversu stór hluti þeirra sé í íslenskum krónum eða erlendum myntum. Á sínum tíma var NBI endurreistur undir þeim formerkjum að stór hluti eignasafnsins væri í erlendri mynt. Því þótti mikilvægt að endurfjármögnun bankans yrði m.a. í formi erlends skuldabréfs á milli nýja og gamla bankans til að rétta af gjaldeyrisjöfnuð nýja bankans.

Skuldir og eignir í erlendri mynt yrðu þannig í jafnvægi.

Gengið var frá endurfjármögnun NBI þrátt fyrir að á þeim tíma hefði ráðamönnum átt að vera ljóst að mikil óvissa væri um lögmæti gengistryggðra lána, verðmæti lánasafnsins og getu bankans til að endurgreiða skuldabréfið í erlendri mynt. Bankinn varð því of stór með lág meðalgæði útlána, auk þess sem nauðsynlegt var að leiðrétta reiknaða skekkju í gjaldeyrisjöfnuði bankans með útgáfu skuldabréfs á milli gamla og nýja bankans.

Þetta var vandarmál sem var fyrirsjáanlegt og lagði þingflokkur Framsóknarmanna fram þingsályktun um endurreisn íslensku bankanna í júlí 2009, sem byggði á því að stærð hins nýja bankakerfis miðaðist við innlendar innstæður en ekki innlendar eignir.  Þar var bent á að ef endurskipulagning bankakerfisins færi úrskeiðis væri hætta á að ríkið yrði aftur að leggja til meira eigið fé.

Þessar ábendingar voru hunsaðar og samkomulag um endurreisn bankakerfisins undirritað í lok árs 2009.

Meira eigið fé í krónum leysir þó ekki vandann varðandi framboð á erlendum gjaldeyri, en það á eftir að vera viðvarandi vandamál á næstu árum í ljósi mikilla erlendra skulda þjóðarbúsins.  Það er von mín að það muni reynast NBI auðvelt að kaupa gjaldeyri til að standa við skilmála skuldabréfsins, en um það ríkir mikil óvissa.

Óvissan er til staðar, það var staðfest á fundi viðskiptanefndar og því stend ég við orð mín.

—————————

Þingsályktun um endurreisn bankakerfisins

Flokkar: Óflokkað

»

Ummæli (1)

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og þremur? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur