Í Kastljósi kvöldsins lét Oddný G. Harðardóttir, formaður fjárlaganefndar þau orð falla að hún teldi ekki að fjárlög, lánasamningar og milliríkjasamningar ættu að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég hváði, spólaði og hlustaði aftur, – og fékk staðfest að ég hafði heyrt rétt. Milliríkjasamningar ættu ekki að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þýðir þetta þá að það á ekki að greiða atkvæði um ESB samninginn þegar hann liggur loksins fyrir?
ESB samningurinn er samningur á milli Íslands og þeirra fjölmörgu ríkja sem standa að ESB. Öll hin aðildarríkin þurfa að samþykkja samninginn áður en hann verður fullgiltur. Hann þýðir heilmikil fjárútlát fyrir íslenska ríkið, – ég hef ekki enn þá rekist á neinn sem segir að við þurfum ekki að greiða með okkur inn í Evrópusambandið og engin fullvissa er um hversu mikið það verður til framtíðar.
En samt má kjósa um ESB samninginn.
Breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu geta haft bein áhrif á fjárlög íslenska ríkisins. Ef þjóðin kýs að fara þá fyrningarleið sem Samfylkingin hefur talað fyrir mun það hafa í för með sér ófyrirséð fjárútlát fyrir íslenska ríkið í gegnum m.a. meirihluta eignarhald þess á Landsbankanum.
En samt má kjósa um fiskveiðistjórnunarkerfið.
Af hverju segja því fulltrúar Samfylkingarinnar ekki einfaldlega að þeir vilja ekki fara með Icesave í þjóðaratkvæðagreiðslu vegna þess að þeir telja að þjóðin muni hafna samningnum.
Rita ummæli