Mánudagur 07.03.2011 - 20:56 - 3 ummæli

Peningastefna og evra

Ítrekað heyrist frá stuðningsmönnum aðildar Evrópusambandsins að eina leiðin til að ná tökum á peningamálum landsins sé upptaka evru, og þar með aðild að Evrópusambandinu. Það sé einnig eina leiðin til að afnema verðtryggingu, lækka fjármagnskostnað og ná stöðugleika í íslensku efnahagslífi

Reynsla hinna ýmsu ESB landa sannar að lykilatriðið er ekki hvaða mynt er notuð í hverju ríki, heldur hvernig einstök lönd stjórna sínum efnahagsmálum. Dæmi um þetta eru Svíþjóð og Írland. Svíar hafa haldið sig við sænsku krónuna með góðum árangri. Hagvöxtur er mikill, verðbólga lág og skuldir ríkisins lágar. Írland tók upp evru og nýtur nú aðstoðar AGS eftir að írska fjármálakerfið fór í gegnum mikla erfiðleika.

Myntin endurspeglar efnahagsstjórnun, – hún mótar hana ekki. Verðbólga mælir óstöðuga efnahagsstjórnun, – hún skapar hana ekki. Hár fjármagnskostnaður endurspeglar skort á fjármagni, – en skapar hann ekki.

Ábyrgð á peningastefnu er ekki bara Seðlabankans. Ábyrg peningastefna er sambland ábyrgrar stefnu í fjármálum ríkisins, ábyrgrar stefnu í rekstri fjármálafyrirtækja og ábyrgrar stefnu í fjármálum heimila og fyrirtækja. Allt hagkerfið þarf að spila saman og allir bera ábyrgð á efnahagsstjórninni. Ekki bara stjórnvöld og Seðlabankinn.

Samhliða hefðbundnum stýritækjum Seðlabankans þarf að tengja vexti og afborganir á húsnæðislánum við almenna markaðsvexti og það gera þeir ekki með núverandi fyrirkomulagi verðtryggingar. Tryggja þarf að fjármálafyrirtæki geti ekki stækkað efnahagsreikninga sína óstjórnlega og aðskilja verður viðskiptabanka og fjárfestingarbanka. Hvetja þarf almenning til að spara fyrir útgjöldum og greiða niður skuldir. Aukinn sparnaður mun auka framboð á fjármagni og lækka vexti. Koma þarf í veg fyrir myndun eignabóla og jafnvægi verður að nást í fjármálum ríkisins.

Allt þetta þarf að gera óháð því hvort við göngum inn í ESB og tökum upp evru eða ekki. Með upptöku evru er ábyrg stjórnun efnahagsmála jafnvel enn brýnni. Reynsla annarra landa sýnir að þá er hætta á auknu innflæði fjármagns, aukinni skuldsetningu heimila og fyrirtækja, eignabólum og aðlögun að þrengri kosti er erfiðari með evru og fastgengi.

Því er orðið tímabært að gera sér grein fyrir því að prinsar á hvítum hestum frá Brussel munu ekki bjarga okkur.

Ábyrgðin er okkar og hana verðum við öll að axla.

(Birtist fyrst í FBL 4. mars 2011)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (3)

  • Ég er þér sammála að flestu leyti. Ábyrgðin er okkar. Því miður hefur okkur ekki tekist vel til.

    Ég er evrópusinni og held að bæði fylgjendur og andstæðingar þurfi að komast út úr þeim þankagangi að ESB aðild okkar snúist eingöngu um evru eða krónu.

  • Gísli Ingvarsson

    en ef Evran veitir okkur enn meira aðhald en krónan vel ég að sjálfsögður evruna…..

  • Guðmundur Ingi Þorsteinsson

    Ég get verið sammála öllu þarna varðandi gjaldmiðilinn, en kaflinn :

    „Hvetja þarf almenning til að spara fyrir útgjöldum og greiða niður skuldir.“

    Þetta er illmögulegt hér á landi meðan að lán og skuldir stökkbreytast að því er virðist eftir geðþótta (bæði með gengisfellingum og verðtryggingu á hlut annars aðila samnings).

    Þar er hnútur sem þarf að leysa. Einhvern veginn þarf að skipta áhættunni af láni á milli bæði þess sem lánar og þess sem fær lánað.
    Þetta væri mögulega hægt að gera með breytilega vexti eftir greiðslusögu skuldara, þ.e. að sá sem hefur verið í eintómum vanskilum fær verri kjör en sá sem hefur alltaf staðið í skilum er verðlaunaður með betri kjörum.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og átta? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur