Mánudagur 07.03.2011 - 21:24 - 2 ummæli

SpKef, samþjöppun og kerfisáhætta

Í skýrslu Seðlabankans Peningastefna eftir höft kemur fram að ríki með stór bankakerfi komu verr út úr fjármálakreppunni, efnahagssamdrátturinn varð dýpri og meiri hætta var á kerfislægri banka- og gjaldeyriskreppu.

Þegar bankar verða of stórir getur skapast mikill freistnivandi (e. moral hazard).  Bankarnir taka ekki tillit til hagsmuna samfélagsins, né þeirra neikvæðu áhrifa sem hegðun þeirra getur haft á efnahagslífið í heild.  Þetta sáum við greinilega fyrir hrun og því miður tel ég mikla hættu á að við séum að endurskapa sama umhverfi.

Mervyn King, seðlabankastjóri Bretlands lýsti yfir samskonar áhyggjum af stöðu mála í breska bankakerfinu og óskarverðlaunamyndin The Inside Job lýsir sambærilegri stöðu í Bandaríkjunum. Fátt hafi breyst, bankar eru enn þá of stórir til að þeir geti farið í þrot án aðkomu stjórnvalda, ójafnvægi er enn þá til staðar og hagnaðarsjónarmið til skamms tíma ráða för.

Ástæðan fyrir þessum vangaveltum mínum er ákvörðun fjármálaráðherra að sameina SpKef Landsbankanum.  Þar tel ég að menn vaði áfram í blindni, án þess að skoða heildarmyndina, án þess að hafa nokkra framtíðarsýn fyrir íslenskt samfélag.

Ástæðan er einföld. Núverandi ríkisstjórn hefur ekki markað sér stefnu um framtíðaruppbyggingu íslenska fjármálakerfisins.  Enn er unnið eftir stefnumörkun sem ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks mótaði í miklum flýti dagana í kringum hrunið.  Planið um að endurreisa sama gamla kerfið, með sömu áhættu og jafnvel í einhverju tilvikum sömu leikmönnunum.

Það er ástæða þess að Alþingi samþykkt í lok júní 2010 að skipa nefnd um framtíðaruppbyggingu fjármálakerfisins, svo að við gætum markað okkur stefnu um fjármálakerfi sem þjónar hagsmunum íslensks samfélags.  Stefnu sem tæki afstöðu til sparisjóðanna, eignarhalds fjármálafyrirtækja, innstæðutrygginga, aðskilnað fjárfestingarbanka og viðskiptabanka, skuldsetningu fjármálafyrirtækja og margt fleira. 

Svo við gætum byggt fjármálakerfi sem þjónar hagsmunum okkar. Ekki fjármálakerfi sem íslenskt samfélag á að þjóna.

Flokkar: Fjármálakerfið · Óflokkað · Viðskipti og fjármál

«
»

Ummæli (2)

  • Það er að verða nokkuð ljóst hvert stefnir í uppbyggingu fjármálakerfisins og jafnframt að engir lærdómar hafa verið dregnir af hruninu. Þingmaðurinn lýsir þessu ágætlega í grein sinni. En það er fremur ódýrt að saka ríkisstjórnina eina um að hafa með stefnuleysi sínu gefið fjármálageiranum lausan tauminn. Alþingi sjálft hefur algerlega brugðist í því að móta öflugt regluverk til þess að hafa hemil á fjármálafyrirtækjunum og tryggja samtímis hagsmuni almennings.
    Alþingi hefur haft tvö ár til þess að sinna þessum skyldum sínum en tími þess hefur gjarnan farið lítilfjörlegt karp og oft um einskisverða hluti.
    Og það er í raun og veru aumkunarvert að sjá síðustu dagana máttlausar tilraunir þingsins, einkum viðskiptanefndar til þess að hrifsa til sín frumkvæðið varðandi uppbyggingu fjármálakerfisins; í örvæntingarfullri tilraun til þess að bæta fyrir aðgerðarleysi og stefnuleysi undanfarin tvö ár. Og tilraunin er of veikburða og kemur of seint. Boðaður fundur í þinginu á morgun með bankamönnum er því aðeins sýndarmennska og skilar engu. Þingmenn munu tjá áhyggjur sínar en gestirnir vefja þeim um fingur sér með bros á vör og mælgi sem kæfir allar mótbárur.
    Þetta er með öðru ástæðan fyrir því að almenningur ber ekki traust til þingsins. Valdalaus samkunda sem engu áorkar fyrir land og þjóð.
    Að þessu slepptu er ánægjulegt að sjá og heyra þingmann Framsóknarflokksins á þessum vettvangi. Og ein fyrirspurn í lokin: Hefur Guðmundur Steingrímsson verið erlendis í allan vetur?

  • Eygló Harðardóttir

    Viðskiptanefnd hefur verið stöðugt að funda með fltr. fjármálakerfisins frá hruni. Ég get tekið undir með þér að mér finnst það oft skila litlu, – en það þýðir ekkert að gefast upp.
    Vandinn er mun frekar að framkvæmdavaldið er ekki að standa sig. Nefnd sem efnahags- og viðskiptaráðherra átti að skipa til að móta stefnu skv. lögum sem Alþingi samþykkti hefur ekki enn þá verið skipuð. Fjármálaeftirlitið hefur ekki enn þá gert reglur um kaupauka- og starfslokagreiðslur samkvæmt sömu lögum. Það hefur heldur ekki enn þá endurmetið eiginfjárhlutfall bankanna í samræmi við erlenda bankastaðla.
    Við höfum einnig verið mjög ósátt við hvernig fjármálafyrirtækin hafa verið að fara á svig við sínar eigin verklagsreglur og eigendastefnu ríkisins.
    Virkni viðskiptanefndar hefur svo leitt til þess að ráðherra hefur farið frekar með mál bankanna í aðrar nefndir, – sem er svo sem alveg sérkapítuli…
    Takk fyrir kveðjuna og ég skal hnippa í Guðmund 🙂

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og sex? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur