Þriðjudagur 15.03.2011 - 12:00 - 1 ummæli

Afskriftir = eitruð epli

Ég og Margrét Tryggvadóttir höfum lagt fram frumvarp sem leggur til að skattkerfið verði nýtt til að birta upplýsingar um hverjir hafa fengið skuldaeftirgjafir yfir 100 milljónir kr. óháð því hvort þær teljist til tekna eða ekki.  Upplýsingarnar verða tilgreindar á því formi og með þeim hætti sem ríkisskattstjóri ákveður. Upplýsingarnar verða svo birtar með álagningarskrá og skattskrá árin 2011-2016.

Mikil tortryggni ríkir í samfélaginu um starfsemi fjármálastofnana, afskriftir og niðurfærslur lána.  Afskrifaðar skuldir hafa verið kallaðar eitruð epli samfélagsins, þar sem þeir sem fá afskrifað eru þeir sem hafa færst of mikið í fang. Kaupmaðurinn á horninu eða einyrkinn fær litla sem enga aðstoð á meðan hundruð milljóna eða jafnvel tugmilljarðar króna eru strikaðar út hjá eignarhaldsfélögum með litla starfsemi og engin veð.

Erfitt getur verið að lesa úr ársreikningum fyrirtækja hversu mikið hefur verið afskrifað. CreditInfo hefur þó byggt upp kerfi sem greinir upplýsingar sem fram koma í ársreikningum, en þær munu ekki liggja fyrir fyrr en eftir tvö til þrjú ár. Þá verður fyrst hægt að sjá meðaltal afskriftanna, hæstu og lægstu afskriftirnar og greint hvers konar fyrirtæki fengu mest afskrifað. Einnig verður þá hægt að sjá hvort fyrirtækin fara í þrot þrátt fyrir skuldaniðurfellingar. Með samþykkt þessa frumvarps yrði birting upplýsinganna flýtt.  Þær myndu þá liggja fyrir samhliða álagningaskrá og skattskrá, og hægt væri að kynna sér þær hjá skattinum.

Forsenda þess að dregið verði úr tortryggni og vantrausti er að meðferð fjármálastofnana á lánum viðskiptavina verði lýðræðisleg, og gagnsæ, – og eitruðu eplin verði hreinsuð út. 

Því er þetta frumvarp lagt fram.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (1)

  • Sæl Eygló,

    Gott framtak en af hverju ekki birta upplýsingar um allar skuldaeftirgjafir?

    Vinsamlegast
    Daði

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og tveimur? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur