Miðvikudagur 16.03.2011 - 07:57 - 2 ummæli

Meira um afskriftir

Í gær fjallaði ég um frumvarp um birtingu afskrifta skulda sem ég og Margrét Tryggvadóttir höfum lagt fram á Alþingi, þar sem miða ætti við birtingu á skuldaeftirgjöfum yfir 100 milljónir kr.  Á Facebook sköpuðust töluverðar umræður um hver upphæðin ætti að vera.  Einhver taldi 20-30 milljónir vera rétt viðmið, og annar kom með þá hugmynd að hafa mismunandi viðmið fyrir einstaklinga og lögaðila.  Miða ætti við lágmarkslaun hjá einstaklingum (ca. 2-3 milljónir) og tífalda þá upphæð fyrir lögaðila.

Þegar ég var að vinna frumvarpið þá var ég að reyna að finna jafnvægi á milli réttar okkar til friðhelgi einkalífsins og samfélagslegrar hagsmuna að því að hafa þetta upp á borðinu.

Ég taldi samfélagslegu hagsmunina liggja í að fá réttar upplýsingar um stóru afskriftirnar, og lagði því til að miðað yrði við að skuldaeftirgjafir yfir 100 milljónir kr. yrðu birtar. Hins vegar myndi ég ekki gera athugasemd við að upphæðin væri lækkuð. 

Aðalatriðið er að þessar upplýsingar komi fram á heildstæðan og réttan máta, á meðan við erum að fara í gegnum þetta endurskipulagningarferli skulda fyrirtækja og einstaklinga. Þannig hreinsum við út eitruðu eplin.  Birtum það sem er rétt, gefum þess vegna út afskriftablað samhliða tekjublaðinu – og hreinsum út sögur og orðróma um að fjármálafyrirtæki séu á einhvern hátt að mismuna fyrirtækjum og fólki.

Þetta ætti heldur ekki að stangast á við reglur um bankaleynd. Nú getum við séð á skattaframtali okkar upplýsingar um allar skuldir og innstæður hjá lánastofnunum, allt fyrirframskráð.  Ríkisskattstjóri hefur þegar óskað eftir upplýsingum um afskriftir frá fjármálafyrirtækjunum, og með þessari breytingu eiga allir framtalsskyldir aðilar einnig að tilgreina sínar skuldaeftirgjafir. 

Þessar upplýsingar yrðu birtar í álagningarskrá og skattskrá og myndu liggja frammi í tvær vikur, árlega til ársins 2016.

Þannig yrði þetta einnig aðhald fyrir þær stofnanir sem eru í dag að taka ákvarðanir um hverjir fá afskriftir og hverjir ekki, hverjir fá að lifa og hverjir ekki.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

  • Hrafn Arnarson

    Þetta er góð hugmynd og vonandi verður hún að veruleika. Aðgengi að þessum upplýsingum umhugsanlegavekja reiði en þær geta orðið grundvöllur skynsamlegrar umræðu og hreinsað andrúmsloft tortryggni og haturs.

  • Sæl Eygló, enn og aftur gott frumvarp en ég set aftur spurningarmerki við upphæðina:

    Þú segir: „Ég taldi samfélagslegu hagsmunina liggja í að fá réttar upplýsingar um stóru afskriftirnar“

    Nú er það þannig að afskriftir upp á hundruðir milljóna eru á fárra færi. Þeir sem njóta slíkra afskrifta verða einnig að hafa haft aðgang að háu lánsfé. Þessa aðila á að vera auðvelt að finna ef raunverulegur vilji er fyrir hendi.

    Hins vegar eru „stórar“ afskriftir afstæðar. Fyrir starfsmann banka sem er ekki með nema rúma hálfa milljón í laun gæti afskrift upp á 2-5 milljónir verið mjög stór upphæð. Ef nágranni hans sem er með svipaðar tekjur og svipaða eign, og starfaði t.d. sem þingmaður ætti í erfiðleikum með að fá eitthvað afskrifað þá væri gott að fá að vita hvað skilur á milli?

    Raunverulega misræmið og óréttlætið gæti nefnilega falist í mun lægri upphæðum. Hvet ykkur áfram með þetta frumvarp og vona að það nái til allra afskrifta.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og einum? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur