Fimmtudagur 17.03.2011 - 10:24 - 2 ummæli

Enn of stórir til að falla

Við bankahrunið stóðu Íslendingar frammi fyrir ógnunum en jafnframt tækifærum.  Við, nánast ein þjóða, höfðum tækifæri til að skapa nýtt bankakerfi sem myndi þjóna þörfum íslensks samfélags og aldrei aftur ógna því.  Í staðinn hafa stjórnvöld unnið ötullega að því að endurreisa hið gamla.

„Nýja“ bankakerfið samanstendur fyrst og fremst af þremur stórum bönkum sem saman ráða yfir um 90% af bankamarkaðnum og eru með efnahagsreikninga sem er um 160% af landsframleiðslu.  Okkar bankar eru enn þá of stórir til að hafa eftirlit með og of stórir til að falla án íhlutunar ríkisins. 

Í nýlegum leiðara Viðskiptablaðsins er reynt að færa rök fyrir því að helsta vandamál íslenska fjármálakerfisins sé og hafi lengi verið of margir, litlir og illa reknir sparisjóðir.  Því geti það bara dregið úr kerfisáhættu að renna eins og einu sparisjóðakerfi inn í stóru bankana þrjá.  Þarna endurspeglar ritstjórn  Viðskiptablaðsins því miður þá skammsýni sem einkennt hefur endurreisn íslenska bankakerfisins. 

Við þurfum raunverulega stefnumörkun í endurreisn bankakerfisins, í stað þess að vaða áfram í blindni og trú á markaðinn.

Ég vil mátulega stórt bankakerfi.   Í þeim tilgangi lagði þingflokkur Framsóknarmanna fram þingsályktunartillögu þess efnis að stærð nýs bankakerfis myndi miðast við íslenskar innstæður en ekki íslenskar eignir.  Efnahagsreikningur bankanna hefði þá orðið rétt um landsframleiðslu.  Samsetning lánasafnanna hefði orðið betri og ekki hefði þurft að gefa út flókin og íþyngjandi skuldabréf á milli gömlu og nýju bankanna.  

Ég vil samkeppni á íslenskum fjármálamarkaði.  Ýmsar aðgangshindranir eru á íslenskum fjármálamarkaði, líkt og ólögmætt samráð kortafélaganna sannar.  Ragnar Önundarson, fv. framkvæmdastjóri Eurocard hefur staðfest að þar hafi verið um sameiginleg markaðsyfirráð  að ræða á milli þeirra fjármálafyrirtækja sem voru eigendur kortafélaganna. Margir af þeim sem voru þar í forystu eru í enn í lykilstöðu í fjármálakerfinu og velta má fyrir sér hvort þeir hafi eitthvað lært.

Ég vil að eignarhald fjármálafyrirtækja verði með fjölbreyttu sniði, sem skiptist á milli ríkisins, einkaaðila og svokallaðs samfélagslegs eignarhalds.   Hluti af því er að styrkja og breyta löggjöf um sparisjóði í samræmi við löggjöf nágrannalandanna. 

Ég vil að ríkið þurfi ekki að ábyrgjast innstæður í fjármálafyrirtækjum.  Forsendan fyrir því er að dreifa áhættunni og draga úr áhættusækni.  Það væri hægt að gera með því að setja hámark á hversu stórt hlutfall innstæðna getur verið í einni innlánsstofnun, gera kröfu um áhættutengd iðgjöld í tryggingasjóð og tryggja varanlegan forgang innstæðna í þrotabú.  Einnig væri hægt að takmarka skuldahlutfall bankanna og aðskilja viðskipta- og fjárfestingabankastarfsemi.

Samþjöppun í bankakerfinu á heimsvísu hefur aukist gríðarlega á síðustu árum.  Hlutur 5 af stærstu bönkum heims af eignum bankakerfisins fór úr 8% árið 1998 í 16% árið 2008. Hlutur 10 stærstu alþjóðlegu bankanna (af þeim 1000 stærstu), fór úr 14% árið 1999, í 19% 2007 og var orðinn 26% árið 2009. Sama þróun er í gangi hér.

Vandinn við „too big to fail“ eða of stór til að fara í þrot hefur því aðeins versnað og þar með kerfisáhættan.  Hluti af þessu ferli er yfirtaka Landsbankans á SpKef, og því gagnrýni ég hana harkalega sem og stefnuleysi stjórnvalda.

(Birtist í Viðskiptablaðinu 17.mars 2011)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

  • Skynsamlega mælt.

    Aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar er skelfilegt.

    Á þessum vettvangi sem öðrum.

  • Gísli Ingvarsson

    Reglugerðarumhverfi bankanna virðist hjálpa til við samruna og yfirtökur. Dæmið um SpKef er þess eðlis.

    Mér sýnast tillögur þínar vera góðar og til eftirbreytni.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og sjö? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur