Mánudagur 04.04.2011 - 11:23 - 2 ummæli

Siðlaus lögleysa?

Sigurður G. Guðjónsson lögfræðingur skrifar pistil á Pressunni undir fyrirsögninni Siðleg lögleysa þar sem hann fjallar um gengislánalögin svokölluð (nr. 151/2010).  Lögin voru sett í kjölfar dóms Hæstaréttar um ólögmæti gengistryggingar og afnám vaxtaákvæðis lánasamninganna. Gunnlaugur Kristinsson, löggiltur endurskoðandi skrifaði einnig nýlega grein þar sem hann veltir upp þeirri spurningu hvort fjármálafyrirtækin séu vísvitandi að hagnast á ólögmætum aðferðum við endurútreikning gengistryggðra lána.

Við vinnslu málsins í desember 2010 óskaði ég sérstaklega eftir því að þingmenn fengju nákvæmar upplýsingar um hvernig ætti að endurútreikna lánin skv. frumvarpinu.  Ég var ekki sátt við þau svör sem ég fékk og taldi að málið væri vanreifað og illa kynnt.   Svo ég tala nú ekki um þá óvissu sem ég taldi lögin fela í sér varðandi lögmæti þeirra með tilliti til stjórnarskrárinnar og afturvirkni þeirra.

En lögin voru samþykkt.

Í framhaldinu óskaði ég eftir fundi með efnahags- og viðskiptaráðherra um mikilvægi þess að skýrar leiðbeiningar kæmu frá ráðuneytinu um hvernig ætti að endurreikna lánin, með sýnidæmum og útskýringum. Ég veit ekki til að það hafi verið gert.

Viðskiptanefnd fundaði einnig nýlega um málið með efnahags- og skattanefnd með umboðsmanni skuldara og þar ítrekaði umboðsmaður athugasemdir sínar við frumvarpið sjálft.  Jafnframt kom fram það mat starfsmanna stofnunarinnar að þeir teldu að fjármálafyrirtækin væru að reikna lánin á sama máta og að þau væru að fara að lögum.  Vandinn væri hins vegar lögin sjálf.

Því hef ég lagt fram spurningar í nokkrum liðum um endurútreikning gengistryggðra lána og hefur efnahags- og viðskiptaráðherra 10 þingdaga til að svara spurningunum.  Þær eru eftirfarandi:

  1. Hefur ráðuneytið gefið út leiðbeiningar fyrir fjármálafyrirtækin um hvernig eigi að reikna ólögmæt gengistryggð lán í samræmi við lög nr. 151/2010? Ef svo er, hvernig eru þær leiðbeiningar? Ef ekki, af hverju?
  2. Hvernig endurreikna fjármálafyrirtæki ólögmæt gengistryggð lán og er sú aðferðafræði í samræmi við 1. gr. laga nr. 151/2010? Óskað er skriflegra skýringa á aðferðafræðinni við útreikningana og sýnidæma um: a) bílalán,  b) húsnæðislán, c) önnur veðlán til einstaklinga, og d) fyrirtækjalán?
  3. Hvernig er eftirliti með endurútreikningi ólögmætra gengistryggðra lána háttað?
  4. Af hverju tók það ráðuneytið um tvo mánuði frá samþykkt laga nr. 151/2010 að gefa út reglugerð sem heimilaði umboðsmanni skuldara að hafa eftirlit með útreikningum fjármálafyrirtækjanna?
  5. Hver eru áhrifin af dómi Hæstaréttar nr. 604/2010, þess efnis að Hæstiréttur taldi að lengd lánstíma, ólík veð eða heimild til að breyta vöxtum hefðu ekki þýðingu er varðar ólögmæti gengistryggingar? Hvernig hefur ráðuneytið fylgt því eftir að fjármálafyrirtæki hlíti niðurstöðu dómsins?
  6. Hver er afstaða ráðuneytisins til þess hvort lög nr. 151/2010 stangist á við 12. viðauka EES-samningsins um neytendavernd?

Vonandi munu svörin eitthvað skýra stöðuna, – en ljóst er að á endanum verða það dómstólar sem kveða úr um hvort lög nr. 151/2010 séu lögleg eða lögleysa.

Siðferði laganna og þeirra sem settu þau verður þó hver og einn að dæma um.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

  • Gunnar G

    Eitt sem þú mátt kanna í leiðinni:

    Er ekki ólöglegt að vaxtareikna aftur í tímann??? Féll ekki dómur nýverið í þá áttina??? Af hverju var það þaggað niður?

  • Jóna Ingibjörg Jónsdóttir

    Sæl Eygló, þetta eru þarfar spurningar og svörin mikilvæg. Hafðu þakkir fyrir.

    Eru einhverjar líkur á að ráðherra komi sér hjá því að svara?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og einum? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur