Kæru félagar!
Nú styttist í 31. flokksþing framsóknarmanna, sem hefst föstudaginn 8. apríl næstkomandi. Á flokksþinginu 2009 hófst mjög umfangsmikið endurskoðunar- og uppbyggingarstarf sem hefur staðið í tvö ár og nær hámarki á flokksþinginu, en þá verður skýrsla skipulagsnefndarinnar lögð fram.
Flokkurinn hefur gengið í gegn um kosningar til Alþingis og sveitarstjórna á þessum tíma. Árangurinn í þessum kosningum var á margan hátt jákvæður, sérstaklega var árangurinn góður á mörgum stöðum í sveitarstjórnarkosningunum 2010. Í alþingiskosningunum 2009 varð mikil endurnýjun þar sem margir nýir þingmenn tóku sæti á Alþingi, í þingflokki sem er einn sá yngsti í íslenskri stjórnmálasögu.
Á þeim tíma sem liðinn er frá flokksþingi 2009 hefur Framsóknarflokkurinn lagt fram margvíslegar tillögur til að bæta hag heimila og fyrirtækja í landinu. Flokkurinn lagði m.a. fram efnahagstillögur í febrúar 2009 til að bregðast við fjárhagsvanda heimila og atvinnulífs og Þjóðarsátt 2010, tillögur að aðgerðum til endurreisnar íslensks efnahagslífs í samvinnu stjórnmálaflokka. Það er ljóst að ef farið hefði verið að tillögum okkar væri öðruvísi umhorfs í ríkisfjármálum og atvinnulífi í dag og heimilin í landinu stæðu betur en nú er raunin.
Mörg stór mál hafa sett svip á undanfarin tvö ár. Icesave málið er óþarft að kynna, en þar hefur Framsóknarflokkurinn frá upphafi staðið sterkur og markað sér sérstöðu. En þau mál sem öðrum fremur hafa skipt höfuðmáli þennan tíma eru atvinnumálin og leit að lausnum á skuldavanda heimilanna. Framsókn hefur eins og áður sagði lagt fram skynsamar lausnir í þessum málaflokkum en því miður hafa þær ekki nýst eins og ástæða var til vegna andstöðu núverandi ríkisstjórnarflokka.
Enginn stjórnmálaflokkur hefur farið jafn vel eftir kröfum almennings um endurnýjun og ný vinnubrögð í stjórnmálum. Framsókn hefur barist fyrir skynsamlegum og raunhæfum lausnum á skuldavanda heimilanna, ríkisfjármálum og endurreisn atvinnulífsins og hvarvetna í samfélaginu verðum við vör við aukna jákvæðni gagnvart því góða starfi sem flokkurinn hefur unnið undanfarin tvö ár.
Framsóknarmenn hafa fulla ástæðu til að vera stoltir af framlagi sínu til endurreisnar landsins undanfarin tvö ár.
Við framsóknarmenn munum því bera höfuðið hátt, nú þegar við hefjum 31. flokksþing okkar næstkomandi föstudag. Næstu tvö ár munu skipta höfuðmáli varðandi endurreisn efnahagslífsins og framtíð íslensku þjóðarinnar og framsóknarmenn ganga vaskir fram til þeirrar baráttu fullir bjartsýni og samvinnuanda.
Við hlökkum til að sjá ykkur á glæsilegu og skemmtilegu flokksþingi um næstu helgi.
Kær kveðja,
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson
formaður
Birkir Jón Jónsson
varaformaður
Eygló Þóra Harðardóttir
ritari
Hlakka til flokksþings. Sjáumst þar 🙂
Kv.
Mér finnst að þú ættir að bjóða þig fram til formanns.