Það er búið að vera áhugavert að fylgjast með viðbrögðum Breta og Hollendinga frá því að nei-ið lág fyrir.
Þeir eru frekar varkárir. Aðstoðarráðherrar og efnahagslegri ráðgjafar eru að tjá sig, ekki ráðherrarnir sjálfir. Þetta er sambærilegt og þegar Hrannar mætir í stað Jóhönnu = kemur ákveðnum skilaboðum á framfæri en skuldbindur ekki ráðherrann.
Vantrú þeirra á eignum þrotabúsins er mikil. „Það gæti stefnt í það að við fengjum uppundir 100% út úr Landsbankanum og það erum við að vonast til að gerist,“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir í Kastljósviðtali og vísaði þá til þess að eignir bankans gætu staðið undir öllum Icesave-skuldbindingum Íslendinga. Sylvester Eijffinger, prófessor í hagfræði við Tilburg-háskóla og einn ráðgjafa Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands í Icesave-deilunni hnussar nú yfir svona yfirlýsingum og sagði þeir sem tryðu því lifðu í blekkingum. Hmmm…
Viðbrögðin eru ekki eins. Hollendingar hóta ESB umsókninni, ekki Bretar. Það er væntanlega vegna þess að Bretar þekkja betur til hér á landi og vita að hótun gagnvart ESB umsókninni er eins og að skvetta vatni á gæs. Þeir leggja því áherslu á að nú verði höfðað mál fyrir alþjóðlegum dómstólum.
AGS ítrekar að Icesave sé ekki skilyrði. Okkar ágæti Franek lagði áherslu á það í viðtali að lausn Icesave deilunnar hefði aldrei verið skilyrði frá hendi Alþjóðagjaldeyrissjóðins. Lítið heyrist enn sem komið er frá Norðurlöndum og Pólandi.
Fátt eitt hefur því komið á óvart enn sem komið er.
Ég hef átt alveg voðalega erfitt með að skilja málflutning Jóhönnu og Steingríms í Icesave málinu. Hann er einhvernvegin svona: „Við skulum taka á okkur Icesave skuldbindinguna til að allir verði sáttir við okkur og þetta er líka engin skuldbinding eða áhætta því að eingir þrotabúsins duga til“
Það sem ég gat ekki og get ekki skilið er hversvegna Hollendingar og Bretar eru þá ekki alveg slakir að bíða eftir þessum sömu eignum út úr þrotabúinu. Í framhaldi af þessu, hverjum liggur á að fara í dómsmál? Fá menn ekki sitt út úr þrotabúinu?
Nei, það lágu vist margir fiskar undir steini í þessu Icesave rugli og trúlega er Evrópubandalagsumsóknin sá stærsti!
Misjafnt hafast menn að að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave þar sem samningnum var hafnað. Forseti Íslands talaði kjark í þjóðina á blaðamannafundi í gær og einhvern veginn skein í gegn það álit hans, að niðurstaðan myndi styrkja stöðu Íslands til framtíðar litið bæði á innlendum og erlendum vettvangi.
Forseti ASÍ reyndi að hafa áhrif á þjóðina með hótunum um að allt færi á verri veg ef hún segði nei við samningnum. Hann boðaði þau válegu tíðindi að fátæk alþýðan fengi engar kjarabætur. Eftir að úrslit lágu fyrir var hann enn við sama heygarðshornið og sagði í viðtali að möguleikar til að ná fram kjarabótum væru hverfandi.
Með það veganesti ætlar forystumaður verkalýðsins að setjast að samningaborði með samtökum atvinnulýðsins. Það má fullyrða að aldrei í sögunni hafi verkalýðsleiðtogi sýnt spilin sín með svo afgerandi hætti og í raun tapað baráttunni fyrirfram. Það er með ólíkindum að slíkur maður skuli veljast til forystu og enn furðulegra, að verkalýðurinn skuli veita honum ítrekað umboð.
Forsetarnir hafast því ólíkt að. Forseti Íslands talar máli þjóðar sinnar af einurð og lítur jákvæðum augum til framtíðar. Forseti ASÍ hefur ekki reynst þarfur fyrir sín samtök og sér aðeins svartnættið.
Forseti Íslands átaldi forystumenn verkalýðsins og atvinnurekenda fyrir það að tala niður íslenskt atvinnulíf. Forseti ASí varði sig í sjónvarpsviðtali en sú vörn var veikluleg og hafði það helst að segja að ummæli forseta Íslands væru ósmekkleg. Það er oft erfitt að kyngja sannleikskorninu og komast frá því með sæmd. Og það gerði forseti ASÍ ekki. Hann klykkti út með Samfylkingar frasanum góðkunna. Þetta er eins og annað sem kemur frá Bessastöðum.
En hér sannast það sem Jónas frá Hriflu sagði um Einar Benediktsson. Hann var slíkur yfirburðarmaður, að minni menn fundu til sársauka í návist hans.
Sársaukinn í ummælum forseta ASÍ leyndi sér ekki. Hann finnur til smæðar sinnar í návist forseta Íslands og reynir eins og smámenna er háttur að rétta hlut sinn með óvönduðum og lítilfjörlegum málflutningi.