Fimmtudagur 09.06.2011 - 17:08 - Rita ummæli

Eldhúsdagsræða ’11

Frú forseti, góðir Íslendingar. Nú þegar hillir vonandi undir þinglok og kjörtímabilið er hálfnað getur verið gott að staldra við og horfa um öxl. Við framsóknarmenn getum gert það með stolti. Allt frá efnahagshruninu höfum við lagt fram umfangsmiklar tillögur á fjölmörgum sviðum sem eiga það sameiginlegt að endurspegla sýn okkar á hið nýja Ísland, þetta nýja Ísland sem okkur dreymdi flest um þegar rykið fór að setjast yfir rústum auðhyggjunnar.

Okkar helsta markmið var að tryggja að heimilin í landinu biðu sem minnstan skaða af ofsaakstri útrásarvíkinga og frjálshyggjuplebba sem keyrðu íslenskt hagkerfi beint út í skurð. Að koma hjólum atvinnulífsins sem fyrst af stað svo við gætum strax farið að vinna okkur út úr vandanum. Að tryggja það að ofurskuldir innantóms bankakerfis lentu hjá þeim sem ábyrgðina bæru, þeim sem voru nógu gráðugir eða vitlausir til að lána peninga inn í spilaborgina, en ekki saklausum skattgreiðendum sem ekkert höfðu til saka unnið nema helst að láta glepjast af gylliboðum bankamanna, syndaaflausnum eftirlitsstofnana og bláeygðum stjórnmálamönnum.

Þannig vildum við koma höndum yfir óskattlagðar eignir íslenskra auðmanna í útlöndum, en stjórnvöld hafa sýnt því einkennilega lítinn áhuga allt frá hruni.

Við lögðum fram heildstæðar tillögur í skuldamálum þar sem höfuðstóll húsnæðislána og lán til fyrirtækja yrðu lækkuð um 20% með mögulegu krónutöluhámarki. Tilgangur þess var að tryggja að þær skuldir sem erlendir kröfuhafar höfðu þá þegar afskrifað rynnu til íslenskra skuldara sem sátu uppi með allt tjónið af gengishruninu og verðbólgu. Hæstv. fjármálaráðherra talaði fyrr í kvöld um þetta sem töfrabrögð um leið og hann gagnrýndi orðræðu og málflutning stjórnarandstöðunnar. En skoðum hans eigin staðreyndir.

Nýleg skýrsla fjármálaráðherra sem hann reyndi að fela, stinga undir blaðabunka annarra þingskjala, og þær aðgerðir sem bankarnir hafa gripið til á undanförnum vikum sýna að þessi leið var fær. Það er deginum ljósara að draga hefði mátt verulega úr því gríðarlega tjóni sem íslensk heimili og fyrirtæki hafa orðið fyrir ef gripið hefði verið til þessara aðgerða strax. Í kjölfar þess vildum við grípa til sértækra aðgerða fyrir þá skuldara sem enn yrðu í vanda og lögðum fram frumvarp um greiðsluaðlögun. Sú greiðsluaðlögun átti aðeins að koma til í undantekningartilfellum enda hefur komið á daginn að sú leið er erfið og tímafrek. Það sanna tölurnar, tæpum þremur árum eftir hrun, hafa aðeins 22 af rúmlega 2.800 umsækjendum lokið samningum um greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara. Enn hefur enginn farið í gegnum allt greiðsluaðlögunarferlið.

Þá vildum við lækka vexti strax og við lögðum fram tillögu þess efnis, auk þess sem við höfum barist af hörku fyrir rétti fólks sem tók gengistryggð lán og, síðast en ekki síst, afnámi verðtryggingarinnar. Verðtryggingarnefndin undir forustu framsóknarmanna hefur sýnt svart á hvítu að nauðsynlegt er að hefja afnám verðtryggingar á lánum heimilanna sem fyrst. Ísland er nefnilega einstakt að því leyti að hér taka heimilin nær alla áhættu af verðbólgunni með lánum sínum. Þeir sem raunverulega geta haft áhrif á verðbólguna og efnahagsmálin, þ.e. stjórnvöld, bankar og lífeyrissjóðir, eru hins vegar bæði með beltið og axlaböndin. Þau eru stikkfrí og þurfa aldrei að bíða tjón vegna óábyrgrar hegðunar sinnar.

Við lögðum fram þingsályktunartillögu um hvernig standa ætti að endurreisn bankanna. Við lögðum áherslu á að nýja bankakerfið mundi þjóna hagsmunum íslensks samfélags en ekki öfugt, að stærð þess yrði í samræmi við íslenskt efnahagslíf og að bankarnir yrðu færir um að þjónusta atvinnulífið. Hið opinbera héldi eftir eignarhlut í bönkunum og tryggði þannig að endurreisn þeirra byggði á þörfum íslensks samfélags en ekki erlendra vogunarsjóða sem keypt höfðu kröfur á hendur þeim á hrakvirði og reyndu í kjölfarið að hámarka hagnað sinn á kostnað almennings eins og nú er raunin.

Við höfum lagt fram ítarlega stefnu í atvinnumálum um sköpun 12 þús. nýrra starfa því að við gerum okkur grein fyrir því að vinna er ávallt forsenda velferðar. Atvinnuleysi er einfaldlega alltaf óásættanlegt, hvað þá af þeirri stærðargráðu sem blasir við okkur núna.

Hugmyndafræði frjálshyggjunnar sem lék lausum hala fyrir hrun skýtur í síauknum mæli upp kollinum innan raða hinnar svokölluðu norrænu velferðarstjórnar. Sú hugmyndafræði snýst um að gróði sé fyrir fáa útvalda og að allt snúist um arðsemi, hagkvæmni og hagnað. Þessi hugmyndafræði gengur ekki upp.

Henni ber að hafna.

Það eru launuð störf sem greiða fyrir matinn, húsnæðið, heilsugæsluna, leikskólana og allt annað sem við þurfum á að halda. Við eigum ekki að lifa á brauðmolum af borði hinna ríku, við þurfum einfaldlega góð, vel launuð störf. Verðmætasköpun án atvinnu er einskis virði, það kenndi hrunið okkur.

Ég hef enn þá trú að við getum byggt betra samfélag, frú forseti, betra Ísland. Það er ekkert áhlaupaverk og við verðum að hafa kjark og þor til að takast á um þau grundvallarsjónarmið sem við viljum byggja framtíð okkar á. Ég vil samfélag sem byggir á samvinnu manna þar sem hver og einn tekur ábyrgð á sjálfum sér og axlar um leið ábyrgð sína á velferð samfélagsins, samfélag þar sem við búum við jafnræði, sanngirni og lýðræði, þar sem við vinnum öll að því að tryggja hagsmuni hvers og eins í samfélaginu frekar en að hámarka hagnað örfárra.

Við framsóknarmenn höfum barist dyggilega fyrir þessum gildum á síðustu tveimur árum. Ég veit að sagan mun sýna að þær tillögur sem við höfum lagt fram um endurreisn Íslands eru ekki aðeins vel ígrundaðar og raunhæfar heldur hefðu þær lágmarkað það tjón sem íslenskur almenningur og íslenskt samfélag hefur beðið í kjölfar hrunsins ef á þær hefði verið hlustað. Um það vitna blákaldar staðreyndir í dag.

Það er ekki of seint að stöðva endurreisn hins gamla kerfis auðvalds og sérhagsmuna. Það er ekki of seint að byggja nýtt Ísland á grundvelli samvinnu þar sem manngildið er ætíð sett ofar auðgildinu.

 (Ræða flutt í Eldhúsdagsumræðum 9. júní 2011 á Alþingi)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og fimm? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur