Fimmtudagur 30.06.2011 - 09:56 - Rita ummæli

Sjávarútvegur og hagfræðin

Sérfræðingahópur sjávarútvegsráðherra hefur skilað skýrslu um áhrif breytinga á fiskveiðistjórnun. Þeirra niðurstaða er að bann við framsali og beinni/óbeinni veðsetningu dragi úr hagkvæmni sjávarútvegsins og getu hans til að fjármagna sig með ódýrasta mögulega hætti. Ráðherra og aðrir stjórnarliðar hafa varist með því að benda á að huga verði að öðrum þáttum en bara hagkvæmni greinarinnar. Stjórnarliðar virðast ekki ætla að svara rökum sérfræðinganna, heldur halla sér frekar að líffræðilegum og samfélagslegum rökum fyrir breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu.

Ég tel að það séu mistök enda eru ágætis hagfræðileg rök fyrir því að takmarka brask með aflaheimildir og möguleika fyrirtækja til að fjármagna sig ótakmarkað með ódýrasta mögulega hætti.

Eignaverðsbóla frá 2003

Í ársbyrjun 1995 var verð á aflahlutdeild í þorski 260 kr/kg og mátti rekja hækkanir fram til 2001 til bættrar afkomu fyrirtækjanna og breytingum á úthlutun heildarafla. Eftir 2003 fóru einkavæddir bankar að lána ótæpilega og skuldir sjávarútvegsins margfölduðust um leið. Í júní 2008 náði verðið hámarki í 3.800 kr/kg, sem mátti fyrst og fremst rekja til offramboðs á ódýru lánsfé (Hrafn Sævaldsson, 2007). „Við hrun bankakerfisins hrundi verð á aflahlutdeildum um meira en helming þrátt fyrir að mikil lækkun á gengi krónunnar ætti að hafa gert aflahlutdeildir verðmeiri ef eitthvað er í krónum talið. Þessi þróun virðist benda til þess að verð á aflahlutdeildum á kvótamarkaði hafi ráðist meira af framboði á lánsfé í bankakerfinu en raunverulegu verðmæti aflahlutdeildar.“ (Jón Steinsson, 2010)

Þessar sögulegu staðreyndir sýna að frá 2003 til 2008 myndaðist eignaverðsbóla (e. asset price bubble) á aflaheimildum. „Þegar eignaverð hækkar eykst aðgengi að lánsfé þar sem virði hins undirliggjandi veðs hækkar. Hækkandi eignaverði virðist einnig fylgja tilhneiging til að vanmeta áhættu á viðsnúningi eignaverðs og því skekkt áhættumat og hækkandi veðhlutföll (e. loan-to-value ratios). Allt þetta getur síðan fóðrað enn frekari hækkun eignaverðs sem kemur af stað vítahring þenslu og hækkandi eignaverðs sem að lokum endar með hörðum skelli þegar eignaverðsbólan springur.“ (SÍ Peningastefna eftir höft, 2010).

Mat sérfræðinga Rannsókna- og þróunarmiðstöðvar Háskólans á Akureyri er að hækkun skulda frá 2003 hafi verið 50-60% vegna kaupa á aflaheimildum, 20-30% vegna fjárfestinga í ótengdum rekstri og afgangurinn, 10-15%, vegna taps á gjaldeyris- og afleiðuviðskiptum. Á sama tíma stóð fjárfesting í rekstrarfjármunum líkt og skipum, tækjum og húsum í stað. (Stefán B. Gunnlaugsson, Ögmundur Knútsson & Jón Þorvaldur Heiðarsson, 2010)

Ótakmarkað framsal og óbein veðsetning á aflaheimildum stuðlaði þannig að fjármálalegum óstöðugleika og slæmri nýtingu á fjármunum í aðdraganda hrunsins.

Hluti af peningastefnu

Sjávarútvegur er undirstöðuatvinnugrein á Íslandi. Mikilvægt er að draga úr núverandi skuldsetningu og tryggja að aldrei aftur verði til eignaverðsbóla í greininni. Lausnin þarf hins ekki að vera boð og bönn í lögum um fiskveiðistjórnun. Seðlabankar hafa í auknum mæli verið að huga að eignaverðsbólum samhliða verðstöðugleika. Þar duga ekki stýrivextir einir til, heldur getur verið nauðsynlegt að taka upp s.k. þjóðhagsvarúðartæki til að tryggja fjármálalegan stöðugleika. Með þeim er horft á samspil þjóðarbúsins í heild, verðlagningu áhættu og tengsl fjármálastofnana og þeirra markaða sem þær starfa á.

Beiting þjóðarhagsvarúðartækja kann að leiða til hærri fjármagnskostnaðar, en líta megi á það sem tryggingariðgjald sem þjóðfélagið greiði til að draga úr líkum á fjármálakreppu. Tæki sem mætti innleiða til að takmarka framsal í stað beins banns væri t.d. einhvers konar Pigou-skattur á söluandvirði aflaheimilda. Ef seljandinn endurfjárfesti ekki söluhagnaðinn í greininni þyrfti hann að borga mjög háan skatt. Önnur leið gæti verið að tengja skatta á fyrirtækin við þróun verðs á aflaheimildum. Takmarka mætti veðsetningu með því að setja þak á veðhlutfall skipa og miða við kostnað við nýsmíði. Eða að lán umfram ákveðið viðmið hefði neikvæð áhrif á eiginfjárhlutfall fjármálafyrirtækja og þar með hvata þeirra til að lána óvarlega til sjávarútvegsins.

 Sjávarútvegur skiptir okkur öll máli. Við verðum því að vera tilbúin að ræða efnislega þær ábendingar sem fram koma til að lokaniðurstaðan verði til hagsbóta fyrir okkur öll.

(Birtist fyrst í Fréttablaðinu 30. júní 2011)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og tveimur? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur