Laugardagur 16.07.2011 - 08:06 - Rita ummæli

Lagaheimild til að selja Byr?

Má fjármálaráðherra selja eins og eitt styrki Byr sísona? Í 40.gr. stjórnarskrár Íslands, nr. 33/1944, segir að ekki megi selja eða með öðru móti láta af hendi neina af fasteignum ríkisins né afnotarétt þeirra nema samkvæmt lagaheimild.  Enn fremur segir í 29.gr. laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins, að ríkisaðilar í A-hluta skuli hverju sinni afla heimilda í lögum til að kaupa, selja, skipta eða leigja til langs tíma fasteignir, eignarhluta í félögum, skip og flugvélar, söfn og safnahluta sem hafa að geyma menningarverðmæti og aðrar eignir sem verulegt verðgildi hafa.

Í fjárlögunum 2011 segir þetta um kaup og sölu hlutabréfa:

„Kaup og sala hlutabréfa

5.1 Að selja hlut ríkisins í Endurvinnslunni hf.

5.2 Að selja hlut ríkisins í sparisjóðum sem ríkið hefur eignast hlut í á grundvelli 2. gr. l. nr. 125/2008, um heimild til fjárveitinga úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl.

5.3 Að kaupa og selja hluti í innlendum sparisjóðum í tengslum við endurskipulagningu sparisjóðakerfisins.“

En er lagaheimildin þá til staðar? Vandinn er að nýi Byr var stofnaður sem hlutafélag með 900 milljón króna framlagi ríkisins.  Á mbl.is kemur fram að fjármálaráðherra hafi gert það til að komast hjá því að ríkið þyrfti að endurfjármagna bankann sem hefði þýtt mjög mikil viðbótarútgjöld.

Spara, spara,- er ekki sama og sparisjóður sbr. 61.gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002.

Byr er hlutafélag. Því hljótum við að sjá strax á haustþingi frumvarp frá fjármálaráðherra, sambærilegt lögum nr. 138/2009 um heimild til að staðfesta breytingar á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka hf., Arion banka hf. og NBI hf., til að heimila söluna á eignarhlut ríkisins á Byr.  Þar hljótum við einnig að fá upplýsingar um hvernig var staðið að sölunni, hvort það eru einhverjar ríkisábyrgðir og hvert söluverðið er.

Fjármálaráðherra taldi að vísu að lög nr. 138/2009 væru einnig ónauðsynleg enda óþarfi að vera trufla Alþingi mikið með sölu á eins og nokkrum bönkum…

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og sex? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur