Þriðjudagur 26.07.2011 - 12:36 - 21 ummæli

Ofurlaun alþingismanna?

Nú er runninn upp sá árstími sem við getum öll kynnt okkur hvað nágranninn er með í laun.

Í tekjublaði DV er að finna laun 2.737 Íslendinga.

Skoðum aðeins menntamálaráðuneytið og yfirmenn ýmissa undirstofnana ráðuneytisins.

  • Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, 934.368 kr./mán.
  • Páll Magnússon, útvarpsstjóri RÚV, 1.109.338 kr./mán.
  • Egill Helgason, sjónvarpsmaður, 1.054.730 kr./mán.
  • Óðinn Jónsson fréttastjóri RÚV, 906.868 kr./mán.
  • Kristín Ingólfsdóttir, rektor HÍ 1.605.188 kr./mán.
  • Baldur Gíslason, skólastjóri Tækniskólans – skóla atvinnulífsins, 1.248.388 kr./mán.
  • Bryndís Hlöðversdóttir, rektor Háskólans á Bifröst, 1.138.807 kr./mán.

Einnig er áhugavert að skoða innanríkisráðuneytið sem fer með dómskerfið, samgöngur og sveitastjórnarmál.

  • Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, 956.058 kr./mán.
  • Ingibjörg K. Benediktsdóttir, hæstaréttardómari, 1.163.382 kr./mán.
  • Markús Sigurbjörnsson, hæstaréttardómari,  1.077.746 kr./mán.
  • Karl Ágúst Ragnars, forstj. Umferðarstofu, 988.369  kr./mán.
  • Snorri Olsen, tollstj. í Reykjavík, 1.042.298 kr./mán.
  • Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia, Flugstoða, 1.533.686 kr./mán.
  • Karl Sigurbjörnsson, biskup Ísl. 970.030 kr./mán.

Ég sá að ég var með 586.683 kr. á mánuði og tekjur flestra samstarfsmanna minna virðast vera ámóta. Þannig erum við á svipuðu róli og fréttamenn hjá RÚV, veðurfræðingar á Veðurstofu Íslands og fangapresturinn.

Sögulega er þekkt að þegar konum fjölgar í ákveðnum starfsstéttum þá lækka laun og virðing stéttarinnar, sbr. t.d. kennarar og prestar.

Það skyldi nú ekki vera að gerast í pólitíkinni?

PS:  Látið mig vita hvað ykkur finnst.  Hægt er að setja „like“ inn á Facebook eða setja inn ummæli. Athugið að ég áskil mér rétt til að eyða út grófum, ómálefnalegum og nafnlausum ummælum.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (21)

  • Guðsteinn Einarsson

    Sæl
    Þetta er eitt að vandamálum þjóðfélagsins að ekki megi hafa laun þingmanna og ráðherra í samræmi við ábyrgð. Þess vegna er verið að blekkja og veita þessu sama fólki einstök lífeyrisréttindi, þannig að þegar upp er staðið verða laun ráðherra og þingmanna góð þegar horft er til lengri tíma.
    Þetta er hluti af sjálsblekkingu þjóðarinnar.

  • Ég er alveg sammála þér, Eygló, að laun alþingismanna eru alltof lág. Hins vegar er -vegna hrunsins og viðorfa almennings – mjög erftitt fyrir þingmenn að berjast fyrir bættum kjörum og er það miður.
    Það er algjör nauðsyn að alþingismenn öðlist þá virðingu sem þeir allajafna eiga skilið og fyrsta skrefið í þá átt er að umræður á alþingi breytist úr heift – og mér liggur við að segja hatri – í málefnalega umræður. Það er lífsnauðsynlegt fyrir fulltrúa allra flokka að setjast niður saman og taka ákvörðun um að haga umræðum á alþingi á þann veg að hann sé öllum öðrum til fyrirmyndar.

  • Mig langar samt að benda á eitt.

    Sumir ef ekki fjölmargir þingmenn, eru með ýmislegt falið í eignarhaldsfélögum líkt og bankamenn, útrásarvíkingar o.fl.í kringum kannski rekstur á heimili, hesthúsum, hlutabréfum, eða öðrum eignum auk lána.

    Þegar slíkt er komið á yfirborðið þá er hægt að ræða þau mál og einnig þegar bannað verður að stofna sérstök eignarhaldsfélög í kringum rekstur heimilis, kaup á hlutabréfum og lántöku þeirra o.fl. rotið sem hefur komið upp á yfirborðið í kjölfar Hrunsins.

    Svo í leiðinni þá má einnig velta því fyrir sér hvort það vanti ekki líka eignarhaldsfélög í Lúx eða öðrum skattaparadísum hjá fjölmörgum aðilum, þar sem fé sem ætti að rata til íslensks samfélag, er falið. Íslenska þingið ætti að vera með fyrstu þingum heims til að banna fjármagnsflutninga til skattaparadísa þar sem þetta eru fyrst og fremst miðstöðvar fyrir skipulagða glæpustarfsemi s.s. vændishringja, eiturlyfjabaróna, vopnasala, útrásarvíkinga allra þjóða og skattsvikara.

  • Orðaði hlutina ekki alveg skýrt og set því aðra málsgrein aftur inn:

    Þegar slíkt er komið á yfirborðið þá er hægt að ræða þau mál um hvort þingmenn o.fl. séu ekki að hafa óeðlliilegan tekjufrádrátt og lánaundanskot sem almenningi býðst ekki. EInnig þyrfti að banna að stofna sérstök eignarhaldsfélög í kringum rekstur heimilis, kaup á hlutabréfum og lántöku þeirra o.fl. rotið sem hefur komið upp á yfirborðið í kjölfar Hrunsins.

  • Eygló Harðardóttir

    Lífeyrisréttindum alþingismanna hefur verið breytt eftir að núverandi ríkisstjórn tók við og eru nú í samræmi við lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna. http://www.althingi.is/vefur/starfskjor_yfirlit.html

    Það er réttmæt ábending, að óttinn við almenningsálitið getur leitt til þess að farið er að „fela“ launakjörin s.s. í gegnum lífeyrisgreiðslur.

    Eignir þingmanna sem þeir hafa aflað sér áður en þeir fóru á þing geta ekki verið rökstuðningur fyrir launakjörum, frekar en í öðrum störfum. Nema ef við viljum að aðeins eignamenn hafi efni á að bjóða sig fram?

  • Stóreignafólk(lögfræðingar og hagfræðingar einnig) hefur nú verið talsvert áberandi á þingi á skjön við hlutfall sitt meðal þjóðarinnar s.s. Bjarni Benediktsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Pétur Blöndal, Atli Gíslason, Álfheiður Ingadóttir, Ólöf Nordal, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Tryggvi Þór Herbertsson, Magnús Orri Schram o.fl.o.fl.

    Eins og staðan er í dag þá er of mikið af þesslags fólki sem býður sig fram til að geta haft áhrif á því hvernig lagaumhverfið er í kringum sérhagsmuni sinna ætta og viðskiptafélaga

    Launin eru alveg ágæt hjá ykkur í dag miðað við bróðurpart þjóðarinnar eða mun hærri en meðaltekjur almennings og talsvert hærri í topplaginu. Svo skulum við ekki einu sinni minnast á það hvað öldruðum, öryrkjum og þeim lágst launuðu er skammtað fyrir neðan það sem þarf til að lifa eðlilegu lífi hér á landi.

    Fólk á fyrst og fremst að bjóða sig fram vegna hugsjóna en ekki launa og fyrst meðalmaðurinn getur lifað á mun lægri launum heldur en þið þjónar þjóðarinnar þá eigið þið að geta sætt ykkur við það, sérstaklega í ljósi þess að ykkur hefur algjörlega brugðist að bæta virðingu Alþingis og hafið fátt eitt gert sem tekur á hinu óeðlilega hjónabandi stjórnmala og viðskiptalífs eða gert það sem þarf að gera varðandi íslenskt viðskiptalíf:

    Skipta upp viðskipta- og fjárfestingabankastarfsemi.

    Láta sverfa til stáls gegn kennitöluflakki og einkahlutafélögum þar sem fólk í yfirstétt samfélagsins á þingi og í viðskiptalífinu, kemur sér undan lánum og slíku.

    Meðhöndla fjármagnsflutning til skattaparadísa sem tilraun til peningaþvættis, skattsvika og fjármögnun glæpastarfsemi.

    Og margt fleira í átt til að hægt sé að vinna á þessari spillingu og bága siðferði íslensks stjórnmálalífs, viðskiptalífs og sérhagsmuna sem oft á tíðum tengjast gömlum ættum, Bændasamtökunum og LÍÚ.

    Þegar það er komið, þá skulum við fara að ræða launin ykkar og hvort launin skili hæfu og heiðarlegu fólki almennt inn á þing.

    Ekki fyrr.

  • Eitt enn svo varðandi eignamenn á þing: flokkarnir hafa raðað þeim í efstu sætin og hafa gert svo alla tíð. Það er því á ykkar ábyrgð að eignamenn troði sér í efstu sætin, sérstaklega eignamenn tengdir voldugum flokksættum.

    Það er vandamál sem þið eigið að taka á og það á ykkar kostnað, ekki kostnað almennings í fjögur ár.

  • Eygló Harðardóttir

    Áhugavert, – en hvort kemur á undan? Eggið eða hænan? „Stóreignafólk(lögfræðingar og hagfræðingar einnig) hefur nú verið talsvert áberandi á þingi á skjön við hlutfall sitt meðal þjóðarinnar.“ vs. „…að hægt sé að vinna á þessari spillingu og bága siðferði íslensks sjtórnmálalífs, viðskiptalífs og sérhagsmuna sem oft á tíðum tengjast gömlum ættum, Bændasamtökunum og LÍÚ.“ sbr. að ofan?

  • Það er góð spurning, Eygló og ekki ætla ég að treysta mér að segja hvort kom á undan..ætla að giska þó að þetta hafi verið samfastir Síamstvíburar.

    En það tengist pottþétt ekki betri launum, það voru hærri laun fyrir Hrun og þá valdist inn mun verra fólk, óhæfara og skilaði okkur þessu bannsetta Hruni okkar.

  • Annars, ef mér misminnir ekki þá held ég m.a.s. að það hafi verið talsvert meira af stóreignafólki inn á þingi fyrir Hrun og jafnvel allt til stofnunar lýðveldisins, áður en launin lækkuðu í hæfileg laun fyrir þetta þjónustustarf við þjóðina.

  • Þúsundir landsmanna vinna ýmis þarfleg störf í þágu samfélagsins, launalaust.

    Þúsundir sitja víða heim í dýflissum vegna hugsjóna sinna og stjórnmálastarfs.

    Ef laun – og hlunnindi – þingmanna fæla einhvern frá því að bjóða sig fram, þá á hinn sami ekkert erindi á Alþingi.

    Eitt sinn miðuðust laun þingmanna, hef ég heyrt, við laun menntaskólakennara. Það er ekki fráleitt viðmið.

  • Eygló Harðardóttir

    En hvað með að ráðherrar séu með töluvert lægri laun en undirmenn þeirra? Menntamálaráðherra ber ábyrgð á útgjöldum fyrir 60 ma.kr. en rektor HÍ er með nær tvöföld laun hennar. Af hverju?

  • Hlynur Jörundsson

    Góður pistill Eygló og komment mín eru ekki sérstaklega beint að þér.

    En þegar þú vekur upp þessa umræðu þá vakna margar spurningar og sú helsta er ábyrgð og fyrir hvern þingmenn vinna.

    Í póstinum þínum frá 11 nóvember (minnir mig, ég nenni ekki að fletta því upp) þá finnur þú bréf sem allir þingmenn fengu. Jamm DeSieno er í Bingham … sem reyndar er víst frá Boston upprunarlega … svo þið sváfuð öll.

    2 millur á mánuði fyrir þingmann er að mínu mati í góðu lagi … ef þingmenn gera kröfur til sín og samstarfsaðila sinna.

    Svo er ekki að sjá … þið eruð eins og trúgjörn börn sem halda að öll dýrin í skóginum séu vinir … ósköp sætt fyrir 5 ára en kjánalegt af fullorðnu fólki.

    Hærri laun í bönkum skiluðu okkur hruninu og þið hafið ekki enn sett lög við Pump and Dump né brellum.

    Brimkaupin gerast rétt fyrir kvótalögin og hver hefðu þau verið ef yfirlýsingar hefðu verið í samræmi við framkvæmd ? Á að trúa því að menn hafi spilað svona djarft án innherjaupplýsinga ?

    Þú stendur þig bærilega … en wake up and smell the roses !

    Þær lykta ekkert sérstaklega vel.

    Þú getur til dæmis valið um tvo kosti .. að dómarar í Exeter málinu séu spilltir eða lögin ekki nógu skýr … nema þú veljir þann þriðja og segir að sérstakur sé vanhæfur/spilltur.

    Hvaða kost sem þú velur af þessum þremur þá þarftu að taka á því … nema þú segir að Exeter viðskiftin séu í góðu lagi.

    Þú ert löggjafinn … holdi klæddur … hvert er svar þitt ?

    Einn af þremur slæmum sem kallar á tafarlaus viðbrögð …. eða þann fjórða sem þjóðin er alfarið óssammála.

    Svo er þá 500 000 kallinn ekki bara sanngjörn greiðsla til þingmanna sem sofa á verði ?

  • Laun eiga ekkert að vera í línulegu sambandi við ábyrgð. (Þá færu öll sveitarfélög landsins á hausinn þegar leikskólakennarar fengju sín „réttmætu“ laun).

  • Steingrímur Þórhallsson

    Margir verðurfræðingar og prestar hafa mun meiri og fjölbreyttari menntun en fjöldi þingmanna og þá sér í lagi ráðherrar þessarar ríkisstjórnar.

  • Eygló Harðardóttir

    Nú liggur það fyrir að alþingismenn og ráðherrar eru ekki með ofurlaun né sérstaklega há laun, ekki frekar en prestar og veðurfræðingar.

    En það sem ég er að velta fyrir mér er:
    1)Er rétt að ráðherrar séu með mun lægri laun en undirmenn þeirra, og
    2)Getur verið að fjölgun kvenna í stéttinni sé að kvengera (feminizing) starf alþingismanns = lægri laun og minni virðing eins og hefur gerst í öðrum stéttum þar sem konum hefur fjölgað sbr. kennarar.

    Hvað finnst ykkur um þessi atriði? Og takk kærlega fyrir áhugaverð og málefnaleg ummæli.

  • Ágæt hugleiðin Eygló og ég er þeirrar skoðunar að laun þingmanna séu allt of lág. Ástæða þess að launin eru eins og þau eru í dag eru fyrst og síðast vegna þess að nokkrir þingmenn sem stöðugt eru í vinsældakapphlaupi hafa reynt að slá sig til riddara með því að tala gegn launahækkun þingmanna. Ég reikna ekki með að þingið þori að taka á eigin launamálum að sinni en á næsta kjörtímabili skora ég á þig Eygló að taka málið upp. Ef þú hefur ekki þor til að taka á málinu er tilgangslaust að væla. Mér finnst að laun þingmanna ættu að vera rúm milljón á mánuði og laun ráðherra ekki undir 1.8 milljónum.

  • Ársæll Másson

    1. Það er ekki óeðlilegt að einhverjir einstaklingar sem heyra undir ráðuneyti séu með hærri laun en ráðherrann. Það þarf ekki að vera neinn skandall.
    2. Virðing alþingismanna hefur minnkað. Það er ekki vegna þess að konum hefur fjölgað á þingi, heldur vegna þess að þingmenn hafa ekki valdið sínu starfi. Það pirrar fólk. En þingmenn eiga ekki að líta á þingmennsku sem hvert annað starf. Það þarf að hafa einhverja hugsjón eða sannfæringu til þess að taka að sér þingmennsku. Þess vegna held ég að fjölgun kvenna hafi góð áhrif á þingið. Þeir sem vilja ekki í þingmennsku vegna launanna eru betur geymdir utan þings.

  • Þórey Matthíasdóttir

    Mitt mat er að við eigum að hafa metnað til að laun þingmanna okkar séu á sama róli og laun þingmanna annarra norðurlandaþjóða. Eins þarf að sjá til þess að þingmenn hafi sama rétt og aðrir launþegar í landinu að vinnulöggjöfin nái yfir þá samanber hvíldartími, réttur til fyrri starfs við komu úr fæðingaorðlofi o.s.frv. Í raun má stokka upp margt í þinginu miðað við eins og Danir reka sitt þing. Hef aldrei skilið fólk sem ætlar öðrum að vinna launlítið og fórni framfærslu fjölskyldna sinnar með að tak lág laun ef hærri eru í boði annarstaðar. Ef þingið á að hafa úrvalsfólk í störfum þurfa launin að vera í lagi. Eitthvað segir mér að mörg nöfn sem hafa verið talin upp hér að ofan og eru í hugum fólks spillingarfólk fái ekki brautargengi í næstu kosningum. Þannig að það hreinsast út af sjálfum sér. Ef launin verða ekki löguð er tvennt sem getur skeð í mínum huga. Að þingið fyllist af froðusnökkurum og vanhæfu fólki eins og Merði Árna og Þránni Bertels. Eða þingmennskan verði kvennastétt. Kynjahlutfall beggja kynja þarf að vera sem jafnast á þingi til að ná sem besta árangri því kynin eru jú ólík. Svona til gamans að vegna lélegra launa í Rússlandi er læknastéttin hjá þeim orðin kvennastétt og til vandræða hvað fáir vilja fara í læknisfærði, enda námið þungt og langt. Þetta kemur alltaf að því að fólk fær það sem það borgar fyrir. Illa launuð störf enda með því að atvinnurekandinn er nú ekki með það besta á markaðnum í vinnu hjá sér. Þetta á líka við þjóðina þegar hún ræður þingmenn í vinnu í kosningum.

  • Hlynur Jörundsson

    Humm .. no komment ?

    Jamm auðvitað vefst þér tunga um tönn.

    En varðandi hugleiðingu þína.

    1. Ráðherrar tilheyra Alþingi og viðmiðunarlaun þeirra eiga vera við samstarfsmenn sína því þeir eru fyrst og fremst alþingismenn … svo samanburður við starfsmenn ráðuneyta sem tilheyra ríkisbákninu er jafn kjánalegur og samanburður við laun bankastjóra sem fjalla um jafn miklar upphæðir og eiga að sýna jafn mikla ábyrgð.

    2. Þetta á ekkert skylt við hlutfall kvenna því þingmennska er ekki háð kyni heldur vali flokkanna á þingmannsefnum og þingmenn ráða ekki aðrir. Svipað kjánalegt og segja að laun drottninga sem sé einvaldar séu lægri en kónga sem eru einvaldar.

    En þetta veistu … svo hvað annað en PR fyrir launahækkun þingmanna vakir fyrir þér ?

  • Eygló Harðardóttir

    Alveg nýtt að heyra að mér vefjist tunga um tönn 😉

    Ég er ekki sammála að ráðherrar séu fyrst og fremst alþingismenn. Þeir fara með framkvæmdavaldið. Í raun tel ég einn meginvanda íslenskrar stjórnskipunar vera hversu óskýr mörkin eru á milli löggjafar- og framkvæmdavaldsins. Ráðherrar eiga ekki að sitja á þingi samhliða.

    Ég vil að ráðherrar axli þá miklu ábyrgð sem þeim er falin, samhliða völdunum. Ef þeir gera það ekki þá eiga þeir á ættu að lenda í fangelsi, ólíkt alþingismönnum skv. ráðherraábyrgðarlögunum. Ef við skoðum menntamálaráðherra og undirmenn hennar þá ber hún ábyrgð á meðferð 60 milljarða kr. Rektor HÍ fer með um 10 milljarða kr., en er með nær tvöföld laun ráðherrans.

    Ég er ekki að segja að þingmennska sé háð kyni. Ég er að velta fyrir mér hvort konur fái frekar tækifæri til að bjóða sig fram og ná kjöri þegar virðing starfsins minnkar? Leiðir það svo til þess að launin lækka að konur meta sig ekki jafn hátt og karlar sbr. launamun kynjanna? Af hverju eru t.d. sveitastjórar með mun hærri laun en ráðherrar?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og þremur? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur