Fimmtudagur 04.08.2011 - 11:27 - 9 ummæli

Gimme money…

Kvikmyndaskóli Íslands er einkaskóli. Hann er stofnaður og rekinn af einkaaðilum. Ríkið hefur stutt við skólann með beinum ríkisframlögum og í gegnum skólagjaldalán LÍN þar sem námið er lánshæft.

Ekkert hefur komið fram hjá menntamálaráðuneytinu né þingmönnum að það sé ekki vilji til að styðja áfram við skólann, -innan skynsamlegra marka.

Kvikmyndagerð er mikilvæg iðngrein, sem getur verið einn af vaxtarsprotum okkar til framtíðar.

Hins vegar verða menn að sníða sér stakk eftir vexti. Því miður hafa stjórnendur Kvikmyndaskólans verið of metnaðarfullir og ekki gætt nægilega vel að því að reksturinn væri í samræmi við tekjurnar.

Lausnin var að biðja um meira fjármagn frá ríkinu, – eftir að búið var að fjölga brautum og nemendum.

Ég held að mörg einkafyrirtæki vildu óska þess að þau gætu leitað til ríkisins í hvert skipti sem þau þyrftum meira fjármagn í reksturinn.

Nú er spurning hvort Ögmundur ætlar að vera góða álfkonan og gefa þeim meiri pening…

Kannski öllum hinum líka?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (9)

  • Hrafnkell

    Fjölgun brauta og nemenda var auðvitað gerð í samráði við menntamálaráðuneytið eins áður hefur komið fram í fréttum.

    Að hækka framlag ríkisins hljómar þá alls ekki utan skynsamlega marka.

  • Eygló Harðardóttir

    Í viðtali í gær á R2 kom fram hjá Elíasi Guðjónssyni, aðstoðarmanni menntamálaráðherra, að ráðuneytið hafi varað skólann við að stækka. Það að skólinn hafi farið í gegnum faglega úttekt hafi ekkert með loforð um aukið rekstrarfé. Sömu upplýsingar hafa komið fram í menntamálanefnd. Þegar ráðuneytið lofar auknum fjárframlögum þá er það gert með skriflegum samningum með fyrirvara um samþykki Alþingis. Hin leiðin er að óska beint eftir auknu fjárveitingum frá Alþingi og tryggja að þeir fjármunir komi. Ef það hefði verið gert þá væri skólinn ekki samningslaus og 35 milljónir í mínus.
    Hins vegar ítreka ég að það er vilji til að styðja fjárhagslega við skólann, – en þegar menn semja um kaup á ákveðinni þjónustu þá hlýtur kaupandinn að hafa eitthvað um það að segja hvernig sú þjónusta er veitt.

  • Jakob Andersen

    Þar er eitthvað svo 2007 yfir viðhóf skólastjórans. Hann segir að skólinn er orðinn svo stór núna að það gengur alls ekki að skera eða leggja hann niður. Best er – auðvitað – að hann bara haldir áfram að stækka.

  • Sæl Eygló,

    Þakka þér fyrir að sýna KVÍ áhuga. Hér koma nokkrar viðbætur við skrif þín:

    1. KVÍ er einkaskóli eins og verslunarskólinn, listaháskólinn, háskólinn í Reykjavík og margir fleiri.
    Þetta er hefðbundin stofnun í íslensku samfélagi sem veitir stjórnvöldum og íslenskum ungmennum þjónustu.

    2. Það er einfaldlega rangt að menntamálaráðuneytið hafi varað við stækkun skólans. Stækkunin, semfór fram á árabilinu 2007 – 2009, var unnin í nánu samstarfi við menntamálaráðuneytið sem veitti náminu formlega viðurkenningu. Því miður hafa fjárveitingar til skólans ekki hækkað í samræmi við aukinn nemendafjölda. Fjárhagsbeiðnir skólans eru mjög hóflegar í samanburði við aðra skóla í íslensku skólakerfi.

    3. KVÍ er einn vinsælasti skóli landsins, með umsóknir sem eru þrefalt fleiri en plássin. Skólinn hefur skilað tugum nemenda í störf inn í hinum hraðvaxandi myndmiðlaiðnaði á Íslandi.

    4. Einkaskólar eru ekki hefðbundin fyrirtækin á markaði þar sem einn aðili, þ.e. ríkisvaldið, hefur tekið að sér að sjá um kaup á menntun fyrir þegna landsins. Það er því ekki annað að leita þegar sækja þarf um auknar fjárveitingar.

    Með vinsamlegri kveðju

  • Eygló Harðardóttir

    Sæll Sindri,
    1. Já, og þessir skólar líkt og allir aðrir skólar og raun allur rekstur hvort sem hann er á vegum einkaaðila eða hins opinbera þurfa og eiga að haga rekstri sínum á þann máta að útgjöld séu í samræmi við tekjur. Fjárlög fyrir næsta ár eru ákveðin í desember og ef þau eru skert þurfa viðkomandi stofnanir að hagræða í rekstri sínum og draga saman.
    2. Þetta kom fram í viðtali í gær á R2. Það kom einnig fram á fundi í menntamálanefnd með fltr. skólans og ráðuneytisins að ekkert loforð hefði legið fyrir um aukið fjármagn frá ríkinu, aðeins að mikil jákvæðni væri gagnvart starfseminni. Rekstraraðilum er frjálst að setja á stofn nýjar námsbrautir og fjölga nemendum, en þeir þurfa þá að tryggja að tekjur séu til staðar. Ef ekki í gegnum framlög ríkisins þá frá nemendum eða öðrum tekjuöflunarleiðum.
    3. Já. HÍ er einnig mjög vinsæll en er að mennta hundruðir nemenda umfram fjárframlög. Hann er að skila töluverðum fjölda fólks út á vinnumarkaðinn, okkur er mjög annt um hann en fjármagn er takmarkað. Sama gildir um fjölda framhaldsskóla.
    4. Ég er ekki sammála þessu. Ef það er ekki rekstrargrundvöllur fyrir skólann eða einhvern annan skóla þá ber ríkinu engin skylda til að leggja fram fé í viðkomandi rekstur. Ríkið hlýtur að meta sjálft hver þörfin er og hvað það er tilbúið að leggja í þetta nám, ekki rekstraraðilarnir þ.e.a.s. ef þeir vilja fá fjármagn frá ríkinu.

  • Bjarni Tryggvason

    Allt satt og rétt hjá þér Eygló.

    Næsta skref hjá þeim eftir að nánast útséð verður um frekari styrki frá mömmu Ríki verður að nota nemendurna sem gísla í fjölmiðla/taugastríði.

    Heh, Mogginn með Don Davíð á svoleiðis eftir að væla eftir auknum ríkisafskiptum.

    Sýnist það sama vera í uppsiglingu með Hraðbraut.

  • Hrafnkell

    Það eru nú ekki allir á sama máli hvort að skólinn hafi verið varaður við.

    sjá: http://www.ruv.is/frett/staekkunin-var-samthykkt

  • Bjarni Tryggvason

    Hrafnkell.

    Það er ekki fallegur vitnisburður um gáfnafar stjórnenda viðkomandi skóla að segja að þeir hafi lagt út í stórframkvæmdir án þess að hafa skotheldann samning við hið opinbera upp á punkt og prik.

    Já hreinlega styrkir ekki þeirra málstað nema síður sé.

    Það hreinlega á að koma verst niður á þeim sjálfum ef slík er staðan.

  • „Ég held að mörg einkafyrirtæki vildu óska þess að þau gætu leitað til ríkisins í hvert skipti sem þau þyrftum meira fjármagn í reksturinn.“

    Ég vona að þú haldir áfram báráttu þinni við að minnka ríkisstyrki inní einkarekin fyrirtæki
    🙂

    En varðandi greiðslu til einkarekinna skóla eins og KVÍ, þá spyr ég, er ekki gerður samningur til nokkura ára í senn á milli ríkis og stjórnar viðkomandi skóla? eða eru menn að semja fyrir hvert ár fyrir sig?

    -Það sem ég á við, þeir nemendur sem þegar hafa byrjað nám, að það hlýtur að vera búið að skipuleggja fjármagn og rekstur skólans þannig að þeir geti klárað sitt nám. Þar á meðal að búið sé að gera samning við ríkið um fjármögnun þeirra nemenda.

    Snýst ekki málið frekar um hve margir nýnemar komast inn í skólann þetta árið, að skólinn sé búninn að innrita of marga nemendur miðað við fjármagnið sem þeim er skammtað?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og sex? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur