Föstudagur 02.09.2011 - 08:18 - 17 ummæli

Brestur í brynju verðtryggingar

Almenningur kallar eftir afnámi verðtryggingar.  Í skýrslu verðtryggingarnefndar voru skoðaðar fjölmargar leiðir til að draga varanlega úr notkun verðtryggingar.  Ein þeirra var að Íbúðalánasjóður fengi heimild til að bjóða upp á óverðtryggð húsnæðislán. Fagnaði forstjóri sjóðsins þessari hugmynd og hafa nú jafnvel þingmenn stjórnarflokkanna tekið undir hana.

Þessi breyting er mikilvægt upphafsskref í átt að óverðtryggðu umhverfi, – en meira þarf til.

Lækka vexti

Verðtrygging tekur út stærstu áhættuþætti lánveitenda, verðbólgu og gengisþróun.  Þrátt fyrir þetta hafa raunvextir verið hærri en í nágrannalöndunum þar sem verðtrygging þekkist varla. Það er ekki hægt að sætta sig við núverandi ástand.  Því verður að leita allra leiða til að lækka raunvexti til frambúðar.  Sérfræðingahópur um skuldavanda heimilanna reiknaði út að lækkun raunvaxta í 3% til frambúðar svaraði til þess að höfuðstóll lána væri lækkaður um 20%.  Því vil ég endurskoða ávöxtunarkröfu lífeyrissjóðanna og hvetja til sparnaðar vegna kaupa á húsnæði og búseturétti með skattkerfinu.

Óverðtryggð húsnæðislán

Ég vil óverðtryggt húsnæðislánakerfi að danskri fyrirmynd. Þar yrðu boðin óverðtryggð húsnæðislán með endurskoðunarákvæðum vaxta á ákveðnum tímabilum (0, 3, 5 og 7 ára fresti.  Ég vil sjá almenna húsnæðislánalöggjöf um lánstíma og veð. Lyklafrumvarpið verður að samþykkja. Bjóða þarf ný íbúðabréf í samræmi við breytt fyrirkomulag útlána og tryggja jafnvægi á milli einstaks húsnæðisláns og íbúðabréfs.  Auðvelda þarf fólki flutning í nýtt kerfi með því að fella niður gjaldtöku við skilmálabreytingu og endurfjármögnun.  Jafnframt þarf að semja við lífeyrissjóði um endurfjármögnun útistandandi skuldabréfa Íbúðalánasjóðs til að flýta kerfisbreytingu.

Þak á verðtrygginguna

Stór hluti verðbreytinga verður vegna gengisþróunar.  Þrýstingur er á gengi krónunnar til lækkunar.  Verðbólguskot myndi þýða að þúsundir heimila myndu lenda í vanskilum með lán sín.  Því vil ég að sett verði þak á verðtryggingu núverandi lána sem miðist á ársgrundvelli við 4% hámark, sbr. tillögu Framsóknarflokksins frá því haustið 2009.  Leita þarf einnig samninga við lánveitendur um að hækka ekki annan kostnað lántakenda til að komast framhjá þessu þaki á meðan unnið er að afnámi verðtryggingar.

Stríðið við verðtrygginguna verður langt og strangt, en loksins hyllir í fyrsta sigurinn.

(Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu 2. september 2011)

PS. Ég hvet lesendur til að setja inn athugasemdir eða tengja inn á Facebook.  Ég samþykki inn athugasemdir þannig að það getur tekið smá tíma fyrir þær að birtast.  Athugið að ég áskil mér rétt til að eyða út nafnlausum og ómálefnalegum athugasemdum.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (17)

  • Fólk sem er fast í verðtryggingu í dag. Getur ekki endurfjármagnað sín lán vegna veða.
    Svo hvað ætlaru að gera fyrir það fólk ?

  • Verðtryggingin er skelfileg.

    En hún er ekki rót vandans.

    Vandinn er ömurleg efnahagsstjórn og sérhagsmunavarsla íslenskra stjórnmálamanna.

    Ömurleg efnahagsstjórn styðst við ónýtan gjaldmiðil.

    Ég skil vel að fólk vilji verðtrygginguna burt.

    En ég hvet menn til að hugsa sig vel um áður en þeir skrifa undir óverðtryggð lán með endurskoðunarákvæði um vexti.

    Í því ömurlega efnahagsumhverfi sem íslenskir stjórnmálamenn hafa skapað þjóðinni getur slíkt endurskoðunarákvæði dembt risavöxtum yfir fólk.

    Vandinn liggur í því lélega fólki sem stjórnað hefur landinu, sérhagsmunagæslu og hörmulegri efnahagsstefnu.

  • Eygló Harðardóttir

    Verðtryggingin er hluti af þessari óstjórn. Í staðinn fyrir að þurfa taka afleiðingum slæmrar hagstjórnar þá geta íslenskir stjórnmálamenn ávísað henni á framtíðarkynslóðir í gegnum verðtrygginguna. Því þarf að afnema hana til að þau stjórntæki sem SÍ og stjórnvöld hafa virki.

  • Eygló Harðardóttir

    Lykilatriðið varðandi þá sem þegar eru fastir í viðjum verðtryggðra lána og yfirveðsetningar er afnámið og að lækka vexti. Semja þarf við lífeyrissjóðina um endurfjármögnun eldri lána og horfast þarf í augu við tapaðar kröfur.

  • Guðsteinn Einarsson

    Eygló segir þetta vandann, þ.e. krónuna og afleiðingar notkunar hennar.
    Þegar talað er um að afnema og setja þak á verðtryggingu, á þá líka að setja þak á leiðréttingu lífeyrisréttinda þegar verðbólguskot kemur í boði stjórnmálamanna. Það gleymist stundum í líðskruminu að verðtrygging er almenningi til góða þegar kemur að sparnaði, þess vegna var hún tekin upp. Verðtrygging er afleiðing ekki orsök.

    Stór hluti verðbreytinga verður vegna gengisþróunar. Þrýstingur er á gengi krónunnar til lækkunar. Verðbólguskot myndi þýða að þúsundir heimila myndu lenda í vanskilum með lán sín. Því vil ég að sett verði þak á verðtryggingu núverandi lána sem miðist á ársgrundvelli við 4% hámark, sbr. tillögu Framsóknarflokksins frá því haustið 2009

  • Frikki Gunn.

    Skyldi Drottinn hafa fundið upp verðtryggingu í reiðiskasti?

    Verðtrygging gulltryggir lánveitendur.

    Þeir eru bæði með belti og axlabönd, og með kút og kork þannig að þeir sökkva ekki.

    Er ekki verðtryggingin enn við lýði vegna þess að ákveðið var að vertryggja lífeyris-útgreiðslur ákveðins hóps lífeyrisþega?

    Það er ekkert náttúrulögmál að hér skuli vera verðtrygging.
    Að mínu mati væri hægt að afnema verðtryggingu með lagaboði.

  • Lítil myntsvæði eru um allan heim hávaxtasvæði. Þ.e til þess að eyða gengisáhættu í fjárfestingum á frjálsum markaði eru vextir hafðir hærri en þekkist á stærri myntsvæðum.

    Það skiptir ekki öllu máli hvað vextirnir eru kallaðir, verðtrygging eða óverðtryggðir vextir. Þeir verða alltaf háir á meðan við erum með sjálfstæða mynt í litlu hagkerfi.

    Annað vandamál er síðan lögbundin ávöxtunarkrafa lífeyrissjóða. Getur hagkerfið til lengdar tryggt yfir 3% raunvexti á lífeyrissjóðina? Það eru 1600 milljarðar sem þarf að ávaxta.

    Valkostirnir eru því háir vextir og króna eða ekki króna. Eflaust gætum við lækkað vextina eitthvað með höftum, boðum og bönnum en er það sú framtíð sem við viljum?

  • Jón Sig.

    Nú held ég að það sé nokkuð ljóst, að Seðlabankinn sé með allt niðrum sig, og það standist ekk lög, að hlaða nýjum lánum ofaná höfuðstólinn, því er spurt hvernig verður þetta leiðrétt?

  • Það er ávöxtunarkrafa lífeyrissjóðanna sem heldur uppi háu raunvaxtastigi hér. Í raun erum við því með n.k. gegnumstreymiskerfi, þ.e. við greiðum fyrir lífeyrisréttindi foreldra okkar með háum vöxtum á húsnæði. En það verður ekki bæði haldið og sleppt.

  • Atli Hermanns

    Eygló. Ef ég á upphæð að andvirði einnar milljónar króna bundið í bifreið, húsi, hlutafé eða einhverri annarri fjárfestingu – get ég átt von á því að milljónin tapi verðgildi sínu. Og í sumum tilfellum gerir hún það nokkuð örugglega. Þá tapar hún alveg örugglega verðgildi sínu ef ég geymi hana heima hjá mér. En ef ég lána þér hana Eygló; þá krefst ég þess að fá hana til baka verðtryggða með hæstu vöxtum. Á lánstímanum tek ég heldur enga áhættu. Ef t.d. kaffi hækkar á heimsmarkaði eða hrísggrjón frá Indlandi geri ég kröfu um að þú bætir mér það upp….

    Er það virkilega bara þú og einhverjir örfáir aðrir sem sjá fáráleikan í þessu fyrirkomulagi.

  • Háir vextir hafa nú tíðkast í meira en 25 ár. Unga fólkið hefur alist upp í þessu okur-umhverfi og þekkir ekki annað. Fjölskyldur þurfa líka að fara að ræða um fjármálin og hvernig eðlilegt vaxtaumhverfi á að vera.
    Afleiðingar þessara háu vaxta eru m.a. ástæðan fyrir hárri leigu. Því leigusalinn þarf væntanlega að eiga fyrir vaxtagreiðslum sem eru svakalegar á meðan vaxtaokrið er við lýði.
    Fínar greinar Eygló og góð „komment“ hjá ykkur.
    Fjársýslustofnanir hafa venjulega talað um ávöxtunarkröfu fyrir lánin sín. Ég held að réttnefni hafi verið Græðgiskrafa. Hún var yfirleitt tengd við lánin frá Íbúðalánasjóði en ekki lífeyrissjóðina. Man eftir 6% græðgiskröfu ofan á verðtryggðu húsnæðislánin!
    Sammála Guðsteini að verðtrygging er afleiðing en það verður samt að vera eitthvað þak eins og Eygló hefur sagt. Aðalmeinið er líklega vaxtaokrið.

  • Atli: Ef verðtrygging á að vera þá er frábært að halda sparifé sínu óskertu. Og enginn fjármagnstekjuskattur á að vera á verðbætur. Með því móti getur þú rólegur safnað upp í greiðslu á hverju því sem þú vilt safna fyrir. Hámark að hafa 1-2% vexti ofan á verðtrygginguna, 100% fjármagnstekjuskatt á allt umfram það

  • Hákon Hrafn

    Verðtrygging tryggir óstjórn og ábyrgðarleysi lánveitanda. Vonandi gengur þér vel með þessi baráttumál þín.

  • sturla jónsson

    Lög um neytendalán
    1994 nr. 121 21. september
    10. gr. Árleg hlutfallstala kostnaðar er það vaxtaígildi sem jafnar núvirðið af greiðsluskuldbindingum lánveitanda annars vegar og neytanda hins vegar samkvæmt lánssamningi þeirra. Árlegri hlutfallstölu kostnaðar skal lýst sem árlegri prósentu af upphæð höfuðstóls lánsins. Hún skal reiknuð út í samræmi við stærðfræðilíkingu sem nánar skal mælt fyrir um í reglugerð1) er ráðherra setur.
    1)Rg. 377/1993, sbr. 491/1993 og 236/2000.
    11. gr. Árleg hlutfallstala kostnaðar skal reiknuð út á þeim tíma sem lánssamningur er gerður. Við útreikning árlegrar hlutfallstölu skal gengið út frá því að lánssamningur gildi umsaminn tíma og að lánveitandi og neytandi standi við skuldbindingar sínar samkvæmt skilmálum samningsins.
    12. gr. Ef lánssamningur heimilar verðtryggingu eða breytingu á vöxtum eða öðrum gjöldum sem teljast hluti árlegrar hlutfallstölu kostnaðar, en ekki er unnt að meta hverju nemi á þeim tíma sem útreikningur er gerður, skal reikna út árlega hlutfallstölu kostnaðar miðað við þá forsendu að verðlag, vextir og önnur gjöld verði óbreytt til loka lánstímans.
    24. gr. Eigi má með samningi víkja frá ákvæðum laga þessara né reglugerða, sem settar kunna að verða samkvæmt lögunum, neytanda í óhag.

  • sturla jónsson

    það er altaf verið að tala um verðtryggingu,hvernig væri að fara að lögum sem eru gildandi í þessu landi????????????? Og lesa löginn sem eru fyrir og hætta þessu nefndar bulli og fara að hjálpa fólki !!
    Lög um neytendalán
    1994 nr. 121 21. september
    10. gr. Árleg hlutfallstala kostnaðar er það vaxtaígildi sem jafnar núvirðið af greiðsluskuldbindingum lánveitanda annars vegar og neytanda hins vegar samkvæmt lánssamningi þeirra. Árlegri hlutfallstölu kostnaðar skal lýst sem árlegri prósentu af upphæð höfuðstóls lánsins. Hún skal reiknuð út í samræmi við stærðfræðilíkingu sem nánar skal mælt fyrir um í reglugerð1) er ráðherra setur.
    1)Rg. 377/1993, sbr. 491/1993 og 236/2000.
    11. gr. Árleg hlutfallstala kostnaðar skal reiknuð út á þeim tíma sem lánssamningur er gerður. Við útreikning árlegrar hlutfallstölu skal gengið út frá því að lánssamningur gildi umsaminn tíma og að lánveitandi og neytandi standi við skuldbindingar sínar samkvæmt skilmálum samningsins.
    12. gr. Ef lánssamningur heimilar verðtryggingu eða breytingu á vöxtum eða öðrum gjöldum sem teljast hluti árlegrar hlutfallstölu kostnaðar, en ekki er unnt að meta hverju nemi á þeim tíma sem útreikningur er gerður, skal reikna út árlega hlutfallstölu kostnaðar miðað við þá forsendu að verðlag, vextir og önnur gjöld verði óbreytt til loka lánstímans.
    24. gr. Eigi má með samningi víkja frá ákvæðum laga þessara né reglugerða, sem settar kunna að verða samkvæmt lögunum, neytanda í óhag.

  • Grundvallaratriðið á að vera það að fólk geti fegnið lán til íbúðakaupa á lágu verði og þau lán eiga að vera með 3-5% fasta og óverðtryggða vexti.
    Annað skiptir ekki máli. Lán til annara kaupa geta verið hvernig sem er en ekki til íbúðakaupa þau verða að vera á kjörum sem fólk getur ráðið við.

  • Gísli Ingvarsson

    Eygló er eini þingmaðurinn sem ég get hugsað mér að styðja. Meira að segja er hún í mínu kjördæmi. Framsóknarflokkurinn virðist þó vera óyfirstíganleg hindrun. Hvað sem því líður á hún framtíðina fyrir sér. Áfram Eygló. Verðtryggingarmálin eru komin á dagskrá. Loksins.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og tveimur? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur