Mánudagur 03.10.2011 - 13:19 - 5 ummæli

Kynjuð nefndaskipan

Alþingi skipaði upp á nýtt í fastanefndir og alþjóðanefndir Alþingis á laugardaginn. Eftir að forseti hafði lesið upp nefndarmenn í einstökum nefndum lá fyrir að Alþing hefur enn á ný náð að skipta kynjum bróðurlega á milli nefnda.

Þær nefndir sem fara með fjár-, atvinnu- og utanríkismál eru skipaðar körlum að mestu, á meðan konur sitja frekar í nefndum sem fara með velferðar-, mennta- og dómsmál.

Ég hafði áhyggjur af því að þetta gæti orðið niðurstaðan þegar lá fyrir að skipa ætti á ný í nefndir þingsins og lagði áherslu á að formenn þingflokka yrðu að tala saman um skipan í nefndir m.a. út frá kynjasjónarmiðum.

Ástæðan var að ég tel best að sjónarmið beggja kynja fái að heyrast jafnt, -líka þegar kemur að fjár-, atvinnu- og utanríkismálum. Þess vegna hef ég t.d. stutt kynjaákvæði í lögum Framsóknarflokksins og félagarétti.

Því miður virðist það ekki hafa verið forgangsatriði.

Af hverju ætlar þetta að reynast okkur svona erfitt?

PS. Vinsamlegast ekki segja að skipunin byggist á hæfni eða að konur gefi ekki kost á sér. Hvorugt á við í þessu tilviki.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

  • Þorsteinn Egilson

    Hefur hlutfall kynjanna á Alþingi engin áhrif á hlutfall kynja í hinar ýmsu nefndir? -Er kynjaskipting þessa þings jöfn?
    Kveðja,

  • Mikið mundi mitt gamla Framsóknarhjarta hrífast segði síðuhöfundur sig frá flokknum eins og ég hef gert.

  • Það er leitt að missa verðugan þingmann úr hinni mikilvægu viðskiptanefnd. Það er full mikil bankalykt af mörgum sem nú skipa nefndina, en aðrir eiga kannski á hættu að verða úti á þekju í störfum nefndarinnar.

    Eygló, er það rétt skilið að þú takir í staðinn sæti í allsherjar- og menntamálanefnd? Ef svo er þá treysti ég því að þar látirðu til þín taka í neytendamálum ekki síður en öðru. Ég minni þig á að bróðurparturinn af skuldum almennings falla undir lög um neytendalán, sem auk viðskiptamála gerir þau líka að neytendamálum sem heyra þannig undir allsherjarnefnd, innanríkisráðuneytið og neytendastofu.

  • Grímur Atlason

    Þetta er auðvitað einn stór brandari Eygló. En fjárlaganefnd þarf auðvitað á sínum strákum úr héraði eins og alltaf. Breytir engu þó flokkar sem kenna sig við „kvenfrelsi“ og jöfnuð stjórni. Ekki það þinn flokkur og Te-hreyfingin (flokkurinn sem farinn er að ákalla drottinn sínkt og heilagt) eru ekki að fara að breyta þessu – far from it. Ég botna ekkert í ykkur Siv að hanga með þessu „gúgú“ liði…

  • Bryndís Gunnlaugsdóttir Holm

    Það er sorglegt að horfa upp á þessa nefndarskipun hjá Alþingi. Auðvita mun nefndarskipun að einhverju leyti endurspegla kynjahlutföllin á þingi en að viðskipta- og efnahagsnefnd sé EINGÖNGU skipuð körlum, utanríkisnefnd með 8 karla og 1 konu og velferðarnefnd með 8 konur og 1 karl, er náttúrulega út í hött.

    Á sama tíma skylda sveitarstjórnarlög sveitarstjórnir til að tryggja jafnt hlutfall kynja þegar skipað er í nefndir (reyndar á það ekki við um nefndir þar sem aðeins bæjarfulltrúar eru kjörgengir). Það eru 63 þingmenn á þingi og það hlýtur að vera hægt að tryggja það að í 9 manna nefnd sé a.m.k. 2-3 af hvoru kyni.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og sjö? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur