Fimmtudagur 03.11.2011 - 08:50 - 5 ummæli

Hagkvæmara að gefa

Fyrir hrun trúðu margir á sýnina um að sífellt væri hægt að stækka kökuna með því að ýta undir græðgi einstaklinganna. Þetta endurspeglaðist í að skattaívilnanir stjórnvalda beindust m.a. fyrst og fremst að fyrirtækjum sem voru á markaði í hagnaðarskyni.

Samhliða hallaði sífellt á starfsemi sem rekin var á grundvelli ákveðinna hugsjóna, svo sem frjáls félagasamtök og samvinnufélög.  Má þar nefna afnám ákvæða um frádrátt frá skattskyldum tekjum einstaklinga vegna gjafa til góðgerðafélaga árið 1979, ákvörðun um að félagasamtök skyldu greiða fjármagnstekjuskatt árið 1996 og álagningu erfðafjárskatts á gjafir til líknarfélaga vorið 2004.

Frjáls félagasamtök gegna mikilvægu hlutverki í okkar samfélagi.  Þau sinna fræðslu almennings, efla menningar- og listalíf, inna af hendi margs konar samfélagsþjónustu og halda á lofti málstað einstakra þjóðfélagshópa.  Hver kannast ekki við Öryrkjabandalag Íslands, Krabbameinsfélag Íslands, Kvenfélagasamband Íslands og Rauða Kross Íslands sem daglega starfa í almannaþágu, til heilla fyrir okkur öll?

Íslensk félagasamtök njóta þó ekki sömu skattaívilnana og algengt er í samanburðarlöndunum, t.d. undanþágu frá greiðslu fjármagnastekjuskatts, erfðafjárskatts og endurgreiðslu virðisaukaskatts af aðföngum.  Stærsti munurinn felst þó í því að einstaklingum hér á landi er ekki leyfilegt að draga gjafir til góðgerðafélaga frá skattskyldum tekjum sínum líkt og almennt er heimilt í löndum Evrópu og Norður-Ameríku.  Einnig hafa frjáls félagasamtök greitt fullan erfðafjárskatt af dánargjöfum sem þeim hefur verið ánafnað.

Það geta ekki verið rétt skilaboð til samfélagsins að hagkvæmara sé að græða sjálfur en að gefa náunganum, að auðdýrkun og fésýsla sé metin meira en vinnan, þekkingin og framtakið og maðurinn sjálfur.

Því hef ég lagt fram frumvarp sem leggur til skattaívilnanir í þágu frjálsra félagasamtaka.  Einstaklingi verði heimilt draga gjafir til félagasamtaka frá skatti.  Einnig að slíkum samtökum verði ekki gert að greiða erfðafjárskatt af arfi, gjafaarfi, dánargjöfum og fyrirframgreiddum arfi sem þeim áskotnast.

Nýtt Ísland verður að setja manngildi ofar auðgildi.

(Birtist fyrst í FBL 3. nóv. 2011)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

  • Björn Kristinsson

    Mjög gott !

  • Vilhjálmur Árnason

    Mér líst vel á þetta Eygló.

    Má allavegana hafa hafa þetta x háa upphæð fyrst sem mætti stækka að hlutfalli á einhverjum árum.

    Mundi þetta hafa mikil áhrif á skattstofn ríkissinns ? Hvað segir sagan okkur varðandi það.

  • Ari Þór Vilhjálmsson

    Frábær tillaga og löngu kominn tími til!! Vona svo sannarlega að þetta nái fram að ganga.

  • Mikið er ég sammála þér mín kæra. Var einmitt að koma af fundi félagasamtaka þar sem fólk styrkir hvert annað, miðlar þekkingu og nýtur samveru. Því miður eru sums staðar rangir hvatar í kerfinu og það þarf að leiðrétta. Velferð samfélags okkar hvílir að stórum hluta á þessum frjálsu félagasamtökum og allri sjálfboðavinnunni sem þar er innt af hendi. Með samvinnu og með hverju öðru komumst við svo miklu lengra að því að byggja gott samfélag :).

  • Falleg hugsun en samt er hún í prinsippinu röng. Með því að veita skattaafslátt er í raun verið að ráðstafa skattfé. Þannig að með því að setja almenna reglu um að hægt sé að draga tilteknar gjafir frá skatti, er verið að færa ráðstöfun ríkistekna frá Alþingi, þar sem það á heima skv stjórnarskrá, til einhverra aðila úti í bæ.
    Hætta á misnotkun á þessari aðferð til að færa peninga milli aðila er einnig mikil, því miður.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og einum? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur